10.02.1956
Neðri deild: 66. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (1440)

10. mál, stýrimannaskólinn í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Við hv. 7. þm. Reykv. (GTh) höfum ekki getað orðið sammála meiri hl. menntmn. um að mæla gegn samþykkt þessa frv. Við leggjum þvert á móti til, að það verði samþykkt, og það enda þótt frsm. meiri hl. hafi lesið hér upp ýmsa aðra skóla, sem líkt standi á um og þessa skóla nú, að þeir heyri ekki undir menntmrn.

Hv. þm. A-Sk. var hræddur um, að þetta kynni að verða „prinsip“-mál, og ég segi það fyrir mína parta, að það má gjarnan verða „prinsip“-mál. Það má gjarnan halda áfram að stefna að því að leggja skólamálin undir menntmrn. Það er í alla staði langeðlilegast, að þau heyri undir það, skólamálin almennt í landinu, og það er vafalaust þægilegast og hentugast fyrir ríkisstj., að yfirstjórn skólamálanna sé öll sameinuð í einni skrifstofu. Og það er þá heldur enginn vafi á því, að það er langþægilegast fyrir alla þá, sem skólunum veita forstöðu og þurfa að sækja til ráðuneytanna um eina og aðra fyrirgreiðslu fyrir skólana, að geta sótt þá fyrirgreiðslu alla til einnar og sömu skrifstofu og til þeirra manna, sem vanastir eru að fjalla um skólamál og leysa úr þeirra vanda. Við hv. 7. þm. Reykv. leggjum því til, að þetta frv. verði samþ. og sömuleiðis það frv., sem hér liggur einnig fyrir um matsveina- og veitingaþjónaskóla.