19.01.1956
Efri deild: 43. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (1701)

116. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umr. á þskj. 154, frv. til laga um Iðnaðarmálastofnun Íslands, er, eins og kunnugt er, gamall kunningi hér í hv. deild, þótt það hafi verið áður í nokkru öðru formi.

Þetta mál er fyrst flutt af mér árið 1947. Þá flyt ég frv. um iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð, og eftir að það hafði fengið þá allmikla athugun hér í þessari hv. deild, er borin fram rökstudd dagskrá af minni hl. hv. iðnn., sem hafði fengið málið til umræðu; nefndin hafði klofnað í málinu, en minni hl. ber þá fram rökstudda dagskrá, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti endurskoða þetta frv. með hliðsjón af lögum um rannsóknaráð ríkisins og lögum um fjárhagsráð og leggi síðan fyrir næsta Alþingi frv. um heildarskipun iðnaðarmálanna og aðstoð ríkisins við þau, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Að þessari rökstuddu dagskrá stóð þá Framsfl. í n. og fulltrúar kommúnistaflokksins. — Meiri hl. iðnn. gaf þá út nál., dags. 12. febr. 1948, með ýtarlegum umsögnum allra þeirra aðila, sem leitað var til, og lagði til, að frv. yrði samþ. með nokkrum breytingum. En afgreiðsla málsins þá í þessari hv. deild varð sú, að rökstudda dagskráin var samþykkt og frv. þannig vísað frá á því stigi málsins.

Næst ber ég svo þetta frv. fram árið 1949, og fer það þá einnig til hv. iðnn. þessarar deildar, en kemur þaðan ekki og dagar þar af leiðandi uppi í þinginu.

Árið 1950 er svo málið borið enn fram af mér og er þá samþykkt hér í hv. deild og sent hv. Nd., en fær þá þar þær viðtökur, að fulltrúi Framsfl. ber þar enn fram rökstudda dagskrá í málinu, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Neðri deild Alþingis telur eðlilegt, að ríkið leggi fram fé til styrktar upplýsinga- og leiðbeiningastarfsemi í þágu iðnaðarins, og mælir með því, að ríkisstjórnin setji fjárframlag í þessu skyni í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár, ef slíkri starfsemi verður haldið uppi af félagssamtökum iðnaðarins. En með skírskotun til þess, að Alþingi hefur ekki sett lög um störf búnaðarmálastjóra og fiskimálastjóra, sem veita forstöðu þeim stofnunum, er annast upplýsinga- og leiðbeiningastarfsemi fyrir landbúnað og sjávarútveg, telur deildin ekki ástæðu til að setja lög um störf iðnaðarmálastjóra, sem félagssamtök iðnaðarins væntanlega ráða í sína þjónustu, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Síðan dagar málið uppi í neðri deild og er svo tekið enn fyrir í þinginu, en nær heldur ekki fram að ganga, svo að sýnilegt er, að málið hefur átt mjög erfitt uppdráttar eins og þau skjöl bera með sér, sem ég þegar hef lesíð upp. Samt sem áður var alltaf fyrir málinu allmikið fylgi í þinginu, og það endaði þá einnig þannig, að þó að frv. væri fellt ár eftir ár, þá var tekið upp í fjárlög 1952 framlag til þess að annast það verkefni, sem tekið var upp í frumvörpunum, og Iðnaðarmálastofnunin komin raunverulega þannig á, án þess að um það væri sett nokkur löggjöf. Þessi starfsemi eykst svo ár frá ári, og fjárframlag til hennar er einnig aukið, og kom þá fljótt í ljós, að nauðsyn til þess að koma slíkri stofnun á var óhjákvæmileg, enda mun nú svo komið, að það mun enginn leggja til, að þessi starfsemi verði aftur lögð niður. Hefur þá komið í ljós það, sem ég hélt fram á fyrsta stigi málsins, að iðnaðurinn í landinu ætti jafnmikla kröfu til aðstoðar á þessu sviði og sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn, og hefur hann nú fengið nokkra viðurkenningu og allmikið fjárframlag, eins og kunnugt er, þó að það sé ekki á jafnháu stigi og hinir tveir atvinnuvegirnir í landinu.

Á síðasta ári ber svo hæstv. iðnmrh. fram frv. til laga um iðnaðarmálastofnun. Þetta mál náði ekki fram að ganga, stöðvast, m.a. vegna þess ágreinings, sem var um stjórn á stofnuninni, og nokkuð einnig vegna þess, að upp í það frv. höfðu ekki verið tekin í meginatriðum flest þau atriði, sem tekin voru upp í frv. um iðnaðarmálastjóra á sínum tíma. Af þeim ástæðum lét svo hæstv. ráðh. nefnd athuga málið á ný á s.l. ári, og útbjó hún frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 154 og hæstv. ráðherra hefur borið fram að mestu leyti óbreytt. Er, eins og kunnugt er, fullt samkomulag um frv. í nefndinni, að undanskildu því, að ég sem einn nm. áskildi mér rétt til þess að bera fram brtt., einkum um stjórn stofnunarinnar, og fylgja öðrum brtt., sem fram kynnu að koma.

Þetta mál hefur nú fengið meðferð í hv. iðnn. þessarar hv. deildar. Það hafa verið haldnir þar um sex fundir og málið rætt frá ýmsum hliðum, en því miður ekki orðið samkomulag um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til, að frv. sé samþykkt með tveimur breytingum, fyrst breytingum við 5. gr., sem ég síðar skal koma að, og svo breytingu við 11. gr. En minni hl. leggur til, að málinu sé enn vísað frá með rökstuddri dagskrá, og enn er það Framsfl., sem stendur að afgreiðslu þessa máls á þessum grundvelli, eins og hann hefur gert raunverulega frá því að málið fyrst kom til umræðu hér í þinginu.

Fyrsta brtt. á þskj. 244 er í samræmi við þá brtt., sem ég bar fram í mþn. og ekki náði þar samþykki, og einn af nm. í meiri hlutanum, hv. 10. landsk. (GÍG), hefur einnig gert ágreining um fylgi við þá brtt. hér í þessari hv. deild og er óbundinn af atkvgr. í sambandi við hana. Eftir að brtt. er fram komin, hefur þetta atriði verið rætt mjög ýtarlega við hæstv. ríkisstj. og einnig við þá aðila, sem standa að Iðnaðarmálastofnuninni, félagasambönd, sem þar hafa þátttöku nú í stjórn og vænta að fá hana framvegis, og með því að við, sem viljum þessu máli vel og höfum barizt fyrir því, viljum ekki láta slíkt ágreiningsatriði verða til þess að torvelda málið, þá hefur það orðið samkomulag milli okkar í meiri hl. að taka þessa till. til baka, og vil ég með því sýna fullt fylgi við sjálft málið og við stofnunina. Og ef aðrir þm. skyldu taka hana upp, sem getur vel verið, þá munum við samt sem áður ekki fylgja henni, vegna þess að við viljum, að það náist sem mest samkomulag um þetta mál á milli þeirra aðila, sem eiga að njóta góðs af starfsemi stofnunarinnar. Það má að sjálfsögðu deila mjög um það, hvernig skipa eigi stjórn í slíkri stofnun. Það hafa komið fram ýmsar raddir um það að hafa þar jafnvel enga stjórn aðra en láta reka stofnunina fullkomlega á ábyrgð ráðherra, hafa þar bara einn framkvæmdastjóra og skipa síðan nokkurs konar iðnaðarmálaráð, þar sem allir aðilar, sem einhverra hagsmuna hafa að gæta í sambandi við starfið, hefðu fulltrúa, og það ráð væri meira ráðgefandi, en hefði ekki atkvæðisrétt. Slíkt fyrirkomulag hefur verið tekið upp í Noregi, og munu sitja þar um 22 menn í slíku ráði. Það gæti líka verið hugsanlegt að hafa aðeins þrjá menn sem stjórnendur í stofnuninni. En þeir aðilar, sem hafa daglega samvinnu við stofnunina og vænta sér mests og bezts árangurs af störfum hennar, hafa sótt mjög fast, að stjórn stofnunarinnar væri skipuð á þann hátt, sem hæstv. ráðh. leggur til í frv., og ég persónulega geri engan sérstakan ágreining út af því, get þá vel fellt mig við það atriði og legg meira upp úr því, að um þetta náist samkomulag, heldur en hvort mennirnir eru fleiri eða færri í stjórninni; ég tel það alveg aukaatriði.

Um hina brtt., við 11. gr., þá er hér aðeins um lítilfjörlega breytingu að ræða. Þar er sagt, að upphaf greinarinnar skuli orðast um, eins og þar stendur: Iðnaðarmálastofnuninni er rétt að hafa samstarf við viðskiptadeild og atvinnudeild háskólans — og þykir rétt að mæta þeirri ósk frá viðskiptadeildinni, að það skuli einnig höfð samvinna við hana í sambandi við framkvæmd þessara mála. Er enginn ágreiningur um það atriði út af fyrir sig.

Sá ágreiningur, sem hefur orðið í nefndinni, skilst mér að stafi mest af ákvæði í 2. gr. frv., undir tölulið 1, þar sem sagt er, að stofnunin eigi að fylgjast með eða hafa forgöngu um rannsóknir á skilyrðum til fullkominnar hagnýtingar á þeim hráefnum, sem landið á yfir að ráða, og skila árlegri álitsgerð til ríkisstj. um þessi mál.

Það hefur af einstaka aðilum og m.a., skilst mér, af atvinnumálanefnd ríkisins verið skoðað þannig, að hér sé ætlunin, að iðnaðarmálastofnunin vaði inn á svið rannsóknaráðs ríkisins. En þetta er byggt á ákaflega miklum misskilningi. Ef það væri hægt að ná samkomulagi um það, að hv. minni hl. n. vildi fylgja frv. með því að breyta þessum lið í 2. gr. þannig, að það sé enginn ágreiningur um það, að hér á ekki að taka nokkurt starf af rannsóknaráði ríkisins, þá er ég að sjálfsögðu tilbúinn til þess að ræða það fyrir 3. umr. við n., svo framarlega sem gæti orðið samkomulag um það atriði. Komi till. til atkv. og verði felld, er ég tilbúinn til þess að ræða um að breyta orðalagi greinarinnar, ef það þykir heppilegra að hafa það á annan hátt. Það hefur aldrei verið hugsað, að sjálf Iðnaðarmálastofnunin hefði raunverulega neinar rannsóknir, hvorki efnarannsóknir né aðrar rannsóknir með höndum, nema því aðeins að aðrir aðilar í landinu fengjust ekki til þess, og það er einmitt þess vegna, sem sett er í 1. tölulið greinarinnar, að hún skuli fylgjast með eða hafa forgöngu um, þ.e.a.s. hafa forgönguna, ef ekki er gert neitt að því annars staðar, og þá geta þeir alveg eins haft forgöngu um það, að það sé falið rannsóknaráði ríkisins, en ekki sjálfri stofnuninni, svo að það þarf ekkert að rekast á við þær framkvæmdir, sem rannsóknaráðið hefur í þessum málum, enda hef ég rætt um þetta við forstjóra rannsóknaráðs ríkisins og hann fallizt á, að hér væri á engan hátt gengið inn á verksvið þeirrar stofnunar, þó að þetta standi þannig í frv. En sem sagt, ég er fús til þess að ræða um breytingar á þessu ákvæði í frv., ef það gæti orðið til þess að ná samkomulagi um málið.

Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta atriði, en aðeins minnast örlítið á hina rökstuddu dagskrá frá hv. minni hl. Mér skilst, að eins og hún er sett fram, þá komi þar fram nokkur misskilningur á bréfi atvinnumálanefndar ríkisins. Rökstudda dagskráin segir hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að Alþingi hefur kosið sérstaka nefnd, atvinnumálanefnd ríkisins, til þess m.a. að gera till. um framtíðarskipulag tilrauna og rannsókna í þágu atvinnulífsins og fyrrgreind nefnd hefur óskað eftir, að þessu máli verði frestað, þar sem eðlilegast sé að fella starf Iðnaðarmálastofnunar Íslands inn í heildarkerfi ákvæða um rannsóknir og tilraunir, — og með því að Iðnaðarmálastofnunin getur haldið áfram störfum sínum“ o.s.frv. — En þetta kemur hvergi fram í bréfi nefndarinnar, að það sé hugsað raunverulega að leggja þessa stofnun niður, og ef það er meining atvinnumálanefndarinnar, þá er því meiri ástæða til að samþ. þessi lög, því að þá er verið þar með að grafa undan þessari stofnun, sem fyrir margra ára baráttu er loksins búið að koma á stofn. Ég á ákaflega erfitt með að trúa því, að það sé fyrsta spor atvinnumálanefndarinnar að ætla sér það, enda kemur það hvergi fram í bréfi nefndarinnar. Ég hygg því, að þessi setning hér sé komin fram hjá hv. minni hl. af misgáningi, og vænti þess, að hv. frsm. minni hl. leiðrétti það í sinni ræðu.

Að öðru leyti sé ég ekki á þessu stigi málsins ástæðu til þess að ræða málið frekar. Þetta mál hefur verið ákaflega vel undirbúíð. Margar milliþn. hafa haft það til athugunar, og það hefur fengið meiri athugun og undirbúning en flest önnur mál, sem hafa verið hér til umræðu undanfarin ár, og niðurstaðan orðið sú, sem ég gat um í upphafi, að það hefur þótt sjálfsagt að koma stofnuninni upp og láta hana starfa, og þá er að sjálfsögðu einnig eðlilegt, að samþykkt séu lög, sem hún starfi eftir.

Meiri hl. leggur því til, að frv. sé samþykkt óbreytt, að undanskilinni þeirri lítilfjörlegu breytingu við 11. gr., sem kemur fram í brtt. á þskj. 244.