06.12.1955
Efri deild: 26. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (1492)

115. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu að þessu máli.

Það vita allir hv. þingmenn, að það er ákaflega margt, sem almenningur tekur eftir og sér að eru meiri og minni náttúrulögmál. Almenningur býr sér svo til einhverjar hugmyndir um það, hvernig á þessu standi, en stendur stundum ráðþrota og getur ekki fengið neina lausn á þeim gátum, sem þar er um að ræða. Seinna koma svo oft vísindin til og útskýra, hvernig á þessu standi. Þegar ég til dæmis var lítill drengur, þá var það almælt, að ef kýr ætti tvo kálfa og annar væri tarfur, en hinn kvíga, þá væri kvígan ófrjó. Þetta skildi enginn þá, en almenningur taldi þetta þar fyrir lögmál og setti yfirleitt ekki á slíka kvígukálfa. Nú eru vísindin búin að útskýra það og finna fullkomna skýringu á, hvernig á þessu stendur. (Dómsmrh.: Nú, er þetta þá staðreynd?) Mikil ósköp, já. Á sama hátt má taka til ótal dæmi, og eitt af þeim er rjúpan. Almenningur var búinn að taka eftir því, að henni fjölgaði visst árabil og fækkaði svo aftur, og almenningur kenndi um, að orsökin væri sú, að mennirnir skytu hana, snöruðu hana, veiddu hana ýmislega og hún félli í hörðum vetrum. Nú er það sýnt með rökum, sem ekki verður um deilt, að slík veiði mannanna skiptir sama sem engu um fjölgun eða fækkun rjúpunnar. Það er sýnt, að hún fylgir sama lögmáli og ýmsar aðrar lifandi verur, henni fækkar visst árabil, fjölgar annað árabil og nær hámarki, svo fer henni aftur að fækka og svo koll af kolli. Vísindin hafa enn ekki getað skilið þetta, þau hafa enn ekki komið með útskýringu, sem hér er viðurkennd. Almenningur útskýrði þetta, sumir með ofveiði, eins og ég sagði áðan, aðrir með því, að hún flygi til Grænlands, þó að íslenzk rjúpa hafi aldrei sézt þar af neinum, sem þar hefur verið á ferð, heldur rjúpur af allt annarri tegund en hér eru.

Nú erum við síðast á tímabili, sem henni hefur fjölgað á, og síðasta ár, í fyrra, var næst hámarkinu, og núna á eftir reglunni að vera hámarksrjúpnaár, og að ári fáum við sama sem engar rjúpur.

Þess vegna er þetta litla frv. fram borið til þess að gefa okkur Íslendingum, — ekki reyndar mér þó, ja, mér þykir rjúpan reyndar góð að borða hana, — en gefa þeim Íslendingum, sem stunda rjúpnaveiðar. möguleika á því að nota sér þetta, áður en árið er liðið og rjúpan orðin sama sem engin, því að næsta haust sjást ekki rjúpur nema á strjálingi hér og þar um landið. Tilgangurinn með því er að lofa þeim, sem vilja nota sér þetta, að skjóta rjúpuna dálítið lengur en fuglafriðunarlögin núgildandi ætlast til, hafa af því gagn. þeir. sem það gera, og við hinir, sem viljum éta hana, höfum af því gagn líka, þó að það verði kannske alltaf skotið það, að ekki verði rjúpnalaust á markaðnum, og þá kannske að ríkisstj. geti hér líka haft einhvern arð, því að þó að ekki fengist leyfi til að selja hana til Danmerkur í fyrra, sem þá vildi kaupa hana fyrir gott verð, þá hef ég heyrt sagt. að það leyfi væri búið að fást núna, þannig að hún gæti þá líka kannske orðið útflutningsvara.

Ég vænti þess, að þetta litla frv. fái góðar undirtektir. Ég man ekki, í hvaða n. fuglafriðunarlögin voru, ég held menntmn., þó er ég ekki alveg viss um það. En ég óska eftir, að það fari í sömu nefnd og hefur haft með fuglafriðunarlögin að gera.