12.10.1955
Neðri deild: 3. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

12. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég lýsti því yfir í lok síðasta Alþingis fyrir hönd ríkisstj., að ríkisstjórnin mundi leggja til við hv. Alþ., að frá næstu áramótum yrðu greiddar fullar vísitöluuppbætur á öll laun opinberra starfsmanna. Ástæður fyrir þessari yfirlýsingu voru greindar þá greinilega, og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þær, en það frv., sem hér liggur fyrir, er að þessu einu leyti frábrugðið því frv., sem gert var að lögum á síðasta þingi um greiðslu verðlagsuppbótar á laun opinberra starfsmanna.

Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umræðu.