07.02.1956
Neðri deild: 64. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (1606)

90. mál, óskilgetin börn

Pétur Ottesen:

Ég verð að segja það, að ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum út af ummælum hv. frsm. heilbr.- og félmn. um afstöðu hennar til þessa máls og þó alveg sérstaklega um afstöðu hv. þm. A-Sk., eftir að hann hafði rökstutt svo rækilega mitt mál eins og hann gerði með því að taka undir það, sem ég sagði um það, hvað miklir erfiðleikar eru á því í mörgum tilfellum að innheimta meðlögin. Það viðurkenndi hann og gaf hér um það allmiklar upplýsingar, hve erfiðlega þetta hefði gengið, þar sem hjá Tryggingastofnuninni hefðu nú safnazt upp allmiklar upphæðir, sem ekki hefðu innheimzt. En hvað heldur þá hv. þm. um það, þegar sveitarfélögin víðs vegar úti um land eiga nú að fara að taka að sér þetta hlutverk Tryggingastofnunarinnar og innheimta þessi meðlög? Heldur hann virkilega, að sveitarfélögin hafi sterkari aðstöðu en Tryggingastofnun ríkisins til þess að innheimta þessi gjöld? Eða telur hann það sanngjarnara, að vaninnheimtir lendi á þeim, þ.e.a.s. dvalarsveitinni, heldur en að það lendi á því breiða baki tryggingunum, sem allir landsmenn standa að og bera uppi sameiginlega? Mér fannst einmitt lýsing hv. þm. á þessum erfiðleikum vera svo sterk rök í þessu máli, að nægja mætti til þess, að hann féllist á mína skoðun. Ég held nú, að hann hljóti við nánari athugun að viðurkenna réttmæti þess, að þegar svo tekst til, að meðlögin innheimtist ekki, þá sé eðlilegra, að þau falli á hið breiða bak trygginganna, heldur en á einstök sveitarfélög, sem mörg berjast í bökkum og eiga í erfiðleikum með að sjá sínum málefnum farborða.

Ég vil þess vegna vænta þess, að þegar við hv. 1. þm. Árn. berum nú fram brtt. okkar um þetta efni, verði skilningur annarra hv. dm. en þeirra, sem nú skipa hér félmn., allt annar og hagstæðari því, sem sanngjarnt er og réttmætt í þessu máli.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum að þessu. Ég vil aðeins geta þess í sambandi við það, að ann taldi, að sýslumenn ættu að beita sér fyrir innheimtu, að ef vanefndir yrðu af hálfu dvalarsveitar, þá vitanlega er það fólgið í því, að sýslumaður gerir ráðstafanir til, að dvalarsveitin greiði þetta, því að samkv. ákvæðum þessa frv. er það dvalarsveitin, sem í fyrstu á að inna þetta af hendi. Svo fer vitanlega eftir atvikum, hvernig henni gengur að innheimta meðlagið. Þetta mál liggur ákaflega ljóst fyrir, og ég held, að það hafi nú við þessar umr., sem hafa farið hér fram, skýrzt enn þá betur en ég nú skýrði það, að slík ákvæði sem þessi eru í andstöðu og ósamræmi við tilgang þessarar löggjafar, að færa byrðarnar af þeim sterkari yfir á þann, sem er veikari, eins og yrði í mörgum tilfellum, ef þessi yrði niðurstaðan.