05.12.1955
Neðri deild: 26. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (1543)

62. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þann 25. okt. var útbýtt hér í þessari hv. deild frv. til l. um breytingu á l. nr. 40 23. maí 1949, um áburðarverksmiðju, sem ég flutti, 62. mál þessarar deild: ar. 31. okt. fór fram umr. um þetta mál í þessari deild. 1. nóvember var þessu máli vísað til fjhn. þessarar d. Enn er fjhn. ekki farin að skila neinu áliti um þetta mál, og ég vildi nú leyfa mér að biðja hæstv. forseta að ýta við hv. fjhn. um þetta mál. Ég tek þetta mál sérstaklega út úr, þó að það séu fleiri mál, sem bæði ég hef flutt og aðrir og liggja þar enn þá óafgreidd, vegna þess að hér er ekki um neitt smáræði að ræða, heldur um eignarrétt á stærsta fyrirtækinu, sem til er með þjóðinni. Og ég vil jafnframt leyfa mér að átelja, að það fer í vöxt hér á Alþ. nú, að vissar n. —- og eiga þær þó ekki allar óskilið mál, sumar vinna sæmilega — hafa tekið upp þann hátt að skila yfirleitt alls ekki áliti um þau mál, sem til þeirra eru send, og þó alveg sérstaklega ef þau mál eru flutt af einstökum þingmönnum, ég tala nú ekki um, ef það er af þm. stjórnarandstöðunnar. Þessi háttur álít ég að megi alls ekki lengur verða viðhafður. Þetta var ekki svo áður fyrr á Alþ. Þá álitu n. það skyldu sína að skila álitum og taka afstöðu til mála og láta málin þá ýmist falla eða þá verða samþykkt eða þá hins vegar vera vísað til ríkisstj., ef n. þótti þau ekki nægilega vel undirbúin. En þessi aðferð, sem nú er höfð, að svæfa hvert mál eða þegja það í hel, verður til þess að minnka veg Alþ. út á við. Hún verður til þess að auka það umtal, að hér sé ekkert gert og hér sé ekkert unnið. Ég vil alveg sérstaklega beina því til þeirra flokka, sem láta ekkert tækifæri ónotað til þess að segjast vera sérstakir forsvarar bæði lýðræðis og þingræðis, að þegar þeir sem meirihlutaflokkar haga sér þannig gagnvart frv. stjórnarandstöðunnar, að þeir þora þá ekki hreinlega að fella þau, heldur reyna að svæfa þau eða þegja þau í hel á þennan hátt, þá eru þeir beinlínis að traðka bæði lýðræði og þingræði undir fótum og draga úr áliti Alþingis. Nefndir eru kosnar til þess að vinna að málunum, en ekki til þess að verða kirkjugarður allra góðra hugsjóna.

Ég vil þess vegna leyfa mér að biðja hæstv. forseta, sem oft áður hefur sýnt lofsverða röggsemi, þegar komið hefur verið í hreinan voða um þetta afgreiðsluleysi nefndanna, að áminna þessar hv. n. og alveg sérstaklega fjhn. þessarar d. um að fara að skila áliti um þau mál, sem til hennar hefur verið vísað. Alveg sérstaklega vildi ég óska þess, að um þetta mál yrði farið að láta atkv. ganga í n., þar sem mér er ekki grunlaust, að meiri hl. í n. sé samþykkur þessu máli.