18.01.1956
Neðri deild: 43. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (1503)

73. mál, eftirlit með skipum

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hafði leyft mér við 1. umr. þessa máls að flytja hér örlitla brtt. við frv., eins og það var upphaflega lagt fyrir, og fjallaði þessi brtt. mín um, að skyldan varðandi stærð skipanna yrði færð niður, þannig að öll skip yfir 6 rúmlestir skyldu hafa gúmmíbjörgunarbáta, nægjanlega stóra fyrir alla skipshöfnina, og að skip undir 50 rúmlestum séu ekki skyldug til að hafa aðra björgunarbáta en gúmmíbáta.

Ég byggði þessa till. mína á samþykktum farmanna- og fiskimannaþingsins og taldi, að þar hefðu verið færð nægjanleg rök fyrir nauðsyn þess, að við þessum óskum yrði orðið, hvað nefndin hefur nú ekki séð sér fært að gera. Jafnframt vildi ég einnig lýsa undrun minni á þeirri tregðu skipaskoðunarstjóra eða skipaeftirlitsins, að þessir hlutir megi ekki vera skýrt ákvarðaðir í lögum, svo greinilega sem staðreyndirnar blasa við hverjum einasta manni, sem með málum þessum hefur fylgzt að undanförnu, og frsm. frv. sjálfs hefur ýtarlega bent á í framsöguræðu og grg. fyrir málinu. Hér er fullkomin og skýlaus nauðsyn á, að skýr og ákveðin lagaákvæði séu til um þessi atriði, en ekki óviss reglugerðarákvæði, eins og hv. nefnd virðist hafa mikla tilhneigingu til að taka undir með skipaskoðunarstjóra.

Ég held, að það séu það alvarlegir hlutir, sem eru hér á ferðinni, eins og greinilega hefur verið bent á í framsögu fyrir þessu máli, og að ekki sé á því stætt, jafnvel þó að skipaskoðunarstjóri sé þess fýsandi, að hafa um þetta reglugerðarákvæði, sem muni einhvern tíma verða til. Hér er um þá hluti að ræða, sem krefjast skýrra og ákveðinna lagafyrirmæla og einskis annars.