16.12.1955
Efri deild: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hér er lagt fyrir frv. til nýrra launalaga. Þetta frv. er undirbúið af mþn., sem sérstaklega var til þess skipuð.

Gildandi launalög eru frá árinn 1945. Síðan þau voru sett, hafa átt sér stað miklar breytingar á kaupgjaldi í landinu. Kaupgjald hefur hækkað stórlega. Bæði kaupgjald verkamanna og eins kaupgjald miðstétta og yfirleitt allra launþega hefur hækkað mjög verulega. Undanfarið hafa því verið uppi að sjálfsögðu háværar kröfur um setningu nýrra launalaga, sem væru byggð á því fyrst og fremst að færa launagreiðslur opinberra starfsmanna til samræmis við launagreiðslur eins og þær nú eru orðnar í landinu. Að vísu hafa opinberir starfsmenn fengið uppbætur á laun sín, sumpart grunnlaunauppbætur nokkuð til móts við hækkun á grunnlaunum almennt og sumpart vísitöluuppbætur til móts við vaxandi dýrtíð og þá nokkuð í samræmi við reglur um verðlagsuppbótagreiðslur til annarra starfsmanna. En þessar uppbætur hafa ekki náð til þess að samræma launakjörin við launakjör almennt, og þess vegna hefur verið óskað eftir því af opinberum starfsmönnum og nauðsyn þess séð af hv. Alþ. og ríkisstj. að setja ný launalög.

Ég rek ekki hér einstök atriði þessa frv., þar sem því fylgir ýtarleg grg., og vísa ég til hennar um einstök atriði, en höfuðstefna málsins er þessi: að færa launakjörin til samræmis. Er það gert með því að hækka öll laun nokkuð frá því, sem búið var að ákveða þau með grunnlaunauppbótum, og enn fremur eru einstakir starfshópar færðir til í launaflokkum eftir því, sem mþn. og öðrum, sem um þetta hafa fjallað, hefur sýnzt réttlátt. Auðvitað orkar alltaf tvímælis, hvernig skipa eigi starfsmönnunum í launahópa, og verður aldrei fullt samkomulag um það, en ég hygg, að ég megi fullyrða, að þeir, sem hér hafa að starfað, sem eru mþn. og hv. fjhn. beggja d. Alþ., hafi gert það, sem í þeirra valdi stendur, til þess að reyna að komast að sanngjarnri niðurstöðu um niðurröðun starfsmannanna innbyrðis í launaflokkana.

Nú er þannig ástatt, að mjög þýðingarmikið er, að launalögin verði sett fyrir áramótin og að sú mikla vinna, sem í þetta mál hefur verið lögð nú undanfarið, komi að fullum notum þá þegar. Til þess að greiða fyrir starfinu hefur verið hafður sá háttur á, að fjhn. deildanna hafa unnið saman, og fjhn.-menn þessarar hv. d. hafa þegar lagt í þetta mál mjög mikla vinnu ásamt félögum sínum í Nd. Geri ég mér þess vegna vonir um, að málið geti fengið skjóta afgreiðslu í hv. d. og raunar að það muni geta fengið samþykki hv. d. án breyt., vegna þess að hv. fjhn. þessarar deildar hefur átt alveg jafnan hlut að málinu við fjhn. Nd.

Samt sem áður legg ég að sjálfsögðu til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. d., en vil mega eiga það tryggt, enda veit ég, að ég á það tryggt, að hv. n. skili fljótt áliti um málið, þar sem hún er því svo þaulkunnug orðin fyrir, ekki aðeins meginstefnu málsins, heldur hverju einstöku atriði þess.

Ég geri það að till. minni, að málinu verði vísað til hv. fjhn. deildarinnar.