06.01.1956
Neðri deild: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (1679)

85. mál, mannanöfn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég er ekki í neinum vafa um það, að meiri hluti íslenzku þjóðarinnar er andvígur ættarnöfnum. Það kemur fram í vali manna sjálfra. Þrátt fyrir það að nokkuð hafi bætzt við ættarnöfn á undanförnum áratugum, er það enn yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga, sem heldur fast við hinn forna íslenzka sið. Hitt er ekki jafnvíst, og það verðum við að gera okkur ljóst, hvort aðferðin til þess að halda öllum við hinn góða gamla síð sé sú að hafa um þetta ströng bönn eða reyna að fella þá löngun, sem hjá sumum og allmörgum er til ættarnafna, inn í hóflegan farveg, en standa þó þar á móti eftir föngum.

Ég vil ítreka það, að frv. miðar ekki að því að opna allar flóðgáttir, heldur að koma á raunverulegri takmörkun frá því, sem verið hefur, og allar aðrar túlkanir á frv. eru ranghermi. Menn geta sagt, að frv. nái ekki tilgangi sínum, það sé ófullkomið o.s.frv., en það er yfirlýstur tilgangur frv. að verka til hindrunar í þessu efni Ef menn telja, að þær hindranir séu ekki nógu miklar, og vilja hafa þær strangari, þá, eins og ég sagði áðan, er ég sammála því, að það verði gert, ef menn vilja gera það af fullkominni alvöru og af heilindum og ekki til að sýnast.

Mér heyrðist það nú á hv. 1. landsk. (GÞG), að honum hafi ekki alveg geðjazt það, sem ég sagði. Það skiptir mig í sjálfu sér ekki miklu máli. Hitt hefur meiri þýðingu, að orð mín höfðu auðsjáanlega haft á hann góða verkun að því leyti, að nú lýsti hann því yfir, að hann ætlaði að hafa það sem aðaltillögu, sem hann nefndi alls ekki sem sína till. í sínu fyrra máli. En það er gott, að eitthvað hefur verið kippt í hans skoðun við það, sem ég sagði, og þarf ég sízt um það að sakast. — Það er líka mjög óvenjulegt lítillæti og fjarstætt því, sem við eigum að venjast, ef hv. þm. ætlar að taka upp þann sið í framtíðinni að flytja ekki till. um það, sem aðrir eru að vinna að. Ég held einmitt, að þessi hv. þm. sé þekktur að töluvert öðrum vinnubrögðum, að honum að öðru leyti ólöstuðum, en að hann sé feiminn í tillöguflutningi eða frábitinn því að taka upp mál, sem aðrir eru að fjalla um, en ef hann hefur þær hugmyndir um sig sjálfur, sýnir það einungis, að enginn er dómari í sjálfs sín sök.

Hinu hverf ég ekki frá, að langáhrifaríkasta aðferðin í þessu efni er sú, að þeir, sem bera ættarnöfn og telja ósiðlegt að flytja frv. um að reyna að hafa einhvern skikk í þeim efnum, ættu sjálfir með sínu góða fordæmi að leggja niður ættarnöfnin og byrja síðan vítur á aðra, þegar þeir eru búnir að sýna með þessu sínu fordæmi, að hugur fylgi máli hjá þeim.