15.12.1955
Neðri deild: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Síðan málið var hér í d. til 2. umr., hefur hv. fjhn. bætt mjög mörgum brtt. við sínar fyrri till., og sýnir það, að enn þá hefur verið skotið að henni skeytum úr mörgum áttum og hún látið undan síga í einstökum tilfellum, en þó vafalaust borið af sér mörg spjótalög og þá sérstaklega sennilega frá þeim aðilum, sem hafa ekki haft styrkleika til að sækja sem fastast að nefndinni.

Ég býst við, að sumar af brtt. hv. n. séu til lagfæringar á ósamræmi, sem hv. n. ásamt milliþn. hefur komizt að niðurstöðu um að ætti sér stað þrátt fyrir þær till., sem fyrst voru lagðar fram til breytinga á frv. eins og það kom frá milliþn. En þó er vafalaust, að enn þá er ósamræmi og sums staðar æpandi ósamræmi, ekki aðeins á milli starfsstétta, heldur kannske og engu síður milli starfshópa í sömu stofnun, og allt mun þetta leiða til þess, að ánægjan verður ekki almenn og ekki mikil með setningu þessara nýju launalaga. Ég býst við því, að ætlunin sé að haga afgreiðslu frv. þannig, að við þessa umr. standi aðalorrahríðin um það, hvað svip frv. fær, og síðan sé ætlun ríkisstj. að reyna að hespa málið breytingalaust gegnum Ed. Það munu því vera síðustu forvöð að gera tilraunir til breytinga á frv., og þó býst ég raunar við, að það sé þegar orðið ráðið mál, að fáar eða engar brtt. eigi að fást samþ. við þessa umr. Ég mun því frekast bera hér fram brtt. sem prófstein á það, hvort nokkru verði um þokað, og mun það raunar koma í ljós í sambandi við aðrar brtt., sem hv. minni hl. n. hefur borið hér fram og sumar hverjar eiga a. m. k. alveg tvímælalaust rétt á sér og væru til bóta, ef þær fengjust samþ.

Ég vil þess vegna nú víkja nokkrum orðum að einstökum brtt., sem hér hefur verið gerð grein fyrir af frsm. minni hl. nefndarinnar, hv. 1. landsk. þm.

Ég skal fyrst taka alveg sérstaklega undir brtt. um, að kjör bréfbera hér í Reykjavík verði bætt. Ég hef fengið nokkuð nákvæma lýsingu á störfum þessara manna, veit, að það er ábyrgðarstarf, að þetta er erfitt starf, þessir menn vinna innanhúss hér í pósthúsinu við hin lélegu vinnuskilyrði, sem þar eru, ásamt póstafgreiðslumönnunum, og síðan, þegar þeir hafa lokið því, fara þeir út um borgina, hvernig sem viðrar, og vinna þar og fá sínar verstu vinnuskorpur fyrir stórhátíðir ársins og fram á þann tíma, að helgi er gengin í garð. Þá eru þeir að flytja okkur bréf, sem okkur þykir vænt um að fá. En það er litið þannig á þetta starf, að það skuli samt vera launað samkv. XII. fl. launalaganna, þannig að tryggt sé, að þessir menn hafi ekki sómasamlegt framfærsluöryggi. Ég álít, að þessi starfshópur opinberra starfsmanna sé rangindum beittur og ætti í raun og veru að færa hann upp, ekki, eins og minni hl. leggur til, um einn launafl., heldur um tvo. Það mun þó vera allhæpið að fá því um þokað, að hann verði færður upp um einn launaflokk, og vil ég því ekki sundra röðum þeirra, sem að því kynnu að vilja styðja, með því að flytja till. um frekari réttindi þeim til handa, sem væru þó réttmæt, heldur biðja alla þá, sem sömu skoðunar eru og ég, að fylgja því fastar fram till. um, að þeir verði hækkaðir um einn launaflokk. Að því væri bréfberunum þó nokkur bót, þó að það sé í raun og veru fjarri því, að þeir séu fullsæmdir af. Vinnutími þeirra er fimm stundum lengri á viku en næsta starfshóps, sem er þar fyrir ofan og að nokkru leyti vinnur við hliðina á þessum mönnum. Ég hef með þessu lýst algeru fylgi mínu við till. hv. minni hl. um, að bréfberarnir verði hækkaðir um einn launaflokk, en er þeirrar skoðunar, að það hefði í raun og veru átt að bæta kjör þeirra meira og hækka þá um tvo launaflokka.

Þá er það önnur af brtt. minni hl., sem ég vil sérstaklega undirstrika og gera að umræðuefni. Það eru laun gagnfræðaskólakennaranna. Ég var í hópi þessara starfsmanna um meira en hálfan annan áratug og get því nú, þegar ég stend hér, litið á þessi störf af nokkrum kunnugleika og þó án þess að eigingirni hafi áhrif á afstöðuna. Ég tel, að það sé, eins og hv. frsm. sagði, ósæmilegt að ætla gagnfræðaskólakennurunum að vera raunverulega á lægri launum en kennurunum við barnaskólana, og af þessu getur ekki leitt annað en það, að menn vilja þá af tvennu verða heldur kennarar við barnaskóla en að fá kennarastöðu við gagnfræðaskóla, og allar líkur benda til þess, að þetta hafi áhrif á það, að gagnfræðaskólarnir fái ekki mannval í sitt kennaralið, þegar launin eru svo bágborin sem þau verða, þegar starfstími skólanna er ákveðinn átta mánuðir og af hinum lögákveðnu launum þeirra skal þannig skerast 1/12 hluti eða mánaðarlaun, þannig að þeir verða lægra launaðir en barnaskólakennararnir, sem að vísu að nafninu til vinna níu mánuði við skólana, en þar af er um það bil 1½ mánuður við vorskólana, sem varla getur talizt meira en hálft starf. Hins vegar eru þó gagnfræðaskólakennararnir við að undirbúa skólahaldið og að ganga frá prófúrlausnum og slíku eftir að skóla er slitið, þannig að þeir vinna undir öllum kringumstæðum hálfan níunda mánuð, nálega hver einasti maður í kennaraliði gagnfræðaskólanna, en samt sem áður fá þeir ekki nema 8 mánaða laun.

Það er samkvæmt tillögum meiri hl. borin fram till. um að leggja það í vald skólastjóranna að laga þetta svolítið fyrir kennurunum við gagnfræðaskólana. Þar með er í raun og veru viðurkennt af meiri hl., að það þurfi einhvern veginn að bæta kjör gagnfræðaskólakennaranna. En þetta á að gerast á þann hátt, að ef kennari vinni önnur störf í þágu skólans en kennurunum er ætlað samkv. stundaskrá, sem samin er í samræmi við kennsluskyldu þeirra, má taka tillit til þeirra aukastarfa, þegar árlegur kennslutími, sem launin eru miðuð við, er ákveðinn. Ég álít þessa till. setja skólastjórana í hinn mesta vanda og hina verstu klípu, og í raun og veru held ég, að þetta muni leiða til þess, að skólastjórarnir sjái sér ekki annað fært undir þeim kringumstæðum, að þeir vita sína kennara vera lægra launaða en kennarana við barnaskólana í sömu kaupstöðum, en að reyna að finna út einhverjar tylliástæður fyrir aukastörfum fyrir kennarana sína, og að það verði þannig niðurstaðan, að það verði með alls konar yfirskoti og tilbúnum ástæðum, einhverju vinnufokki, gengið þannig frá þessu af skólastjórunum, að flestir kennararnir við gagnfræðaskólana fái sem svari níu mánaða launum. Ég tel þetta að öllu leyti óviðunandi, bæði fyrir kennarana og þó alveg sérstaklega fyrir skólastjórana, sem eiga að standa í því að búa til meira eða minna falskar forsendur fyrir því, að þeir fái eins mánaðar laun í viðbót við það, sem lögin ákveða þeim.

Ég mundi því vilja skjóta því eindregið til hv. nefndar að fella þennan viðauka við 21. gr., þ. e. 29. till. u., niður og taka til athugunar, hvort hún vilji ekki ákveða hreinlega, að gagnfræðaskólakennarar skuli hafa óskert kaup samkvæmt þeim launaflokki, sem þeir eru settir í, þó að skólarnir séu ekki nema átta mánaða skólar.

Um varatill. hv. 1. landsk. vil ég segja það, að hún mundi vera vandræðalausn á þessu máli, alger vandræðalausn, og það skal ég rökstyðja með örfáum orðum.

Við gagnfræðaskólana eru starfandi ýmsir eldri kennarar, sem ekki hafa lokið háskólaprófi, af því að þeir tóku til starfa við gagnfræðaskólana áður en það lagaákvæði var sett, eru sem sé yfirleitt reyndir kennarar, og því aðeins hafa þeir fengið stöðu við gagnfræðaskólana, að þeir hafa verið taldir góðir og gildir kennarar, sem væru fyllilega starfhæfir sem unglingaskólakennarar. Eftir þessari varatill. hv. 1. landsk. ætti nú að búa svo um hnútana, að ungu mennirnir, sem koma með einhverja viðbótarkennslu og kannske háskólapróf að gagnfræðaskólunum, ættu að hafa hærri laun en gömlu og reyndu kennararnir, sem starfa fyrir við skólana og hafa að vísu ekki háskólapróf. Ég hef haft hvora tveggja tegundina við minn skóla, háskólaprófsmennina og gamla og reynda kennara, og yfirleitt hefur það verið þannig, að þeir gömlu og reyndu kennarar hafa staðið sig betur sem unglingaskólakennarar heldur en þeir óreyndu háskólaprófsmenn, sem hafa verið að koma sem byrjendur að skólanum. Og ég teldi það vera hreinasta hneyksli, ef þeir ættu samkvæmt lagaákvæðum frá Alþingi að vera hærra launaðir við gagnfræðaskólana en hinir, og mun þess vegna alveg ákveðinn greiða atkv. á móti varatill., þó að hv. þingdeildarmeirihluta kynni að þóknast að vilja leysa málið á þann hátt. En ég teldi fyllstu ástæðu til þess, að hv. fjhn. athugaði, hvort hún vildi ekki fá hlé til þess að athuga að lagfæra þetta með gagnfræðaskólakennarana yfirleitt, þannig að hreinn lagabókstafur væri um það, hvernig laun þeir ættu að hafa, hvort þeir eigi að vera jafnlaunaháir í reyndinni og barnaskólakennarar eða hvort þeim eiga að vera ætluð lægri laun, sem ég tel óviðunandi og veit ekki í raun og veru, hvernig hv. meiri hl. n. fer að rökstyðja.

Viðvíkjandi öðrum till., sem hv. 1. landsk. bar fram sem persónulegar tillögur sínar, skal ég taka undir það með honum, að ég fæ ekki skilið, að það sé réttmætt, að dómarafulltrúar séu þremur launaflokkum lægri í launum en embættismennirnir, yfirboðarar þeirra, og ég held, að það væri réttmætt að lagfæra laun dómarafulltrúanna, það a. m. k. getur ekki munað miklu í þessum mikla mat hjá ríkinu. Þarna er að vísu um nokkra starfsmenn að ræða, en þó hygg ég, að það sé innan við einn tug embættismanna.

Þá vil ég enn fremur taka undir það, að ég fæ ekki skilið, hvers vegna háskólabókavörðurinn á að vera einn eftir skilinn af starfsmannaliði háskólans. Hann er með háskólaprófi, og hann hefur sízt léttara starfi að gegna eða ábyrgðarminna en prófessorarnir. Prófessorarnir hafa fengið lagfæringu á sínum launum samkv. till. hv. nefndar, en þessi eini starfsmaður háskólans ekki, og hygg ég þó, að það sé sízt minna á hann hlaðið af störfum en á prófessorana suma hverja. Ég tel því alveg einsætt, að þingdeildin samþykki brtt. hv. 1. landsk. um að hækka háskólabókavörðinn í launum.

Þá skal ég einnig fara nokkrum orðum um þá brtt. hv. 1. landsk., að opinberir starfsmenn fái sjálfkrafa launahækkun, af því að þeim er fyrirmunað að hafa verkfallsrétt, sem opinberir starfsmenn hafa þó í flestum öðrum menningarlöndum en á Íslandi. Ætti þeim þó ekki að vera síður trúandi til að fara af viti með það ábyrgðarmikla vopn en öðrum stéttum, og þar af leiðandi sé ég enga ástæðu til, að opinberir starfsmenn hafi ekki verkfallsrétt. En till. er um það, að opinberir starfsmenn fái sjálfkrafa þær launabætur, sem verkalýðshreyfingin knýi fram á hverjum tíma. Ég veit ekki, hvort í fyrsta lagi sé ástæða til að tryggja mönnum rétt án skyldna. Það eiga alltaf að haldast í hendur réttindi og skyldur, og það væri langeðlilegast, eins og hv. 2. þm. Reykv. hélt hér fram áðan, að þeir, sem eigi að njóta þeirra ávaxta, sem fást með fórnum harðvítugra verkfalla, séu þátttakendur í því og meðábyrgir og meðfórnandi, þannig að þeir stæðu í verkföllunum ásamt verkalýðsstéttinni, ef þeir ættu að fá sams konar launabætur út úr þeim og verkalýðurinn. Það væri það langeðlilegasta. Ég minnist þess, að það er mjög langt síðan mikil orrahríð var hér á Alþingi um það, hvort opinberir starfsmenn og embættismenn ættu ekki að hafa verkfallsrétt, og Bjarni Jónsson frá Vogi, sem þá var hér á Alþingi, barðist hart fyrir verkfallsrétti opinberra starfsmanna, ef ég man rétt. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að það væri í raun og veru alveg sjálfsagt að flytja frv. til laga um verkfallsrétt opinberra starfsmanna og embættismanna ríkisins, því að þeir eiga auðvitað að hafa sama rétt og verkalýðsstéttin að því er þetta snertir. Það dregur að vísu nokkuð úr þörfinni fyrir það, að opinberir starfsmenn fái slíkan rétt til þess að knýja sínar kjarabætur fram, a. m. k. eins og nú standa sakir, þegar þeir eru svo í náðinni hjá hinu opinbera, að þegar endurskoða skal launalög, þá er búið svo vel að þeim, að þrír menn, sem allir eru, held ég, í stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, eru settir til þeirrar endurskoðunar ásamt tveimur öðrum launamönnum hjá ríkinu. Þetta jafngildir því, eins og hv. þm. A-Húnv. sagði hérna við mig áðan úti í horni, að Stéttarsamband bænda fengi sjálfdæmi um að ákveða afurðaverð bændastéttarinnar og tveir bændur að auki eða að Alþýðusamband Íslands fengi tilkynningu um, að það mætti endurskoða öll launakjör verkalýðsstéttarinnar og þrír menn úr stjórn Alþýðusambandsins verði til þess hlutverks valdir af ríkisstj. og tveir verkamenn að auki. Það væru ágæt kjör, sem ég hygg að margar stéttir þjóðfélagsins vildu una við, í staðinn fyrir að þurfa að öðrum kosti að knýja þetta fram með verkföllum. Í þetta sinn hefur því ekki verið gengið á hlut Bandalags starfsmanna ríkis og bæja eða illa með þá farið, nema hvað það kann að mega segja, að það sé seint til dyra gengið hjá hæstv. ríkisstj., eftir að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fór að knýja á dyrnar. Hins vegar er ekki hægt að segja annað en að það er svo sem ekkert nýmæli, sem hv. 1. landsk. þm. flytur, að það skuli vera lögfest, að opinberir starfsmenn fái sjálfkrafa þær réttarbætur, sem verkalýðssamtökin geta knúið fram á hverjum tíma, því að það er búið að búa svo um með lögum áður, að bændastéttin fái verð á sínum afurðum hækkað sjálfkrafa, þegar breytingar eða hækkanir hafa orðið á launakjörum verkamanna. Þegar það hefur gerzt síðan, að laun verkamanna hafa hækkað, þá er bara reiknað út, hvað afurðir bænda eigi að hækka mikið. Þannig eru launakjör bændastéttarinnar ákveðin alveg í hlutfalli við það, sem verkalýðshreyfingin fær út úr sinni launa- og kjarabaráttu. Það er því komin „doría“ aftan í skipið, Alþýðusambandið, og ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að „doríurnar“ yrðu tvær, að það yrði bændastéttin og opinberir starfsmenn, sem væru hnýttir þarna aftan í Alþýðusambandið og Alþýðusambandið látið ákveða í raun og veru launakjör bæði bændastéttarinnar og allra opinberra starfsmanna og embættismanna, ráðherranna meðtalinna.

Alþýðusambandinu stendur enginn háski af þessu. Það þýðir í raun og veru það, að bændastéttin og opinberir starfsmenn yrðu styrk stoð í almenningsálitinu með þeim kröfum, sem Alþýðusambandið bæri fram á hverjum tíma, og þessar stéttir eru mjög líklegar til þess að undirbyggja góðan árangur þeirra verkfalla, sem Alþýðusambandið stæði í fylkingarbrjósti fyrir, ekki aðeins fyrir sig og sína meðlimi, þær 27 þús. manna, sem eru í þeim samtökum, heldur einnig fyrir alla bændastéttina og alla opinbera starfsmenn og þjónustumenn ríkisins. Og þá held ég, að það væri í raun og veru Alþýðusambandið, sem hefði fengið aðstöðu til þess með illu eða góðu að ákveða launakjör flestra starfsmanna í landinu. Ég er því ekki í hjarta mínu svo andvigur því, að þetta sé gert. Ég tel, að Alþýðusambandinu sé sýndur sómi með því að ætla því að hafa svona víðtækt forustuhlutverk út fyrir sín takmörk, og mun því ekki telja mér fært að berjast á móti því, teldi í raun og veru ekkert að því, að Alþingi samþykkti þessa till.

Þá hef ég áður vikið að því, að ég teldi algerlega útilokað, að hægt væri fyrir nokkra manneskju að framfleyta lífinu á þeim launakjörum, sem ákveðin eru í XV. launaflokki frv., en þar á að byrja með 12900 kr. grunnlaunum á ári, rúmlega 1000 kr. á mánuði. Ég vil því leyfa mér að leggja til og verð að gera það með skriflegri brtt. við 1. gr., að XV. liður falli niður og sé ekki með í upptalningu launaflokkanna.

Þá vil ég að lokum leyfa mér að spyrjast fyrir um það hjá hv. nefnd, hverju það sæti, hver séu rökin fyrir því, að nefndin í heild flytur brtt. um launakjör manna á póststofunni á Akureyri. Ég geri ráð fyrir því, að hv. mþn. hafi haft póststofurnar í kaupstöðunum nokkuð til samanburðar og hliðsjónar, þegar hún gekk frá sínu frv., og hygg því, að hér sé verið að mismuna starfsmönnum á einni póststofu, þegar brtt. er gerð um hækkun launa hjá starfsfólkinu á póststofunni á Akureyri einni út af fyrir sig. Í till. segir, að í stað 2. töluliðs brtt. við 18. gr. komi tveir liðir, fulltrúi 1. stigs í póststofunni á Akureyri fari í VIII. launafl. og fulltrúar 2. stigs í IX. launafl. Ég hef ekki haft tóm til að bera þetta saman við laun starfsmannanna á póststofum annars staðar, en starfið þarna er ekki komið undir því, hve margir hausar eru í viðkomandi kaupstað. Það væri þá alveg eins hægt að hafa lagaákvæði um, að það skyldu vera mismunandi launakjör kennara, eftir því, hver íbúatalan væri í viðkomandi kaupstað, en vitanlega væri ekkert réttlæti í því. Ég held því, að þessi brtt. eigi varla rétt á sér, nema því aðeins að fyrir því verði þá gerð sérstök grein. Ég mundi vilja halda, að það væri alveg jafnmikið annríki í póststofunni á Ísafirði og í póststofunni á Akureyri og að starfið sé ekkert léttara og ekkert annars eðlis á Ísafirði en á Akureyri, og svo mundi vera um alla kaupstaðina. Ég mundi því vilja leyfa mér, ef ekki koma fullnægjandi skýringar fram, að áskilja mér rétt til, að liðurinn héti: í póststofunni á Akureyri og á Ísafirði — og gæti þá hugsað mér, að einhverjir fleiri vildu athuga, hvort ekki væri ástæða til þess að færa þetta til frekara samræmis að því er snertir þá kaupstaði, sem þeir þekkja til í.

Ég hóf mál mitt með því að segja, að ég flytti þessa brtt. frekar sem prófstein en að ég teldi, að með því væri búið að taka á sína arma þau efnisatriði, sem ástæða væri til að leiðrétta til frekara samræmis í frv. Sá sjóður verður líklega seint tæmdur. Og ég býst við, að flestum brtt., sem hér liggja fyrir, sé ætluð ein og sama gröfin, svo að ég ætla ekki að freista þess við þessa umr. að flytja aðrar eða fleiri brtt. Ég skal aðeins láta það í ljós, að ég er sannfærður um, að það er vafasamt, að með setningu þessara laga fáist meira réttlæti eða meiri og almennari ánægja með hlutfallsleg launakjör hjá hinu opinbera en samkvæmt núgildandi launalögum. Ég gæti meira að segja trúað því, að frekar hefði verið aukið ósamræmið í launagreiðslunum heldur en dregið úr því með frv, og þeim brtt., sem hér liggja fyrir, og eins og þannig eru líkur til að það verði samþykkt.