14.02.1956
Neðri deild: 70. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (1631)

152. mál, sjúkrahúsasjóður og talnahappdrætti

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er á þskj. 368, frv. til l. um Sjúkrahúsasjóð og heimíld fyrir ríkisstj. til þess að setja á stofn talnahappdrætti.

Í 1. gr. frv. segir, að stofna skuli sjóð, er nefnist Sjúkrahúsasjóður. Samkv. 2. gr. skal afla sjóðnum tekna með því að setja á stofn nýtt getraunahappdrætti, sem nefnist talnahappdrætti. Talnahappdrættið skal vera með þeim hætti, að dregnar skulu út mánaðarlega eða sjaldnar fimm tölur úr talnaröðinni 1–100. Dráttur skal fara fram opinberlega í Reykjavík. Þátttakendur gizka á, áður en dráttur fer fram, hverjar tölur dragist út í næsta skipti. Verðlaun skulu veitt, ef gizkað er á tvær réttar til fimm. Vinningar í happdrætti þessu skulu undanþegnir öllum opinberum gjöldum öðrum en eignarskatti á því ári, sem þeir eru veittir. Ráðherra sá, sem fer með heilbrigðismál, setur happdrættinu stjórn og ákveður nánar um störf þess með reglugerð, m.a. um þátttökugjald.

Eins og kunnugt er, er mikil þörf á auknu fjármagni til sjúkrahúsabygginga og til heilbrigðismála í landinu. Með þessu frv. er ætlazt til, að unnt verði að afla tekna til heilbrigðismálanna með nýjum hætti, þannig að um það muni verulega og hægt verði að hraða meir en áður byggingu þeirra sjúkrahúsa, sem mest þörf er á. Í grg. fyrir þessu frv. er m.a. minnzt á fjórðungssjúkrahús á Suðurlandi. en þótt það sé nefnt hér, þá er vitanlegt, að það eru ýmis fleiri sjúkrahús, sem nú er verið að byggja og á að byrja að byggja og fjármagn vantar til að ljúka á hæfilega löngum tíma. Það er dýrt að vera með hvert sjúkrahús mörg ár í byggingu, og það er enn tilfinnanlegra fyrir fólkið að bíða eftir því, að verkinu sé lokið og unnt verði að taka sjúkrahúsið í notkun. En það er ætlazt til, að þessi sjóður verði ekki aðeins notaður til þess að byggja sjúkrahús. Þennan sjóð má einnig nota til heilbrigðismálanna yfirleitt. Það má nota hann sem rekstrarstyrk til sjúkrahúsanna, og það má greiða úr honum framlög til heilbrigðismála á ýmsan hátt samkv. reglugerð, sem þar verður sett um og stjórn sjóðsins ásamt ráðherra kann að ákveða.

Happdrætti líkt þessu hefur gefizt vel í Þýzkalandi, hefur reynzt tekjulind fyrir ýmiss konar nauðsynjamál þar í landi. Þótt fólksfæðin hér sé miklu meiri en þar, má eigi að síður reikna með því, að þetta geti einnig gefizt vel hér. Möguleikarnir til vinnings eru meiri í þessu happdrætti en mörgum öðrum, en enda þótt vinningarnir séu tiltölulega háir, þá er fyrirkomulagið þannig, að afgangur til sjóðsins á eigi að síður að verða allmikill. Það má gera ráð fyrir því, að þátttaka í happdrætti sem þessu gæti orðið almenn, ekki sízt fyrir það, að um leið og menn hafa möguleika á vinningi, jafnvel meiri möguleika en í öðrum happdrættum, þá er hér um leið verið að stuðla að því að skapa fjármagn, sem eingöngu á að nota til heilbrigðis- og mannúðarmála.

Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. að svo stöddu. Ég vil vona, að þótt nú sé áliðið þings, geti þetta frv. orðið að lögum. Ég vænti þess, að þetta sé eitt þeirra fáu mála, sem ekki þurfa að valda deilum eða ágreiningi hér í þingi. Þess vegna legg ég til, að þessu frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til heilbr.- og félmn., og vænti þess, að sú n. láti það fá skjóta og góða afgreiðslu.