22.03.1956
Neðri deild: 91. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (1583)

18. mál, meðferð einkamála í héraði

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Í nál. því, sem allshn. gaf út um þetta mál, lét ég þess getið, að ég áskildi mér rétt til þess að flytja brtt. við frv. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er mjög stór lagabálkur, og fylgir því allmikil og löng grg.

Þegar allshn. tók þetta mál fyrst til athugunar, varð að samkomulagi að senda það til umsagnar vissra aðila, eins og frsm., hv. þm. Siglf. (EI), tók hér fram áðan. Aðeins tveir af þeim aðilum, sem málið var sent til, sendu álit sitt til n., en tveir þeirra, héraðsdómarar og hæstaréttarmálaflutningsmenn, hafa ekki skilað áliti. Ég tel fyrir mína parta, að það væri mjög varhugavert að samþ. slík lög eins og þessi, án þess að fyrir lægi umsögn þessara aðila um málið, og það var það, sem gerði m.a., að ég áskildi mér þennan rétt, svo sem tekið er fram í nál.

Nú eru mörg nýmæli í þessu lagafrv., sem að líkum lætur, t.d. það, að sáttanefndir skuli algerlega niður felldar. Ég er ekki alveg víss um það út af fyrir sig, að sáttanefndirnar hafi verið og séu gagnslausar í starfi og vinni ekkert gagn á fyrsta stigi í meðferð mála. Ég veit til þess nokkur dæmi, að sáttanefndir hafa náð sáttum, og í málum, sem annars hefðu þurft að fara fyrir dómara, náðist sætt einmitt fyrir tilverknað slíkra nefnda.

Við lestur þessa frv. virðist manni, að það sé eitt, sem sé alveg hægt að ganga út frá sem réttu, og það er það, að það verður að mörgu leyti erfiðara fyrir einstaklinga en áður að reka mál fyrir undirrétti, mér finnst, að ýmis ákvæði frv. bendi beinlínis til þess, að það verði undir flestum kringumstæðum strax fyrir undirrétti að fá lögfræðing til þess að flytja málin. Þetta tel ég líka galla á frv. Hins vegar er það ekki nokkrum vafa undirorpið, að margt af þeim atriðum, sem eru ný í frv., eru til bóta, og er ekkert út af fyrir sig um það að segja frekar. En ég vil undirstrika það, að málið er mjög viðamikið og að þeim aðilum, sem frv. hefur verið sent til umsagnar, hefur ekki unnizt tími til að senda grg. til þeirrar n., sem hafði með þetta að gera, og út frá því teldi ég, að það væri í alla staði æskilegra, að málið fengi ekki afgreiðslu hér á þessu þingi og að þeim aðilum, sem það hefur verið sent, og þá öðrum, gæfist frekari tími til þess að kynna sér málið. Það er þannig, þegar um stór og flókin mál er að ræða og jafnmargþættan lagabálk og hér liggur fyrir, að þá þarf mjög langan tíma til þess að fara yfir frv. og jafnvel ekki á færi nema sérfræðinga í þeim málum að geta kynnt sér það til hlítar.

Ég þarf svo ekki að hafa fleiri orð um þetta, en þeim till., sem allshn. hefur orðið sammála um að flytja, er ég sammála og tel, að þær séu til bóta frá því, sem er í frumvarpinu.