14.02.1956
Efri deild: 69. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (1488)

7. mál, sálfræðiþjónusta í barnaskólum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. menntmn. fyrir athugun hennar á frv. og lýsi yfir því, að ég er eftir atvikum samþykkur þeirri rökstuddu dagskrá, sem hér er flutt. Mér finnst hún eðlileg, ekki sízt þegar hafðar eru í huga þær álitsgerðir, sem fram hafa komið frá félagi sálfræðinga, álitsgerðir, sem í raun og veru eru frv. í núverandi mynd andstæðar. Og ég játa, að það er vissulega ekki von, að hv. Alþingi fáist til þess að gera samþykkt um slíka sálfræðilega þjónustu, meðan sálfræðingana sjálfa greinir svo mjög á um fyrirkomulagið sem þá gerir og eru jafnandstæðir því frv., sem fram hefur verið borið um málið, og nú er komið á daginn að þeir eru.

Ég játa raunar, að ég tel þessa afstöðu sálfræðinganna mjög á misskilningi byggða. Það er eins og fram kemur í annarri álitsgerðinni, að a.m.k. gæti eins vel þurft tuttugu menn og tvo til þess að leysa þau verkefni af hendi, sem í frv. ræðir. Það er endalaust hægt að raða mönnum að þessum störfum eins og mörgum öðrum, og mætti segja, að þeir gætu allir gert eitthvert gagn. Við vitum hins vegar, að slíkt verður ekki gert, að menn telja sig ekki hafa efni á því að ráða heilan hóp manna til þessara starfa, fyrr en reynslan hefur sýnt, hvert gagn verður af störfunum. Og það var einmitt með það í huga, sem ákveðið var innan ríkisstj. að fara hægt af stað í þessu, ætlast ekki til þess í fyrstu, að meira en einn fastur maður yrði ráðinn, í þeirri öruggu trú, að reynslan af starfi hans yrði svo góð, að síðan þætti ástæða til að efla starfsemina. Á þetta sjónarmið hafa sálfræðingarnir ekki viljað fallast. Þeir eru augsýnilega ekki samkvæmt sínum vísindum sammála hinni gömlu kenningu, að mjór sé mikils vísir. Það er ekki mitt að deila við þá, þeir ráða sinni skoðun, elns og við hinir ráðum okkar skoðun, en enginn vafi er á því, að ef þeir hefðu getað sameinazt um till. og hóflegar framkvæmdir í fyrstu, þá hefði verið hægt að byrja, þótt í smáum stíl væri. Hins vegar er ekki von, að hv. Alþingi ráðist í samþykktir, þegar till. þessara aðila sjálfra ganga jafnt á misvíxl og þær gera og fara fram á meira en hægt er að búast við að menn samþykki, fyrr en reynslan hefur skorið úr um þörfina.

Þegar þetta er allt haft í huga, tel ég, að samþykkt á rökstuddu dagskránni sé bezta leiðin í þessu máli nú, þannig að það verði athugað bæði í samráði við fræðsluhéruðin og við aðra sérfræðinga í þessum efnum og við sálfræðingana sjálfa, hvernig hægt sé að koma á einhverjum framkvæmdum, sem verði svo í hóf stillt, að mögulegt sé að fá fé til þess í fyrstu.