07.02.1956
Neðri deild: 64. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (1605)

90. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég lýsti því við 2. umr. frv. um almannatryggingar, að heilbr.- og félmn. hefði til athugunar nokkur atriði í sambandi við það frv., en það eru raunar önnur atriði en þau, sem hér eru til umr. En þótt ekki liggi fyrir brtt., sem eigi að koma undir atkv. í sambandi við þetta frv., vil ég leyfa mér út af orðum hv. þm. Borgf. (PO) að fara um þetta atriði örfáum orðum.

Það er ótvírætt samkvæmt framfærslulögunum, að foreldrar eru skyldir til þess að annast framfærslu barna sinna, og framfærsluskylda föður fellur ekki úr gildi eða fellur ekki niður, þótt barn sé óskilgetið. Eðlilegast er því, að faðir greiði meðlag beint til barnsmóður, svo sem hann er skyldur til. Og ef hann gerir það, þarf ekki að koma til aðstoð eða íhlutun neinna opinberra aðila. En ef á því verður misbrestur, að faðir óskilgetins barns standi í skilum með meðlagsgreiðslur, eins og því miður reynslan sýnir, að oft vill verða, þá kemur það sjónarmið fyrst til athugunar, á hvern hátt sé hægt að tryggja rétt barnsmóður til meðlagsins, þannig að hvorki hún né barnið líði skort.

Með þessu frv., sem hér er til umr., og frv. um almannatryggingar er stefnt að því að tryggja þennan rétt barnsmóður á þann hátt, að hún geti snúið sér til oddvita dvalarsveitar, ef dráttur verður á því, að faðir standi skil á meðlagi, sem honum ber að greiða. En þverskallist dvalarsveit við að greiða meðlagið, þá á að tryggja rétt móðurinnar með því, að hún geti snúið sér til valdsmanns eða m.ö.o. til sýslumanns í lögsagnarumdæmi hverju, og skal hann þá sjá um, að móðirin fái meðlagið greitt. Nú hafa sýslumennirnir víðast haft á hendi umboðsstarf fyrir almannatryggingarnar, og í frv. um almannatryggingar, sem nú liggur fyrir, er beinlínis gert ráð fyrir að lögfesta þá skipun til frambúðar. Það eru því sömu valdsmennirnir úti í héruðunum, sýslumennirnir, sem hafa á hendi umboðsstörf almannatrygginganna og þeir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. að barnsmóðir geti snúið sér til, og verður það þá á valdi yfirvaldsins, þ.e. sýslumannsins, á hvern hátt hann innir þessa greiðslu af hendi, það er hans mál, en ekki móðurinnar. Á þennan hátt er að því stefnt að tryggja rétt móðurinnar. En þegar frá þessum þætti málsins er gengið, þá kemur til álita, hvort Tryggingastofnunin eða dvalarsveit á að taka á sig þau umsvif, sem af þessum viðskiptum leiðir.

Um nokkurra ára skeið hefur það hvílt á Tryggingastofnuninni að greiða meðlög sem þessi og annast innheimtu á þeim af hendi barnsföður eða framfærslusveitar hans eftir á. Reynslan sýnir, að Tryggingastofnuninni gengur mjög erfiðlega að fá þessi meðlög endurgreidd, og eru þegar útistandandi fjárhæðir hjá stofnuninni, sem nema nokkrum milljónum króna. Ef til vill virðist einhverjum, að hér sé um að kenna sleifarlagi af hendi Tryggingastofnunarinnar, en ég hygg þó, að því sé ekki til að dreifa, og kemur það í ljós við ýmis fleiri viðskipti, hve erfitt er að innheimta kröfur, sem fátækum sveitarfélögum ber að standa skil á. Ég veit, að hv. þm. Borgf., sem er formaður fjvn., þekkir það, hve erfiðlega ríkinu sjálfu, ríkisvaldinu sjálfu, gengur að fá innheimtar ýmsar greiðslur af lánum, sem eru með ríkisábyrgð, og efast ég þó ekki um, að ríkisvaldið sjálft hafi fullan hug á því að hafa reglu á í þessu efni og innheimta þessar greiðslur. En sá liður fjárl., sem er í 20. gr. þeirra og fjallar um afborganir og vexti af lánum með ríkisábyrgð, fer stöðugt hækkandi þrátt fyrir hina góðu viðleitni ríkisvaldsins að hafa reglu á í þessu efni. Og þegar litið er til þessa, þá er ekki hægt að kasta þungum steini á Tryggingastofnun ríkisins, þó að henni gangi erfiðlega um innheimtu fjár frá ýmsum sveitarfélögum. (Gripið fram í.) Ég segi þetta almennt til athugunar.

Þó að dvalarsveit móður eigi að greiða meðlagið, þá á hún endurkröfurétt á framfærslusveit föðurins. Og það er þá endanlega framfærslusveit föðurins, sem á að gera upp reikningana við hann — við einstaklinginn. Ýmislegt er gert til þess að styrkja aðstöðu framfærslusveitar í þessu efni, og má meðal annars minna á það, að ríkið veitir nú langstærsta sveitarfélagi þessa lands, Reykjavíkurbæ, nokkra fjárhagslega aðstoð til þess að reka vinnuhæli á Kvíabryggju, að ég ætla í því skyni að veita aukið aðhald, veita sveitarfélaginu, framfærslusveit, bætta aðstöðu til þess að innheimta slíkar meðlagsgreiðslur eins og þær, sem hér er um að ræða.

Heilbr.- og félmn. hefur því þótt það eðlilegt, að málið yrði afgreitt á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.