20.10.1955
Neðri deild: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (1562)

16. mál, kjörskrá í Kópavogskaupstað

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Með lögum frá síðasta Alþingi, nr. 30 frá 11. maí 1955, var svo ákveðið, að Kópavogshreppur skyldi verða Kópavogskaupstaður, með þeim breytingum, sem af því leiðir varðandi réttarstöðu þessara deilda þjóðfélagsins, og samkvæmt þeim lögum skyldi fara fram kosning í bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar á þessu ári. Nú kom í ljós, að sú kjörskrá, sem kjósa skyldi eftir, var orðin mjög á eftir tímanum, þannig að það átti að kjósa samkv. kjörskrá, sem gerð var í febrúar 1954 og þá eftir manntali frá 1953, en hins vegar var þá búið að gera kjörskrá í febrúar þetta ár, sem nú er að líða. Var náttúrlega einsætt, og allir hlutu að vera sammála um það, hvað sem öðru leið um þetta mál að öðru leyti, að sjálfsagt væri að kjósa eftir hinni nýju kjörskrá. En þar sem hér var um aukakosningu að ræða, urðu nú þessar sveiflur á því. Það var út af þessu, að talið var rétt og sjálfsagt að gefa út brbl. um, að kjörskrá til kosninga í bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar, sem fram fóru 2. okt. s.l., skyldi vera sú, sem samin var í febr. s.l. Þetta frv. til laga um, að kjörskrá sú, sem samin var í febr. 1955, skuli gilda við bæjarstjórnarkosningar í Kópavogskaupstað 2. okt. sama ár, er til þess að leita eftir staðfestingu Alþingis á þeim bráðabirgðalögum.

Annað sé ég ekki ástæðu til að taka fram um þetta mál að svo stöddu. Ég geri það að till. minni, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til hv. allshn., ef forseti sér ekki ástæðu til að leggja annað til.