20.10.1955
Neðri deild: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (1563)

16. mál, kjörskrá í Kópavogskaupstað

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla fyrst að leyfa mér að fara nokkrum orðum um lögfræðilega hlið þessa máls, um það að gefa út bráðabirgðalög nú á milli þinga um breytingu raunverulega á kjörskrárlögunum, og athuga nokkuð, hvað sú aðferð, sem hér hefur verið höfð í frammi, þýðir og það fordæmi, sem þannig er gefið.

Það er tekið fram í stjórnarskránni, að það eigi ekki að setja bráðabirgðalög, nema brýna nauðsyn beri til. Lögin um Kópavogskaupstað voru samþ. hér á Alþingi 2. maí. Við umr. um það frv. komu fram af hálfu þeirra, sem það fluttu og fyrir því börðust, allar upplýsingar um það, sem þeir álitu galla viðvíkjandi því, eftir hvers konar kjörskrá skyldi kosið í Kópavogi. M.ö.o., fyrir 2. maí, er lög um kaupstað í Kópavogi voru samþ., lágu fyrir hér á Alþingi allar þær upplýsingar, sem færðar eru fram t grg. fyrir brbl., þannig að ef þessar röksemdir áttu að vera nægilega gildar frá sjónarmiði hæstv. ríkisstj. til þess að setja brbl., þá bar ríkisstj., þar sem hún víssi þetta, meðan Alþingi enn þá sat, að koma fram með lagafrv. hér á Alþingi um að breyta þessari kjörskrá, sem þarna var um að ræða. Svo framarlega sem nokkuð af þeim rökstuðningi, sem fram kemur í fskj. hér og grg., sem félmrh. hefur sent forseta Íslands, fær staðizt, þá lágu öll þau svokölluð rök fyrir, þegar lögin voru afgr. hér á Alþingi, þannig að þeir, sem sáu seinna meir ástæðu til að fara að setja brbl. út af þessu, höfðu nægan tíma og næga vitneskju fyrir fram til þess að koma með lagafrv. hér á Alþingi um þetta. Það var engin brýn nauðsyn fyrir þessa menn, fyrir þessa hæstv. ráðherra að bíða þangað til Alþingi væri farið heim og láta þá setja brbl. Að þeir gerðu slíkt, hlaut einfaldlega að stafa af því, að þeir treystu sér ekki til þess að leggja fyrir síðasta Alþingi frv. um slíka breytingu á kjörskrárl. sem felst í þeim brbl., sem hér á nú að staðfesta. M.ö.o.: Hæstv. ráðherrar voru hræddir við Alþingi. Þeir höfðu fengið slíka útreið í umr. um stofnun kaupstaðar í Kópavogi, að þeir kærðu sig ekki um að fara að fá eitthvað svipað hér á Alþingi um till. um að fara að breyta kjörskránni í Kópavogshreppi. Þess vegna hafa þeir ekki þann hátt á, eins og þeim hefði borið, að koma fram með frv. hér á Alþingi og láta Alþingi segja um, hvort það vildi breyta þessum l. um kjörskrá, hvort það vildi fara inn á það vafasama fordæmi að gera breytingar á kosningal. raunverulega.

Af því að ríkisstj. hefur ekki búizt við að fá samþ. á Alþingi frv. um breytingar á þessum kosningal., þá hefur hún ekki þorað að leggja málið fyrir Alþingi á sínum tíma, heldur kosið að láta Alþingi fara heim, segja síðan við forsetann, að það beri brýna nauðsyn til þess að setja brbl., vitandi, að þau brbl. koma til með að gilda, meðan á að drýgja verknaðinn, hvort sem Alþingi á eftir samþ. þau brbl. eða ekki. Þá er búið að framkvæma verknaðinn, og l. eru í gildi á meðan. Þetta er aðferð, sem er algerlega óþolandi, og þetta er hlutur, sem Alþingi á að mótmæla. Þarna kemur ekkert nýtt til frá því 2. maí og þangað til þessi lög eru sett. Allar forsendurnar, sem félmrh. tjáir forseta Íslands, voru honum kunnar og voru ræddar fyrir Alþingi, meira að segja þaulræddar frá sjónarmiði þeirra manna, sem töldu þetta nægar forsendur fyrir nýjum lögum. Þess vegna hefur hér verið farið algerlega ranglega að. Það bar enga brýna nauðsyn til þess að setja þessi lög. Ef átti að setja l. í þessu efni, þá var hægt að láta Alþingi segja þar til um. Hér er beinlínis verið að fara í feluleik. Hér er verið að framkvæma og koma á brbl., sem ríkisstj. þorir ekki að leggja fyrir Alþingi.

Svo skulum við koma að rökunum sjálfum. Þetta var það, sem ég vildi segja, svo framarlega sem þessi rök að einhverju leyti stæðust. Rökin eru þau, eins og hæstv. félmrh. tilgreindi, að það hafi á árinu 1954 fjölgað um hart nær 20% atkvæðisbærum íbúum í Kópavogshreppi. Það eru rökin. Frá 1952 til 1953 fjölgaði um 40% í Kópavogshreppi. Það var kosið 1954. Þá þótti engin ástæða til þess að fara að setja nein lög eða breyta neinum lögum. Þó að færi fram tvöfalt meiri fjölgun á íbúum á öðrum tíma og bæjarstjórnar- eða hreppsnefndarkosningar væru fram undan og færu fram þar nokkru á eftir, þá var engin ástæða til þess að setja lög. M.ö.o. er alveg rangt, að vegna þessarar 20% fjölgunar hafi verið einhver sérstök ástæða til þess að setja lög. Það hafði farið fram miklu meiri fjölgun á atkvæðisbærum mönnum áður í þessum hreppi, án þess að þótt hafi ástæða til slíks. Það var stórkostlegasta fjölgunin, sem þá hafði farið fram þar. Og ég vil geta þess viðvíkjandi Reykjavík, að hér hefur svipuð kjósendaaukning gerzt, án þess að mönnum hafi fundizt nokkur ástæða til þess að gefa út brbl. þess vegna. M.ö.o.: Þessi röksemd fær alls ekki staðizt, og þessi röksemd er þar að auki beinlínis hættuleg. Það er sem sé alveg ákveðin hugsun, sem liggur á bak við ákvæði kosningalaganna um, hvar menn skuli hafa rétt í sambandi við það að greiða atkvæði. Það er sú hugsun, að ekki sé hægt með ýmsu undarlegu móti að raska skyndilega tölu kjósenda í ákveðnum kjördæmum, á meðan eitt land hefur það fyrirkomulag, að það skuli vera kosið í ákveðnum, afmörkuðum kjördæmum, en ekki t.d. í öllu landinu sem einu kjördæmi.

Þessi rök, sem hér eru færð fram, fá þess vegna alls ekki staðizt, og það er ekkert undarlegt, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa viljað fara í felur með slíkan rökstuðning og ekki þorað að leggja hann fyrir Alþingi á þeim tíma, er hún hafði enn þá tækifæri til og eins og henni hefði borið, ef hún ætlaði að setja svona lög.

Hér er þess vegna um allt annað að ræða. Hér er um það að ræða, að ríkisstj. hefur álitið, að af sérstökum ástæðum hefði hún von til þess að búast við því, að atkvæðafjölgun hennar flokka færi sérstaklega vaxandi í þessum hreppi. Við skulum taka sem dæmi: Ef einn ákveðinn flokkur hefði um ákveðinn tíma haft aðstöðu til þess að úthluta t.d. í þáverandi Kópavogshreppi lóðum og sýnt sig í því að framkvæma slíka úthlutun með þeim hætti að láta helzt aðeins þá, sem væru fylgjandi viðkomandi flokki, fá lóðir, eða þá menn eina hafa tækifæri til þess að flytjast í bæinn, sem fengju lóðir, þá hefði e.t.v. sá flokkur, sem slíkt lóða- og lénsvald hafði, ástæðu til þess að ætla, að honum mundi máske aukast alveg sérstaklega fylgi í sambandi við slíka lóðaúthlutun, í sambandi við slíkt lénsvald. Það var því af pólitískum ástæðum, að hæstv. ráðherar sáu ástæðu til þess að fara að setja brbl. um breytingu raunverulega á kosningalögunum, sem annars hefur ekki verið gert hjá okkur, vegna þess að þeir bjuggust við ákveðnum pólitískum hagnaði af því. Það er um að ræða misnotkun á heimildinni um setningu brbl. í pólitísku ávinningsskyni af hálfu ríkisstj., og þessi heimild er notuð skömmu eftir að Alþ. hefur verið sent heim, þó að ráðherrarnir hafi vitað allar þær röksemdir, sem þeir fluttu fram fyrir brýnni nauðsyn til brbl., meðan þing enn sat, og notað þær röksemdir í umr. á Alþ. Hér er um stórhættulegt fordæmi að ræða að reyna að setja brbl. og hafa áhrif á kosningalög, kjörskrársamningu og kjörskrárgildi í pólitísku skyni. Eftir að fyrst var búið með öllum þeim gífurlega gauragangi, sem í sambandi við það var, að ætla að breyta Kópavogshreppi í kaupstað á móti vilja hreppsnefndar og meiri hluta íbúanna, átti nú með brbl. svo að segja á bak við Alþ. að hafa slík áhrif á kosningu þar með þeim ráðum og öðrum ljótari, að þeir pólitísku valdhafar t landinu fengju fram vilja sinn gagnvart kjósendum viðkomandi kjördæmis. Síðan eru svo þessi brbl. látin hafa áhrif einnig viku áður en Alþ. kemur saman. Kosningar eru fyrirskipaðar í Kópavogskaupstað einni viku áður en Alþ. á að koma saman. Það mátti ómögulega gefa Alþ. rétt og möguleika til þess að dæma um, hvort svona brbl. væru rétt og nauðsynleg, leggja svona brbl. fyrir Alþ., áður en kosningarnar færu fram í viðkomandi kaupstað. Það á ekki að gefa Alþ. tækifæri til þess að segja um slíkt. Nei, þvert á móti, sú ríkisstj., sem ákveður kosningarnar og gefur út brbl., ákveður kosningarnar einni viku áður en Alþ. á að koma saman. M.ö.o.: Alþingi er sniðgengið á tvennan hátt: Fyrst er vanrækt, svo að maður noti milt orð, að leggja fyrir Alþ. lög um, hvernig sú kjörskrá skuli vera, sem skuli gilda við viðkomandi kosningar, eða lög um breytingar á kosningalögunum, og síðan er ákveðið að láta brbl. koma til framkvæmda viku áður en Alþ. komi saman og hafi möguleika til þess að segja eitthvað um, hvort Alþ. kæri sig um, að svona sé farið að með kosningalög.

Á þennan hátt er á allan hátt verið að reyna að brjóta á móti anda stjórnarskrárinnar í þessum efnum og sniðganga Alþingi. Það er verið að reyna að setja Alþingi frammi fyrir fullgerðum staðreyndum. Það er vitanlegt, að brbl., þegar þau eru sett, eru lög og hafa lagagildi, og það, sem gert er með þeim brbl., stendur; sú kosning, sem hefur farið fram í Kópavogi, er fullgild, þó að Alþingi felli þessi brbl.

Þetta mikla trúnaðarvald, sem lagt er í hendur ríkisstjórna, að mega gefa út brbl., þýðir m.ö.o., að Alþingi segir við ríkisstj.: Þú hefur heimild til þess að gefa út lög, sem ég yfirleitt get ekki á neinn hátt raskað á eftir. Meðan bráðabirgðalögin gilda, þangað til Alþingi fellir þau, eru þau í gildi og það, sem gert er samkvæmt þeim.

Þetta mikla trúnaðartraust, sem eftir stjórnarskránni er sýnt ríkisstjórnum, mega þær þess vegna ekki misnota. Með slíkri misnotkun er farið inn á afskaplega hættulega braut, og ég álít, að einmitt vegna þessa lagafrumvarps, sem hérna liggur fyrir, beri Alþingi að taka þetta mál alveg sérstaklega alvarlegum tökum.

Ég vil benda á, að það er hægt fyrir ríkisstjórn að nota sér það vald að breyta kosningalögunum með bráðabirgðalögum á mjög hættulegan hátt. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að eins og hægt er að breyta reglum, m.a. um kjörskrárgildi, í sambandi við bæjarstjórnarkosningar, þá er það líka hægt í sambandi við þingkosningar, og ég vil benda hv. þm. stjórnarflokkanna á það, að þó að í augnablikinu sitji samsteypustjórn Sjálfstfl. og Framsfl., þá gildir sá sami réttur, ef rétt skyldi kalla, eins og hann hefur verið notaður í þessu tilfelli, til að gefa út brbl. fyrir hverja þá ríkisstjórn, sem situr, eins þótt það væri t.d. minnihlutastjórn og þó að það væri t.d. einlit flokksstjórn, við skulum segja Sjálfstfl., og ég vil biðja hv. þm. að athuga alvarlega, hvað gæti gerzt í sambandi við setningu slíkra brbl. í sambandi við alþingiskosningar.

Ég talaði áður um, að einn ákveðinn flokkur hefði reynt að hafa ýmis áhrif á sannfæringu manna eða a.m.k. á atkvæðagreiðslu manna með alls konar loforðum um lóðir, og jafnvel hafa máske líka þeir góðu stjórnarflokkar báðir reynt að hafa áhrif á menn í sambandi við lán til íbúðarhúsa og annað slíkt. En ég vil benda á, að jafnvel þótt Framsfl. kunni stundum að hafa sérstöðu í ákveðnum hreppi eða kaupstað viðvíkjandi lóðum, gæti máske líka svo farið, að Sjálfstfl hefði einhverja ekki ólíka afstöðu t.d. um lán og lánveitingar og slík loforð í sambandi við alþingiskosningar, eða manni hefur stundum heyrzt því bregða fyrir, að það væri nokkuð mikið um það í einstökum kjördæmum, að það væri lofað ýmsum fyrirgreiðslum, svo framarlega sem menn vildu kjósa vissa flokka. Og nú skal ég taka dæmi um, hvernig mætti nota þá aðferð, sem hæstv. ríkisstj. hefur notað hér. Við skulum segja, að hér sæti minnihlutastjórn Sjálfstfl. að völdum, - og það hafa verið tvísvar sinnum á undanförnum 15 árum minnihlutastjórnir Sjálfstfl. hér að völdum, — og við skulum segja, að það ætti að fara fram aukakosning, t.d. í Vestur-Ísafjarðarsýslu, og við skulum segja, að Sjálfstfl. þætti eitthvað gott að geta unnið þá sýslu. Við skulum t.d. segja, að hann vantaði bara þetta eina kjördæmi til að fá meiri hluta á Alþingi, við skulum segja, að hann fyndi upp á því að flytja 20 fjölskyldur héðan úr Reykjavík og setja þær niður á Flateyri, og við skulum segja, að svo væru gefin út brbl. af ríkisstj. um, að vegna sérstaklega mikillar mannfjölgunar í viðkomandi kjördæmi væri alveg óhjákvæmilegt, að það yrði jafnvel að semja nýja kjörskrá, til þess að þeir góðu borgarar, sem bætzt hefðu við í þessu ágæta kjördæmi, gætu fengið einhvern rétt til þess að nota sín atkvæði; það væru sett brbl., og við skulum segja, af því að það er nú stundum þannig í kjördæmunum hérna og er reiknað drjúgt út undir kosningar, að það muni ekki meiru en 20 fjölskyldum, það verða kannske 50–60 atkvæði, og Sjálfstfl. og ríkisstj. ynni kjördæmið á þessu og fengi jafnvel meiri hluta á Alþingi, sem náttúrlega með mestu ánægju mundi samþykkja þessi brbl. á eftir, en þyrfti ekki einu sinni á því að halda, hann væri hvort sem er með setningu brbl. búinn að tryggja sér viðkomandi kjördæmi.

Ég vil benda hæstv. félmrh. á, að ef á að fara svona að, eins og gert hefur verið viðvíkjandi Kópavogskaupstað, þá er verið að gefa fordæmi, sem aðrir geta notað á eftir; ef svona óskammfeilið á að reyna að beita pólitísku ofurkappi í sambandi við kosningar eins og gert hefur verið í sambandi við þær kosningar, sem fram hafa farið og fram voru knúðar í Kópavogskaupstað.

Ég vil taka fram, að það er svo sem ekki aðeins í sambandi við aukakosningar, sem hægt væri að nota svona. Það er hægt að kukla svona við kjörskrá og kosningalög með brbl. líka fyrir almennar þingkosningar.

Ég vil vekja eftirtekt hv. þingmanna á því, að það hefur verið reiknað út, t.d. fyrir síðustu kosningar og alveg sérstaklega af hálfu Sjálfstfl., að hann þyrfti ekki að fá nema eitthvað um 400 atkvæðum meira í ákveðnum kjördæmum á landinu, tiltölulega fáum kjördæmum, til þess að Sjálfstfl. fengi hreinan meiri hluta á Alþingi.

Ef það sæti t.d. ríkisstj. Sjálfstfl. að völdum eftir kosningar eða jafnvel þótt það ættu ekki að fara fram kosningar, heldur fyndi upp á því að rjúfa þing, skyldi það nú vera sérstaklega mikið verk fyrir hana að láta flytja eina 400 menn á rétta staði á réttum tíma, þannig að aðrir væru þá máske ekki viðbúnir að svara á svipaðan hátt, miða kjörskrá við daginn eftir að þessi nýja viðbót hefði komið í viðkomandi kjördæmi og ákveða þannig, hverjir skuli fá að greiða atkvæði í viðkomandi kjördæmi? Það er stundum gott, að menn séu ofur lítið íhaldssamir, og það, sem liggur á bak við hugmyndina um kosningarnar og kosningalögin og ákveðin umdæmi, sem okkur virðist oft dálítið gamaldags, er sú hugsun, að það sé ekki hægt að hringla í þessum efnum, að menn verði að vera búsettir nokkru löngu áður á viðkomandi stað, en hins vegar er mönnum tryggt í staðinn, þó að þeir séu fluttir eitthvað burt eða slíkt, að menn geti fengið að nota sinn kosningarrétt á sínum gamla stað.

Þegar farið er þess vegna að breyta til í þessum efnum, þá er farið inn á mjög hættulega braut, inn á svo hættulega braut, að óvandaðar ríkisstjórnir gætu jafnvel með því að halda áfram á þeirri braut, sem hér er farið inn á, skapað sér ef til vill meiri hluta á Alþingi með svona aðförum, og ég vil alvarlega segja það við hv. þm. og ekki sízt hv. þingmenn Framsfl., að þeir eiga ekki að veita sitt samþykki slíku fordæmi sem hér er gefið.

Það muna allir hv. alþm. eftir, með hvílíku ofurkappi það var sótt hér á Alþingi að knýja fram lögin um að gera Kópavogshrepp að sérstökum kaupstað. Það hefur síðan verið viðurkennt, líka af ýmsum framsóknarmönnum, að þarna hafi verið ekki aðeins rangt að farið, heldur líka illa að farið. Þetta var viðurkennt, eftir að Kópavogsbúar höfðu sjálfir mótmælt öllum aðförum ríkisstj. og stjórnarflokkanna hér á Alþingi í þessum efnum, veitt hæstv. ríkisstj. slíka ráðningu, að lengi mun í minnum höfð í íslenzkri stjórnmálasögu.

Með kosningunum í Kópavogskaupstað lýsti meiri hluti kjósendanna í Kópavogskaupstað vantrausti á hæstv. félmrh. og hæstv. forsrh., vantrausti á afskipti ríkisstj. af þessum málum og lýsti að sama skapi trausti sínu á þeim manni, sem var áður oddviti í Kópavogshreppi og nú er bæjarstjóri í Kópavogskaupstað, Finnboga R. Valdimarssyni, hv. 6. landsk. þm. Kjósendur í Kópavogskaupstað gerðu þetta svo eftirminnilegt, að sá sigur, sem þeirra samtök undir forustu Finnboga R. Valdimarssonar unnu við kosningar í Kópavogi í sumar, er einhver með eftirtektarverðustu stjórnmálasigrum í íslenzkri sögu. Sá sigur er unninn á móti ríkisvaldinu, þó að menn séu rétt undir handarjaðrinum í því. Hann er unninn, þó að beitt sé tilraunum til þess að hafa áhrif á sannfæringu manna með hvers konar loforðum og slíku sem hugsanlegt var. Þessi sigur var bókstaflega uppreisn lýðræðisaflanna í Kópavogskaupstað á móti því lénsvaldi og því ofbeldi, sem stjórnarflokkarnir gerðu sig seka um að beita í sambandi við allt þetta mál. Það hefði þótt í flestum þingræðislöndum ástæða, bæði fyrir hæstv. forsrh. og félmrh., til að segja af sér eftir alla þeirra framkomu í sambandi við þetta mál hér á þingi og framkomu þeirra gagnvart þessum litla hrepp og kaupstað, og ég álít, að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, hvort sem það verður nú allshn. eða félmn., ætti að athuga það alvarlega, hvort hún á ekki að samþykkja vítur á hæstv. ríkisstj. fyrir að haga sér þannig eins og gert hefur verið í þessum málum.

Alþingi á hins vegar þarna nokkra sök sjálft. Meiri hluti þingmanna hefur farið inn á þá leið að láta undan fyrir óbilgirni og ofurkappi tveggja ráðherra og samþykkja lög, sem ég veit að þorrinn af þeim þingmönnum, sem samþykktu þau, hefur gert undir samvizkunnar mótmælum.

Ég álít, að Alþingi eigi að bæta fyrir þá ósvinnu, sem það hafði í frammi með afgreiðslunni á lögunum um kaupstað í Kópavogi á síðasta þingi. Nú hefur bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar komið saman, og á sínum fyrsta fundi hefur hún farið fram á það við Alþingi og ríkisstj., að gert væri fyrir Kópavogskaupstað það, sem gert hefur verið fyrir flesta kaupstaði og talið sjálfsagt. Bæjarstjórn Kópavogs hefur á sínum fyrsta fundi samþykkt eftirfarandi till. frá sínum bæjarstjóra, Finnboga R. Valdimarssyni, sem ég, með leyfi forseta, vil leyfa mér að lesa:

„Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir að æskja þess af ríkisstj., að ríkissjóður selji Kópavogskaupstað öll erfðaleigulönd og byggingarlóðir úr landi jarðanna Digraness og Kópavogs og fari afhending landsins fram eins fljótt og við verður komið. Skorar bæjarstjórnin á félmrh. að leggja hið fyrsta fyrir Alþingi það, sem nú situr, frv. til laga, er heimill umrædda sölu og ákveði, að lönd þessi skuli metin til verðs sem óbyggð væru, með tilliti til þess, að núverandi verðmæti þeirra umfram óbyggð lönd er árangur af elju íbúanna sjálfra.

Bæjarstjórn heitir á þingmann kjördæmisins og uppbótarþingmenn þess að veita máli þessu fyllsta stuðning á Alþingi.“

Þetta var samþykkt einróma af bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar, og þessi réttarbót, sem þarna er farið fram á, er réttarbót, sem flestir kaupstaðir á landinu hafa óskað eftir og fengið og hafa talið mikils virði fyrir sig. Ég veit ekki sízt, hvað Akureyrarkaupstaður hefur lagt upp úr því, að hann fékk snemma aðstöðu til þess að kaupa allmikið af þeim lóðum og löndum, sem kaupstaðurinn byggist á.

Alþingi ætti að láta það verða eitt af sínum fyrstu verkum til þess m.a. að bæta fyrir, hvernig það fór að í vor, að verða við þessum tilmælum, og það væri fróðlegt að heyra nú frá hæstv. félmrh., hvort hann hefur hugsað sér að leggja slíkt frv. fyrir Alþingi eins og þarna er farið fram á. Slíka umhyggju sem hæstv. félmrh. og hæstv. forsrh., sem er þm. Gullbringu- og Kjósarsýslu, sýndu fyrir því að gera Kópavog að kaupstað, þá mætti ætla, að þeir vildu fylgja þeirri umhyggju eftir með því að láta þennan kaupstað nú fá þær lóðir og lendur, sem hann þarna biður um og eru í eigu ríkisins.

Viðvíkjandi þeirri lögfræðilegu hlið þessa máls, sem að Alþingi snýr, álít ég, að þessu frv. beri Alþingi að taka á þann hátt, það föstum tökum, að komandi ríkisstjórnir viti, að svona megi þær ekki haga sér aftur.

Svo skulum við athuga ofur lítið pólitísku hliðina á þessu máli. Það var vitanlegt, að það var hlaupið af stað með þetta mál um að ákveða að gera Kópavog að sérstökum kaupstað á síðasta þingi. Nokkrir útsendarar Sjálfstfl. og Framsfl. — aðallega hægri klíkunnar í þeim flokki — töldu, að með því að geta beitt nægilega vel því valdi, sem ríkisstj. var að leggja í hendur vissra manna með húsnæðismálalöggjöfinni og hún hafði fyrir með lóðaúthlutuninni, mundu þeir geta steypt þeirri stjórn, sem samtök alþýðumanna hafa haft í Kópavogshreppi undanfarið. Þessir útsendarar Sjálfstfl. og hægri Framsóknar töldu þess vegna sínum forustumönnum hér í Reykjavík trú um, að það þyrfti ekki annað en að knýja fram einu sinni enn kosningar í Kópavogi, til þess að það væri hægt að steypa þeim ægilega manni, Finnboga R. Valdimarssyni, af stóli og koma einhverjum útsendara Framsóknar eða Sjálfstfl. þar í staðinn, og til þess að fá nú einar kosningar enn í Kópavogshreppi væri ekki annað ráð en að gera hann að kaupstað. Þetta voru upptökin að því, að farið var af stað með þetta mál. Þegar þessir útsendarar Sjálfstfl. og hægri Framsóknar höfðu talið sínum forustumönnum hér trú um, að þetta væri hægt, þá bitu þessir forustumenn á agnið, hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh., og köstuðu hér inn í þingið frv., sem var þannig útbúið og á slíkum forsendum, að það stóðst enga gagnrýni. Þegar þetta frv. var hér fram komið, þá var þessu fylgt á eftir með slíku offorsi, að slíkt hefur sjaldan þekkzt hér í þingsögunni. Það, sem þá var komið til greina, var metnaður þeirra valdsmanna, sem þarna áttu í hlut, og sérstaklega sótti hæstv. forsrh. það mjög skarpt og barðist harðvítuglega fyrir þessu, og mér þykir það mjög leitt, að hann skuli ekki vera hér viðstaddur nú, en hann mun vera sjúkur, til þess að hægt sé nú að taka upp við hann ofur lítið umræðurnar frá siðasta þingi, því að hann þyrfti þess sannarlega með. Hins vegar veit ég ekki, hvort hann verður viðstaddur umræður um þetta mál hér, því að ég er ekki alveg viss í, að ríkisstj. ætli að setja þetta mál í gegnum þingið. Ég er hálfhræddur um, að hún láti þetta sofna í nefnd. En ég vil hins vegar, ef þetta mál skyldi ekki koma fyrir aftur, minna á það, að fyrir okkur voru þá lagðar hér undirskriftir, sem safnað hafði verið af kosningasmölum stjórnarflokkanna, og það var sagt við okkur þingmenn: Hvað viljið þið eiginlega vera að ræða um þetta mál og halda því fram, að Kópavogsbúar óski ekki eftir þessu? Hér höfum við undirskriftir þeirra fyrir því. — Við vissum, hvernig undirskriftirnar voru fengnar, það var vaðið um í Kópavogshreppi. Mönnum var lofað öllu mögulegu eða hótað ýmsu, ef þeir skrifuðu ekki undir, og sumar undirskriftir voru meira að segja falsaðar, og mikið af undirskriftunum var frá mönnum, sem höfðu ekki atkvæðisrétt. Þegar þessar undirskriftir svo komu hér, sagði hæstv. forsrh. þessi orð: Ég held, að það sé beztur úrskurður um raunverulegan vilja fólksins að lofa því að greiða atkvæði opinberlega, og það er það búið að gera.

Þetta voru orð hæstv. forsrh. þá, þegar við héldum því fram, að það ætti að leyfa Kópavogsbúum að greiða atkvæði leynilega um þetta mál, hvort þeir vildu kaupstað í Kópavogi eða ekki. Forsrh. hélt því fram, að þeir væru búnir að greiða atkv. með undirskriftum, og gaf þá yfirlýsingu, að það væri yfirleitt bezt, að menn greiddu atkv. opinberlega, en ekki leynilega. Siðan fór fram leynileg atkvgr. í Kópavogi, og þá var reynt af hálfu stjórnarfl. að hindra menn í að taka þátt í þeirri leynilegu atkvgr. Það var reynt að hræða menn frá því. Það var reynt á allan hátt að hafa áhrif á menn í þá átt, að þeir tækju ekki þátt í þessari leynilegu atkvgr. Með þessu offorsi var farið að. Fyrst var þessum undirskriftum safnað, síðan var reynt að hindra menn í að taka þátt í að greiða atkv. leynilega, og svo á eftir voru gefin út brbl. um kjörskrá, og til þess að firra sig þeirri hættu, að Alþingi kynni að breyta þeim brbl., eru kosningar ákveðnar viku áður en Alþingi kemur saman. Þetta er pólitíska offorsið í sambandi við kosningarnar, sem fram voru knúðar í Kópavogi. Og hvað kemur svo út úr þessu öllu saman? Út úr þessu öllu saman kemur það, að fólkið, sem átti að berja niður í Kópavogi, að samtök almennings í Kópavogi, sem stóðu bak við og höfðu fyrir sinn forustumann Finnboga Rút Valdimarsson, koma sterkari út úr löglegum, leynilegum kosningum en þau hafa verið nokkru sinni fyrr. Það verður seint fullmetið, hvað það þýddi, að Kópavogsbúar svöruðu svo drengilega sem þeir gerðu því tilræði, sem þeim var sýnt.

Það var haft í frammi af hálfu stjórnarvaldanna tilræði við almennar, leynilegar kosningar. Það var haft í frammi tilræði við lýðréttindi fólksins. Og þetta tilræði var gert af hálfu þeirra, sem alltaf eru með orðið lýðræði á vörunum. Það var reynt að kúga menn til þess að framfylgja ekki sannfæringu sinni. Það var reynt að kaupa menn til þess, að þeir kysu ekki eins og hugur þeirra bauð þeim. Það var beitt yfirleitt þeim tilræðum, sem stjórnarblaðið Tíminn stundum kennir við Suður-Ameríku, til þess að reyna að steypa þeirri stjórn, sem var í Kópavogshreppi. Og ekkert af þessu dugði. Þegar fólkið í Kópavogi fékk með leynilegri atkvæðagreiðslu að tjá sinn vilja, þá fylkti það sér þannig á móti stjórnarflokkunum, þannig á móti því ríkisvaldi, sem ætlaði að beita það hörðu, að það gaf því slíka ráðningu, að eftirminnileg verður.

Ég held, að stjórnarflokkarnir megi láta sér kosningaúrslitin í Kópavogi að kenningu verða, að það dugir ekki gagnvart íslenzkum kjósendum að ætla að beita þeim aðferðum, sem þar voru hafðar í frammi. Allt lóðabraskið, öll loforðin um íbúðalánin, allar þær beinu og óbeinu mútur, sem reynt var að hafa, öll sú kúgunarherferð, sem farin var, öllu hefur þessu verið hrundið. Kópavogsbúar hafa hrundið allri þessari árás. Og þeir hafa vottað sínum oddvita í þeirri baráttu, sem nú er orðinn þeirra bæjarstjóri, slíkt traust, að það er langt síðan annað eins hefur verið veitt, ekki sízt við þær aðstæður, sem þarna var búið, í kosningum hér á Íslandi. Og heiður sé þeim fyrir það, meiri hlutanum í Kópavogskaupstað. Þeir hafa sýnt, hvernig á að verja lýðréttindi fólks gegn ofsókn einræðissinnaðra stjórnarvalda. Þeir hafa sýnt, hvernig á að verja lýðréttindi og lýðræði á móti þeim ólögum og þar á meðal þeim brbl. og öllum þeim ofsóknum, sem í frammi voru hafðar. Þeir hafa sýnt, hvernig á að verja manngildið á móti þeim tilraunum til sannfæringarsölu, sem þar var beitt.

En ég vil spyrja: Hefur sú ríkisstj., sem beitt hefur þeim aðferðum, sem beitt hefur verið við íbúana í Kópavogi, ekki setið nógu lengi? Hefur ekki ríkisstjórn, sem gert hefur sig seka um svona aðfarir, einbeitt sér svona á eitt lítið kjördæmi í landinu, ekki fengið slíka ráðningu af kjósendum, að hún ætti að sjá sóma sinn í því að segja af sér?

Ég held, að þetta Kópavogsmál verði lengi í minnum haft. Við töluðum hér í fyrra, þegar allar undirskriftirnar komu hér fyrir Alþingi, um undirskriftir, sem fram höfðu farið einu sinni fyrrum í Kópavogi, og töldum margar þeirra, sem hér lágu fyrir okkur í vor, lítt betur fengnar en þær, sem gerðar voru þá. Undirskriftunum, sem hæstv. ríkisstj. stóð fyrir, þeim einræðisaðferðum, sem beitt var og átti að brjóta Kópavogsbúa á bak aftur með, hefur nú verið svarað með þeim lýðræðislegu aðferðum fólksins í Kópavogi, með því, að meiri hluti íbúanna í Kópavogi hefur lýst sig fylgjandi einmitt þeim manninum, þeirri stefnunni, þeim samtökunum, sem ríkisstj. ætlaði að hnekkja.

Kosningin í Kópavogi hefur þegar orðið fyrirmynd fyrir fólkið um allt land um, hvernig eigi að svara, þegar ein ríkisstj. ætlar að fara að beita fólk ofurkappi og ofbeldi. Nú er það Alþingis að sýna, að það kunni að standa vörð um sinn rétt í þessum efnum, um þann rétt, að engin ríkisstj. geti leyft sér að vera að káka við kosningalögin, grundvöllinn að stjórnarskipuninni, með þeim aðferðum, sem hér er gert. Ég álit þess vegna, að við afgreiðslu þessa máls á Alþ. eigi að taka þannig á því, að slíkt hneyksli eins og gerzt hefur í þessum efnum verði ekki gert aftur.