16.01.1956
Efri deild: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (1494)

115. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. á þskj. 153, um breyt. á l. um fuglaveiðar og fuglafriðun, er þannig, að rjúpan sé ekki friðuð á tímabilinu frá 15. okt. til febrúarloka. Í lögum nr. 63 1954 er rjúpan ekki friðuð frá 15. okt. til 22. des., en áður var leyft að skjóta rjúpur til 1. jan. Því er sá tími, er leyfilegt skuli að skjóta rjúpu, aukinn samkv. þessu frv. um fulla tvo mánuði.

Nefndin óskaði umsagnar forstöðumanns náttúrugripasafnsins, dr. Finns Guðmundssonar, um frv., og er svar hans birt hér sem fskj. með nál. Ætla ég, með leyfi forseta, að lesa nokkuð úr því:

„Ef allt fer að venju um fjölgun og fækkun íslenzka rjúpnastofnsins, má fastlega gera ráð fyrir því, að hrun stofnsins standi nú fyrir dyrum. Tel ég margt benda til þess, að rjúpum muni fækka stórlega á næstu árum, ef til vill þegar á árinu 1956, og ólíklegt þykir mér, að það dragist lengur en til ársins 1957. Ég átti á sínum tíma nokkurn þátt í því, að ekki var gripið til alfriðunar rjúpunnar, þegar stofninn var síðast í lágmarki. Þessi afstaða mín byggðist á því, að ég vildi geta sýnt fram á, að rjúpunni mundi fjölga með eðlilegum hætti eftir stofnlágmörk, þótt ekki væri gripið til alfriðunar. Þetta hefur rætzt, og nú hefur rjúpnastofninn náð hámarki aftur, enda þótt veiðar hafi árlega verið leyfðar. Ef horfið yrði að því að lengja veiðitíma rjúpunnar nú, óttast ég mjög, að hrun stofnsins, sem nú vofir yfir, verði sett í samband við hinn lengda veiðitíma. Ég hef grun um, að enn séu margir þeirrar skoðunar, að hrun rjúpnastofnsins stafi fyrst og fremst af ofveiðum. Sú ráðstöfun að lengja veiðitímann nú, einmitt þegar hrun stofnsins er á næstu grösum, mundi því gefa slíkum skoðunum byr undir báða vængi. Af þessari ástæðu tel ég óheppilegt, að veiðitíminn verði lengdur nú, en hins vegar tel ég tímabært að taka þetta mál til athugunar, þegar rjúpum fer að fjölga aftur að afstöðnu hruni því, sem ég tel víst að sé fram undan. Ég tel, að þá geti vel komið til greina að lengja veiðitímann frá því, sem nú er, enda er ég enn sem fyrr þeirrar skoðunar, að veiðar hafi ekki úrslitaáhrif á hinar reglubundnu sveiflur íslenzka rjúpnastofnsins.“

Hv. menntmn. var samdóma þessu áliti og áleit ekki rétt að lengja veiðitímann af sömu orsökum, enda virðist það ekki vera neitt áríðandi mál, í fyrsta lagi er ekki svo heppilegt að vera sífellt að breyta lögum að þarflitlu, og í öðru lagi er þetta ekki svo mikið atvinnuspursmál, að það taki því.

Þess vegna leggur nefndin til, að málið verði afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá: „Með því að ekki þykir tímabært að breyta lögunum um fuglaveiðar og fuglafriðun í þá átt, sem frv. á þskj. 153 fer fram á, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“