15.12.1955
Neðri deild: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Til viðbótar þeim brtt., sem ég lýsti áðan, leyfi ég mér að flytja eina brtt. enn við frv., þannig að á eftir 23. gr. komi ný grein, sem svo hljóði, með leyfi hæstv. forseta:

„Hagstofa Íslands skal í janúarmánuði hvers árs reikna út þá breytingu, sem orðið hefur að meðaltali á næstliðnu ári á grunnlaunum hjá meðlimum stéttarfélags í Alþýðusambandi Íslands. Frá 1. febrúar skulu laun samkvæmt lögum þessum breytast í sama hlutfalli.“

Ég vona, að efni þessarar brtt. sé ljóst. Þar er gert ráð fyrir því, að frá 1. febrúar árs hvers skuli grunnlaun opinberra starfsmanna, sem laun taka samkvæmt launalögum, breytast í sama hlutfalli og orðið hefur á launum þeirra manna, sem njóta frjáls samningsréttar um kaup sitt og kjör.

Ég sýndi fram á það við 2. umr. þessa máls, að svo hefur verið um undanfarna marga áratugi, að laun opinberra starfsmanna hafa ávallt dregizt, meira að segja oft mjög verulega, aftur úr launum þeirra manna, sem semja á frjálsum vinnumarkaði um kaup sitt og kjör.

Við svo búið má ekki lengur standa. Síðan launalögin voru sett 1945, hafa orðið gífurlegar breyt. á launum manna á hinum frjálsa vinnumarkaði, og reynslan hefur sýnt það, eins og ég þá sýndi fram á og skal ekki nú endurtaka fyrir hv. þd., að laun opinberra starfsmanna hafa ávallt verið 3–4 og stundum upp í 10 árum á eftir tímanum. Þetta er óréttlæti, sem úr verður að bæta og ekki verður úr bætt nema með almennu lagaákvæði um það, að laun opinberra starfsmanna skuli breytast sjálfkrafa, ef breyting verður á launum á hinum almenna vinnumarkaði. Ég get hugsað mér þá röksemd gegn þessu, að menn segi, að með þessu móti sé opinberum starfsmönnum ívilnað miðað við hina, sem þurfa að semja á frjálsum vinnumarkaði um kaup sitt og kjör, því að þær launabætur, sem fást þannig, fást yfirleitt ekki nema fyrir harða baráttu og oft mjög dýra. En í þessu sambandi er þess að geta, að opinberir starfsmenn eru einu starfsmenn þjóðfélagsins, sem ekki hafa verkfallsrétt, sem er bannað með lögum að gera verkfall, og eiga þess því ekki kost að beita sömu baráttuaðferðum og menn almennt eiga kost á að leita og menn beita á hinum frjálsa vinnumarkaði.

Ég tel það vera beina og rökrétta afleiðingu af því, að opinberir starfsmenn skuli vera sviptir verkfallsrétti, að þeir njóti sams konar launabóta og ávinnast á hinum frjálsa vinnumarkaði, þótt með verkföllum sé. Hitt er svo annað mál, að ég tel langeðlilegast, eins og ég hef tekið fram í sambandi við önnur mál hér á hinu háa Alþ., að opinberir starfsmenn fái verkfallsrétt. Ef þeir fengju hann, þá mætti segja, að slíkt lagaákvæði væri ástæðulaust, en meðan þeir hafa ekki verkfallsréttinn, hafa þeir ekki sömu skilyrði til þess að bæta kjör sín og aðrar stéttir þjóðfélagsins, t. d. þær, sem eru meðlimir í Alþýðusambandi Íslands, og þá tel ég eðlilegt og sanngjarnt, að laun þeirra fylgi þeim breytingum, sem verða á hinum almenna vinnumarkaði.

Hvaða rök liggja til þess, að ef launamaður fær í frjálsum samningum kjör sín bætt hjá vinnuveitanda sínum, þá skuli sá launamaður, sem skipar hliðstæðan flokk hjá hinu opinbera, verða að bíða mörg ár, kannske tíu ár, eftir því að fá sams konar launabætur, en sé jafnframt neitað um að gera verkfall til að knýja þessar hagsbætur sínar fram?

Ef til vill væri einnig hugsanlegt, að einhverjir flyttu það fram gegn því sjónarmiði, sem fram kemur í þessari till., að það væri óeðlilegt, að opinberir starfsmenn nytu slíkra sjálfkrafa launabreytinga, vegna þess að þeir njóta atvinnuöryggis, meira atvinnuöryggis en þeir menn, sem semja á frjálsum vinnumarkaði um kaup sitt og kjör. Þessari röksemd vildi ég svara þannig: Það er þegar í grunnlaunastiganum tekið tillit til þess, að opinberir starfsmenn hafa meira atvinnuöryggi en menn almennt á hinum frjálsa vinnumarkaði. Þess vegna eru sambærileg störf samkv. launalögum launuð verr en um hefur samizt á hinum frjálsa vinnumarkaði, eins og skýrt kemur fram, ef launaupphæðir í hinum ýmsu launastigum launalaganna eru bornar saman við þau laun, sem ákveðin hafa verið í frjálsum samningum milli vinnuveitenda og vinnuþiggjenda. Og þetta er skýrt tekið fram í grg. þessa frv., sem hér liggur fyrir. Laun opinberra starfsmanna eru þegar höfð nokkru lægri en laun sambærilegra manna annars staðar vegna atvinnuöryggis, og þess vegna er rangt að beita þessari röksemd gegn því, að laun þeirra breytist sjálfkrafa með breyttum launum á frjálsum vinnumarkaði.

Þetta atriði hefur hlotið einróma fylgi hvers þingsins á fætur öðru hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Hvert þingið á fætur öðru hefur gert um það ályktun, að launakjör opinberra starfsmanna væru tryggð á þennan hátt, þannig að það gæti ekki gerzt, sem hefur gerzt hvað eftir annað undanfarna áratugi, að það hafi tekið ár, ef ekki áratugi, að koma fram breytingum á kjörum opinberra starfsmanna til samræmis við það, sem búið er að gerast í atvinnulífinu allt í kringum þá.