20.01.1956
Neðri deild: 47. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (1513)

102. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Frsm. (Björn Ólafsson):

Ég get vel skilið, að hv. flm. frv. þyki miður, að n. hefur ekki getað fallizt á það. En nm. hafa nú sína skoðun á málinu, og hann verður að skilja það, að ekki er verið að víkja að honum persónulega. Hér er verið að ræða málið út af fyrir sig, og nm. eru nú einu sinni á þeirri skoðun, að ekki sé heppilegt að breyta til í þessu efni.

Um rannsóknina, sem hv. fim. gat um í sambandi við bréfið frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, hver hún sé, þá get ég ekki upplýst annað en það, að n. hefur ekki sett sig inn i, hver sú rannsókn ætti að vera. Það eru ekki orð n., að rannsaka ætti málið, heldur voru það orð stjórnar bandalagsins. Og hvað stjórn bandalagsins hefur haft fyrir augum í því efni, hefur n. ekki gert sér neina grein fyrir og hefur ekki hugsað sér að leggja til um neina rannsókn í þessu máli.

Um þetta mál má að sjálfsögðu deila. En ég efast um, að nokkurs staðar finnist lagastafur í öðrum löndum, sem ákveður, að embættismenn ríkisins skuli starfa til 75 ára aldurs. Ég efast um, að það sé til. Það er alveg rétt, að sumir menn sjötugir eru við ágæta heilsu. Aðrir menn sjötugir eru við lélega heilsu. En því verður hins vegar ekki neitað, að enginn sjötugur maður hefur fulla starfsorku. Enginn sjötugur maður hefur sömu starfsorku og fertugur maður, hversu góða heilsu sem hann hefur. Hins vegar má segja, að sjötugur maður hafi reynslu, sem fertugur maður hefur ef til vill ekki, en um það má náttúrlega deila, hvort á að skipta á reynslunni og starfsorkunni. Ég mundi nú segja, að þegar litið er á málið í heild, sé ríkinu nauðsynlegt, að allir embættismenn þess séu með nokkurn veginn óskerta starfsorku við þau störf, sem þeir þurfa að vinna.

Hv. flm. gat um, að hér væri um mikla eyðslusemi að ræða. Það er eftir því, hvora kenninguna menn aðhyllast, hvort menn aðhyllast þá kenningu, að sjötugur maður sé hæfur til hvaða starfs sem er og eigi að halda áfram sínu starfi, eða hina kenninguna, að sjötugur maður sé búinn að missa það bezta af starfsorku sinni, þess vegna eigi hann að fá hvíld frá störfum sinum og yngri menn að komast að. Ég mundi segja, að það væri oft mjög mikil eyðsla fyrir ríkið að hafa gamla og orkusnauða menn í þjónustu sinni. Ég er ekki að halda því fram, að það eigi að fleygja mönnum fyrir borð, fyrr en starfstími þeirra er úti, og það á að gera vel við þá, þegar þeir hætta að vinna. En menn verða að gera sér grein fyrir skynsamlegum grundvelli í þessu máli.

Því verður ekki neitað, að ef inn á þá braut væri farið að ákveða með lögum, að allir embættismenn ríkisins skyldu starfa til 75 ára aldurs, að sjálfsögðu þá án nokkurs tillits til þess, hvernig þeirra kröftum væri varið, ef þeir aðeins sjálfir óskuðu að halda áfram í embættinu, þá ætti það að vera ljóst hverjum manni, að mikill hluti af starfsmönnum ríkisins er þá orðinn að gamalmennum. Það er ekki í þágu lands eða þjóðar, að menn sitji í vandasömum embættum þangað til svo er komið. En hitt er aftur mannlegt, sem ég er ekki að fordæma, að flestir, ef ekki allir, mundu þessir menn, ef þeir hefðu rétt til þess og hefðu sæmilega heilsu, vilja sitja í embætti sínu til 75 ára aldurs.