15.12.1955
Neðri deild: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég er hér með þrjár brtt. við frv., sem fjhn. ber fram, en ekki hefur unnizt tími til enn að fá þær prentaðar, og verðum við því að flytja þær skriflegar.

Fyrst er hér brtt. við 10. gr. frv., 2. lið, þ. e. öryggiseftirlit. Lagt er til, að öryggiseftirlitsmaður, sem samkv. frv. er í VII. launafl., verði í VI. launafl.

Þá er við 14. gr. brtt., sem snertir menntaskólana. N. leggur til, að á eftir 1. tölulið í IV. komi nýr undirliður, sem verði 2. liður, yfirkennarar í VI. launaflokki.

Þá er loks tillaga um breytingu á 18. gr., og er sú till. í tveimur liðum, fyrst viðkomandi póstmálaskrifstofunni. Af starfsmönnum þar er fyrstur talinn skrifstofustjóri í VI. launafl., eins og frv. er nú. Við leggjum til, að þetta breytist þannig, að í stað skrifstofustjóra komi forstöðumaður í V. launafl. Hinn liður till. er viðkomandi símarekstrardeild landssímans, að í stað skrifstofustjóra í 1. tölulið þar komi forstöðumaður og verði einnig í V. launaflokki.

Þá vil ég geta þess, að brtt. við 15. gr., þ. e. 16. brtt. n. á þskj. 201, sem snertir tilraunastöðina á Keldum, tillaga um breyt. á launum dýralæknis þar, er tekin aftur. Það er 16. brtt. á þskj. 201.

Þá vil ég flytja þá yfirlýsingu hér í samráði við ráðherra póst- og símamála og fjmrh., að við gildistöku laganna, ef þetta frv. verður samþ., eða þegar það verður samþ., munu póstafgreiðslumenn, sem hafa starfað lengi og gegna ábyrgðarmiklum störfum, verða gerðir að 2. stigs fulltrúum.

Það gæti verið ástæða til að ræða nokkuð um þær brtt., sem komið hafa hér frá öðrum en fjhn., og gera athugasemdir nokkrar við ræður flutningsmanna, en með því að dagur er nú að kvöldi kominn, þá verð ég að láta hér staðar numið og sleppa því að ræða um þær tillögur.