20.01.1956
Neðri deild: 47. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (1512)

102. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Jón Pálmason:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. hefur lýst og fram kemur í nál. allshn. á þskj. 259, er það samhljóða álit þessarar hv. n., að það beri ekki að breyta þessum furðulegu lögum, sem ég hef í frv. mínu á þskj. 120 lagt til að breyta frá því, sem verið hefur.

Þetta er í rauninni mjög í samræmi við ýmislegt annað, sem gerzt hefur á því þingi, sem við sitjum nú á, því að í raun og veru hefur það ekkert afgreitt annað en að hækka laun opinberra starfsmanna stórkostlega frá því, sem áður var, og þar með auka dýrtíðarskrúfuna og vitleysuna í okkar þjóðfélagi langt umfram það, sem verið hefur. En það að vilja ekki hlusta á eða taka til greina það frv., sem hér er um að ræða, þýðir í raun og veru, að það megi ekki orða það að spara stórar upphæðir, sem kastað er út algerlega að óþörfu vegna þessara laga. Það er ekki nóg með, að það er skerðing á mannréttindum þeirra manna, sem eru við fulla heilsu, að segja þeim að fara burt úr sínum embættum, hversu vel sem þeir hafa í þeim staðið, aðeins fyrir það, að þeir verða sjötugir, heldur er hér um að ræða stórkostlega eyðslu fyrir ríkissjóðinn og þar með þjóðina, eyðslu, sem er gersamlega óþörf.

Það er kunnugt mál, að síðan þetta frv. var borið fram, hefur hvert embættið á fætur öðru verið auglýst, sum veitt, sum eru óveitt, og allt eru það embætti starfsmanna, sem eru við fulla heilsu og gætu auðsjáanlega verið í sinu embætti áfram, gegnt sínu starfl nokkur ár enn. Aðstaðan er sú, að með þeirri aðferð, sem viðhöfð er, þýðir það, að ríkissjóður verður að borga tvöföld laun fyrir fjöldamörg embætti. Það gerðist fyrir nokkrum árum, að einn allra mikilhæfasti og mest metni embættismaður ríkisins var látinn fara frá starfi 65 ára gamall. Þetta var, eins og mönnum er kunnugt, það er ekkert launungarmál, hæstaréttardómari. Jafnhliða var ákveðið að borga honum full laun eftir sem áður, og innan skamms gerðist hann málaflutningsmaður við réttinn í stað þess að vera þar hæstaréttardómari, svo að greiðslan var margföld.

Ég vil minna á það, að fyrir rúmlega hálfu fjórða ári, þegar hér fóru fram forsetakosningar, sem sagt kosningar um æðsta embættismann íslenzka lýðveldisins, var þar af þjóðarinnar hálfu stillt upp tveimur valinkunnum embættismönnum, sem báðir höfðu verið látnir fara frá sínu starfi vegna þess, að þeir voru of gamlir, orðnir sjötugir. Þessir menn náðu að vísu ekki kosningu, en þeir samanlagt fengu þó meiri hluta af atkvæðum þjóðarinnar við forsetakosninguna, sem sýndi, að kjósendurnir í landinu virða ekki svona vitlaus lög eins og þessi aldurshámarkslög. Það er greinileg sönnun fyrir því, að kjósendurnir virða ekki svona lög. Nú vitum við það allir, að samkvæmt öðrum lögum, lögum um réttindi og skyldur embættismanna og starfsmanna ríkisins, hafa opinberir starfsmenn rétt til þess, ef þeim svo sýnist, að fara frá eftir 65 ára aldur með fullum eftirlaunum, og í þessu frv. er ekki neitt lagt til að hrófla við þeim ákvæðum, svo að hér er aðeins um þá menn að ræða í opinberu starfi, sem gjarnan vilja vera áfram í sinni stöðu, þó að þeir séu orðnir 70 ára að aldri.

Ég skal taka það fram, sem ég að vísu gerði við 1. umr. þessa máls, að hefði hv. allshn. eða Alþingi viljað einhverja miðlunarbrtt. gera á þessu, þá gat vel komið til mála að fara þarna einhverja millileið, t.d. í 73 ár eða eitthvað því um líkt.

En það, sem hér ræður afstöðu hv. n., er ekkert annað en það, sem ræður hér mjög miklu á Alþingi yfirleitt, og það er að fara eftir vilja þeirra manna, sem er urmull af í okkar þjóðfélagi og vilja komast í opinbert, fast starf. Og það er náttúrlega töluvert mikið fjölgað tækifærum með því að halda þessum lögum í gildi, eins og þau nú eru. Og það er sannarlega engin furða, þó að sjálft kröfufélagið, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, mæli gegn því, að svona frv. verði samþykkt, en sú undarlega setning kemur fram í áliti stjórnar þessa félagsskapar, að það þurfi einhverja sérstaklea, ýtarlega rannsókn til þess, að þannig megi breyta þessum lögum. Hvernig sú rannsókn á að vera, hefur ekki komið fram neitt hjá hv. n. eða frsm. hennar, og ég fæ ekki skilið, að það þurfi neina sérstaka rannsókn í þessu efni. Eða hvað á að rannsaka? Ég vil spyrja hv. frsm. að því, hvað það er, sem á að rannsaka. Þetta er einfalt mál og liggur ljóst fyrir, og annaðhvort verður að vera, að menn vilji sýna einhverja viðleitni til að spara óþörf útgjöld, ellegar þeim er alveg sama um það, þó að vitleysan haldi áfram á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta meira, en ég vildi láta þessi orð fylgja til hv. n. og annarra þeirra manna, sem vilja fella þetta frv., því að ég þykist sjá, að örlög þess séu ráðin, og það verður auðvitað að hafa það.