05.12.1955
Efri deild: 25. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (1662)

85. mál, mannanöfn

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara út í það, sem ég sagði áðan, neitt að ráði, að ég er yfirleitt á móti ættarnöfnum og vil ekki láta leyfa þau almennt, þótt með leyfi sé, elns og í frv., heldur banna þau alveg fyrir framtíðina. En af því að málið fer til n. aftur, eru það tvö atriði, sem ég vil biðja n. að taka til athugunar.

Í þessu frv. er farið inn á gamlar, troðnar slóðir, þær að skipa nefnd, sem á að standa, meðan lögin gilda, og vera nokkurs konar ráðunautur ríkisstj. um, hvaða nöfn eru hæfileg til að falla inn í málið o.s.frv., og hún er kölluð mannanafnanefnd. Ég held, að þetta sé óþarfi. Ég held, að það sé upplagt fyrir dómsmrh. á hverjum tíma að láta mann í ráðuneytinu gera þetta og þurfa ekki að setja upp neina eilífðarnefnd til þess að segja um það og greiða henni borgun fyrir. Ég held, að við höfum alveg nóg að borga úr ríkiskassanum í framtíðinni og á næstu árum, þó að við leikum okkur ekki að því að búa til slíka nefnd og kosta hana, þar sem ævinlega eru í dómsmrn. nægilega margir menn til að geta annazt þetta til viðbótar við þau störf, sem þeir nú hafa.

Þetta var annað, sem ég vildi biðja n. að athuga, og hitt var það, að ef frv. á að samþykkjast eins og það er, þá er óumflýjanlegt, að það komi fram, hverjir skipti um nöfn, hvaða börn eru ættleidd og fá annað nafn og hvaða mönnum er leyft að taka upp ættarnöfn. Það vantar í frv., að það komi fram, ekki með 5–6 ára millibili, eins og núna er um breytingar á nöfnum á jörðum, sem koma frá stjórninni með auglýsingu í Lögbirtingi með nokkurra ára millibili, heldur um leið og nafnið er tekið, og komi strax inn í manntalið. Þetta þarf líka að koma inn í frv. Það þarf að koma inn í frv. að skylda dómsmrn., þegar það er búið að samþykkja einhverja nafnbreytingu, eða mannanafnanefndina, ef maður lætur hana gera það, að tilkynna nafnbreytinguna opinberlega. Það er sögð sú saga í bænum, ekki veit ég, hvort hún er sönn eða ekki, að það hafi verið stofnað félag í Reykjavík og ekki sett inn í félagsskrár og ekki auglýst, en einn bankinn hafi flaskað á að lána því víxil, og þegar kom að því, að hann féll, var firmað ekki til og bankinn fékk ekkert. Það nákvæmlega sama getur komið fram um einstaklingana, sem breyta um nöfn. Þeir geta tekið víxil og víxillinn fallið, og hver er ábyrgur? Þeir geta skrifað undir einhvern sölusamning, og hver er ábyrgur? Það verður strax að koma fram, þegar menn skipta um nafn, og þarf að komast inn í lögin, m.a. af því, að það er reynsla fyrir því, að alveg tilsvarandi „möndl“ með bæjarnöfnin er ekki tilkynnt nema með löngu millibili.