16.01.1956
Neðri deild: 42. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (1695)

97. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í núgildandi lögum um það, hverjir eigi að borga skemmtanaskatt, er heimild til undanþágu, sem er svo við, að ákaflega er erfitt að segja fyrir fram, hversu langt hún nái, sérstaklega vegna þess að hæstiréttur hefur túlkað lagaákvæðið þannig, að það væri undir úrskurði dómstólanna komið, hvort undanþáguna ætti að veita, og þá til styrktar málefni, er miði að almenningsheill. Það hefur reynzt svo, að á seinni árum hafa ýmsir sótt um og fengið undanþágu samkv. þessu, sem allar líkur eru til að ekki hafi í upphafi verið hugsað að slíka undanþágu fengju. Af þessum sökum og vegna þess, að þessi framkvæmd hlýtur mjög að draga úr greiðslu skattsins, þar með tekjum af honum og möguleikum til þess að verða til styrktar þeim þörfu málefnum, er góðs eiga að njóta af skattinum, hefur verið endurskoðað ákvæðið og frv. nú lagt fram um að gera það ákveðnara og um leið bundnara, hverjum megi veita undanþáguna. Að mestu leyti, ekki að öllu, eru þær reglur, sem settar eru í þessu frv., í samræmi við þá framkvæmd, sem verið hefur, en þá þar með girt fyrir, að undanþágan verði enn þá víðtækari en framkvæmd hefur komizt á um, en viðbúið var að svo yrði. Þó er þetta ef til vill nokkuð þrengt frá því, sem verið hefur, og sé ég ekki ástæðu til að rekja það frekar. Hv. nefnd athugar, hvort hún telur, að hér hafi verið farin hin rétta millileið. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um frv., en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og nefndar, þeirrar sömu og í Ed.