20.02.1956
Neðri deild: 73. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (1549)

62. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. þm. A-Húnv.

Í till. meiri hl. fjhn. er ekkert um það, að þessu máli sé vísað til ríkisstj. til þess, að hún undirbúi að leggja þetta mál þannig fyrir t.d. næsta þing, að lögunum væri þannig breytt, að það væri öruggt, að áburðarverksmiðjan væri ríkisfyrirtæki. Ég skil alveg hugsunargang hv. þm. A-Húnv. Hann er sjálfur á þeirri skoðun, að slík breyting eigi að fara fram. En því er ekki slegið föstu í áliti meiri hl. fjhn. Ef það hefði átt að koma fram, þá hefði meiri hl. fjhn. þurft að koma t.d. með rökstudda dagskrá um, að í trausti þess, að ríkisstj. undirbúi fyrir næsta Alþ. löggjöf um áburðarverksmiðjuna, þar sem tryggt sé, að áburðarverksmiðjan sé eingöngu eign ríkisins og rekin af ríkinu einu, taki deildin fyrir næsta mál á dagskrá. Þá hefði slíkur vilji komið alveg hreint og ótvírætt fram og þá hefði það að miklu leyti verið viðurkenning á því, sem ég hef hér verið að berjast fyrir, þó að meiri hl. fjhn. hefði hins vegar ekki fallizt á að gera það á þann hátt, sem ég hafði lagt til. Hins vegar þykir mér mjög vænt um að fá fram þessa skoðun hjá hv. þm. A-Húnv., en bara minni á, að með till. um að vísa málinu til ríkisstj. er engan veginn tryggt neitt í þessa átt, þó að ég efist ekki um, að það sé það, sem vakir fyrir hv. þm. A-Húnv. Þess vegna held ég, að meiri hl., ef hann vill fá eitthvað slíkt fram, hefði átt að athuga sitt mál betur og þá heldur að fresta málinu nú, og ef hann væri sammála um svona afgreiðslu á málinu, þá að láta það koma alveg skýrt og ótvírætt fram, því að það væri strax mesti munur. Með till. meiri hl. um að vísa málinu til ríkisstj., eins og hún nú er orðuð, er málið bara svæft og saltað á venjulegan kurteisan hátt, kurteisari en þann að fella það, en engin trygging fyrir því, að ríkisstjórn geri nokkurn tíma nokkuð í málinu.

Hv. þm. A-Húnv. talaði um, að hann efaðist um, að það væri löglegt að ætla að leysa hlutafélagið upp með þeirri aðferð, sem ég hef þarna gert tillögu um.

Þetta hlutafélag hefur þá sérstöðu, að það er myndað samkv. lögum frá Alþ., þannig að það er þess eim grundvöllur. Það hlaut öllum að vera ljóst, sem tóku þátt í því að mynda hlutafélag, sem byggt er aðeins á lögum frá Alþ., að Alþingi, sem gat skapað slíkt hlutafélag eða leyft að skapa það, gat á sama hátt aftur kippt grundvellinum undan því. Raunverulega er þess vegna hlutafélagið ekki leyst upp, heldur aðeins þeim grundvelli, sem Alþ. lagði að því, kippt burt. Og frammi fyrir hinum einstöku hluthöfum standa tveir kostir, sem þeir geta valið um: annars vegar að gera það, sem þeim er þarna boðið, þeim er gefinn kostur á að selja sín hlutabréf og ríkið innleysi þau á nafnverði, eða þá hins vegar, ef þeir álitu sig, einkum í þessum ummælum framsóknarráðherranna, sem ég hef getið um, hafa stoð til að fara í mál við ríkissjóð. Það, sem ég geng út frá að yrði gert næst, eftir að t.d. þessi 2. gr. væri samþykkt, er, að það er kallaður saman fundur í þessu hlutafélagi. Í þessu hlutafélagi tilkynnir ríkissjóður, sem á þarna meiri hlutann, 6 millj., að hann dragi sig þarna út úr, og þar með er raunverulega hlutafélagið sjálft búið að vera, þegar meiri hluti hluthafanna ákveður þar með að leysa það upp, auk þess sem allur tilgangur þess er brott fallinn með þessari breytingu laganna. Ég efast um, að það þyrfti nokkurt eignarnám í þessu sambandi. Þessir menn gætu kannske, þeir sem væru það harðvítugir af þeim, að þeir héldu, að þeir græddu á þessu fyrir dómstólunum, reynt að fara í mál út af þessu, og þá mundu dómstólarnir skera þar úr, en „praktískt“ talað held ég, að það yrðu nú fæstir þeirra eða jafnvel enginn, sem mundi gera það.

Hitt vil ég benda á, að að svo miklu leyti sem ýmsum kann að finnast þetta mál flókið nú vegna þess, hvernig það var klúðrað, þegar samþykktin var gerð í Ed. um 13. gr., þá verður það enn flóknara, e.t.v. enn erfiðara að leysa það og enn dýrara ríkissjóði, ef það er látið bíða.

Ég hef nú flutt þetta mál á einum fjórum þingum, og Alþfl. og Sósfl. hafa alltaf staðið saman um það. Við höfum þannig gefið þessum einkahluthöfum kost á að innleysa sitt hlutafé á þennan hátt. Ég skal ekkert segja um, hvort það sé rétt að vera að gera þetta áfram. Ef menn vilja halda svona fast í þetta og sá meiri hluti, sem hefur ráðið því að fá þessa hluthafa þarna inn í, þá er e.t.v. bezt næst að fara inn á hitt atriðið í því, og það er, að þetta hlutafé sé afskrifað samkv. lögum vegna taps, sem verði á verksmiðjunni og hefur orðið nú fyrstu árin, þegar hún hefur ekki staðiðvið að geta afskrifað eins og henni ber lögum samkvæmt. Það voru þeir hv. þm. Sjálfst.- og Framsfl., er knúðu fram 13. gr., sem lýstu því yfir, að hlutaféð ætti að vera áhættufé, og það verður þá kannske alveg eins gott að láta þá standa við það, ef til kæmi. En enn sem komið er hafa þessir hluthafar þennan kost, sem þarna greinir, þetta tilboð, ef þetta er samþ. nú. Og ég held, að það ætti meiri hl. að fallast á að gera.

Að öðru leyti, ef það hefur verið full meining meiri hl. fjhn. að vísa þessu til ríkisstj., til þess að hún undirbyggi fyrir næsta þing þannig breytingu á lögunum, að tryggt væri, að verksmiðjan yrði eign ríkisins, eins og hv. þm. A-Húnv. var að koma hér inn á áðan, þá held ég, að hv. meiri hl. fjhn. ætti að umorða sína frávísunartill. og taka heldur upp þann hátt að afgreiða þá málið að sínu leyti með rökstuddri dagskrá, þar sem lagt væri fyrir ríkisstj. að gera þessa ákveðnu hluti, því að frávísunartill. eins og hún er nú, eða till. um að vísa því til ríkisstj., er einvörðungu að drepa málið. bara á kurteisan hátt, eins og nú standa sakir. Og ef það er meiningin hjá hv. meiri hl. að vilja afgreiða málið jákvætt, en vísa þó til ríkisstj., þá held ég, að hann hefði frekar átt að biðja um, að málinu væri nú frestað og honum gæfist þá tækifæri til þess að bera fram rökstudda dagskrá í þeim anda, sem hv. þm. A-Húnv. talaði.