05.12.1955
Neðri deild: 26. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (1574)

16. mál, kjörskrá í Kópavogskaupstað

Frsm. minni hl. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Þegar brbl., sem lögð hafa verið nú fyrir Alþ., voru tekin fyrir í allshn., um það, hvaða kjörskrá skyldi gilda við bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi, kom það fljótt fram á þeim fundi, að ég gat ekki átt samleið með meðnm. mínum. Það var reyndar vitað áður, að allmikill ágreiningur hafði átt sér stað um þetta mál hér í hv. d., þegar Kópavogsmálið var á dagskrá hér í fyrravetur, og vitanlega höfðu menn ekki skipt skoðun á því út af fyrir sig. Hins vegar hefði mér vel getað komið það þó til hugar, að meiri hl. allshn. hefði ekki mælt með því, að lögin yrðu afgr. á þann hátt, sem hann leggur til, sem sé, að þau yrðu samþ.

Þegar frv. þetta var rætt í allshn., lýsti ég því yfir á nefndarfundinum, að ég mundi skila séráliti og leggja til, að frv. yrði annaðhvort fellt eða því vísað frá með rökstuddri dagskrá. Við nánari athugun málsins komst ég að þeirri niðurstöðu, að sú eina rétta afgreiðsla, sem frv. ætti að fá í hv. d., væri, að því væri vísað frá.

Þegar Kópavogsmálið var hér á dagskrá á Alþ. í fyrravetur, var það mjög mikið rætt af andstæðingum þess og jafnvel meir og ýtarlegar en flest önnur mál, sem lágu fyrir síðasta Alþ. Rétt er að geta þess, að í þeim umr. forðuðust flm. svo að segja allir umræður um málið eins mikið og þeir frekast gátu, og það var alveg auðfundið, að þrátt fyrir öll hreystiyrði þeirra um málið voru þeir ekki ánægðir með sjálfa sig sem flm., enda var allur undirbúningur og tildrög þess, að það var flutt, á þann veg, að einsdæmi mun hafa verið.

Eins og hv. alþm. er kunnugt, var frv. um það að veita Kópavogshreppi þá bæjarréttindi flutt á móti vilja meiri hl. rétt kjörinnar hreppsnefndar, og eftir því sem bezt verður séð og kom reyndar greinilega fram við þær bæjarstjórnarkosningar, sem fóru fram 2. okt. s.l., á móti vilja meiri hl. íbúa Kópavogshrepps.

Þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir og þrátt fyrir, að fyrir lægi álit m.a. sýslunefndar Kjósarsýslu til viðbótar öllum þeim mörgu mótmælum, sem bárust á móti frv. frá Kópavogshreppi og stjórnum þess sveitarfélags, var ekki hikað við að berja frv. í gegn á Alþingi og þm. stjórnarflokkanna knúðir til að greiða því atkvæði. Mér er nær að halda, að við fáar atkvgr., sem farið hafa fram hér nú s.l. ár, hafi menn verið meira hikandi og jafnvel greitt atkvæði með neinum málum með eins mikilli tregðu og einmitt með því frv., sem hér um ræðir. Það er mikið vafamál, hvort í allri þingsögunni sé hægt að finna hliðstætt mál Kópavogsmálinu. þ.e.a.s. að mál hafi verið flutt fyrir ákveðið hérað eða sveitarfélag í fullrí óþökk og andstöðu stjórnenda og meiri hluta íbúa viðkomandi héraðs.

Það var öllum ljóst. að þetta margumtalaða Kópavogsmál var flutt hér inn á Alþingi að kröfu nokkurra pólitískra ævintýramanna. aðallega úr stjórnarflokkunum. sem gátu ekki unað úrslitum í ekki einum, heldur tvennum eða þrennum hreppsnefndarkosningum, sem fram fóru með stuttu millibili. Sá meiri hluti, sem áður hafði farið með stjórn hreppsfélagsins. vann þrátt fyrir allt hvern kosningarsigurinn á fætur öðrum, þrátt fyrir gífurlegan áróður andstæðinganna og þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnarflokkanna til íbúa Kópavogs, ef þeir vildu veita frambjóðendum viðkomandi flokka stuðning sinn. En það var nú þannig, að fólkið í Kópavogi hafði sínar skoðanir á málunum og lét ekki blekkjast af fögrum loforðum og glæsilegum tilboðum, það hélt bara áfram að kjósa sína menn og óskaði ekki eftir neinum breytingum þar á.

Nú voru góð ráð dýr. Hinir herskáu pólitíkusar í Kópavogi með aðstoð vina sinna og samherja í höfuðborginni hafa að sjálfsögðu lagt höfuð sín mjög í bleyti og hafa leitað nýrra ráða og nýrra aðgerða; svona mátti málið alls ekki standa. Þessi ólukkans rauði meiri hluti skyldi falla, hvað sem það kostaði, ekkert skyldi til sparað. Það er sagt, að einhver fyndinn náungi hafi í mesta sakleysi stungið upp á því á heitri vökunóttu, þar sem hópur manna var saman á fundi og hafði átt mjög erfiðar stundir að koma sér niður á, hvað gera skyldi, að þá hefði hann bent þeim á, að málið væri ákaflega auðleyst, það væri ekkert annað en að gera bara Kópavog að kaupstað. Þá yrði að kjósa bæjarstjórn, og með því væri allur vandinn leystur, andstæðingar meiri hlutans hlytu að vinna glæsilegan kosningasigur eftir jafneftirminnilegt afrek og að gera eitt sveitarfélag að kaupstað. Almenningi mundi þykja allmikið í það varið, ef sveitarfélagið öðlaðist slík réttindi. Þessari uppástungu var að sjálfsögðu tekið af miklum fögnuði af hinum baráttufúsu mönnum þar syðra. Frv. að lögum um bæjarréttindi til handa Kópavogshreppi var samið í skyndi, og sjálfur hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. ásamt 5. landsk. voru fengnir sem flm. að frv. Ja, það var svei mér ekki valið af verri endanum.

Frv. varð að lögum eftir mjög harðar fæðingarhríðir, og leið óðum að þeim tíma, að kosningar skyldu fara fram í hinum nýja kaupstað. Samkv. lögum nr. 81 frá 23. júní 1936, um sveitarstjórnarkosningar, átti vitanlega að kjósa eftir kjörskrá, sem samin var í febrúar 1954, byggð á manntali 1953. Af ástæðum, sem ekki verða raktar hér, en eru allýtarlega raktar í mínu áliti, taldi hæstv. félmrh. ófært, að bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi færu fram samkvæmt gildandi landslögum. Var það álit hæstv. ráðh. í fullu samræmi við alla meðferð málsins og undirbúning frá fyrstu hendi. Vert er þó að geta þess, að ekki hafði hæstv. félmrh. eða neinn af forsvarsmönnum þessa máls á þingi eða utan þings á það minnzt, og ekki kom það heldur fram í blaðaskrifum um málið, að minnzt væri á það einu orði, að nauðsyn bæri til að kjósa eftir annarri kjörskrá en þeirri, sem þá var í gildi. Þetta er mjög athyglisvert í málinu, að í öllum þeim umr., sem fram fóru um þetta mál í fyrravetur, öllum þeim miklu blaðaskrifum, sem urðu um þetta mál, var aldrei minnzt á það einu orði, meðan verið var að koma því í gegnum þingið, að þyrfti að breyta gildandi lögum og setja sérstök lög um það, eftir hvaða kjörskrá skyldi kosið í Kópavogi, og fara þar með inn á alveg nýjar reglur eða aðferðir, sem áður voru óþekktar. En svo skeður það bara, að 23. júlí 1953 eru gefin út brbl. um, að kjörskrá sú, er samin var í febrúar 1955, skuli gilda við bæjarstjórnarkosningar í Kópavogskaupstað, sem fram skyldu fara 2. okt. 1955. Þar með var úr gildi felld um ákveðinn tíma eða réttara sagt á meðan kosningarnar fóru fram og þar í kring sú kjörskrá, sem raunverulega átti að kjósa eftir, þ.e. kjörskráin frá 1954. Með útgáfu nefndra brbl. ber að flestra dómi, sem ekki eru haldnir pólitísku ofstæki í málinu, að telja, að farið hafi verið inn á mjög svo varhugaverða leið, svo að ekki sé meira sagt. Fyrir þá menn, sem ekki eru því útfarnari að túlka lög og lagabókstaf eftir eigin geðþótta, verður ekki annað séð en að þessi brbl., sem nú hafa verið lögð fyrir Alþingi til staðfestingar, brjóti í bága við þau gildandi lög, sem ég hef áður vitnað til. Auk þessa hefur verið gefið slíkt fordæmi sem ég tel í alla staði stórvarhugavert og óverjandi.

Aðalrök hæstv. félmrh. fyrir því að gefa út slík brbl., eftir því sem fram kemur í meðfylgjandi plaggi og hann tók hér alveg skýrt og ákveðið fram í umræðum um þetta mál við 1. umr., eru þau, að fjöldi fólks hafi, frá því að kjörskráin var samin í febrúar 1954, flutzt inn í hreppinn og að þetta fólk hafi átt kröfu á því að fá að kjósa við kosningarnar 2. okt. í haust. Ja, ég verð að segja það, að þessi rök, ef rök skyldu kallast, stangast allharkalega, að mér virðist, á móti gildandi lögum. Ég skal taka fram, að ég er ekki lögfræðingur, en eftir mínu leikmannsviti á þessu sviði get ég engan veginn séð annað en að þessi brbl. stangist allharkalega á móti gildandi landslögum um þessi mál. 16. gr. laga nr. 81 frá 23. júní 1936, um sveitarstjórnarkosningar, segir alveg ótvírætt um það, eftir hvaða kjörskrá skuli kjósa við sveitar- og bæjarstjórnarkosningar. Það eru þau lög ein, sem áttu að gilda við bæjarstjórnarkosningarnar í Kópavogsbæ, sem fram fór 2. okt. í haust; eins og þau hafa verið látin gilda við allar bæjarog sveitarstjórnarkosningar frá gildistöku þeirra. Einkaskoðanir hæstv. félmrh. og annarra slíkra í þessu máli áttu ekki að verða gildandi, heldur að sjálfsögðu að fara að gildandi landslögum í þessu máli sem öðrum. — Því hefur verið haldið fram og fyrir því færð mjög sterk rök, að það, sem hafi orðið þess valdandi, að þessi brbl. voru gefin út, hafi verið það, að stjórnarflokkarnir hafi talið sig eiga mikil pólitísk ítök meðal þess fólks, sem fluttist þar inn, frá því að kjörskráin var samin 1954. Ég bendi einmitt á þetta í grg.. og þessu hefur verið margslegið fram bæði hér á hv. Alþ. og í blaðaskrifum, án þess að ég viti til, að því hafi verið mótmælt; með útgáfu brbl. hafi því átt að tryggja andstæðingum meiri hluta þáverandi hreppsnefndar meiri hluta í hinni nýju bæjarstjórn. Ég held því fram og það í fullri alvöru, að hér hafi verið lengra róið og lengra sótt á mið en hæfir mönnum, sem skipa ráðherradóm á Íslandi, ef satt er. Ég get sagt það og endurtekið það, sem ég reyndar geri í meðfylgjandi grg., að mér finnst þessi tilgáta mjög sennileg, enda hefur henni ekki, eins og ég tók fram áðan, verið mótmælt með neinum þeim rökum, sem frambærileg eru, enda má segja, að það sé í fullu samræmi við öll afskipti vissra manna í stjórnarflokkunum af málefnum Kópavogsbúa að undanförnu. Það er eins og þessi staður hafi farið þannig í taugarnar á vissum mönnum bæði utan þings og innan, að einsdæmi mun teljast.

Það væri freistandi að ræða nokkuð um sjálfar bæjarstjórnarkosningarnar í Kópavogi, sem fram fóru í haust, en þar sem því máli voru gerð mjög góð skil af hv. 2. þm. Reykv. (EOl) við 1. umr. um málið hér í hv. d., get ég látið það nægja. Ég vil þó aðeins benda á, að Kópavogsbúar svöruðu á eftirminnilegan hátt herópi stjórnarflokkanna og annarra andstæðinga meiri hlutans um að fella núverandi meiri hluta frá völdum. Fólkið í Kópavogskaupstað hafði nú sem fyrr sínar ákveðnu skoðanir á því, hverjum það tryði bezt fyrir því að stjórna sínu bæjarfélagi. Það þekkir, hverjir það voru, sem voru þess fulltrúar, og það óskaði ekki eftir neinum breytingum þar á. Menn með ólíkar stjórnmálaskoðanir stóðu saman sem ein órofa samfylking um að veita brautargengi þeim mönnum, sem árum saman höfðu sýnt í verki, að þeir vildu og gátu starfað í sameiningu að heill fólksins, og það treysti bezt til að leiða til lykta hin margvíslegu vandamál, sem biðu úrlausnar í hinu nýja bæjarfélagi. Sigur samfylkingarmanna í Kópavogskaupstað í haust er að mínu áliti tvímælalaust einhver stærsti stjórnmálaviðburður þessa árs. Sá sigur er m.a. mjög ákveði ábending, svo að ekki sé meira sagt, um það, hvers mætti vænta og hvers má vænta, ef slík samvinna og samfylking tækist á landsmælikvarða milli hins vinnandi fólks á Íslandi. Þetta er mjög lærdómsríkt, og ég þykist þekkja það mikið til alþýðufólks á Íslandi, að það muni að meira eða minna leyti taka sér til fyrirmyndar það sem það gerði í Kópavogi 2. okt. 1955, við fyrsta tækifæri, sem það fær. Jafnframt er kosningasigur vinstri manna í Kópavogi mjög alvarlegur ósigur fyrir núverandi ríkisstjórn og þó alveg sérstaklega fyrir þá hæstv. ráðh., sem beittu sér fyrir setningu hinna nýju laga um kaupstaðarréttindi í áþökk og andstöðu við meiri hluta íbúa staðarins.

Það hefði mátt ætla, að eftir þær miklu ófarir, sem stjórnarliðið eða kannske miklu frekar ákveðnir ráðherrar biðu í þessu máli, hefðu brbl. um kosningar í Kópavogskaupstað í haust ekki verið lögð fram hér á Alþingi til samþykktar, verið bara stungið þegjandi og hljóðalaust undir stól. Og enga sérstaka nauðsyn bar nú til þess að leggja þau fyrir Alþingi; þau voru búin að gera sitt gagn eða ógagn eftir því, hvaða skoðun maður hafði á því. Þetta er leiðinlegt plagg, sem betur hefði verið að aldrei hefði séð dagsins ljós. En hæstv. félmrh. leggur sjáanlega mjög mikið kapp á að fá Alþingi til að samþykkja lögin. Ég er þar á allt annarri skoðun. Ég tel það tvímælalaust hið mesta hneyksli, ef hæstv. Alþingi samþykkir þessi brbl. Ég tel, að með slíkri samþykkt væri Alþingi að fara inn á mjög varhugaverða og hættulega braut og gefa hið versta fordæmi. Fyrir því legg ég til, að málið verði afgreitt með eftirfarandi rökstuddri dagskrá, meðleyfi hæstv. forseta:

„Með því að þd. telur það mjög varhugavert fordæmi, að ráðh. taki sér vald til þess að breyta með brbl. milli þinga ákvæðum almennra kosningalaga varðandi kosningafyrirkomulag í einstöku kjördæmi eða kjördæmum við kosningar, er fara fram meðan Alþingi situr ekki, telur d. ekki rétt að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Vænti ég þess, að hv. alþm. athugi sig vel, áður en þeir láta sig henda það að greiða atkv. með áliti meiri hlutans. Ég tel, að sú eina rétta meðferð á málinu sé að vísa þessu máli frá, eins og ég legg til.