23.02.1956
Efri deild: 74. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (1527)

45. mál, skemmtanaskattur þjóðleikhús o. fl.

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. það á þskj. 50, sem hér er til 2. umr., var borið fram snemma á þessu þingi og vísað þá til hv. fjhn. þessarar hv. deildar. Efni þess er, að framvegis verði helmingur skemmtanaskattsins látinn ganga í félagsheimilasjóð, eins og gert var til ársins 1952.

Ef meta á, hvort rétt og sanngjarnt sé að gera þá breytingu, sem hér er lagt til að gerð verði á lögunum um skemmtanaskatt, ber að athuga, hvort félagsheimílasjóðurinn hefur þörf á þeim auknu tekjum, sem í breytingunum felast, ef frv. næði fram að ganga, og svo hvort hinn aðilinn, sem við það missti tekjur, í þessu tilfelli rekstrarsjóður þjóðleikhússins, geti sér að skaðlausu verið án þeirra, án þess að fá þær bættar á annan hátt, og hvort þá sé hugsanlegt að finna þar nýja tekjustofna eða draga úr útgjöldum, ef rétt þætti, ef þetta mál næði hér fram að ganga, eins og lagt er til í frv. Þætti það hins vegar ekki fært og vitað væri samt sem áður, að nauðsyn bæri til þess að bæta úr fjárhagsmálum félagsheimilanna, þyrfti að athuga, hverjar aðrar leiðir þá þættu helzt geta komið til greina.

Öll þessi atriði taldi hv. fjhn. að sér bæri skylda að athuga, áður en hún gæfi út álit sitt um frv., og það er nokkur ástæða, þessi sem ég hef þegar tekið fram, fyrir því, að þetta mál hefur dregizt svo lengi. Hún sendi m.a. frv. til þjóðleikhússtjórnarinnar til þess að fá álit hennar á málinu og upplýsingar um rekstur þjóðleikhússins. Er umsögn þjóðleikhússtjórnarinnar birt með nál. á þskj. 389, þ.e.a.s. því nál., sem ekki er prentað upp, en nokkurn hluta nál. varð að prenta upp vegna misprentunar í sjálfri rökstuddu dagskránni. Er þetta fskj. í á þskj. En auk þess ræddi nefndin málið á fundi með leikhússtjóra og formanni þjóðleikhúsráðs og fékk hjá þeim margvíslegar upplýsingar um rekstrarfjárþörf þjóðleikhússins og rekstrarafkomu.

Af því, sem tekið er fram á fskj. I, og því, sem kom fram í umræðum við þjóðleikhússtjórnina, er ljóst, að að óbreyttum ástæðum þolir þjóðleikhúsið ekki að missa af þeim tekjum, sem hér um ræðir, nema eitthvað komi á móti, þar sem rekstrarhalli þess var árið 1954 um 421 þús. kr. og engar líkur til þess, að hagurinn verði betri 1955 eða árið 1956. En þótt þessar staðreyndir liggi ljóst fyrir, er hér ekki um að ræða neina viðurkenningu af hálfu hv. fjhn. þessarar d. fyrir því, að ekki mætti haga rekstri þjóðleikhússins þannig, að rekstrarafkoman yrði hagkvæmari. Hér er um að ræða sjálfstæða stofnun, sem hefur ákveðinn styrk frá öðrum aðilum, sem skemmta þjóðinni, án þess að þurfa sjálf að greiða sambærilegt gjald. Og rekstrargjöld og tekjur eru ekki háð afskiptum fjárveitingavaldsins eða gagnrýni þess. Brestur hér því öll gögn til þess að dæma um það, hvort unnt væri að draga svo úr gjöldum eða auka svo tekjur eða hvort tveggja, að unnt væri að ná saman endum eða jafnvel skapa rekstrarafgang, og skal ekki farið hér neitt frekar út í það atriði. Hitt er svo jafnljóst, að gera yrði sérstakar ráðstafanir til þess að vega upp á móti rekstrarhallanum, því að rekstrarsjóður þjóðleikhússins gæti ekki misst þessar tekjur, nema eitthvað annað kæmi á móti, eins og ég hef áður tekið fram.

Þá sendi n. frv. einnig til umsagnar til fræðslumálastjóra, og er svar hans birt hér sem fskj. II á þskj. 389. Jafnframt barst n. erindi um málið frá íþróttafulltrúanum, en hann mun fara með þessi mál í umboði fræðslumálaskrifstofunnar og því vera þessum málum einna kunnugastur. Er erindi hans hér einnig birt sem fskj. III.

Af þeim upplýsingum, sem koma fram í þessum gögnum, er augljóst, að mjög mikil þörf er á því að auka tekjur félagsheimílasjóðsins, ef hann á að geta innt af hendi lögboðin framlög til félagsheimilanna, jafnóðum og þau rísa upp, en það verður að telja mjög nauðsynlegt til þess að forðast það ástand, sem þegar er að skapast eða hefur skapazt, að árlega vaxi verulega ógoldin lögboðin framlög sjóðsins til bygginganna.

Fræðslumálastjóri upplýsir, að 31 félagsheimilahús sé nú í smíðum og að eina millj. kr. vanti á til þess að greiða lögboðin framlög um síðustu áramót; með sömu þróun og án aukinna tekna sjóðsins muni þessi upphæð vaxa á næstu fjórum árum upp í allt að 5–6 millj. kr. Er slíkt gersamlega óviðhlítandi ástand í þessum málum.

Árið 1948 hefur sjóðurinn 50% af skemmtanaskattinum samkv. lögum, og það ár nema tekjur hans tæpum 1240 þús. kr. Frá 1951 fær sjóðurinn aðeins 35% af skemmtanaskattinum, sem árið 1954 nam rúml. 1570 þús. kr., svo að krónuupphæð teknanna er um 330 þús. kr. hærri það ár þrátt fyrir minni hundraðshluta. Að óbreyttum hlutföllum hefði sjóðurinn fengið það ár rúml. 630 þús. meiri tekjur, sem þó hefði ekki dugað til að mæta útgjöldunum. Og þó að samþykkt frv. bætti mjög úr, er sýnilegt, að það eitt væri ekki einhlítt til að fyrirbyggja það ástand, að skuldasöfnun aukist frá ári til árs.

Eftirspurnin eftir fjárfestingarleyfum til byggingar félagsheimila sýnist vera mjög mikil. Og auðvelt væri að hefta byggingu þeirra með synjun fjárfestingar á meðan þau lög eru enn í gildi, nema að því marki sem félagsheimilasjóðurinn gæti staðið undir á hverjum tíma að sinna hlutverki sínu. En engin trygging er fyrir því, þótt sá háttur yrði upp tekinn, að það kæmi réttilega niður. Hins vegar er ekkert um það í sjálfum lögunum um félagsheimili, eftir hvaða reglu skuli byggt, ef ekki er nægilegt fé fyrir hendi til þess að greiða hinn lögboðna hluta, eða hvort yfirleitt skuli heimilt að byggja, þegar svo stendur á, og þá hvaða rétt aðilar eiga til framlagsins undir þeim kringumstæðum, hvort t.d. skuli ganga á undan framlag til húsa, sem síðar er byrjað á, eða húsa, sem kunna að verða talin meira aðkallandi.

Því verður ekki neitað, að sumum finnst félagsheimilin of víða reist og of þétt, enda kemur þetta berlega fram í umsögn íþróttafulltrúans. Hins vegar setja lögin engar skorður hér að lútandi. Er þó full þörf, að um það séu sett skýr ákvæði í lögunum, að sé fé eigi fyrir hendi, þá verði að haga byggingu heimílanna eftir ákveðnum reglum og í ákveðinni röð, enda er nauðsynlegt að skipuleggja þessi byggingarmál miklu betur en gert hefur verið og setja m.a. reglur um viðhald húsanna og útbúnað til tryggingar því, að þau rýrni ekki að verðmæti fyrir vanhirðu. Þá þarf einnig að kveða nánar á um það en gert er, hve þétt heimilin skuli reist og hve stór og hve dýr þau megi vera, t.d. miðað við íbúafjölda hvers staðar, þar sem þau eru byggð, en um þetta er ekkert í lögunum eins og nú er.

Ég skal ekki að þessu sinni ræða það efnislega, hvort telja megi 1.5–2 millj. kr. árlegt framlag til félagsheimílasjóðs hæfilegt eða ekki, enda var frv. það, sem hér um ræðir, ekki fyrst og fremst miðað við það, heldur við hitt, að komast sem fyrst út úr því ástandi, sem hér hefur skapazt, að vangoldin framlög aukast ár frá ári. En þætti meiri hluta hv. Alþ. þessi upphæð engan veginn viðunandi, mætti jafnvel auka hana án þess að breyta hlutföllunum til óhagræðis fyrir þjóðleikhúsið, og kæmi þá m.a. til greina að undanskilja færri aðila frá greiðslu skemmtanaskatts en nú er gert, svo sem ákveðin kvikmyndahús, sem ekki greiða hann samkv. gildandi lögum, og má þar m.a. nefna, að ég hygg, bæði kvikmyndahús bæjarins í Hafnarfirði og eins á Akranesi. En auk þess kæmi þá og til greina hækkun skattsins í hlutfalli við vaxandi verðlag og margt fleira, en út í það skal ekki farið hér að sinni. Hitt sýnist mest aðkallandi, að láta endurskoða lögin um félagsheimllin, svo að þar verði markaðar línur um það, hvernig framkvæmdinni skuli hagað, og komið þar á betra skipulagi til frambúðar en nú er, þar sem allar reglur um byggingu húsanna sýnast mjög í lausu lofti. Þegar þetta hefur verið gert, fæst betra yfirlit yfir þarfir sjóðsins, og er sjálfsagt, að gera verður ráðstafanir til þess að mæta þar öllum sanngjörnum kröfum.

Með tilvísun til þess, sem ég hef hér sagt, og til þess, sem kemur fram í nál. á þskj. 389, leggur fjárhagsnefnd einróma til, að frv. verði samþykkt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Frumvarp þetta mundi, ef að lögum yrði, rýra verulega tekjur þjóðleikhússins, sem bæta yrði á annan hátt að óbreyttum aðstæðum. Hins vegar vaxa ógreidd framlög félagsheimilasjóðsins svo mikið árlega, að óhjákvæmilegt er að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíkt. Deildin lítur því svo á, að aðkallandi sé, að fram sé látin fara heildarendurskoðun á lögum nr. 77 5. júní 1947, um félagsheimili, og að í þeim lögum verði sett þannig ákvæði, að saman geti að jafnaði farið lögboðin framlög úr félagsheimilasjóði og hraði byggingarframkvæmda félagsheimílanna, enda verði sjóðnum séð fyrir eðlilegum tekjum til þess að mæta útgjöldum, og í trausti þess, að ríkisstjórnin láti framkvæma endurskoðun laganna á þessum grundvelli og leggi síðan tillögur til breytinga á lögunum fyrir næsta reglulegt Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Væntir n. þess, að þessi rökstudda dagskrá verði samþykkt. og ef svo yrði, þá að hæstv. ríkisstj. láti framkvæma endurskoðunina á þessu ári og leggi niðurstöður og tillögur af þeirri endurskoðun fyrir næta Alþingi.