23.01.1956
Efri deild: 46. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (1522)

59. mál, kaupþing í Reykjavík

Páll Zóphóníasson:

Ég held, að þetta sé mjög þarft mál, en þurfi að afgreiðast á Alþ. þegar til kemur í töluvert öðru formi en hér liggur fyrir. Og ef hæstv. ríkisstj. tæki málið til meðferðar, þá langaði mig til þess að benda á í því sambandi, að þegar þar að kemur, þurfa að liggja fyrir nokkrar ákveðnar upplýsingar.

Muni ég rétt, var fyrir nokkrum árum byrjað af prívatmönnum að koma hér á nokkurs konar kauphöll, þar sem byrjað var að selja og kaupa verðbréf opinberlega. Eitthvað þótti athugavert við það, og þá var hlaupið í skarðið og Landsbankinn að einhverju leyti fyrir opinbera aðstöðu látinn fara að setja á stofn það, sem kallað var kauphöll. Jón Halldórsson mun hafa átt að stjórna henni. Ég er nú ekki kunnugur, hvernig það gekk, en langlíf varð sú stofnun ekki. Nokkra mánuði og kannske á annað ár hefur hún hangið að nafninu til, en langlíf var hún ekki, og ég hygg, að sú reynsla, sem þar fékkst, sýni mönnum, að bankarnir eiga ekki að koma nærri forstöðu stofnunarinnar. Þeir geta verið eins og hverjir aðrir viðskiptavinir og keypt og selt, en þeir eiga ekki að hafa neina stjórn eða neitt yfir kauphöllinni að segja. Það, sem mig langaði til að hæstv. ríkisstj. léti athuga, þegar hún færi að athuga gang þessa máls og stofnunar aftur, er í fyrsta lagi saga þessa máls hjá okkur sjálfum, hvernig það opinbera greip þar fram fyrir hendur prívatmannanna, sem voru að reyna að koma kauphöllinni á, hvernig Landsbankinn fór af stað með það og hvers vegna það lognaðist út af í höndunum á honum, og svo helzt, að hún reym að byggja það þannig upp, að bankarnir komi ekki nærri því.