14.02.1956
Efri deild: 69. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (1487)

7. mál, sálfræðiþjónusta í barnaskólum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það voru nokkur orð út af því, sem hv. 2. þm. Eyf. (MJ) sagði hér áðan út af minni ræðu. Hann sagðist hafa heyrt hana áður; og það er vafalaust rétt hjá honum. Það er því leiðara, að hann skuli ekkert hafa af henni lært. Ég er nú allvanur því hér í þingi eins og annars staðar að halda áfram að boða það, sem ég álít rétt, og segja mönnum það, sem nauðsynlegt er að þeir læri, jafnvel þó að menn séu nokkuð tregir við lærdóminn. Ég er jafnvel vanur því hér í þinginu, að það sé tekið heldur verr á þessu en hv. 2. þm. Eyf. gerði, sem gerði það nú af mikilli kurteisi, og að ég sé jafnvel kallaður skýjaglópur og annað slíkt fyrir alls konar kenningar, sem ég sé hér að boða. En mér hefur aldrei brugðizt það, að á endanum hefur þó tekizt að koma annaðhvort þjóðinni eða þinginu eða jafnvel hvoru tveggja í skilning um, að það væri rétt. Og fyrst orðið jafnvægi og hvernig ég tek því fer nú svona mikið í taugarnar á hv. 2. þm. Eyf., þá langar mig til þess að reyna að skýra það ofur lítið betur fyrir honum, hvernig stendur á því, að ég er stundum ofur lítið „irriteraður“ yfir þessu orði og þess notkun. Þetta orð hefur verið einna mest notað af hálfu ýmissa þm. Sjálfstfl. og Framsfl. utan af landi um það, hve nauðsynlegt væri að skapa jafnvægi í byggðinni á Íslandi. Svo hefur þetta orð hins vegar verið notað allmikið af þeim hagfræðingum ríkisstj., sem hún álítur vera mjög óskeikula um, hvers konar jafnvægi eigi að vera í þjóðarbúskapnum.

Jafnvægiskenning hagfræðinga ríkisstj. er í stuttu máli sú, að svo framarlega sem fjármagnið, kaupgetan og annað slíkt fái að hreyfa sig nokkurn veginn frjálst í landinu, verzlunin sé nokkurn veginn frjáls og þar með fjárfestingin nokkurn veginn frjáls, þá sé allt saman í lagi, þá sé jafnvægi í þjóðarbúskapnum, þetta frelsi með tilheyrandi aðgerðum bankanna viðvíkjandi vöxtum á útlánum skapi jafnvægi í þjóðfélaginu. Þessi jafnvægiskenning og tilraunir til þess að framkvæma hana hefur á síðustu 7–8 árum leitt til stöðnunar í okkar þjóðarbúskap og sérstaklega stöðnunar í þeim hluta hans, sem sker úr um þróunina í landinu, m.ö.o. stöðnunar í þróun stórvirkra atvinnutækja við sjávarsíðuna. Þessi jafnvægiskenning eða kenningin um jafnvægið í þjóðarbúskapnum hefur leitt til þessarar stöðnunar. Hún hefur jafnframt leitt til annars. Hún hefur leitt til þess, að menn hafa sjálfir, hver einstaklingur, getað ráðið því, hvernig þeir verðu sínum fjármunum út frá því, hvernig þeir álitu að helzt yrði að því gróði. Ég nefndi hér dæmi í gær um útlán bankanna, aukninguna á útlánum til verzlunarinnar á árinu 1953, að það hefðu aukizt útlánin til verzlunarinnar um 74 millj. kr., á sama tíma t.d. sem útlán til húsbygginga hefðu aukizt um 3 millj. kr. rúmar og útlán til togara hefðu verið núll, eins og hefði verið á undanförnum árum, þ.e. til að kaupa nýja togara. Jafnvægiskenningin í þjóðarbúskapnum, verzluninni og fjármálunum í framkvæmd hefur leitt til þess, að menn hafa sett hlutfallslega meira en áður af sínum tekjum í að kaupa alls konar glysvarning og slíkt og kaupa t.d. bílana, að bankarnir hafa sett sérstaklega mikið fé í að gera heildsölunum mögulegt að birgja sig að birgðum, sem nú eru jafnvel að setja sumar verzlanir á hausinn, m.ö.o. að eyða þjóðarauðnum á ákaflega óhagkvæman hátt, en draga úr því að beina þjóðarauðnum að því, sem nauðsynlegt var til þess að auka hann, sem sé að því að skapa framleiðslutækin, sem nótuð væru við sjávarsíðuna til að auka útflutninginn. Hver hefur nú orðið afleiðingin af þessum framkvæmdum á jafnvægiskenningunni í þjóðarbúskapnum? Jú, afleiðingin af þeim hefur einmitt orðið sú að hleypa allri þessari gróðafíkn í þjóðarbúskapinn hér á Suðvesturlandi, framkalla allan þennan straum, fyrst fjármagns, síðan vinnuafls og að lokum byggðarinnar frá landsfjórðungunum þremur hingað til Reykjavíkur. M.ö.o.: Tilraunin til að framkvæma jafnvægið í þjóðarbúskapnum hefur einmitt orðið til þess að raska jafnvæginu milli landsfjórðunganna, þ.e. jafnvæginu í byggð landsins.

Það er von, að maður verði dálítið leiður á að heyra þetta tvennt boðað hér, annars vegar af hagfræðingum stjórnarflokkanna og ríkisstjórninni og hins vegar af þingmönnum- stjórnarflokkanna utan af landi: jafnvægið í þjóðarbúskapnum og jafnvægið í byggð landsins. Og það er ekkert undarlegt, þó að maður reyni þess vegna öðru hverju að koma þeim í skilning um, að einmitt þetta tvennt stangist algerlega, ef ætlað sé að halda uppi byggðinni í þeim þrem landsfjórðungum, sem sú hætta vofir nú yfir að eyðist, þá verður að skipuleggja þjóðarbúskapinn, þá verður ríkið að ráðstafa því vitandi vits, í hverju fjármagnið fyrst og fremst er fest. Þegar talað er um t.d., að fjárfesting sé of mikil, þá er það eins og hver önnur vitleysa. Það væri sama og að segja, að sparnaður væri of mikill. Fjárfestingin er raunverulega sá eini ótvíræði þjóðhagslegi sparnaður. Það, að við byggjum ný hús, að við fáum ný atvinnutæki og annað slíkt, er mesti sparnaður, sem þjóðin getur lagt í.

Þá minntist hv. 2. þm. Eyf. á, að ég væri með það ráð, að það þyrfti bara að gefa út seðla og þá væri allt í lagi. Þetta er alrangt hjá honum, og hann tekur sér nú heldur auðveldlega rökleiðslurnar, þegar hann grípur til slíks. Höfuðráðið, sem ég hef bent á og ég hef átt hlut að að framkvæma, meðan ég hef haft einhver áhrif á, hvernig landinu væri stjórnað, var að auka útflutningsframleiðsluna, vegna þess að aukningin á útflutningsframleiðslunni er grundvöllurinn að öllum þjóðarhag Íslendinga, líka að allri okkar kaupgetu. Og ég vil benda hv. 2. þm. Eyf. á það, að síðustu 7–8 ár, þ.e. frá því 1948, að togararnir voru keyptir inn, hefur ekki verið keyptur einn einasti togari til landsins.

Í dag byggir Ísland meginið af allri sinni útflutningsframleiðslu á því, sem við gerðum, Sósfl., Alþfl. og meiri hluti Sjálfstfl., á meðan við vorum hér i ríkisstj. 1944–47, á þeim stórvirku framkvæmdum, sem þá voru gerðar í sjávarútvegsmálunum. Hann mætti svo athuga hins vegar, hvaða peninga þær stjórnir, sem síðan hafa setið að völdum, hafa haft til umráða og hvernig þær hafa notað þá. Við höfum fengið Marshallfé á þessum árum, yfir 600 millj. kr. Það hafa verið tekjur utan við okkar þjóðarbúskap í sambandi við hernámið, um 500 millj. kr. Um 11 millj. kr. hafa verið eins konar aukatekjur fyrir utan okkar þjóðarbúskap á þessum 7–8 árum. En hvað er til fyrir þær af stórvirkum atvinnutækjum? Það eina, sem gert hefur verið af slíku og ríkisstj. venjulega talar um, er áburðarverksmiðjan, Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin, sem kosta 300 millj. kr., þegar skattarnir til ríkisins eru dregnir frá, og okkar ríkisskuldir hafa á sama tíma aukizt um 300 millj. kr. En meginið af þessum 1100 millj. kr., sem okkur meira eða minna hefur verið gefið eða hafa verið eins konar aukatekjur, hefur farið í súginn. Og það hefur ekki verið haldið áfram að auka sjálfa undirstöðuna í öllum þjóðarbúskapnum. Það er von, að slíkt þjóðlíf sé sjúkt. Það er engin fyrirhyggja með nokkurn skapaðan hlut viðvíkjandi því, hvernig þjóðin eigi að lifa, hvernig hún eigi að borga sína útflutningsframleiðslu. — Þetta er það, sem ég vildi aðeins benda hv. 2. þm. Eyf. á, ef hann mætti nokkuð af því læra.