18.10.1955
Efri deild: 6. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (1485)

7. mál, sálfræðiþjónusta í barnaskólum

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég tel nú ekki ástæðu til að gera hér sérstaklega að umtalsefni ræðu þá, sem hv. 2. þm. Reykv. flutti, sú ræða hefur í meginatriðum verið flutt við mörg tækifæri hér á Alþingi og í sambandi við margvísleg mál, þannig að hv. þm. fara að kannast við hana, sérstaklega hina miklu andstöðu hv. 2. þm. Reykv. og andúð hans á því, að það sé talað um orðið jafnvægi, sem fer alveg sérstaklega í taugarnar á honum, og það er raunar skiljanlegt að það geri það, vegna þess að flokksbræður þessa hv. þm. hafa það sem mjög mikið kappsmál sitt að koma í veg fyrir, að það geti orðið nokkurt jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það hafa þeir sýnt að undanförnu, og það er augljóst, að þeir hafa ekki breytt um þá stefnu. Þetta þekkja allir hv. þm., og þetta veit þjóðin í heild, þannig að það kemur engum á óvart.

Það minnir mig dálítið á Cato gamla, er hv. 2. þm. Reykv. fer að tala um Landsbankann, þegar hann minntist á Karþago í gamla daga, að hann sér hvarvetna rautt, þar sem Landsbankinn er annars vegar. Og það má nú kannske segja, að það sé ekki svo merkilegt, þó að hann sjái rautt, en hann sér þar draug fyrir, sem allt illt stafi af, og að öll þessi peningavandamál séu ósköp auðleyst með því að gefa út meiri seðla, það hafi Landsbankinn í sinni hendi, og Alþ. geti skyldað bankann til þess að leggja fram svo og svo mikið í þessu eða hinu skyni. Ég sé ekki ástæðu til að fara um það frekari orðum í þessu sambandi. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., að það er vitanlega hægt að hafa á það mikil áhrif, hvernig þróun peningamálanna er og hvernig ráðstafað er því lánsfé, sem til reiðu er á hverjum tíma. Það er vitanlega skylt að gera það eftir þeim meginsjónarmiðum, sem ég hygg að við séum sammála um að stefna í þá átt, svo að ég komi nú aftur að þessu hættulega orði, að skapa jafnvægi f landinu, þannig að atvinnumálin geti þróazt með eðlilegu móti og fólk geti búið við svipuð lífskjör, hvar sem það á heima á landinu.

Hv. 1. landsk. þm. ræddi hér mikið um áróðursmál, og það var, að því er virtist, honum ákaflega nýtt að hugsa sér, að það væru flutt mál á þingi sem áróðursmál. Ég hygg nú í sannleika sagt, að meginhluti þeirra mála, sem flutt eru í þingi, sé áróðursmál, þannig að flokkar og menn beita sér fyrir málum, bæði af því, að þeir hafa þá skoðun, að þau mál séu góð og gagnleg, og einnig vegna hins, að þeir álita, að það sé þjóðinni eða umbjóðendum sínum þóknanlegt, að menn beiti sér fyrir slíkum málum, þannig að flestöll þingmál munu að þessu leyti vera áróðursmál. Og ég er nú anzi hræddur um, að ýmis þau mál, sem bæði hans flokksbræður og ýmsir aðrir hv. stjórnarandstæðingar flytja, mundu þeir kannske ekki flytja, ef þeir hefðu stjórnarábyrgð og ættu að standa andspænis því að þurfa að annast framkvæmd þeirra hugmynda sinna. Það er nú eins og gengur. Hitt atriðið, hvort við flytjum þau frv., sem við höfum lagt hér fram, sem áróðursmál og höfum engan áhuga á því, að þau nái fram að ganga, um það verður auðvitað hver og einn að hafa sína skoðun. Ég fullyrði, að það sé ekki um slíkt að ræða, heldur höfum við fullan vilja og áhuga á því, að þessi mál nái fram að ganga.

Það er á það bent, hvernig standi á því, að þessi mál séu ekki knúin fram, þar sem yfirlýstur sé stuðningur stjórnarandstæðinga við ein eða önnur frv., sem fram koma. Það er auðvitað jafnljóst þessum ágætu mönnum einnig, að það eru engin vinnubrögð í slíku, þegar samstarf er milli tveggja flokka um stjórn landsins, hvað sem slíkir flokkar heita, að þeir fari til skiptis að afgreiða ein og önnur mál með stjórnarandstöðuflokkunum. Auðvitað verða þeir fyrst og fremst að ná samstöðu um þau innbyrðis, ef samstarf á áfram að halda. Og það, sem ég lýsti hér áðan ánægju minni yfir, var einmitt það, að nú lægju frammi frá báðum þessum flokkum hliðstæðar till. í sambandi við þetta vandamál, sem hér er við að stríða og það mætti því mjög mega vænta þess, að það væri hægt að ná um það samkomulagi nú að afgreiða þetta mál i einu eða öðru formi. Og ég tek undir það með hv. 2. þm. Reykv., að það er mjög æskilegt, að hv. fjhn. athugi það til hlítar, og verður áreiðanlega ekkert illa séð, þó að hann reyni að reka á eftir afgreiðslu málsins þar eins og hann getur, síður en svo.

Það er alveg rétt, sem hér var minnzt á áðan, að það hefur því miður ekki verið hægt að fullnægja lánsfjárþörf úr hinum ýmsu sjóðum, sem starfandi eru, bæði fiskveiðasjóði og ræktunarsjóði. En að því hefur verið unnið að afla fjár til þessara sjóða, og verður auðvitað að leggja áherzlu á, að svo mikils fjár verði aflað í því skyni sem auðið er. En enda þótt nóg fé væri til f þeim sjóðum til þess að lána eftir þeim reglum, sem þar um gilda, þá haggar það ekki nauðsyn þess, að til þyrfti að vera sérstök lánsstofnun, sem lánaði eftir nokkuð öðrum sjónarmiðum en þeir sjóðir gera og til viðbótar þeim lánum, sem þaðan eru veitt. Lán þau, sem veitt hafa verið t.d. af atvinnuaukningarfé, eru ekki veitt til þess að koma í stað þessara sjóða, heldur til viðbótar lánum þaðan til aðila, sem eiga við sérstaka fjárhagserfiðleika að stríða. Og það er full þörf á, að einhver slíkur sjóður sé til, hvað sem hann heitir. Um það held ég að við getum verið sammála. Og það er ekki hægt að vænta þess nema að mjög takmörkuðu leyti, að hinar almennu bankastofnanir geti lánað eftir þessu sjónarmiði, og þess vegna nauðsynlegt, að annar aðili geti sinnt því hlutverki.

Ég sé nú ekki þörf á að orðlengja þetta miklu frekar. Það var aðeins eitt, sem ég vildi leiðrétta hjá hv. þm. V-Ísf., sem hann lagði mér í munn, að ég hefði sagt, að það þyrfti fyrst að gera ráðstafanir til þess að rannsaka atvinnuástand, áður en hægt væri að fara að hefja lánveitingar. Það var alls ekki mín meining, heldur benti ég á, að það væri æskilegt, að til væri einhver stofnun, hvort sem hún væri samsett af skrifstofustjórum ráðuneyta eða kjörin af Alþingi, er væri nú kannske eðlilegra, sem varanlega starfaði að því að gera sér grein fyrir, hvernig efnahagsástand og atvinnutækjaþörf er á einstökum stöðum á landinu, og sú stjórn hefði yfirráð yfir þeim sjóði, sem stofnaður yrði í því skyni, því að það er ekki endilega víst, að það sé þarfast, sem lánsbeiðnir eða lánsumsóknir koma um. Það getur vel verið, að af sérfróðum mönnum væri hægt að benda viðkomandi aðilum á, að það væri kannske eitt og annað, sem væri skynsamlegra fyrir þá að gera á þeim stöðum til þess að tryggja atvinnu, þannig að þetta þarf að vera í fastara formi en verið hefur. Það var mín meining með því, sem ég sagði.

Ég hygg, að misskilningur hv. þm. liggi í því, að ég taldi vera nokkuð varhugavert að tengja þetta um of við sérstaka lánsstofnun, þessi A-lán, og að gera ráð fyrir, að þau ættu að koma í stað lána, sem lánuð yrðu úr öðrum stofnunum, vegna þess að það er mjög hætt við því a.m.k., að það mundi leiða til þess, að viðkomandi sjóðir mundu segja sem svo: Ja, við erum þá losaðir við þær áhyggjur að þurfa að lána á þessa staði. Þarna er til deild, sem tekur það af okkur. — Ef það á jafnframt að vera svo, að þau lán verði lánuð með hærri vöxtum en gildir í stofnlánasjóðunum, sem nú eru, þá eru ákaflega vafasöm, svo að ekki sé meira sagt, fríðindi af því að hafa þessa tilhögun, þannig að þetta atriði þarf auðvitað að takast til endurskoðunar, hver svo sem niðurstaðan að öðru leyti verður í þessu máli.