06.01.1956
Neðri deild: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (1678)

85. mál, mannanöfn

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja í tilefni af ræðu hæstv. menntmrh.

Að mörgu leyti þótti mér vænt um að heyra ræðu hans. Hann lýsti því sem sé yfir, að flutningur þessa frv. af sinni hálfu væri gerður sakir þess, að hann hefði fyrir fram ekki trú á, að unnt væri að hafa þetta mál í því formi, sem hann hefði kosið helzt, sem sé að gera alveg hreint borð og afnema öll ættarnöfn. En vegna þess, hvernig hann lítur einmitt á það mál, og meðal annars út af rökstuðningi hans, þegar hann talaði fyrir þessu máli, þá undrar mig, að hann skyldi vilja flytja þetta frv., jafnvel þó að telja mætti fyrir fram einhverjar líkur fyrir því, að framkvæmd þessarar löggjafar yrði nokkuð með öðrum hætti en framkvæmd nafnalöggjafarinnar frá 1925.

Hæstv. ráðh. lýsti því reyndar yfir, að enginn af þeim ráðherrum, sem komið hefðu síðan sú löggjöf var sett, mundi hafa skeytt nokkuð um að halda í heiðri þá löggjöf. En í sambandi við þetta má þá spyrja: Er fyrir fram vitað um það, að þeir ráðherrar, sem koma til með að annast framkvæmd þessarar löggjafar, verði það betur á verðinum hér eftir en verið hefur, að framkvæmd þessarar löggjafar verði í lagi?

Það má vafalaust finna að því við okkur, að við þm., sennilega á hverjum tíma, séum ekki nægilega á verði um það að aðgæta, hvort ríkisstjórnir annast framkvæmd laga eins og vera ætti. Ég skal ekki biðjast neitt undan þeim aðfinnslum, sem að mér kynni að verða beint í því efni, en heldur kýs maður að gera ekki um of að því, nema a.m.k. verulegt tilefni sé til. Ég get lýst því yfir, að ekki hafði ég hugmynd um það fyrr en nú, að allir þeir ráðherrar, sem hafa átt að annast framkvæmd þessarar löggjafar, hafi vanrækt skyldur sínar í því efni. Ég hefði verið einmitt fúsari til að trúa því, að þeir hefðu viljað vera á verði um framkvæmd slíkrar löggjafar, að hún væri með löglegum hætti.

Mér þykir sérstaklega vænt um að heyra yfirlýsingu hæstv. ráðh., þar sem hann er af sinni hálfu tilbúinn til að afnema öll ættarnöfn, og þá skal ég nota tækifærið, sem reyndar hefur komið áður fram hjá mér í umræðum um þetta mál, — það skal ekki standa á mér að fylgja slíkum tillögum. Það, að ég hef ekki gert till. undanfarið um að taka af skarið um þau ættarnöfn, sem leyfð voru með löggjöfinni 1925, er sá mannlegi veikleiki, að maður vill ekki nema af nokkuð mikilli nauðsyn a.m.k. særa tilfinningar manna. En vel má vera, því að menn taka þetta nokkuð persónulega, sem ég álít nú að ekki ætti að vera, að málið hafi samt sem áður verið svo mikilvægt um þetta efni, að maður hefði ekki átt að láta slíka tillitssemi ráða, en enn síður ætti að gera það nú, eins og horfir með þetta mál. — Hæstv. ráðh. drap einmitt á eitt atriði nú í sinni ræðu, hann minntist á, að hér væru í þingi nokkrir menn, sem bæru ættarnafn, þjóðkunnir menn og mætir og góðir menn, og þegar þeir væru búnir að bera það í nokkra áratugi til viðbótar, mundi verða nokkru torveldara að fá slík ættarnöfn afnumin en að gera það nú þegar. Ja, ég býst einmitt við, að þetta sé rétt. Ég er hæstv. ráðh. nokkuð sammála. En hvað heldur þá hæstv. ráðh.? Hvernig heldur hann að það verði, þegar kannske allmikill hluti þjóðarinnar er búinn að taka upp ættarnafn og maður sér, að með því nafnafargani er stefnt í óefni, að fást við slíkt mál og fá það allt saman afnumið? Þá er ég hræddur um, að það verði nokkuð torvelt. Þess vegna er þetta einmitt röksemd með því að taka ekki upp ættarnöfn og helzt af öllu að afnema þau ættarnöfn, sem fyrir eru, þó að með löglegum hætti séu.

Hvað fylgi almennings áhrærir, þá er ég alveg sannfærður um það fyrir fram, að meginþorri fólks mun vera því fylgjandi, að þjóðin haldi sínum forna og góða nafnasið. Nærri því hvar á landinu sem er þyrði ég að keppa um þá skoðun fyrir kjósendum landsins, að ég treysti því og trúi, að þeir menn, sem vilja hafa þennan íslenzka nafnasið í heiðri, hafi hljómgrunn fyrir því og verði í meiri hluta.

Ég tel því, að það væri vel farið, áður en nokkurt óhappaspor er stigið í þessum málum, að það verði gert hreint borð í þessum efnum og við höldum okkar gömlu venjum og hreinsum málið af þeim fáu ættarnöfnum, sem fyrir eru, og ég er víss um, að fljótlega sætta menn sig við það. Ég hef þá trú til manna fyrir fram, að ei þeir íhuga, hvað skaðlegt það kynni að reynast okkar tungu að taka upp þennan nýja síð, mundu þeir vilja fúsir vinna það til að leggja ættarnafn sitt niður og kenna sig við föður sinn eins og okkar nafnasíður er og hefur verið og ætti að vera áfram.

Ég verð að segja það að lokum, að ég hef hina beztu trú á því, að þessu frv. verði gersamlega snúið við og ættarnöfn verði með öllu bönnuð, og það mundi verða bezta lausnin á þessu máli.