19.01.1956
Efri deild: 43. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (1705)

116. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Hv. frsm. minni hl. hélt því fram í upphafi ræðu sinnar, að ég hefði hagað mínum orðum þannig, að ástæða væri til þess að ætla, að Framsfl. væri að flytja þetta sem pólitískt mál. Þessi ummæli hv. frsm. eru byggð á hreinum misskilningi. Ég kom ekkert inn á það atriði málsins. Ég lýsti aðeins gangi málsins undanfarin ár, las upp afgreiðslu þess eins og hún hefði verið samkv. Alþingistíðindunum og þingskjölum, og lagði engan dóm á það, hvort. á bak við það hefðu legið einhverjir pólitískir klækir eða pólitískir hagsmunir, svo að ég hef ekki leitt málið inn á þá braut. Það hefur hv. frsm. minni hl. gert svo og hæstv. ráðherra, og læt ég þá um að deila um það atriði málsins. En ég vil í sambandi við það leyfa mér að benda á, að mér þykir alleinkennilegt, að það frv., sem hér er á ferðinni nú og er aðeins til þess að staðfesta reglugerð, sem gefin er út af núverandi hæstv. ríkisstj., skuli mæta andspyrnu hjá samstarfsflokknum í ríkisstj. Það vekur nokkra undrun hjá mér, því að ég skil yfirleitt ekki, hvaða ástæða gæti legið til þess, úr því að hæstv. fjmrh. og Framsfl. hafa fallizt á að taka upp framlög á fjárlögum til þessarar starfsemi og þar með viðurkennt starfsemina og einnig fallizt á, að hæstv. iðnmrh. gæfi út ákveðna reglugerð, sem nú er leitað lagastaðfestingar á. Ég á því ákaflega erfitt með að skilja þá afstöðu, sem hv. Frsm. minni hl., form. Framsfl., hefur tekið í þessu máli. Og það bendir náttúrlega miklu meira til þess, að hér sé um einhverja pólitíska refskák að ræða, heldur en það, sem ég hef upplýst í málinu.

Ég var á þeirri skoðun, einmitt vegna þess, að það er fullt samkomulag um þetta mál milli stjórnarflokkanna, að það væri ekki neitt höfuðatriði frekar um þessa stofnun en Fiskifélagið og Búnaðarfélagið, að sett yrðu lög til staðfestingar á þeirri reglugerð, sem gefin hefur verið út. En eftir að ég hef hlustað á hv. frsm. minni hl., hefur þessi skoðun mín breytzt, því að hann lætur í ræðu sinni mjög liggja orð að því, að það sé mjög vafasamt, hvort ekki eigi að leggja þessa stofnun niður og afhenda verkefnið allt annarri stofnun. Hann sagði hér, að það væri vafasamt, hvort ekki hefði átt að efla atvinnudeildina í stað þess að koma hér upp nýrri stofnun. Þessi orð verða ekki skilin á annan veg en þann, að hann sé raunverulega andvígur því, að þessi stofnun fái að eflast og þróast og að ríkissjóður láti áframhaldandi fjárframlög til þeirrar starfsemi, heldur sé hans hugur að flytja þetta verkefni algerlega yfir á atvinnudeildina. Þar er ég honum ekki sammála, m.a. vegna þess, að það var mjög rætt um það mál, þegar verið var að reyna að koma í gegn mínu frv. um iðnaðarmálastjóra, af þeim aðilum, sem höfðu þá með málið að gera á milli þinga, hvort hægt væri að sameina þetta eða láta þetta heyra undir atvinnudeild háskólans, og atvinnudeild háskólans tók þá ekki jákvætt undir það fyrirkomulag. Það hafa setið fleiri milliþinganefndir í þessu máli en mþn. 1954 og 1955. Það sátu milliþinganefndir í málinu á árunum 1947–49, sem skipaðar voru fulltrúum iðnaðarmanna og ræddu þetta mál þá mjög frá öllum hliðum og gáfu út um það mjög ýtarleg nál. Og frv. þetta er byggt upp sumpart á till. mínum frá 1947 og sumpart á þeim till., sem komu frá mþn., eftir að málið var endurskoðað. Og þá var tekið til mjög ýtarlegrar athugunar, hvort ekki ætti að hafa þetta starf undir atvinnudeild háskólans eða rannsóknaráði ríkisins eða sameiginlega, en þeir aðilar, sem störfuðu þá í þeim stofnunum, vildu ekkert sinna þessum verkefnum og töldu, að þessi verkefni væru fyrir neðan þeirra virðingu, þeir væru á vísindasviðinu, en þetta væri dagleg afgreiðsla í sambandi við ýmis iðnaðarmál og það kæmi þeim ekkert við. Eingöngu af þeim ástæðum er ég náttúrlega andvígur því, að það verðifarið að leggja þessa stofnun niður og flytja verkefnið undir atvinnudeild háskólans.

Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að í septembermánuði árið 1950 átti ég þess kost að geta dvalið í Madrid á Spáni í 10 daga og kynnti mér þá mjög rækilega þessi mál, kom svo að segja daglega í iðnaðarmálastofnun Spánar, sem er byggð upp þannig, að þar er ákaflega stórt iðnaðar- og atvinnusafn, svo að hægt er að rekja iðnaðar- og atvinnusögu landsins allt aftur í fornöld. Er þar fjöldi deilda og alls konar upplýsingar um gang mála. Fékk ég þar þær upplýsingar, að stofnunin starfaði þar enn á því sviði að veita upplýsingar um atvinnumál og rekstur atvinnugreina og afkomu atvinnuvega hverjum þeim, sem óskaði að fá þar upplýsingar og vildi starfa að atvinnumálum landsins. Ef einhver atvinnugrein getur ekki borið sig fjárhagslega, þá getur viðkomandi atvinnurekandi farið til þessarar stofnunar, lagt fram fyrir hana öll gögn, og stofnunin rannsakar þá fyrir hann gang málanna, bendir á þær veilur, sem eru í rekstrinum, lætur rannsaka, hvaða möguleikar eru til þess að bæta úr því, sem aflaga fer, svo að reksturinn geti komizt á fjárhagslegan grundvöll, m.a. á hinu tæknilega sviði. Og þetta er mjög sterk aðstaða fyrir atvinnurekendur í landi að geta haft, og það væri mjög óskandi, að Iðnaðarmálastofnunin yrði þess megnug að geta tekið upp slíka starfsemi, eins og hér hefur verið minnzt á. Sama er að segja um nýja atvinnurekendur. Ef þeir óska að fara inn á einhvern atvinnurekstur, hvort sem það er nýr atvinnurekstur eða eldri atvinnurekstur í landinu, þá geta þeir fengið allar þær upplýsingar hjá stofnuninni, sem nauðsynlegt er til þess að byggja sinn atvinnurekstur upp á öruggum og traustum grundvelli. Þetta er engan veginn verkefni rannsóknaráðs og engan veginn verkefni atvinnudeildarinnar, eftir því sem þeim hefur verið skapað verksvið með þeim lögum, sem þar um ræðir.

Þetta vildi ég láta koma fram, og það var alltaf mín hugsun frá því fyrsta, að Iðnaðarmálastofnunin væri á líku starfssviði og ég hef hér lýst. Og það er enginn vafi á því, að ef það er hægt að koma málunum þannig fyrir, þá á hún eftir að gera ómetanlegt gagn fyrir iðnaðarmannastéttina og fyrir landið í heild í framtíðinni.

Hv. frsm. minni hl. minntist hér á nokkur atriði, og get ég stytt allmikið mitt mál, vegna þess að hæstv. ráðh. hefur rætt um þau. En ég vil þó benda á, að öll þessi atriði, sem hann ræddi um, gefa ekkert tilefni til þess að fresta málinu.

Ef rætt er t.d. um 5. tölul., sem hv. frsm. lagði ákaflega mikla áherzlu á, að það væri óeðlilegt, að verið væri að koma upp iðnaðarbókasafni á fleiri stöðum, þá vil ég benda á, að hinn litli vísir að þessu safni, sem kom hér upp á fyrsta ári stofnunarinnar, var iðnaðarmönnunum í landinu og iðnaðarfyrirtækjum stórkostleg hjálp. Og mér er ekki kunnugt um, að atvinnudeildin hafi gert neina tilraun til þess að koma upp slíku bókasafni eða aðstoða iðnaðarmennina um það verk. Hér er því raunverulega ekki verið að setja inn annað en það, sem þegar er komið í framkvæmd og Iðnaðarmálastofnunin byrjaði á strax, en það er að koma upp tæknilegu bókasafni og auka það. Og hún hefur einmitt aukið þetta safn vegna þess, hversu iðnaðarmennirnir sjálfir hafa lagt mikið upp úr því að geta alltaf átt þar aðgang að slíkum bókum, sem ekki eru til annars staðar á landinu. Ég geri ráð fyrir því, að það megi koma á slíkri samvinnu milli þessara tveggja stofnana, atvinnudeildar háskólans annars vegar og Iðnaðarmálastofnunarinnar hins vegar, að það sé engin þörf fyrir þá að vera að kaupa sömu bækurnar, og þar að auki geti þeir fengið að nota hvor annars bókasafn, eftir því sem á við og þörf er fyrir á hverjum tíma.

Í sambandi við 8. tölul. er það einnig vitanlegt, að það starf, sem Iðnaðarmálastofnunin tók upp sem eitt af þeim fyrstu störfum, að fá hingað erlenda sérfræðinga, hefur verið mjög vel þegið hjá öllum aðilum, ekki eingöngu hjá iðnaðarmönnum, heldur einnig hjá verzlunarstéttinni. Þeir hafa haft hér menn, sem hafa haldið hér fyrirlestra bæði um hagkvæmari vörudreifingu og hagkvæmari aðferðir í framleiðslu, en atvinnudeildin hefur ekkert gert til þess að koma þessu á. Það hefur sjálfsagt enginn bannað henni það. Og ég efa ekki, að þetta hefur ekki kostað svo mikið fé, að hún hefði ekki getað komið því á, ef hún hefði talið það vera annaðhvort innan síns verksviðs eða haft hugkvæmni til þess að framkvæma þetta. Mér var kunnugt um það, á meðan ég sat í fjvn., að það var ekki verið að skera neitt sérstaklega niður fyrir atvinnudeild háskólans, ef hún hafði einhver jákvæð verkefni að vinna að. Ég man m.a. eftir því, að þegar kom till. um það frá rannsóknaráði og ég held frá atvinnudeildinni einnig, eða þeim sameiginlega, að láta allmikið fé til þess að rannsaka möguleika til að vinna brennistein í Suður-Þingeyjarsýslu, þá var ekki haft á móti því að láta þangað fé. Ég held, að það hafi nefnilega skort allt annað hjá atvinnudeild háskólans og rannsóknaráði ríkisins en að þau hafi ekki fengið fé, það hafi yfirleitt verið eitthvað allt annað. Ég minnist a.m.k. ekki þess, á meðan ég var í fjvn., að það væri nokkru sinni skorið niður fyrir þeim fé til þeirra hluta, sem þeir færðu rök fyrir að væri bráðnauðsynlegt að framkvæma.

Það er líka byggt á hreinum misskilningi, þegar hv. frsm. heldur því fram, að atvinnudeild háskólans þurfi að eiga það undir Iðnaðarmálastofnuninni, hverjir menn fara til framhaldsnáms. Ég veit ekki, hvernig hægt er að finna það út úr þessu frv. hér. Eins og nokkur maður sé að taka ráðstöfunarrétt af nokkrum manni, sem vill fara til framhaldsnáms? Atvinnudeild háskólans dettur ekki í hug að gera það, og Iðnaðarmálastofnuninni dettur ekki heldur í hug að gera það. Hins vegar vill Iðnaðarmálastofnunin stuðla að því, að hérlendir menn, sem starfa í þágu íslenzks iðnaðar, komist til framhaldsnáms erlendis, og það hafa þeir gert. Hvers vegna á að banna þeim að halda þeirri starfsemi áfram? Þetta er ekki að ganga neitt inn á rétt atvinnudeildar háskólans, nema síður sé, og er byggt á algerum misskilningi hjá hv. frsm.

Í sambandi við 2. gr. tók ég það einnig fram og skal ekki endurtaka það hér, að skilningur minni hl. í iðnn. er allt annar en skilningur þeirra manna, sem sömdu frv., og er sjálfsagt að hafa fulla samvinnu um orðabreytingu á því, svo að það valdi ekki neinum misskilningi.

Ég skal svo láta máli mínu lokið, en vil nú vænta þess, að eftir þessar umræður, þegar menn hafa áttað sig á því, að hér sé hvorki umpólitíska refskák að ræða né heldur neinn yfirgang þessarar stofnunar á aðrar stofnanir í landinu, heldur fullur vilji til samstarfs til þess að koma áfram nauðsynlegum málum, þá geti menn orðið sammála um, að það sé rétt að láta málið ná fram að ganga, og fylgi málinu eins og það liggur fyrir á þskj. 154 með þeirri lítilfjörlegu breytingu, sem meiri hl. leggur til að gerð verði.