08.11.1955
Neðri deild: 16. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (1600)

90. mál, óskilgetin börn

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þessu almannatryggingafrv., sem ég hef nú lýst hér nokkuð, fylgja þrír dilkar, ef svo mætti segja, sem eru miðaðir við það, að frv. verði samþ. að því er þessi ákvæði snertir, sem eru í þessum frv., á Alþingi. En þetta er borið hér fram til þess að létta störf þingsins, þannig að það liggi fyrir, hvaða ákvæði í öðrum lögum verður að breyta, ef frv. verður samþ. í þeirri mynd, sem það hefur nú.

Þessi þrjú frv., sem ég hef fengið leyfi hæstv. forseta til þess að mæla fyrir í einu, — því að ég ætla ekki að fara að lýsa efni þeirra, þar sem það virðist ástæðulaust, — eru í fyrsta lagi frv. til l. um breyt. á l. nr. 87 1947, um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, í öðru lagi frv. til l. um breyt. á framfærslulögum frá 1947 og í þriðja lagi frv. til l. um breyt. á heilsuverndarlögum frá 1955, sem kannske hefðu raunverulega átt að vera flutt hér af hæstv. heilbrmrh., en það varð samkomulag um, að það væri rétt að láta það fylgja almannatryggingafrv., og mæli ég þess vegna fyrir því frv. um leið og hinum, af því að það er algerlega tengt þessu frv. um almannatryggingarnar.

Ég ætla ekki að fara að nefna efni þessara frv., það skýrir sig sjálft við að fara í gegnum almannatryggingalögin, hvers vegna nauðsynlegt er að breyta þeim lögum, sem hér er um að ræða, ef breyta á gildandi lögum í það form, sem almannatryggingafrv. nú gerir ráð fyrir. Og það kemur af sjálfu sér, að ef svo miklar breytingar verða gerðar á almannatryggingafrv., að eitthvað af því, sem er meginatriði í þessum frv., er þar með fallið, verður að breyta því. Þessi frv. verða því alltaf að fylgja almannatryggingafrv. og koma á eftir því til afgreiðslu í hvert sinn.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að þreyta hv. dm. með því að fara að ræða um hvert frv. fyrir sig, og leyfi ég mér því aðeins að leggja til, að þeim verði vísað, öllum þremur frv., til 2. umr. og til hv. heilbr: og félagsmálanefndar.