19.01.1956
Efri deild: 43. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (1702)

116. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson):

Það er náttúrlega fjarri því, að það sé nokkurt stórmál, hvort þetta frv. verður samþykkt eða því frestað, eins og líka kom fram af ræðu frsm. meiri hl. í þessu máli, þar sem hann ræddi um þann möguleika, sem lægi fyrir í málinu, að Iðnaðarmálastofnunin gæti starfað alveg eins eftir sem áður, hvort sem þetta lagafrv. yrði samþ. nú eða ekki, og benti á leiðir til þess, m.a. eftir norskri fyrirmynd um rekstur slíkra stofnana. Það er þess vegna alveg óþarfi að reyna að vera að búa til nokkurn pólitískan ágreining út af þessu máli. Það liggja svo nærri sannanir fyrir því, hver er afstaða Framsfl. til rannsókna og tilrauna, að það er alveg ókleift verk fyrir hv. frsm. meiri hl. að reyna að koma því inn nokkurs staðar, að Framsfl. sé ekki allra flokka fylgnastur tilraunum og rannsóknum, því að í sjálfri fátækt landsins í heimskreppunni síðustu var unnið það stórvirki að stofna atvinnudeild háskólans, og Framsfl. beitti sér fyrir því, einni stórfelldustu nýjung, sem hefur verið tekin upp og unnin hér á landi í þágu atvinnulífs og iðnaðar, í þágu rannsókna og tilrauna. Það var jafnframt tekin upp sú vinnuaðferð þá að reyna að fylgjast með því í samstarfi við háskólann, hvaða ungir og efnilegir menn tækju sér fyrir hendur að stunda það nám, sem að mestu gagni mætti koma fyrir atvinnulíf landsins, rannsóknir og tilraunir. Þó að sú vinnuaðferð hafi því miður lagzt niður, þá verður hún vitanlega tekin upp aftur, þegar þessi mál mæta þeim skilningi, sem þau þurfa að mæta hjá valdhöfum landsins, og er ég þá ekki að draga á neinn hátt úr því, að námsmenn hafi verið studdir til náms af þeim stjórnum, sem hafa ráðið síðan.

Það hlýtur þess vegna alltaf að vera mikið álitamál, hvernig fátæk þjóð á að koma fyrir rannsóknum sínum og tilraunum, því að menn virðast gleyma því, þegar bornar eru fram till. um það að búa til stofnanir til að hafa þessi verk með höndum, að það kostar geysilega mikla fjármuni að halda uppi þessum rannsóknum og tilraunum, ef í einhverju lagi á að vera, og það er ekki nægilegt að búa til nýjar stofnanir.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta, en ég er ákaflega hræddur um, að ýmsum af þeim, sem starfa við rannsóknir og tilraunir við atvinnudeild háskólans, hafi þótt stundum nokkuð illa að sér búið að því er snertir fjármagn til þess að framkvæma þær rannsóknir og tilraunir, sem þeir hefðu löngun til. Og án þess að ég sé á nokkurn hátt mótfallinn því, að þessi stofnun, Iðnaðarmálastofnun ríkisins, starfi hér í. þessu þjóðfélagi, þá er ég hræddur um það, að a.m.k. ýmsir í atvinnudeildinni álíti vafamál, hvort það hefði ekki frekar átt að efla hana, sem hefur allar þessar greinar raunverulega til meðferðar, sem Iðnaðarmálastofnunin á að hafa, heldur en búa til nýja stofnun, en inn á það skal ég ekki fara í þessum hugleiðingum.

Ég hef núna undanfarna daga einmitt með ýmsum fulltrúum úr öðrum flokkum og með þeim mönnum, sem þekkja bezt rannsóknarstarf og tilraunastarf á Íslandi, framkvæmdastjóranum við atvinnudeild háskólans og forstjóranum fyrir iðnaðardeild atvinnudeildarinnar, setið á fundum til þess að hlusta á þá gera grein fyrir því, hvernig rannsóknum og tilraunum sé nú háttað hér samkvæmt íslenzkum lögum, og jafnframt hefur annar þeirra gert grein fyrir því með nokkrum útdrætti, sem jafnframt hefur verið skilað til nm., hvernig rannsóknum og tilraunum sé fyrir komið meðal annarra þjóða, þar sem þær eru bezt skipulagðar. og er það tekið upp eftir efnahagssamvinnustofnun Vestur-Evrópu, sem hefur samið um það sérstaka bók, hvernig þessum rannsóknum og tilraunum sé fyrir komið í ýmsum löndum. Ég gerði ekki annað en að flytja boð frá nefndinni sem heild, eftir að við höfðum athugað þessi lagaákvæði, að æskilegt væri að fresta þessu frv., og nefndin ákvað með öllum atkv. að skrifa um þetta bréf, þar sem mælzt er til þess, að þessu verði frestað, og það ekki síður sjálfstæðismenn en menn úr öðrum flokkum. Það eru sjálfstæðismennirnir, sem óneitanlega eru fagmenn í þessum greinum, og jafnaðarmaður og maður frá Sameiningarflokki alþýðu, sósíalistaflokknum. En þetta bréf hefur síðan verið skrifað samkvæmt ályktun nefndarinnar, vegna þess að við álitum heppilegra að taka þetta mál allt til athugunar í heild og samræma, ef verða mætti, störf þeirra stofnana, sem núna eru til í landinu, koma á eðlilegri verkaskiptingu milli þeirra og samstarfi. Og þegar talað er um það hér í dagskránni að fella starf Iðnaðarmálastofnunar Íslands inn í heildarkerfi ákvæða um mannsóknir og tilraunir, þá er vitanlega ekki átt við annað en þetta, enda gefa orðin ekki tilefni til annars.

Við höfum áreiðanlega ekki efni á því að hafa margar sjálfstæðar stofnanir til þess að framkvæma þessar rannsóknir og tilraunir. Það verður að vera um þessar stofnanir heildarlöggjöf og vinnunni þannig fyrir komið, að verkaskipting sé sem hagkvæmust og samstarf sem mest, og ber margt til þess.

Það er þess vegna ekki af neinum pólitískum ágreiningi, heldur aðeins vafa um vinnubrögð, sem þessi dagskrá er borin fram.

Ég vil nú ræða með örfáum orðum um frv. eins og það liggur fyrir. Það er enginn efi á því, að þegar borin eru saman lagaákvæðin um atvinnudeild háskólans og þau lagaákvæði, sem hér á að samþykkja, þá er merkjalínan, sem dregin er milli þeirra starfa, sem hvor stofnunin um sig á að hafa með höndum, ákaflega ógreinileg, vægast sagt. Ég ætla að taka t.d. 5. lið: „koma á fót og sjá um rekstur á tæknilegu bókasafni.“ Atvinnudeildin hefur verið að reyna að spara fé, eftir því sem hún hefur getað, til þess að koma upp bókasafni, og þetta er vitanlega hin mesta nauðsyn. það er ekki því að neita. En spurningin er um það, hvar þetta bókasafn á að vera. Það vantar bókasafn, þar sem eru bækur um öll þau tæknilegu efni, sem stofnanirnar hafa með höndum, og atvinnudeildin hefur reynt að koma upp nokkru bókasafni. Það eru til brot af bókasöfnum víðar. Það getur vel verið, að þetta bókasafn eigi að vera hjá 1ðnaðarmálastofnuninni. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það sé útilokað, að svo eigi að vera, og mér dettur ekki í hug að halda því fram, að þeir menn, sem vinna við Iðnaðarmálastofnunina, séu ekki færir menn. Ég geri engan mun á hæfni þeirra eða þeirra manna, sem vinna við atvinnudeildina. En það er mikil spurning, hvar þetta bókasafn á að vera, því að það þarf að vera þannig að þessu bókasafni búið, að sérfræðingar, sem vilja kynna sér ýmis sérfræðileg efni, ekki aðeins þeir, sem vinna við þessar stofnanir, heldur verkfræðingar og sérkunnáttumenn í ýmsum greinum, hafi aðgang að þessu bókasafni og lestrarsal, þar sem þeir geta notið þessara bóka. Það getur vel verið, að það eigi að setja það upp í byggingu, sem Iðnaðarmálastofnunin ráði yfir, en hún þarf þá að ráða yfir verulegu húsnæði, ef það á að vera hægt að koma þessu bókasafni fyrir þannig, að það sé með þeim hætti, sem þarf að vera, til þess að það komi að því gagni, sem það þarf að koma.

Þetta atriði eitt út af fyrir sig þarf athugunar og er ákaflega stórvægilegt atriði, því að það er vitað, að þeir sérkunnáttumenn, sem hér eru, verkfræðingar og aðrir, hafa mjög mikið rætt það á undanförnum árum, hvernig þeir gætu myndað samtök til þess að koma upp slíku bókasafni og hafa aðstöðu til þess að njóta slíks bókasafns.

8. liður er þannig: „Stuðla að því, að hérlendir menn, sem starfa í þágu íslenzks iðnaðar, komist til framhaldsnáms erlendis í vísindalegum, verkfræðilegum og verklegum greinum og að erlendir kunnáttumenn á þessum sviðum heimsæki Ísland. Iðnaðarmálastofnunin skal þó ávallt nýta þekkingu og störf innlendra sérfræðinga, eftir því sem kostur er á.“

Það er náttúrlega einnig nokkur spurning, hvort menn, sem starfa við atvinnudeild háskólans, eigi að þurfa að fara þær leiðir, því að vel má skilja þessa grein þannig, að þeir þurfi að sækja það einatt undir atvinnustofnunina, hverjir eru sendir út til þess að kynna sér mál og stunda framhaldsnám í ýmsum greinum. Það getur vel verið, að það sé rétt að gera það, en það er a.m.k. atriði, sem þarf að athuga.

1. liður er: „Fylgjast með tæknilegum nýjungum og veita þeim, er iðnað stunda og við vörusölu fást, leiðbeiningar, er miði að auknum afköstum, verknýtingu og vöruvöndun.“ Það er ekki hægt að neita því, að það hefur verið verulega núna á sviði iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans.

Svo kemur í 2. gr. atriði, sem hv. frsm. meiri hl. minnist á: „Fylgjast með eða hafa forgöngu um rannsóknir á skilyrðum til fullkominnar hagnýtingar á þeim hráefnum, sem landið á yfir að ráða, og skila árlegri álitsgerð til ríkisstj. um þessi mál.“

Þessi grein er næstum eins orðuð og greinin um rannsóknaráð ríkisins, og þetta er það verk, sem rannsóknaráð ríkisins er nú að vinna, eftir því sem það hefur fé til. Það stendur hér: „Fylgjast með eða hafa forgöngu um“ — hvort sem á nú að skilja það þannig, að það eigi að fylgjast með þannig að hafa yfirumsjón með rannsóknum rannsóknaráðsins eða þeirra, sem vinna á vegum rannsóknaráðsins, og svo jafnframt ef einhver mál eru ekki tekin fyrir til rannsóknar, þá geti þeir tekið það fyrir. Nú er þessu alls ekki þannig háttað, að rannsóknaráðið fáist ekki til þess að vinna þessi verk, — hér kemur nefnilega enn einu sinni sá óskaplegi misskilningur, — heldur er það þannig, að rannsóknaráðið fær alls ekki peninga til þess að vinna verkin. Það eru fjöldamörg verkefni, sem rannsóknaráðið vildi taka fyrir og atvinnudeildin fær ekki mannafla eða verkamenn til þess að vinna. Og þessir menn, sem við þetta vinna í atvinnudeildinni, segja: Okkur vantar ýmis tæki, sem við þyrftum að geta keypt og er ómögulegt að kaupa og hafa nema á eihum stað. Það er alveg óákveðið, hvort þau eiga þá að vera í atvinnumálastofnuninni eða atvinnudeildinni. Það er ómögulegt að kaupa nema ein tæki af þessari eða annarri tegund, og við fáum ekki að kaupa þessi tæki núna, við höfum ekki peninga til þess.

Ég skal taka dæmi: Þeir hafa unnið eða haft tækifæri til þess að vinna að því að gera áætlun hér um framleiðslu á klóri, sem eru miklar rannsóknir og geysilega stórt fyrirtæki. Verksmiðjan er ekki mjög dýr, en þarf mikið afl, og hún kostar eitthvað um 200–300 millj. kr., en framleiðir fyrir 100 millj. á ári og af því ér í hreinum gjaldeyri um 3/4, eða 75 millj. Þetta er ein af þeim fáu rannsóknum, sem er nokkurn veginn fulllokið. Þeir hafa ekki mannafla til þess að ljúka ýmsum rannsóknum, og rannsóknunum er þannig komið fyrir núna, að það er maður á launum hjá raforkumálastjórn ríkisins til þess að geta haldið uppi einhverjum rannsóknum. Hann vinnur við ýmsar rannsóknir. Hann hefur gert frumdrög að rannsóknum um vinnslu efna úr sjó, og er margbrotin verksmiðja, sem hann hefur gert áætlun um, en er ekki nærri því fullrannsakað, vegna þess að það skortir stórkostlega fé til þess að rannsaka þetta atriði. — Nýlega hefur ríkisstj. látið taka fyrir rannsókn á framleiðslu á þungu vatni, sem rannsóknaráð ríkisins er byrjað á að láta vinna og er alveg geysilegt atriði. M.a. hafa Bretar sett upp slíkar verksmiðjur við heita hveri í Ástralíu. Við notkun kjarnorkunnar þarf stöðugt að nota geysilega mikið af þungu vatni, og þetta er verið að rannsaka, en þó hafa þeir ekki fengið fé til þess fyrr en núna nýlega, að mér skilst, til að taka fyrir þessa rannsókn, sem er mjög kostnaðarsöm. Það, sem stendur á, er því ekki raunverulega það, að okkar menn fáist ekki til þess að vinna þessi verk og rannsóknaráð sé ekki reiðubúið til þess að taka mál til rannsóknar, heldur hitt, að það skortir fjármuni til þess. Hér á svo að bæta úr því með því að setja sams konar ákvæði um Iðnaðarmálastofnunina og rannsóknaráðið, sem það eitt stendur í vegi fyrir að geti framkvæmt sínar rannsóknir, að það hefur ekki fjármagn til þess. Til dæmis er það, að ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að þó að við vildum núna hraða eins og við getum þeim virkjunum, sem þarf að framkvæma, til þess að við getum framkvæmt eitthvað af þessum stóru áætlunum, sem óneitanlega er verið að undirbúa, og hef ég nefnt sumt af því, þá þarf hér virkjanir, sem útilokað er að komist á fyrr en eftir 5–6 ár, vegna þess að það vantar algerlega fjármagn til þess að rannsaka og vinna það undirbúningsstarf, sem vinna þarf. Það má t.d. minna á, að það hefur verið talað um að virkja Þjórsá. Menn halda, að það sé hægt að hlaupa í það. Það kemur í ljós, þegar farið er að rannsaka þá staði, þar sem þær stórfelldu virkjanir eru fyrirhugaðar, að undirstaðan er það vafasöm, að það tekur ár. Okkar land er það ungt, að það stendur öðruvísi á um hér en víðast annars staðar og ekki hægt að byggja á þeim rannsóknum, sem áður hafi verið framkvæmdar. Það tekur nokkur ár að rannsaka undirstöðurnar, til þess að hægt sé að ráðast í þau fyrirtæki, einmitt á þeim stöðum, þar sem hefur verið gert ráð fyrir að gera stærstu stíflurnar. Alveg eins er með virkjun Jökulsár. Þar eru aðstæður þannig, að það þarf miklar rannsóknir, til þess að hægt sé að byrja á framkvæmdum þar með nokkru öryggi, vegna sprungna, sem eru í hraunið og menn vita ekkert um nema láti undan, ef þrýstingur vex við stíflun. Það eru engir peningar til þess að framkvæma þetta. Rannsóknaráðið hefur enga möguleika til þess, vegna þess að það hefur ekkert fjármagn til þess að gera þetta, en þetta er þó undirstaðan undir okkar framkvæmdum. Aflið, sem þarf að framleiða, getum við ekki virkjað fyrr en eftir fimm eða sex ár, og það er þó undirstaðan undir því, að nokkuð sé hægt að gera, að það sé til staðar, því að enn þá er það þannig, að við höfum ekkert hugboð um það, hvað er raunverulega ódýr raforka. Við höfum framleitt til heimilisnotkunar, en ekki til iðnaðar, og sú orka, sem við höfum, er ekki nærri því að vera nægilega ódýr, til þess að við getum ráðizt í þau stórfyrirtæki, sem við annars gætum ef til vill ráðizt í, ef við hefðum þá ódýru raforku, sem við getum haft, en höfum ekki haft tök á til þessa.

Það vantar ekkert á það, að vilji sé fyrir því að vinna þessi rannsóknarstörf, en það skortir fjármagn, og það er eitt, sem er alveg augljóst mál, þegar um þessi mál er rætt, rannsóknir eða tilraunir. Rannsóknaráðið á núna að vera eins konar milliliður milli atvinnudeildarinnar og ríkisstjórnarinnar, en þó eru ekki nægilega greinileg ákvæði um það. Nú lítur út fyrir, að þessi stofnun; Iðnaðarmálastofnun Íslands, eigi að vera eins konar milliliður milli þeirra, sem framkvæma rannsóknirnar, og ríkisstj. og þingsins. Það er óneitanlegt, að þetta er rétt skref að því leyti, að þetta samstarf er nauðsynlegt. Ég efast um, að þingmenn viti yfirleitt núna um það, hvaða störf eru unnin við rannsóknir og tilraunir og hvaða möguleikar eru raunverulega til staðar á ýmsum sviðum, þó að þm. ættu ekki aðeins að geta fylgzt með því, heldur ættu að hafa greiðan aðgang að því að fylgjast með. En þetta samstarf vantar algerlega milli rannsókna og tilrauna og milli þingsins, sem vitanlega verður að leggja fram fjármagn, bæði til rannsókna og tilrauna og þeirra stóru verka, sem e.t.v. er hægt að vinna, eftir að þessum rannsóknum er lokið. En það er spurning, hvort þetta verk á að vera í höndum Iðnaðarmálastofnunar ríkisins eða rannsóknaráðs og atvinnudeildarinnar, sem telur sig satt að segja vera á seinni árum hafða út undan, ekki vegna Iðnaðarmálastofnunarinnar, heldur vegna þess, að húsnæði og vinnuaðstæður eru orðnar þar alveg gersamlega óþolandi vegna þrengsla.

Það er spurningin, hvort á að efla þarna nýja stofnun. Iðnaðarmálastofnunina, eða halda sér að því að efla hina stofnunina og láta þessar tvær stofnanir með einhverju móti síðan vinna saman. Um allt þetta rísa spurningar, sem er eðlilegt að svara í heild.

Svo kemur það, sem hv. meiri hl. hefur gert brtt. við, það er 11. gr. Þar stendur: „Iðnaðarmálastofnuninni er rétt að hafa samstarf við atvinnudeild háskálans og aðrar opinberar rannsóknarstofnanir um þær tilraunir og rannsóknir, sem hún telur nauðsynlegt að framkvæma, og skulu rannsóknarstofnanir þessar veita henni þá aðstoð, sem þeim er unnt, enda komi fullt gjald fyrir.“ Þá er komið inn á það svið samkv. 11. gr., sem við bendum á í sambandi við 2. gr. Ef það hefur nokkur vafi verið á, hvernig eigi að skilja 2. gr., þá er ekki mikill vafi á því, þegar maður les 11. gr. Ég segi fyrir mig, að ég óska þessari stofnun, Iðnaðarmálastofnuninni, alls hins bezta, og það skal ekki standa á mér að gera það, sem hægt er, til þess að efla þær stofnanir, sem vinna að rannsóknum og tilraunum. En ég er í ákaflega miklum vafa um það, eins og ég hef bent á, og menn voru í vafa um það þarna í nefndinni, þegar þeir voru að ræða þessi mál, hvort ætti að setja nýja stofnun, Iðnaðarmálastofnunina, algerlega yfir atvinnudeild háskólans, þannig að þeir geti skipað henni fyrir verkum og sagt henni, að hún eigi að vinna þessi störf eða hin, en það á að borga fyrir það að vísu sérstaklega. Það getur vel verið, að það verði niðurstaðan, en ég er ekki reiðubúinn til þess að taka þá ákvörðun núna, meðan þessi mál eru öll í athugun. Þetta er ástæðan fyrir því, að ég taldi ekki óeðlilegt að fresta þessu máli, sérstaklega vegna þess, að það spillir engu um starfsemi þessarar stofnunar, Iðnaðarmálastofnunarinnar, hvort frv. er samþ. eða ekki. Það er hægt að reka stofnunina eftir sem áður, þó að þetta frv. verði ekki samþykkt, eins og gert hefur verið.

Eins og ég sagði í upphafi, er það vitanlega ekkert stórmál, hvort þetta verður samþykkt eða ekki. Það verður vitanlega, ef frv. verður samþykkt, reynt að leiðrétta þau atriði, sem geta valdið beinum árekstrum í starfi atvinnudeildarinnar undir stjórn rannsóknaráðs ríkisins og þessarar stofnunar, Iðnaðarmálastofnunar Íslands. Það er sjálfsagt að reyna að leiðrétta það, svo að það skiptir náttúrlega ekki ýkja miklu máli, hvort frv. verður samþykkt eða ekki. En mér var skylt, vegna þess að við höfðum þessi mál til umræðu í þeirri nefnd, sem ég starfa í, og komumst að þessari niðurstöðu, eftir að við höfðum athugað þau ákvæði, sem núna gilda um rannsóknir og tilraunir, að eðlilegt er að fresta þessu máli, að flytja þau boð til iðnn. hér, tig mér þykir rétt að flytja þau hér í þessari hv. deild. Hvort tekið verður tillit til þess eða ekki, skiptir vitanlega ekki ýkja miklu máli. Ég talaði um þetta við ráðherrann, sem flutti þetta frv., og það er nú eins og gengur og gerist, að ráðherrar vilja gjarnan fá samþykkt frv., sem þeir flytja og eru tengd við þeirra ráðherradóm, og hef ég ekki sérstaklega við það að athuga. En það er ekki neinn efi á því, að málið getur beðið að skaðlausu fyrir þessa stofnun og þau störf, sem hún hefur með höndum.

Skal ég svo láta útrætt um þetta mál af minni hendi.