16.12.1955
Efri deild: 31. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Síðan þessu frv. var vísað til fjhn. d. eru ekki liðnir nema rúmlega 2 klukkutímar. Samt liggur nú fyrir nál. frá bæði meiri hl. n. og minni hl. einnig. Mundi þetta að sjálfsögðu vera óhæfileg afgreiðsla á svo stóru og flóknu máli, ef n. hefði ekki athugað það nema á þessum eina fundi, sem hún hélt um málið í dag. En það er öðru nær en að n. hafi látið þá athugun nægja, sem fór fram á þessum fundi í dag. Eins og kunnugt er, vann hún frá upphafi með fjhn. Nd. að athugun málsins. Hygg ég, að sameiginlegir fundir nefndanna um frv. hafi verið einir 16 og sumir langir, enda lá mikið fyrir, því að fjöldi erinda barst n., þau voru víst eitthvað um 100, og auk þess ræddu þær oftar en einu sinni við þá milliþn., sem undirbjó frv. Mikið var sótt á það af fulltrúum einstakra starfshópa og einstöku mönnum að fá að ræða við n., en ekki var hægt að sinna þeim beiðnum verulega, en þó var vitanlega rætt við einstaka nm. af aðilum, sem þetta mál varðar, og þá ekki hvað sízt form. hv. fjhn. Nd.

Nú er það vitanlega svo, að þó að fjhn. þessarar d. ynni með hinni n. að undirbúningi málsins og athugun, þá getur ekki hjá því farið, þar sem 10 menn áttu um að fjalla, að ýmislegt sé í frv. eins og það liggur nú fyrir, sem sumir nm. hefðu kosið öðruvísi. Ég segi fyrir mig, að það eru atriði í þessu frv., sem ég er ekki ánægður með. Það liggur í hlutarins eðli, að þær till., sem bornar voru fram af n., þ. e. a. s. fjhn. Nd., voru þær einar, sem náðist meiri hl. fyrir á þessum sameiginlegu fundum. En sumir nm. og þar á meðal ég báru þar fram till., sem voru felldar. En svo hlaut að vera með jafnvíðtækt og flókið mál og þetta er.

Þegar nú hv. Ed. á að taka afstöðu til þessa máls og hefur til þess, að mér skilst, aðeins daginn í dag, því að það mun vera fullráðið, að þinginu verði frestað á morgun, þá eru ekki nema tvær leiðir til, ef frv. á að fá afgreiðslu fyrir áramót eða um áramótin, svo sem nauðsynlegt er. Og þessir tveir vegir eru einmitt þeir, sem fyrir liggja í nál. meiri hlutans og minni hlutans. Annar kosturinn er að samþykkja frv. eins og það er nú, eins og meiri hl. leggur til, hinn kosturinn er að vísa frv. frá eða fella það, eins og hv. minni hl. n. leggur til að gert verði. Að fara að gera brtt. nú við frv. mundi óhjákvæmilega tefja málið svo, að það næði ekki fram að ganga fyrir þingfrestunina. En ef afgreiðslan drægist fram yfir áramót og fjhn. þessarar d. færi á ný að endurskoða allt frv., þá mundi að sjálfsögðu byrja aftur nákvæmlega sams konar íhlutun frá ótal aðilum eins og verið hefur, og er ekki að vita, hvað frv. tefðist þá.

N. klofnaði, eins og nál. bera með sér. Hv. þm. Barð. (GíslJ) leggur til, að málið sé afgreitt með rökstuddri dagskrá, sem prentuð er á þskj. 221, en við hinir 4 nm., sem meiri hlutann skipum, leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Launalögin eru 10 ára gömul. Á venjulegum tíma sýnist það ekki hár aldur. En þess ber að gæta, að á þessum 10 ára tíma hafa orðið miklar breytingar á almennu kaupgjaldi og líka á því, hvað framfæri manna í landinu kostar. Meiri hl. n. lítur því svo á, að það sé nauðsynlegt að setja ný launalög og það nú og ekki sízt sökum þess, að á þessu ári urðu almennar kauphækkanir, eins og menn vita, sem ekki hefur verið tekið tillit til í launum opinberra starfsmanna, og þó að uppbót væri greidd áður á laun starfsmanna, þá svarar hún ekki til þeirra kauphækkana, sem urðu frá því að launalögin voru sett, og til kauphækkananna á þessu ári. Það er því enginn vafi á því, að miðað við eldri tíma hafa opinberir starfsmenn hlutfallslega búið við verri kjör en áður. Og meiri hlutinn lítur svo á, að það sé ekki eftir betra að bíða, jafnvel frá sjónarmiði ríkissjóðs, að setja ný launalög. Í grg. þeirri, sem frv. fylgdi í fyrstu, er gerð áætlun um, hvaða kostnað frv., ef að l. verður, muni hafa í för með sér, og er hann að vísu nokkur, og þær breytingar, sem síðan hafa verið gerðar á frv., valda einnig nokkrum auknum kostnaði. En þó að þetta sé svo, þá geri ég ekki ráð fyrir, að þann kostnað, sem talinn er í grg., sé hægt að skrifa eingöngu á reikning launalaganna, því að ég tel alveg víst, að ef launalög væru ekki sett nú, þá mundi reynast óhjákvæmilegt að hækka þá uppbót, sem opinberum starfsmönnum hefur verið greidd. Er því ekki að ræða um aukin útgjöld ríkissjóðs, nema að því leyti er snertir mismuninn á því, hvað launalögin kosta og hvað slík uppbót hefði orðið. Sé ég ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir afstöðu meiri hluta nefndarinnar.

Hvað snertir dagskrártill. hv. minni hl. og nál. hans, sem ég hef ekki haft tíma til að lesa enn, því var útbýtt nú rétt áðan, þá mun ég sleppa að ræða um það, þar til hv. minni hl. hefur gert nánari grein fyrir sinni afstöðu.

Við 1. umr. málsins nefndi hv. 1. þm. N-M. (PZ) ýmis atriði, sem hann taldi að þörf væri að breyta í launalögunum. Sérstaklega ræddi hann um það, að lögin þyrftu að vera miklu víðtækari en frv. gerir ráð fyrir, þannig að ýmsir starfsmenn, sem taka laun hjá öðrum en ríkissjóði, ættu að vera með í launalögum. Hann nefndi í því sambandi bankana, Búnaðarfélagið, Fiskifélagið og ýmislegt fleira. Það er alltaf vafamál, hve mikið á að vera í launalögum, en meginreglan er að láta þau aðeins taka til þeirra, sem taka laun beinlínis úr ríkissjóði. Ef vikið er frá þeirri reglu, þá yrði auðvitað alltaf mikið vafamál, hverja ætti að taka inn í launalögin og hverjum að sleppa. Þetta atriði kom til umræðu í fjhn., en sú ábending, sem kom fram um þetta atriði, fékk ekki byr í nefndunum. — Þá nefndi hann einnig það atriði, að sumum embættum fylgdu ýmis hlunnindi og öðrum ekki, og tók þar til dæmis, að sumum embættum fylgdu bílar eða afnot af bílum, sem væru ríkiseign, öðrum embættum fylgdi þetta ekki. Það er ekkert um þetta í lögum, heldur er það öðruvísi ákveðið af stjórnarvöldunum, þegar þess konar hlunnindi fylgja embætti, og fer það náttúrlega mjög mikið eftir því, hvort viðkomandi embættismenn þurfa að ferðast í þágu embættisins eða ekki. Ég held, að það yrði töluvert mikið rannsóknarefni, ef ætti nú að fara að setja reglur um þetta inn í launalög. Býst ég ekki við, að n. muni sjá sér fært að taka þetta til nánari athugunar. Ég skal aðeins geta þess, að um þetta atriði var einnig dálítið rætt á sameiginlegum fundi nefndanna. — Hvað snertir dýralækninn á Keldum, sem hv. þm. minntist einnig á, þá má vel vera, að það gangi illa að fá þar dýralækni, ef núverandi læknir fer í annað starf, en þeir örðugleikar hygg ég að muni ekki stafa eingöngu af því, hvernig launin eru.