08.11.1955
Efri deild: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (1653)

85. mál, mannanöfn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, eru nú í gildi um mannanöfn lög frá 1925, sem höfðu þann aðaltilgang að banna ættarhöfn, þ.e.a.s. koma í veg fyrir, að tekin væru upp ný ættarnöfn, og leiða til þess, að verulegur hluti af þá viðurkenndum ættarnöfnum félli niður. Þessi lagasetning, sem kom í stað fyrstu mannanafnalaganna, er sett voru 1913, var mjög umdeild á sínum tíma, en hefur sannast sagt ekki náð þeim tilgangi, sem ætlað var. Að vísu hefur ekki, frá því að lögin frá 1925 voru sett, verið heimilað að staðfesta ný ættarnöfn, en alkunnugt er, að mikill fjöldi nýrra ættarnafna hefur verið tekinn upp á þeim árum, sem síðan eru liðin, og telja fróðir menn, að þau nöfn, sem þannig hafa verið tekin upp og notuð eru án heimildar í lögum og beint gegn lögum, skipti hundruðum og það séu nú þúsundir manna, sem beri þessi ólöglegu ættarnöfn, auk þess sem alls ekki hefur verið fylgt því ákvæði l., að niður féllu smám saman hin eldri ættarnöfn sum, þannig að börnum, sem fædd væru eftir þann tíma, væri óheimilt að taka upp ættarnafn foreldra sinna. Því ákvæði hefur ekki heldur verið fylgt né hefur eftir því verið farið, sem ákveðið var, að gefin skyldi út skrá um óþjóðleg og óheppileg eiginnöfn, sem síðan átti að vera til leiðbeiningar prestum um það að synja að skíra börn slíkum nöfnum, svo að ljóst er af því, sem ég hef nú sagt, að lögin frá 1927 hafa nánast sagt verið dauður bókstafur. Eftir þeim hefur alls ekki verið farið í framkvæmd. Auðvitað má ásaka stjórnvöldin fyrir það að hafa ekki farið eftir þessum lögum, en þá hygg ég, að það mundi brjóta í bága við hugmyndir alls almennings, ef tekið væri nú að elta menn með málsóknum fyrir þessar sakir.

Það var því skoðun mín að athuguðu máli, að telja yrði lögin frá 1925 óframkvæmanleg, svo að án tillits til þess, hvort menn út af fyrir sig væru sammála meginstefnu þeirra um bann við ættarnöfnum eða ekki, þá þýddi ekki að hugsa til framkvæmdar þeirra að svo komnu. Ég fékk því nokkra góða menn til þess að taka að sér endurskoðun þessarar löggjafar, og voru það þeir Alexander Jóhannesson prófessor, Jónatan Hallvarðsson hæstaréttardómari, Þorsteinn Þorsteinsson fyrrverandi hagstofustjóri og Þórður Eyjólfsson hæstaréttardómari, — ég fékk þá til þess að taka að sér endurskoðun nafnalöggjafarinnar og semja frv. að nýjum lögum um þessi efni, og liggja tillögur þeirra fyrir í frv. til laga um mannanöfn, sem nú er til umræðu, og fylgir því frv. allýtarleg grg., þar sem bæði er gerð grein fyrir sögulegum aðdraganda þessa máls, sem sagt hvernig nafnarétti hafi verið háttað hér á landi, og síðan er ýtarleg grein gerð fyrir þeim breytingum, sem eru í frv. frá fyrri ákvæðum, og loksins gerð grein fyrir einstökum ákvæðum frv., svo sem tíðkanlegt er.

Ég skal ekki rekja efni frv. eða grg. nema að litlu leyti. Þess ber þó að geta, að nm. voru ekki að öllu leyti sammála. Þorsteinn hagstofustjóri vildi ekki ganga eins langt í því og meðnm. hans að banna óþjóðleg eiginnöfn í framtíðinni og er enn fremur ívið hlynntari ættarnöfnum en þeir hæstaréttardómararnir. Aftur á móti greinir hæstaréttardómarana og Alexander Jóhannesson ekki á um eiginnöfnin, en Alexander Jóhannesson hefur sérstöðu varðandi ættarnöfn og vill helzt banna þau, a.m.k. upptöku nýrra nafna, og stuðla að því, að hin eldri nöfn geti að mestu leyti, að því er mér skilst, fallið niður smám saman. Lögfræðingarnir tveir, Jónatan Hallvarðsson og Þórður Eyjólfsson, sem var form. nefndarinnar, eru hins vegar sammála öllum ákvæðum frv. eins og það nú liggur fyrir, og hafði n. áður rætt við mig um meginefni frv., og get ég lýst því yfir, að ég er sammála þeim dómurunum í tillögum þeirra og tel, að þeir nafi einmitt hitt á réttan meðalveg í þessu vandasama, en mikilvæga máli.

Sú regla á að haldast, sem hefur verið í lögum, hvað sem um framkvæmd hennar hefur verið, að eiginnafn á að vera íslenzkt og rétt að lögum íslenzkrar tungu. Það má hvorki vera hneykslanlegt né klaufalegt né með öðrum hætti þannig að gerð eða merkingu, að til ama verði þeim, sem það ber. Þetta er nokkuð öðruvísi orðað, en að meginefni til það sama og í gildi hefur verið. En nýjung er það, sem segir í 3. og 4. mgr. 2. gr., þar sem tekið er fram, að eiginnafn má ekki vera þannig lagað, að kennt sé til nafns annars manns, hvort heldur nafnið er haft í eignarfalli eingöngu eða í eignarfalli að viðbættum orðunum son eða dóttir. Ekki má gera löglegt ættarnafn að eiginnafni.

Þetta eru nýjungar. Það mundi þannig t.d. vera óheimilt að skíra barn Karl Kristjánsson Jónsson til dæmis. Ef menn vildu láta skíra í höfuðið á okkar ágæta þm. S-Þ., yrðu þeir að láta sér nægja að taka einungis hans nafn og skíra barnið Karl, en það mætti ekki taka föðurnafnið með. Eins mundi vera óheimilt t.d. að skíra barn Sigurður Briem. Það mundi verða óheimilt að skíra barnið ættarnafni. Hvort tveggja þetta hefur verið nokkuð tíðkanlegt, en talið er, að bæði sé það móti réttum lögum tungunnar og eins að þetta valdi ruglingi í ættfærslu og réttum skilningi á ættartengslum manna.

Þá er ráðgert, að í stað þess að áður átti að gefa út skrá yfir þau nöfn, sem ekki mætti skíra, — en sú skrá hygg ég að hafi aldrei verið samin, a.m.k. hefur hún ekki verið endurnýjuð, hafi hún einhvern tíma verið gerð í fyrstu, en ég hygg þó að hafi aldrei verið gerð, — er nú ætlazt til þess, að samin sé skrá yfir góð og gild nöfn, sem verði mönnum til leiðbeiningar. Enn fremur er ráðgert, að prestar fái vitneskju um það með nokkrum fyrirvara, hvaða nafni eigi að skíra barn, þannig að þeir geti áttað sig á því, hvort þeir telji eitthvað athugavert við nafnið, og er ráðgert, að það kunni að verða ágreiningur um nafngjöfina, og er þá heimilt að skjóta slíkum ágreiningi til svokallaðrar mannanafnanefndar, sem á í þessum efnum að hafa sumpart fullt úrskurðarvald og sumpart að verða til leiðbeiningar dómsmrn. En þessi mannanafnanefnd er samkv. 21. gr. skipuð þremur mönnum, og eiga þar að sitja tveir kennarar heimspekideildar og einn kennari í lögfræði við Háskóla Íslands, en dómsmrn. á að velja þá.

Þá segir í 10. gr., að lögleg ættarnöfn, sem íslenzkir ríkisborgarar bera nú, megi haldast. Þetta er veruleg breyting frá því, sem nú er í lögum, vegna þess að eins og ég tók fram, áttu hin nýrri ættarnöfn smám saman að leggjast niður eftir l. frá 1925. En svo segir í 2. mgr. 10. gr., að eftir að lög þessi öðlast gildi, er óheimilt að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi, nema dómsmrn. hafi veitt leyfi til þess, enda hafi mannanafnanefnd samþykkt ættarnafnið. Það er sem sagt í huga manna að standa á móti ættarnöfnum, en hafa þó þarna vissa heimild til þess að leyfa upptöku þeirra, og kemur af því, að mönnum þykir reynslan hafa sýnt, að óframkvæmanlegt sé með löggjöf að stöðva upptöku ættarnafna og þá sé betra að reyna með skynsamlegum ráðum að hafa áhrif á það, bæði að ekki sé farið sérstaklega geyst í þeim efnum og þó ekki síður að þau nöfn, sem valin verða, séu rétt að lögum tungunnar. Segir um það í 11. gr., að ættarnöfn skuli vera íslenzk og rétt að lögum íslenzkrar tungu. Ekki er heimilt að taka upp ættarnafn, sem annar maður hefur áður öðlazt rétt til að bera eða er svo líkt því nafni, að villu geti valdið. Ekki má gera eiginnafn, sem tíðkað er í landinu, að ættarnafni, og eigi heldur nöfn, sem enda á orðinu son, og mundi það ekki skipta máli, t.d., þó að menn kölluðu sig Björnson eða Albertson, eins og dæmi eru til, — það yrði óheimilt engu að síður sem ættarnafn. En það þykir fróðum mönnum, að slík nöfn verði til ruglings varðandi ættfræði og það sé betra, að nafnið sjálft beri beinlínis með sér, að um ættarnafn sé að ræða, ef það á annað borð er fyrir hendi.

Mér er auðvitað ljóst, að sá annmarki kann að fylgja þessum ákvæðum um takmarkaða heimild til að leyfa ættarnöfn, að óvíst er, að menn treysti sér til að framkvæma þau fyrirmæli frekar en þeir framkvæmdu ákvæðin um algert bann, og þess vegna kynni svo að fara, að hér yrði um dauðan bókstaf að ræða svipað og þann, sem í gildi hefur verið, en þó ætti hættan á þessu að vera minni og menn, ef þeir á annað borð geta fengið ættarnöfn löggilt, að fást til þess að sækja um löggildingu og sætta sig þá við þær takmarkanir, sem settar verða að fróðra manna dómi, hvers eðlis nöfnin skuli vera.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að rekja efni frv. Eins og ég gat um, er ýtarleg grg. og röksamleg, sem frv. fylgir, og geta menn þar áttað sig á einstökum atriðum þess og málinu í heild. Ég efast ekki um, að frv. sé til stórra bóta frá því, sem verið hefur, ef tekst að framkvæma það svo sem efni standa til.

Ég vil þó geta þess — og skýt því til hv. nefndar — að mér hefur verið bent á, að athuga þyrfti ákvæði frv. að því er varðar, um hverja það skuli gilda, hvort ætlazt sé til, að það gildi eingöngu um íslenzka ríkisborgara og þá án tillits til þess, hvar þeir eru búsettir, hvort það er hér á landi eða annars staðar, eða hvort ætlazt er til, að það taki til allra manna, sem hér á landi eru búsettir, og þá án tillíts til þess, hvort þeir eru íslenzkir ríkisborgarar eða ekki. Fyrirmæli frv. um þetta eru ekki nægilega glögg, geta valdið ágreiningi, og er nauðsynlegt, að nefnd, helzt í samráði við semjendur frv., taki það atriði til sérstakrar íhugunar.

Að svo mæltu vil ég leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntamálanefndar.