24.02.1956
Neðri deild: 76. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (1462)

4. mál, fræðsla barna

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins í tilefni af ræðu hv. 1. landsk. þm. gera örstutta aths. Mér fannst í því, sem hann sagði í ræðu sinni, þar sem hann talaði um smábarnaskóla, að það mundi koma upp rík tilhneiging til þess að gera þá að barnaskólum, gæta nokkurs misskilnings og líka í því, sem hann sagði um þessa barnaskóla.

Hv. 1. landsk. þm. taldi, að þeir, sem rækju nú þessa smábarnaskóla, mundu hafa ríka tilhneigingu til þess að bæta við öðrum bekk. Hann sagði: Þarna er húsnæði fyrir hendi o.s.frv. — Þetta held ég að sé á talsverðum misskilningi byggt, og byggi ég það á persónulegri reynslu, vegna þess að ég hef haft þrjú börn í þessum svokölluðu smábarnaskólum.

Þessir smábarnaskólar víðast hvar, — ég skal taka fram, að það er ekki sami skólinn, sem ég hef átt skipti við að þessu leyti, — eru venjulega þannig til komnir, að þar er um að ræða aldraðar konur, sem hafa margar hverjar a.m.k. fengizt við kennslu áður, en eru nú komnar yfir þann aldur, sem þær mega kenna, kunna ekki við sig öðruvísi en að halda þessu ævistarfi sínu áfram og hafa þá tekið upp það ráð að stofna svokallaða smábarnaskóla á heimill sínu. Venjulega er þarna um aðeins eitt herbergi að ræða fyrir 15–20 börn. Og vitanlega er hjá langflestum þessum aðilum óframkvæmanlegt að bæta þarna neinu við. Þar að auki eru þetta börn, sem eru ekki á skólaskyldualdri, og ásókn foreldranna, — því að vitanlega byggjast þessir skólar á því, að foreldrarnir hafa beinlims sótt á um að koma börnum sínum í þessa skóla, — byggist fyrst og fremst á því hér í Reykjavík, þar sem þessir skólar eru nú algengastir, að losna við börnin af götunni einhvern hluta dagsins á þessum aldri, þ.e.a.s. rétt áður en þau verða skólaskyld, og koma þeim þannig í betra umhverfi og heppilegra starf, því að börnunum í þessum skólum er mér vitanlega ekki íþyngt eða ofboðið á neinn hátt. Þeim er kennt þarna dund ýmiss konar, teikning og litun og að þekkja stafina. Það er öll kennslan. Og það er rangt, að því er ég bezt veit, að það geti nokkur metnaður skapazt milli þessara barna og barna, sem hafa ekki verið í smábarnaskólum, þegar þau koma í barnaskólana, út af einkunnagjöfum og öðru þess háttar, því að í þessum smábarnaskólum eru börnunum mér vitanlega engar einkunnir gefnar, og mínum börnum þremur hafa engar einkunnir verið gefnar í þessum skólum. Bollaleggingar um hættu af þessum sökum og hættu af þessum skólum eru því held ég á misskilningi byggðar nema þá í mjög fáum tilfellum.

Það hefur nú komið í ljós af ræðum hv. 1. landsk. þm. og hv. 9. landsk. þm., að þetta mál, sem hér er til umr., er smámál, en ekki neitt stórmál. Mér finnst, að allar umræður hafi bent í þá átt, sem hér hafa orðið, síðan hv. 1. landsk. þm. flutti fyrri ræðu sína um málið.

Út af því, sem hv. 9. landsk. þm. sagði hér, þegar hann flutti brtt. sína, vildi ég taka undir það, sem hv. 1. landsk. þm. sagði um skóla kaþólskra manna. Sá skóli er ekki stofnaður af trúarbragðaástæðum; það er alveg rétt. Hann er ekki fyrst og fremst stofnaður af trúarbragðaástæðum. Þetta er hluti af þjónustu þessara manna, alveg á sama hátt og sjúkrahús þau, sem þeir reka. Mér er ekki kunnugt um, að íslenzkir valdhafar hafi litið sjúkrahús kaþólskra manna illu auga né hornauga. Þvert á móti, ég held, að þau hafi verið talin til mikilla bóta fyrir þjóð okkar og það svo mikilla bóta, að umyrðalaust held ég að læknum, sem þar starfa, séu greidd gjöld frá sjúkrasamlögum. Þetta er á sama hátt með skólana. Ég er því máli líka svolítið kunnugur og veit, að ekki er þröngvað neins konar trúarbragðafræðslu upp á þau börn, sem þar eru. Það er af mörgum sökum, sem börn eru send í Landakotsskólann í Reykjavik af foreldrum lútherskrar trúar eða hverrar trúar sem þeir eru nú. Við vitum, að það er ákaflega örðugt með barnaskólahald hér í Reykjavík. Heimili með þrjú, fjögur börn er mjög illa á vegi statt, meðan börnin eru á barnaskólaaldri. Það er fyrst, að börnin verða að fara venjulegast, ef ekki alltaf, sitt á hverjum tímanum í skóla. Matmálstímar og annað þess háttar á heimilinu verður þess vegna mjög miklum erfiðleikum háð, og þess vegna hygg ég, að margir foreldrar kjósi að senda eitt barn sitt í Landakotsskólann, til þess að öll starfsemi heimilisins verði ekki miklu erfiðari en ella þyrfti. Þetta er af þeim sökum, sem allir vita, að barnaskólarnir eru of litlir eða of fáir hér í Reykjavík og þarf að margsetja í þá, þannig að það verður að gerast á ýmsum tíma dagsins. Hins vegar eru foreldrar, sem senda börn sín í Landakotsskóla, talsvert verr settir en aðrir foreldrar að því er tekur til kostnaðar. Það er t.d. vitað, að það er krafizt sundskyldu til fullnaðarprófs. Barnaskólarnir fá aðstöðu til þess að inna þessa skyldu af höndum. Annaðhvort hafa þeir sundlaugar sjálfir eða þeir fá þessa aðstöðu í sundhöllinni. Hins vegar hefur Landakotsskólinn ekki þessa aðstöðu, og foreldrar, sem eiga börn sín í Landakotsskóla, verða eins og nú standa sakir að borga fyrir þau sérstaklega, til þess að þau geti lært sund og fullnægt þar með þeim skilyrðum, sem sett eru til fullnaðarprófs. Og fleira mætti benda á í þessu sambandi.

Í sambandi við brtt. hv. 9. landsk. þm. vil ég segja það, að mér finnst gæta þar allmikillar íhaldssemi og þröngsýni, og ég veit ekki, hvaða lína hefur ráðið þessari till., hvort það er vinstri lína eða eitthvað annað, nema þá að það sé lína frá Vestmannaeyjum, af því að þar hafa aðventistar skóla, en kaþólskir menn ekki. Það má vel vera, að það sé sú lína. En að ætla að fara að gera upp á milli þeirra fjögurra skóla, sem hér eru starfandi á vegum tveggja trúmálaflokka, finnst mér náttúrlega ekki ná nokkurri átt og vil fyrir mitt leyti taka það fram, að ég get ekki greitt þeirri till. atkv. Annaðhvort er að styrkja hvorugan þennan hóp, eins og verið hefur, eða þá að styrkja báða, eins og frv. leggur til. Hitt er einhver sérstök lína, og ég skal ekki fara út í að ræða það, hvort það er út af vinstri línu eða ekki, en ég er a.m.k. ekki þeirri línu sammála. Ég held, að eftir þau mörgu ár, sem barnaskólar hafa starfað hér á vegum kaþólskra manna, séu menn sammála um, að þar hafi verið innt góð þjónusta af hendi og verið þjóðfélaginu til hags, en ekki óhagræðis. Og veigamesta atriðið er að sjálfsögðu að fá við þessa skóla sem bezta kennslukrafta, en ekki að neyða þau samtök, sem rekið hafa skólana, til að grípa til þess að reyna að fá ódýrari og lakari kennslukrafta af þeirri ástæðu, að allt hefur nú orðið dýrara í þjóðfélagi okkar á síðustu árum og þeirra sjóðir minna virði en áður var.