23.03.1956
Efri deild: 92. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (1535)

149. mál, jarðhiti til virkjunar

Frsm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Iðnn. hefur athugað þetta mál og telur frv. mjög eftirtektarvert á marga lund.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefur orðið nokkur stöðvun á því, að hægt hafi verið að rannsaka jarðhita til hlítar með því að gera tilraunir um boranir. Þegar hafnar voru boranir, kom það fljótt í ljós, sem raunverulega var áður vitað, þó að ýmsir menn, sem sóttust eftir því að láta bora eftir jarðhita, gerðu sér það ekki ljóst, að kostnaðurinn var oft lítt viðráðanlegur og oft alveg óviðráðanlegur fyrir þá, sem réðust í þessi verk. Það væri hægt að benda á dýra reynslu í þessum efnum, þar sem byrjað var á verki og varð að hætta vegna þess, að árangurinn af boruninni kom ekki nógu skjótt í ljós, þó að það sýndi sig síðar, að þegar haldið var áfram, kom í ljós stórfelldur árangur.

Ég minnist þess, að þegar ég tók við sem landbrh. og hafði með þessi mál að gera, höfðu safnazt um 700 þús. kr. í skuldum fyrir boranir víðs vegar um landið, án þess að væri hægt að innheimta nema lítið af þessum skuldum, og þessar skuldir voru fyrir tilraunir, sem gerðar höfðu verið um boranir og að sumu leyti höfðu tekizt og að öðru leyti mistekizt.

Því er svo háttað með mörg auðæfi og ekki sízt þessi, sem kostar mikla peninga að ná í, í þessu tilfelli með borunum, að það er ókleift fyrir þá einstaklinga, sem eiga þessi verðmæti, að kosta því til, sem þarf til þess að ná í þau, en hins vegar ákaflega bagalegt fyrir þjóðfélagið í heild að láta þessi verðmæti liggja ónotuð, eins og háttað er hjá okkur í dag, því að á þessum borunum hefur orðið veruleg kyrrstaða nema á örfáum stöðum, og þarf ekki að rekja það nánar en ég hef þegar gert.

Nú er stungið upp á þeirri leið í þessu frv., að ef jarðboranadeild raforkumála og rannsóknaráð ríkisins telja það vænlegt til árangurs, megi ríkið ráðast í boranir, ef þeir einstaklingar, sem jarðhitann eiga, hafa óskað eftir því. Það virðist vera mjög rækilega um það búið, að ekki sé ráðizt í boranir að ástæðulausu, þar sem jarðboranadeild raforkumála og rannsóknaráð ríkisins verða að vera sammála um, að það sé líklegt til árangurs. En það er kunnugt, eins og ég veit að hv. þdm. gera sér ljóst, að þessir aðilar tveir hafa alveg sérstaklega fengizt við að rannsaka fyrir fram, hvort líklegur er árangur af borunum, og hafa gert það víða með góðum árangri. Það má t.d. benda á hina tiltölulega stóru veitu á Sauðárkróki. Þar var lítill hiti, en með rannsóknum taldi jarðboranadeild raforkumála sig finna, að það ætti að bora þar út í vatnið nokkuð frá hvernum og þar mundi nást árangur, sem líka kom í ljós, og árangurinn af þeim borunum er hitaveitan á Sauðárkróki.

Þannig mætti nefna fleiri dæmi, og þó að þessar áætlanir um árangur séu ekki alltaf öruggar, hafa þær reynzt mikils virði. Sá maður, sem við þessar athuganir fæst, er nú við framhaldsnám við einn þekktasta háskóla í Bandaríkjunum, einmitt m.a. til að læra þau fræði, sem mættu verða honum til aðstoðar í því að finna fyrir fram, hvar á að ráðast í jarðboranir.

Það virðist því vera sæmilega um hnútana búið, eins og ég sagði áðan, að þessir tveir aðilar, jarðboranadeildin og rannsóknaráð ríkisins, þurfa að vera sammála um, að það eigi að taka beiðni einstaklinganna um borun til greina.

Svo eru hér þau ákvæði, að ef borunin ber tilætlaðan árangur, endurgreiðir sá einstaklingur, sem hefur fengið verkið framkvæmt, ríkissjóði kostnaðinn. En hins vegar er jafnframt það ákvæði, að ef borunin ber ekki árangur í hlutfalli við þann kostnað, sem í hefur verið lagt, fær ríkissjóður greiddan hlutfallslegan kostnað á móti þeim, sem beðið hefur um framkvæmd verksins.

Það er svo ákveðið, að í þetta verði ekki lagt, nema fé sé veitt á fjárl. hverju sinni til þess að ráðast í þessar framkvæmdir.

Nú vill iðnn., sem hefur rannsakað þetta mál, þó að þær till., sem í því felast, séu mjög mikilvægar, að það verði athugað gaumgæfilega í heild, áður en löggjöf verður sett um það atriði, og þá er það einkanlega með tilliti til þess, að aðrir þættir viðkomandi athugun á jarðhitanum eru nú í framkvæmd. Þykir þess vegna rétt, að þessi þáttur verði sameinaður þeim athugunum og heildarfrumvarp lagt fram um málið að þeirri rannsókn lokinni. Þess vegna leggur n. til., að frv. verði afgr. með rökstuddri dagskrá, sem hér liggur fyrir. Dagskráin, eins og hún ber með sér, viðurkennir, hvað þessi þáttur er þýðingarmikill, en talið er, að rétt sé að rannsaka þetta mál nánar í sambandi við heildarathugun á málinu, og í trausti þess, að þessi heildarathugun verði gerð og henni lokið fljótt og að frv. til heildarlaga um jarðhita verði lagt fyrir næsta reglulegt Alþ., tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Um þessa niðurstöðu er iðnn. sammála, og þess vegna legg ég til fyrir hennar hönd, að dagskráin verði samþ.