24.10.1955
Neðri deild: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (1568)

16. mál, kjörskrá í Kópavogskaupstað

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. ræddi ofur lítið um það, sem ég hafði sagt um þetta mál, og mér þykir mjög leitt, að hann skuli ekki sýna sig í þessari hv. d. nú. Það var að vísu hraustlega gert af honum að hafa þó framsögu í málinu og taka til máls aftur, en það hefði verið karlmannlegra að reyna að halda áfram, fyrst hann kaus ekki þann kostinn að biðja þessa d. afsökunar á allri þessari lagasetningu sinni og öllum afskiptum sínum af þessu máli. Hann tók þann kostinn að saka mig um ýmsa hluti, en standa aftur á móti sjálfur mjög fastur á því, að allt hefði verið rétt, sem hann hefði gert. Ég held, að það sé nú bezt út frá því að athuga ofur lítið og rifja upp, hvernig stendur á því, að hæstv. félmrh. og hæstv. forsrh. og raunverulega þar með ríkisstj. öll skuli vera komin í þá flækju og vera búin að gera sér þá skömm, sem þeir hafa gert sér með öllum sínum afskiptum af þessu svonefnda Kópavogsmáli.

Ég vil þá í fyrsta lagi mínna menn á, að það var kosið í hreppsnefndina í Kópavogi 1954, og mótsett við það, sem gert var með aðra hreppa í landinu, var ekki kosið þar bara einu sinni, heldur var kosið þar tvísvar. M.ö.o.: Kjósendur í Kópavogi höfðu fengið mjög gott og meira að segja endurtekið tækifæri til þess að láta í ljós sínar skoðanir á því, hvers konar stjórn skyldi fara þar með ráðin í hreppnum. Í þessum tveim kosningum, sem fram fóru 1954, var ekki minnzt einu orði á það af hálfu þeirra flokka, sem voru í andstöðu og voru í minni hluta í Kópavogi, að það þyrfti að skapa kaupstað upp úr Kópavogshreppi. Það mál hafði alls ekki komið til greina. Hins vegar var valdhöfunum hér í Reykjavík, hæstv. ríkisstj., illa við úrslitin í þessum tveim kosningum. Ríkisstj. var strax illa við úrslitin í fyrstu kosningunum og lét þess vegna endurtaka kosninguna af hreinni átyllu, notaði smávægilega átyllu, sem annars hefur aldrei verið notuð í bæjarstjórnarkosningum eða hreppsnefndarkosningum hér. En valdhöfunum líkaði ekki heldur við hin endurteknu úrslit, og hvað er þá gert? Jú, það, sem er gert, er það, að fundið er upp á því að fara að breyta Kópavogshreppi í kaupstað til þess að fá fram þriðju kosningarnar. Það er farið að hringla með löggjöf um þessa hluti hér á Alþingi eingöngu í einum einasta tilgangi, og það er í þeim tilgangi að láta verða einar kosningar enn þá í Kópavogi, enda kom það greinilega fram í ræðum hæstv. forsrh., þm. G-K. (ÓTh), við þær umr., sem hérna fóru fram; að það, sem hann áleit að væri hægt að gera með því að láta fara fram einar kosningar ennþá, þótt þær kostuðu það að gera Kópavog um leið að kaupstað, væri að steypa þeirri stjórn, sem Kópavogsbúar höfðu kosið sér, og þá alveg sérstaklega að koma þar oddvitanum, sem verið hefur, Finnboga R. Valdimarssyni, hv. 6. landsk., út úr forustuaðstöðunni þar, keppinaut hans í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Svona var í pottinn búið með þetta mál. Það var ekki af áhuga fyrir því að skapa kaupstað í Kópavogi, sem lög um kaupstað í Kópavogi eru sett hér í gegnum Alþ. Það var af áhuga fyrir því að fá fram þriðju kosningarnar í Kópavogi til þess að reyna að pína og véla kjósendurna þar til þess að kjósa sér stjórn, sem væri að skapi auðvaldsins í Reykjavík, og þetta lét meiri hluti Alþ. hafa sig út í að samþykkja, þótt það megi geta þess um leið, þeim þm. stjórnarflokkanna, ja, ég vildi segja til maklegs hróss kannske, að þeir þögðu yfirleitt um málið. Það stóð enginn þeirra upp til þess að reyna að verja það, þegar það var sett í gegn, en þeir greiddu kannske atkvæði með samvizkunnar mótmælum margir þeirra.

Lögin um kaupstað í Kópavogi og þar af leiðandi þessi lög um kjörskrána í Kópavogi eru sett fram til þess að reyna að koma frá lýðræðislega kosinni stjórn í þessum hreppi, sem nú er orðinn að kaupstað, af því að valdhöfunum líkaði ekki við þessa stjórn. M.ö.o.: Þegar fólkið í þessu viðkomandi umdæmi er búið að láta í ljós sínar skoðanir á þann hátt, sem stjórnarskráin fyrirskipar, með leynilegri atkvgr., þá á fyrst að þvinga það til þess og reyna að binda það með því að undirskrifa opinberlega áskoranir hér til Alþ., sem lýst er yfir af hálfu forsrh. að hafi meira gildi en leynilegar kosningar, og svo á eftir með brbl. um sérstaka kjörskrá að reyna að útiloka svo og svo marga menn, sem annars höfðu löglega kosningarrétt í Kópavogi, frá því að kjósa, allt í trúnni á það, að með öllu þessu móti geti tekizt að steypa þeirri stjórn, sem meiri hl. íbúanna í Kópavogi hafði kosið sér. Það var verið að skapa átyllu til þess að láta fara fram einar kosningar enn þá, og þetta er vert að menn muni, því að þetta er misnotkun á löggjafarvaldi Alþingis. Öll þessi lagasetning, bæði brbl., sem núna liggja fyrir, og laganna þá, er í þeim tilgangi að þóknast valdhöfunum hjá þjóðinni, sem þar eru í augnablikinu, en út frá öllu þessu er svo ríkisstj. búin að flækja sér inn í slíka bendu, að hún veit ekki, hvernig hún á að komast út úr þessu nú. Þess vegna stendur hún nú uppi ráðþrota, þorir ekki að verja sitt mál hér, hefur það raunar eitthvað svipað og hún hafði það, þegar við vorum að ræða hérna um sjálf kaupstaðarlögin, og ætlast svo bara til þess, að hennar flokksmenn hlýði henni, standi stöðuglega við allt, sem hún gerir, hvaða hneyksli sem það er. En þó er hún svo langt komin nú, að t.d. í sjálfu blaði hæstv. félmrh., Tímanum, birtast greinar undirskrifaðar af mönnum, sem forustu áttu að hafa í Framsfl., um, að þetta hafi verið frumhlaup og að þetta hafi verið rangt, sem þarna var gert. Auðvitað er það gefið mál, að hefði verið farið að, án þess að um ofsókn hefði verið að ræða gegn lýðræðislega kosinni stjórn í Kópavogshreppi, þá hefði auðvitað verið beðið þangað til á þingi 1957 með að setja lög um kaupstað í Kópavogi, ef þá hefði legið fyrir ákvörðun og samþykkt á því af hálfu meiri hl. hreppsnefndar, eftir að fram hefðu farið tilraunir til sameiningar við Reykjavík og ekki tekizt, og þá hefðu farið fram kosningar, ef sett hefðu verið lög um kaupstað í Kópavogi, í janúar 1958 eins og í öðrum bæjum landsins. Það, hve sérstaklega var þarna að farið, var sem sé eingöngu með það fyrir augum að fá einar kosningarnar enn þá, fá þriðju kosningarnar á hálfu öðru ári.

Þegar hæstv. ríkisstj. er búin að misnota sitt vald og fylgispekt þm. sinna til þess að hefja ofsóknir á hendur lýðræðislega kosinni stjórn í Kópavogshreppi og er farin á rassinn með þetta allt saman og hefur fengið slíka ráðningu í kosningunum, að flestar stjórnir eða a.m.k. þeir ráðherrar, sem þarna voru ábyrgir, hefðu sagt af sér á eftir, þá kemur nú hæstv. félmrh. hér fram og fer að tala um, að þeir menn, sem séu að tala á móti sér í þessu efni í þessu máli, skilji ekki anda lýðræðisins.

Ég verð að segja það, að farið er að færast fullmikið í aukana að reyna að kenna allar ofsóknir og allt ofbeldi, sem núverandi valdhafar beita, við lýðræði, og ég held, að þessir hæstv. ráðh. ættu að gæta sín ofur lítið í notkuninni á þessu orði. Hafi verið nokkurs staðar brotið á móti anda og bókstaf lýðræðisins í sambandi við allt þetta framferði, þá er það með framkomunni viðvíkjandi Kópavogshreppi og íbúum hans, og það er ekki valdhöfunum að þakka, að þeir ráku þá eins duglega af höndum sér og þeir gerðu. Meira að segja sjálfur forsrh. fór þangað suður eftir. Þó að hann hafi ekki tíma einu sinni til þess að skreppa til Danmerkur og tala við forsrh. þar, þá fór hann suður í Kópavog til þess að stjórna kosningunum þar og sýna, að hann gæti lagt alþýðuna þar að velli, sem hafði skapað sér samtök um, hvernig ætti að stjórna þeim hreppi.

Ég held þess vegna, að það sé tími til kominn, að hæstv. félmrh. fari nú að reyna að kynna sér anda lýðræðisins og læra eitthvað af mistökum þeirra kumpánanna í sambandi við þeirra framferði í Kópavogshreppi. Hann leyfði sér að staðhæfa hér annað eins og það hér í umr., að hvenær sem svona stæði á, mundi hann aftur gefa út svona brbl. Og nú, þegar hv. 11. landsk. hefur þar að auki sýnt fram á, með hvílíkum endemum þessi lög eru samin, þá sjá hv. þm. bezt, hve fjarri öllum sanni og hve fjarri öllu viti það er að láta einni ríkisstj. haldast uppi að fara að eins og hún hefur gert, fyrst með því að píska lagasetninguna um kaupstað í Kópavogi í gegnum þingið með því móti sem gert var og svo með því að gefa út önnur eins endemislög og þau, sem hérna liggja fyrir.

Það er eins og hæstv. félmrh. skilji ekkert af því, sem sveitarstjórnarlögin og kosningalögin yfirleitt byggjast á, ekkert af þeirri hugsun, sem ég var þó ofur lítið að reyna að skýra hér fyrir honum við 1. umr., búsetuskilyrðið allt, — hugsun, sem einu sinni var Þó svo rík í hugum okkar Íslendinga, að við álítum alveg sérstaka ástæðu til þess að nota þau ákvæði um búsetuskilyrðin til þess að vernda okkur gegn vissri hættu, sem við álitum stafa af sambandslagasamningunum frá 1918. Ég margtók fram í þeirri ræðu, sem ég hélt, að það hefði legið ákveðin hugsun á bak við þær ákvarðanir, sem væru viðvíkjandi manntalinu, gildistöku þess og öllu slíku. Ekkert af þessu virtist hæstv. félmrh. skilja. Svo talaði hæstv. félmrh. um, að það, sem ég hefði sagt, ekki sízt þegar ég hefði minnzt á kaup og sölu í sambandi við kosningarnar, væri allt saman mælt út í loftið, og hann kvaðst ekki þekkja þetta innræti.

Það er leitt að heyra hæstv. ráðh. vera með slíkan Pílatusarþvott, sama ráðh. sem sett hefur sérstakan lénsherra, sem ekki hefur verið uppi hér á Íslandi nú í nokkrar aldir, í Kópavogshrepp til þess að reyna í krafti eignarréttar ríkisins á jörðum í Kópavogshreppi að hafa áhrif á skoðanirnar. Mér er sem ég sjái, hvernig skrifað mundi vera í Tímanum og að makleikum, ef ráðh. Sjálfstfl. leyfðu sér einhverja svona hluti. Þessi umboðsmaður, þessi lénsherra, er svo látinn vera efsti maður á lista Framsfl. í Kópavogshreppi og gera alveg sérstaklega mikið að því að úthluta og lofa úthlutunum og öðru slíku rétt fyrir kosningar og vera þar að auki umboðsmaður þeirra, sem eiga að úthluta íbúðarhúsalánum, og svo kemur þessi hæstv. félmrh., sem hefur skipað þennan lénsherra og séð um, að hann yrði umboðsmaður fyrir úthlutun íbúðarhúsalána, og segir og þvær sínar hendur: Ég þekki ekki slíkt innræti eins og að vera að tala um kaup og sölu í sambandi við kosningar.

Hæstv. félmrh. var að tala um, að ég væri að tala mikið í þessu máli. Ég skil það ósköp vel. að honum finnist ég tala of mikið. Það hefur nú samt sýnt sig, að ég og þeir, sem höfðu sömu skoðun og ég, bæði flokksbræður mínir í Sósfl. og hv. 3. landsk. úr Alþfl., sem töluðu mikið í Kópavogsmálinu, hafa talað fyrir munn fólksins. Þeir höfðu rétt að mæla í þessum efnum. Þeir hafa talað fyrir því, sem rétt var, og ég vil leyfa mér bara að spyrja að því, hvort sé nokkur sá maður í þinginu nú, og þar að forsrh. og hæstv. félmrh. meðtöldum, sem ekki mundi heldur kjósa, að hann hefði látið vera að samþykkja lögin um kaupstað í Kópavogi á síðasta þingi og sloppið við allt, sem síðan hefur gerzt. Mér þætti a.m.k. ákaflega gaman að fá yfirlýsingu hérna frá hv. þm. um, að þeir væru harðánægðir með allt þetta, sem þeir hefðu gert og hlotizt hefði af þeirra verkum. Ég held þess vegna, að það væri bezt fyrir þessa hæstv. ráðh., næst þegar þeir kvarta um, að við tölum of mikið, að hlusta ofur lítið betur á það og fara dálítið meira eftir því. Það mundi kannske forða þeim frá nokkrum hneykslum, sem þeir gera sig seka um annars. Hins vegar býst ég náttúrlega við, þó að stólarnir þeirra kunni að vera góðir, að þeir heyri ekki mikið. En það mætti a.m.k. þýða það, að þeir færu í framtíðinni að hugsa sig dálítið um, hvað þeir bjóða Alþingi.

Um eitt gekk þó hæstv. félmrh. það langt, að hann baðst afsökunar, og það var um það, að hann sagðist ekki hafa athugað í tíma, að það hefði þurft að breyta lögunum um kjörskrá eða setja ný og sérstök ákvæði; annars hefði hann auðvitað séð um, að slík breyting hefði verið í frv. um kaupstað í Kópavogi, sem lagt var fyrir Alþ. Það sagði hann að væri yfirsjón, sem hann bæðist afsökunar á, og það væri öllum eðlilegt að gera mistök. En hæstv. félmrh. og forsrh. höfðu í því frv., sem þeir lögðu fyrir Alþ., sjálfir tilgreint í grg. þá tölu um fjölda þeirra, sem væru á manntali í Kópavogshreppi, sem er tilgreind í þeirra greinargerð til forseta Íslands, þegar þeir biðja um bráðabirgðalög, 3228. Og þessi mannfjölgun þar var eina röksemdin hjá þeim auk hinna undarlega fengnu yfirlýsinga um, að það ætti nú að fara að gera Kópavogshrepp að kaupstað. Í öllum þeirra umr. kom það alveg greinilega fram og einmitt í því, sem verið var að ræða um kjörskrána, eins og hv. 11. landsk. kom hér inn á áðan, að þeir vissu um þetta, og það lá í loftinu hjá þeim, að þeir ætluðust til þess, að það yrði nú eitthvað breytt þarna um, að það yrði séð um, að það yrði almennileg kjörskrá, sem kosið væri eftir. En þeir voru, strax eftir að afhjúpuð voru fyrstu hneykslin þeirra, ósannindin, sem voru í grg., sem þeir lögðu þá fyrir Alþingi, blekkingarnar, sem þar voru, orðnir svo feimnir við meðferð málsins á þingi, að þeir þorðu ekki að leiðrétta eða gera tilraun til að leiðrétta nokkurn skapaðan hlut í sambandi við þetta mál. Ef hæstv. félmrh. hefði lesið sæmilega grg. fyrir því frv., sem hann flutti sjálfur í fyrra, og ég tala nú ekki um, ef hann hefði hlustað á umr., sem fram fóru hér á Alþ., þá hefði hann breytt þessu þá. En það er eins og þetta hafi verið gert svo hugsunarlaust, svo gersamlega út frá metnaðinum og ofbeldislönguninni einni saman, að ekkert vit komst þarna að. Þess vegna var það meira en þetta, sem hæstv. félmrh. átti að biðjast afsökunar á. Hann átti að biðjast afsökunar á öllum afskiptunum af þessu máli; þau hafa verið eitt hneyksli frá upphafi til enda.

Hv. 11. landsk. sýndi hér fram á áðan, hvernig meira að segja sjálf þessi brbl. eru þannig úr garði gerð, að strax og þau hafa öðlazt gildi og kosningarnar 2. okt. eru liðnar, eru menn, sem sviptir voru kosningarrétti með þessum brbl., búnir að fá kosningarréttinn aftur. Hafði hæstv. félmrh. kannske ekki heldur hugsað út í þetta? Eða tekur hann fyrst eftir þessu, þegar hv. 11. landsk. bendir honum á það? Eða ætlar hann að standa sig álíka vel og seinast, að heyra ekki einu sinni það, sem honum er bent á hér? Á enginn endir að verða á öllum þeim hneykslum og vitleysum, sem verða í sambandi við löggjöf frá Alþ. í sambandi við þetta mál? Það hefur komið fyrir hæstv. ríkisstj. áður, að hún hefur orðið að setja sérstök brbl., meira að segja norður á Sauðárkróki, til þess að laga lög, sem hún var að píska í gegnum þingið, m.a. af því að hún vildi ekkert tillit taka til þess, sem henni var bent á, meðan lögin voru til meðferðar. Og mér sýnist, að þetta eigi að fara að verða regla hjá hæstv. ráðherrum. Þá eru málin komin þannig, að þessi lög eru orðin um að svipta í 9 mánuði eða svo ákveðna kjósendur í Kópavogshreppi atkvæðisrétti og láta þá fá hann aftur eftir að bæjarstjórnarkosningarnar eru búnar, en sjá hins vegar um með því að setja brbl. eftir að þing er farið heim og láta kosningarnar fara fram áður en Alþ. kemur saman, að Alþ. hafi engan möguleika til að leiðrétta nokkurn skapaðan hlut í sambandi við þessa hluti.

Ég nefndi hér í sambandi við þær almennu umr. um þetta mál og það fordæmi, sem væri skapað með þessum lögum, dæmi um, ef Sjálfstfl. væri einn í ríkisstj. og t.d. væri að hringla eitthvað í sambandi við kosningalögin um Vestur-Ísafjarðarsýslu eða eitthvert slíkt kjördæmi, þar sem litlu munaði. Og í stað þess að vilja fara nú ofur lítið að hugsa út frá þessum athugasemdum, þá staðhæfir hæstv. félmrh. hér, að þetta sé allt saman hárrétt. M.ö.o.: Ef ætti að fara að misnota kosningalögin, rangfæra þau, gefa út brbl. til þess að geta séð um að flytja menn á milli staða í tíma, þannig að það kæmi ákveðnum flokki, sem við völd sæti, til góða, allt þetta virðist hæstv. félmrh. nú ætla að gleypa og samþykkja, eingöngu vegna þess að hann hefur einu sinni verið flæktur út í þessa vitleysu alla saman í sambandi við Kópavogshrepp. Í staðinn fyrir að sjá, hvers konar vitleysu hann sé búinn að gera, biðjast afsökunar á því og segja, að svona nokkuð láti Framsfl. ekki íhaldið hafa sig út í aftur, þá er komið hér og staðið alveg stíft á þessu: Jú, svona skulum við alltaf haga okkur, m.ö.o. eyðileggja eitt af því, sem er aðalgrundvöllurinn í sjálfum kosningalögunum, ákvæðið um búsetuna, trygginguna gegn því, að hægt sé að hringla þannig í sambandi við einstök kjördæmi, að hægt sé með skjótum flutningum manna að hafa úrslitaáhrif þar. Ég get skilið þetta, ef Framsfl. væri að búa sig undir að breyta stjórnarskrá og lögum þannig, að allt landið ætti að verða eitt kjördæmi. En meðan núverandi kjördæmaskipting stendur í landinu og ákvæði, sem nú eru viðvíkjandi búsetuskilyrðunum í kosningalögunum, eru ákaflega þýðingarmikil til þess að tryggja, að ekki sé hægt að misnota þau bókstaflega, þá hélt ég, að þetta væri varasamt fyrir Framsfl., svo að ég tali nú ekki um lýðræðið, að fara inn á þá braut að slá því föstu, sem hæstv. félmrh. hér gerir.

Hæstv. félmrh. sagði, að þetta væri ekki svo stórt mál, að það ætti að vera að rífast eins mikið út af því og ég hefði verið að gera. Þetta litla frv. væri ekki svo þýðingarmikið, að það borgaði sig. Það er alveg rétt, þetta er út af fyrir sig ekki stórt frv. En hins vegar eru afglöpin, sem eru orsökin að því, að það er fram komið, táknræn afglöp fyrir núverandi ríkisstjórn. Það eru afglöp, sem stafa af ofmetnaði, af ofbeldistilraunum gagnvart kjósendum, sem henni er illa við. Það eru afglöp, sem stafa af ofsókn gegn lýðræðislega kosinni stjórn í hreppsfélagi hér undir handarjaðrinum á Reykjavíkurauðvaldinu, hreppsstjórn, sem stjórnarflokkarnir þess vegna vildu steypa, hvað sem það kostaði, og fengu slíka ráðningu fyrir, að áhrif hefur haft um allt land. Þess vegna eru það táknræn afglöp, sem liggja til grundvallar þessu frv., sem hérna liggur fyrir. Annars gat ég ekki betur heyrt en hæstv. félmrh. mundi jafnvel ekki hika við að breyta hlutum, sem stærri væru en kosningalögin, ef núverandi valdhafar þyrftu á því að halda. Hann komst svo að orði í sinni ræðu, að það væri erfitt að fylgja stjórnarskránni út í æsar. Ég veit ekki, hvort hann hefur kannske verið að rifja upp fyrir sér, að hans flokkur og Sjálfstfl. hafa einu sinni leikið sér að því að brjóta stjórnarskrána og gefa sjálfum sér réttindi til að sitja á Alþ., þó að þeir hefðu þau ekki eftir stjórnarskránni, svo að ég tali ekki um þau stjórnarskrárbrot, sem þeir hafa framið síðan í sambandi við að koma hernum hingað inn í landið og annað slíkt. Ég held nú, að þeir menn, sem alltaf hafa lýðræðið á vörunum, verði að fara dálítið gætilega í sínu tali. Ég vil minna þá flokka, sem oft vilja kalla sig þá einu sönnu lýðræðisflokka hér í landinu, á það, að þeir eru um leið einu flokkarnir, sem hafa brotið stjórnarskrána í þessu landi, hafa svikizt um að láta fara fram kosningar. Ég held, að það sé rétt fyrir þá að tala varlega í þessum efnum. Við, sem börðumst á móti þeim afglöpum, sem gerð voru í sambandi við Kópavogsmálið, höfum aldrei brotið nein þau lýðræðisréttindi, sem við höfum í okkar landi, eða gert tilraun til að brjóta þau. Og það er vert fyrir hæstv. félmrh. að muna, að það erum við og þeir, sem hafa staðið með okkur, Sósfl. og Alþfl. og þeir, sem hafa staðið með þeim, sem hafa orðið að knýja það fram hér á Íslandi á síðustu 20 árum að auka lýðræðið í þessu landi, skapa meira og meira almennan kosningarrétt og jafna hann, en Framsfl. staðið á móti. Ég kann ekki við, að hæstv. ráðh. séu að leyfa sér það tal, sem hæstv. félmrh. leyfði sér hér áðan í þessum efnum. Það er frekja, sem maður verður að mótmæla, þó að það sé mjög leitt, að þeir menn, sem hafa hana í frammi, skuli ekki treysta sér til að standa hér á Alþ. fyrir sínu máli og kjósi alltaf að láta þögnina eða ráðherraherbergin geyma sig. Hann lýsti því þó yfir hér seinast, að þeir mundu aldrei fara í felur með þessa hluti. Það var þó það, sem gert var í fyrra í Kópavogsmálinu, og það er það, sem gert er enn.

Mér þykir leitt, að hæstv. forsrh., sem enn mun vera veikur, skuli ekki vera mættur hérna til að taka þátt í þessum umr. Ef það reynist rétt, sem hæstv. félmrh. sagði, að þetta mál ætti að fara í gegnum þingið, þá verður kannske tækifæri til þess að tala við hæstv. forsrh. og minna hann á hans yfirlýsingu, því að samkvæmt henni átti yfirlýsingin í Kópavogi, skriflega yfirlýsingin alræmda, að verða upphafið að því að afnema almennan, leynilegan kosningarrétt á Íslandi sem óhentugra fyrirkomulag en opinberar kosningar. En hvernig svo sem um þetta mál fer, þá álit ég, að sú nefnd, sem fær þetta til meðferðar, ætti að athuga það alvarlega, hvort hún á ekki að veita hæstv. ríkisstjórn ávítur fyrir meðferð hennar á þessu máli. Það má ekki minna vera en að Alþ. láti þá skoðun í ljós, að kosningalögin og ákvæði, sem þau varða, séu ekki fyrir ríkisstjórnir til að kukla með þau og hræra, eins og þeim hentar í hvert skipti, til þess að reyna í skjóli þeirra að steypa þeim stjórnum, sem fólkið hefur kosið sér í landinu. Ég held, að það sé nauðsynlegt, að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, athugi þetta mjög gaumgæfilega og láti skoðun sína í ljós um það, hvort ekki þurfi að taka fram fyrir hendur ríkisstjórna, sem leyfa sér að fara að eins og hér hefur verið gert.