20.01.1956
Neðri deild: 47. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (1514)

102. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það fór nú að vonum, að hv. frsm. gat ekki komið með eina setningu, ekki einu sinni minnstu líkur fyrir því, hvaða rannsókn þetta ætti að vera, sem þyrfti fram að fara, til þess að mætti taka afstöðu á annan veg til þessa máls. Mér kemur ekki undarlega fyrir sjónir, þó að greindir menn, eins og hv. 3. þm. Reykv. er, finni með sjálfum sér, þó að það sé í þeirra nál., að svona setning er ekkert annað en rugl, sem þýðir ekki að bera á borð fyrir Alþingi. Aðalröksemd hv. frsm. er sú, að það beri að halda þessum lögum óbreyttum vegna þess, að það sé enginn sjötugur maður með fulla starfsorku. Ég vil segja, að þetta fari alveg eftir því, hvernig á það er litið og hvaða starf það er, sem maðurinn á að gegna. Það er út af fyrir sig rétt, að það er sennilega enginn sjötugur maður með fulla starfsorku til þess að vinna líkamlegt erfiði, ganga að líkamlegri vinnu eins og verkamenn gera. Þó þekkjum við allmarga menn á þeim aldri, sem vinna drjúga vinnu við líkamlegt erfiði. Hitt er alveg vitaður hlutur, að fjöldamargir þeirra manna, sem eru í opinberri starfsemi, eru kannske aldrei betur færir til að sinna sínu starfi en þegar þeir eru búnir að fá svo mikla reynslu sem þeir hafa fengið, ef þeir á annað borð hafa óbilaða heilsu, þegar þeir eru orðnir sjötugir, og vil ég í því sambandi t.d. nefna presta. Fjöldamargir prestar, sem orðnir eru sjötugir, hafa þá fengið það mikla lífsreynslu, að þeir eru jafnvel aldrei betur færir til Þess að gegna sínu starfi en um það bil. Og við þekkjum hér í þessari borg dæmi til þess, að til eins slíks er alltaf leitað helzt, þegar mikið þykir við þurfa, enda þótt hann sé kominn talsvert yfir sjötugt. Við þurfum ekkert út fyrir þennan sal eða út fyrir þetta hús til að finna dæmi um það, að hér er maður, sem á að reka frá í næsta mánuði, af því að hann verður orðinn sjötugur, okkar skrifstofustjóri. Sýnist mönnum vera sérstaklega mikil ellimörk á honum, þannig að hann mundi ekki vera fær um að vera nokkur ár enn í sínu starfi? Svona gæti maður talið upp fjöldamarga menn.

Það eru nú ekki nema eitt eða tvö ár síðan forsætisráðherra brezka heimsveldisins varð áttræður, og það þótti vel hæfa þar í landi. Auðvitað var hann einn af þeim, sem kosnir eru, og þessi lög ná sem betur fer ekki til þess, að það megi ekki kjósa menn á þing eða til opinberra trúnaðarstarfa, sem atkvæðisréttur ræður úrslitum um, þó að þeir séu orðnir sjötugir. En ég held, að við getum fundið nokkuð mörg önnur dæmi í okkar heimsálfu, þar sem æðstu valdamenn þjóðanna eru orðnir eldri en sjötugir.

Þessi kenning, að menn, sem hafa náð 70 ára aldri, séu ekki færir um að gegna því starfi, sem þeir eru lengi búnir að vera í, stenzt þess vegna alls ekki, og það þýðir ekkert að bera hana á borð fyrir almenning, þó að það séu nægilega sterk samtök kannske hér á Alþingi til þess að fella breytingar í þessu efni.