13.02.1956
Neðri deild: 69. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (1447)

4. mál, fræðsla barna

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í gildandi lögum um fræðslu barna frá 1946 eru ákvæði um einkaskóla, þ.e.a.s. heimild fyrir fræðslumálastjórnina til að löggilda barnaskóla, sem kostaðir eru af einstökum mönnum eða stofnunum, og tilteknar reglur um það. Þetta frv., sem er stjfrv., felur í sér tvær breytingar frá gildandi lögum. Önnur er sú, að til þess að stofna einkaskóla þurfi einnig meðmæli hlutaðeigandi fræðsluráðs, og í öðru lagi, að heimild sé veitt til þess að greiða úr ríkissjóði laun fastra kennara við slíka skóla.

Einkaskólar eru ekki margir starfandi hér á landi, en þó nokkrir, og hafa sumir þeirra starfað um langan aldur, eins og t.d. Landakotsskólinn hér í Reykjavík og nokkrir fleiri, St. Jósefsskólinn í Hafnarfirði og aðventistaskólar, sem munu vera á tveim stöðum. Svo eru nokkrir smærri skólar.

Það hafa verið sívaxandi fjárhagserfiðleikar hjá þessum skólum og talið í rauninni ókleift að reka þá öllu lengur, án þess að til komi einhver fjárhagslegur stuðningur frá hinu opinbera, en slíkur fjárhagslegur stuðningur hefur ekki verið veittur hingað til.

Menntmrh. hefur talið rétt að verða við þessum óskum eða ganga til móts við þær að því leyti að veita heimild til þess að greiða úr ríkissjóði laun fastra kennara við slíka skóla, en að öðru leyti séu fjármál þeirra ríkissjóði óviðkomandi.

Menntmn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. hennar mæir með því, að frv. sé samþ., en þó með þeirri breytingu, að þessi heimild til launagreiðslna komi aðeins til greina um þá skóla, sem þegar hafa starfað í fimm ár. Hugsunin er sú, að ekki sé möguleiki á því að stofna nýja einkaskóla, sem þegar við stofnun geti fengið þessi fríðindi úr ríkissjóði, heldur þurfi skólinn að hafa starfað þetta tiltekna árabil.

Auk þess er svo brtt. frá n. við 2. gr. um gildistöku laganna, að lögin öðlist þegar gildi. Það má vera, að sumum virðist hér stofnað til allverulegra útgjalda fyrir ríkissjóð. En við það er ýmislegt að athuga. Þó að stefnan hafi verið og sé að sjálfsögðu sú, að barnafræðslan sé að langsamlega ,mestu leyti í höndum hins opinbera, þ.e.a.s. sveitarfélaganna og ríkissjóðs, hefur löggjafinn þó talið rétt að veita heimildir til stofnunar einkaskóla, þar sem það þætti henta og ef einhverjir þeir aðilar væru, sem hefðu áhuga og vilja á því að starfrækja slíka skóla og kosta þá að verulegu leyti. Ef slíkir einkaskólar legðust niður, þá er sýnt, að bæði á ríkissjóð og sveitarfélög kæmi mjög aukinn stofnkostnaður eða byggingarkostnaður skóla og auk þess rekstrarkostnaður allur.

Það er viðbúið, ef látið yrði óbreytt það ástand, sem nú er, að hið opinbera taki engan þátt í kostnaði slíkra skóla, að flestir þeirra legðust niður og þar með kæmu, eins og ég tók fram, aukin útgjöld á hið opinbera. Hér er því farin sú millileið að veita þeim nokkurn fjárhagslegan stuðning, eins og frv. fer fram á, til þess að þeir eigi kost á að starfa áfram.

Það er rétt einnig að undirstrika, að hér er aðeins um heimild að ræða, þannig að fræðslumálastjórnin mundi að sjálfsögðu rannsaka það í hverju tilfelli, hvort ástæða væri til að nota þessa heimíld til að greiða laun fastra kennara úr ríkissjóði.

Meiri hl. menntmn. leggur sem sagt til, að frv. verði samþykkt með þessari breytingu.