07.02.1956
Neðri deild: 64. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (1609)

90. mál, óskilgetin börn

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því, sem fram hefur komið viðvíkjandi þessu atriði um innheimtu eða greiðslu hjá dvalarsveit og innheimtu barnsmeðlaga.

Hv. þm. Borgf. (PO) hefur gert grein fyrir því, hvað fyrir okkur vakir um að fá breytingu á þessu og horfið verði til þess fyrra horfs, að tryggingarnar annist þessar greiðslur til barnsmóður. Það mál var hér til 2. umr. í gær, var afgr. til 3. umr., og við hv. þm. Borgf. munum freista þess að bera fram brtt. við það frv, En þetta mál er til umr. hér í dag og fjallar einmitt um þetta efni, hver skuli annast þessa greiðslu til barnsmóður, að það sé dvalarsveitin, og svo á hún að annast um innheimtuna, sem er mjög hæpið að heppnist, eins og reynslan staðfestir, hvernig hefur gengið hjá tryggingunum, og þá þarf ekki að gera ráð fyrir, að sveitarfélagi gangi sú innheimta betur. Þess vegna erum við elnmitt þeirrar skoðunar, að öruggast sé fyrir barnsmóður, að tryggingarnar annist þessar greiðslur, því að eins og kom fram hjá hv. 3. landsk. (HV), eru tryggingarnar óneitanlega langtum sterkari aðili til þess að bera einhver skakkaföll af þessu en sveitarfélögin, og ég tala nú ekki um því fámennari og fátækari sem þau kunna að vera, þá getur þetta verið óbærilegt.

Brtt. hv. nefndar, sem hún ber fram við frv., um að tryggja betur barnsmóður, að hún fái meðlagið með barni sínu frá dvalarsveit, heldur en gert er ráð fyrir í frv., geri ég ekki mikið úr fyrir dvalarsveitina. Það kann að vera nokkur styrkur fyrir barnsmóður, að hún standi betur að vígi með að fá þessa greiðslu, þar sem skyldan er lögð á herðar valdsmanni, að barnsmóðirin fái borgunina, sem henni ber. Og það er góðra gjalda vert, það skal ég játa. En það nær ekki heldur lengra. Gagnvart dvalarsveitinni hefur þetta lítið gildi eða jafnvel ekkert gildi, því að það dettur mér ekki í hug, að fyrir hv. nm. vaki, að sýslumaður geti, af því að hann annast nú innheimtu og að nokkru leyti fjárreiður trygginganna, tekið þessa fjármuni af því fé. Samkv. því orðalagi, sem á þessari brtt. er, hefur hann enga heimild til þess að gera slíkt og mundi ekki heldur gera það. Hann er ábyrgur fyrir því að standa skil á þessum greiðslum gagnvart þeirri stofnun, sem hefur falið honum innheimtuna, svo að dvalarsveitin er eftir sem áður í hættu um að fá endurgreidda þá fjármuni, sem hún verður að greiða til barnsmóður.

Hv. frsm. n. vék að því og færði það fram sem rök fyrir tillögum n., að Tryggingastofnunin ætti margar millj. útistandandi einmitt af þessum gjöldum. Eins og hv. þm. Borgf. réttilega vék að, sýnir það, hver vandkvæði eru á því að fá þessa fjármuni innheimta. Og þó er aðstaða trygginganna mun sterkari til þess að gera sínar kröfur gildandi um þetta efni en hinna einstöku sveitarfélaga. Ég verð líka að ætla, að aðstaða Tryggingastofnunarinnar sé betri til þess að fá úr þessu bætt, ef svo mikil brögð eru að því, að fjárhagslegri getu hennar verði misboðið, heldur en einstakra sveitarfélaga. Þetta verður þá líka enn ljósara, þegar dæmi eru til um það, að sveitarfélög, sem hafa orðið að annast svona greiðslur, dvalarsveit, hafa ekki getað fengið það endurgreitt aftur. Árum saman hefur krafa verið gerð — ég þekki dæmi um það — um að fá slíkar endurgreiðslur. Það hefur ekki fengizt, og það er tapað fé.

Breyting á tryggingalögunum frá því, sem áður var, stafar líka af þessu. Tryggingarnar — og það er vorkunnarmál fyrir þá, sem eiga að annast fjárreiður þeirra og sjá um þær — eru að reyna að ýta þessu af sínum herðum yfir á herðar annarra manna, yfir á herðar sveitarfélaganna, sem hafa óneitanlega langtum verri aðstöðu, minni fjárhagslega getu og verri aðstöðu til þess að innheimta féð aftur. Er þess vegna alveg óhæfilegt að ætla að gera þessa breytingu og koma þessu máli svona fyrir.

Hér komu saman fyrir stuttu oddvitar, ég ætla víðs vegar að af landinu, og þeir ræddu einmitt um þetta mál. Ég ætla, að ég viti það rétt, að hver einn og einasti þeirra var á móti þessari breytingu á l. og mótmælti henni. Og ég verð að segja það, að mér þykir það einkennilegt af hv. alþm., ef þeir ætla að virða óskir þessara manna og tillögur þeirra algerlega að vettugi og taka meira tillit til þessarar stofnunar, sem vill gjarnan ýta af sér þessum greiðslum og tryggja með því móti betur sína fjárhagslegu afkomu, því að annar grundvöllur er ekki til fyrir þessu.

Ég vil nú mega vona, að hv. n. athugi betur sinn gang í þessu máli fyrir 3. umr. og haldi ekki til streitu þessari stefnu, sem er alveg óheyrileg.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið frekar. Við hv. þm. Borgf. munum bera fram brtt. um þetta efni við tryggingalagafrv., og þá eru þessi frv., sem hér eru til meðferðar, úr sögunni, ef það veiður samþykkt. Og ég vil mega vænta þess, að þeir mætu menn, sem eru í heilbr: og félmn., taki til rækilegrar íhugunar sína fyrri afstöðu til þessa máls. Ég held, að þeim hafi alls ekki getað verið það ljóst, hvaða bagga þeir kunna að vera að binda þarna einstökum sveitarfélögum, og sízt af öllu gera þeir barnsmæðrunum nokkurn greiða með þessu, því að þótt þær kunni eftir þeirra tillögum að fá sína peninga, þá gengur það þó ekki eins auðveldlega fyrir sig, það er ég alveg víss um, og heldur mundu þær þá til viðbótar við aðrar ástæður hafa leiðindi af þessu öllu saman, og finnst mér alveg óþarft að vera að stofna til þess með slíkri lagasetningu. Sjálfsagt hafa sumar þeirra nóg

að bera, þó að Alþ. bæti ekki þessum pinkli við, sem er þá alveg óþarft líka