03.02.1956
Neðri deild: 62. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (1722)

116. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil geta þess út af því, sem hæstv. iðnmrh. sagði, að það er svo til ætlazt í þingsköpum, að umr. um mál, þær almennu umr., fari fram við 1. umr. og að lagafrv. sjálft, sem fyrir liggur, sé þá rætt. almennt, en hinar einstöku greinar þess frekar við 2. umr. málsins. Og ég held satt að segja, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, sé þannig til komið, að það sé nauðsynlegt að ræða það almennt við 1. umr.

Mér fannst dálítið einkennilegt, hvernig hæstv. ráðh. stillti þessum málum fyrir Alþingi. Það er rétt eins og hann vilji gera okkur hér tvo kosti, þ.e.: Hvort viljið þið nú heldur, þm. góðir, láta þessa stofnun starfa áfram sem stofnun, sem aðeins lýtur minni reglugerð, eða viljið þið gera svo vel að setja lög um hana? — Ég kann dálítið illa við svona aðfarir. Ég kann betur við, þegar eru settar stofnanir á stofn, sem Alþingi á að bera kostnað af, að það sé fyrst sagt við Alþingi: Leyfist mér að setja svona stofnun á stofn, og vill Alþingi hér með gera svo vel að samþykkja lög um hana? — þ.e. ganga frá málinu fyrst í Alþingi og setja síðan stofnunina á stofn, en ekki að byrja með því að setja fyrst upp stofnun eftir eigin geðþótta, koma svo til Alþingis og segja: Hér er ég búinn að setja upp stofnun, hún starfar samkvæmt minni reglugerð, það er ekki sæmandi fyrir ykkur annað en að samþykkja hana núna. — Ég mundi frekar segja, að það væri ekki sæmandi að byrja með því að setja upp stofnanir án þess að hafa lög um þær og koma svo til Alþingis á eftir og segja: Ja, nú verðið þið að fara að samþykkja lög. Það. getur ekki gengið, að stofnunin starfi án laga. Hvað eiginlega er þetta? Ætlar Alþingi ekki að fara að samþykkja lög um þetta? Dirfist Alþingi að vera að tefja eitthvað fyrir þessu? Dirfist Alþingi jafnvel að vera á móti þessu? Á stofnunin að starfa bara eftir reglugerð? — Svona á ekki að fara að því að stjórna landinu. Og ég get satt að segja ekki skilið það, hvernig á því stendur, að ríkisstj., eins og hæstv. núverandi ríkisstjórn, sem virðist hafa yfirleitt mjög þægu þingliði að skipa, skuli ekki hafa fyrir löngu, bókstaflega áður en stofnunin var sett á stofn, samþykkt lög um þetta. Hvernig stendur á því ?

Ef til vill stendur þannig á því, að það hefur ekki verið algert samkomulag á milli þeirra aðila, sem eiga að njóta blessunar þessarar stofnunar um, hvernig stofnunin ætti að vera, og jafnvel ekki einu sinni samkomulag á milli þeirra flokka, sem standa nú saman að ríkisstjórn, um, hvernig stofnuninni ætti að vera stjórnað: En ef ástandið er þannig, að hæstv. ráðh. hefur orðið að skipa eina nefndina á fætur annarri til þess að reyna að komast að samkomulagi um, hvernig þessari stofnun ætti að vera stjórnað, finnst honum þá nokkuð undarlegt, þó að það gætu ef til vill verið ofur lítið mismunandi skoðanir hér innan þings um svona stofnun og að einstakir þingmenn og einstakir flokkar, sem aldrei hafa verið til kvaddir í sambandi við neinn undirbúning undir þessa stofnun, hefðu e. t. v. um eitthvað að spyrja, ekki sízt ef svo skyldi nú vera, að stofnun eins og þessi, sem hér ræðir um, Iðnaðarmálastofnun Íslands, starfandi samkvæmt reglugerð hæstv. ráðh., hefði farið þannig af stað í sumum málum, að hún hefði sýnt af sér frekju og ósvífni og verið að sletta sér fram í mál, sem henni komu ekki við, sýnt megnustu ókurteisi gagnvart stærstu samtökum í landinu og vakið á sér þann grun að vera sérstakur pólitískur erindreki ákveðinna afla utanlands? Ég er hræddur um, að hæstv. ráðh. verði að mæla ofur lítið betur og meira sannfærandi fyrir þessari stofnun og láta svo lítið að skýra fyrir okkur þm., sem hann hefur aldrei talað við um þessa stofnun og hann hefur gengið algerlega fram hjá, þegar hann hefur verið að undirbúa þessa stofnun, hvað hann ætlast fyrir með henni. Það er auðvitað gott og nauðsynlegt, að stofnanir í ríkinu starfi samkvæmt lögum. En utanaðkomandi manni finnst það dálítið undarlegt, að það skuli vera til mjög veigamiklar og mjög dýrar stofnanir, sem byggjast ekki á neinum lögum, heldur bara reglugerð.

Það má vel vera, að t.d. einhver efnahagssamvinnustofnun, eitthvað það, sem hér er nú kallað með mjög slæmu orði framleiðniráð, eða eitthvað annað slíkt, hafi máske haft einhvern sérstakan áhuga á að koma slíkum stofnunum upp til samstarfs við sig. Það má vel vera. En ég vil minna hæstv. ráðh. á, að jafnvel þótt einhverjar voldugar erlendar stofnanir hefðu áhuga á einhverjum ákveðnum stofnunum á Íslandi eða að koma einhverjum ákveðnum stofnunum upp, þá er það ekki vani hér á landi, að menn setji það upp með stjórnarráðstöfunum, heldur að menn fari fram á það við Alþingi, hvort það vilji samþykkja lög um slíkt. Það hefur hins vegar stundum komið fyrir upp á síðkastið, að ríkisstjórninni hefur hætt við að bregða nokkuð fljótt við, þegar kvakað hefur verið þannig frá erlendum stofnunum, sem haft hefur verið samstarf við, en gleymt því, að það var Alþingi, sem átti að ráða því, gleymt því að það var Alþingi, sem átti að setja lög um það, stokkið til og gefið út reglugerðir — og svo kemur hæstv. ráðh. á eftir og segir: Ja, þetta er alveg ófært, stofnunin starfar bara samkvæmt reglugerð, það þurfa að koma lög um þessa stofnun. — Svona er ekki hægt að setja Alþingi stólinn fyrir dyrnar.

Ég vil minna hæstv. ráðh. á, að það hefur ekki alltaf gefizt vel, þegar hlaupið hefur verið til; ef einhver erlend stofnun hefur kvakað og viljað fá settar hér upp stofnanir til samvinnu við sig, jafnvel þó að þessi erlenda stofnun væri amerísk. Ég vil minna hæstv. ráðh. á, að fyrir nokkrum árum gerðist það hér, að Landsbanki Íslands, þjóðbankinn, þótti eitthvað óþægur vissum erlendum mönnum. Voldugum bankastjórum í alþjóðlegum bönkum þótti bankastjórar Landsbankans ekki nógu stímamjúkir við sig og fóru þá fram á við ríkisstj., að hún setti upp sérstakan banka, til þess að þeir gætu haft samband við hann. Þá var ríkisstj. enn þannig, að hún vildi helzt hafa lög um þetta, og hún útbjó þess vegna lög um Framkvæmdabanka Íslands og setti þau lög hér í gegnum þingið. M.ö.o.: Það var formlega farið að á þann hátt, sem á að gera, þegar nýjar stofnanir á að setja á fót, þó að hvorki væri tilgangurinn góður né ástæðan til þess eðlileg. Það var síðan tekið af þjóðbankanum það verkefni, sem hann átti að hafa og hefur frá upphafi átt að hafa fyrir ríkisstj., að annast það að fá lán erlendis, og það var falið þessum Framkvæmdabanka. Svo brá svo við, eftir að þessum Framkvæmdabanka var falið þetta verkefni, að það — varð alltaf. erfiðara og erfiðara að fá lán erlendis. Hins vegar var Alþingi — sagt, þegar lögin um þennan Framkvæmdabanka voru sett, að það væri svo sem alls ekki meiningin, að þessi Framkvæmdabanki ætti að fara að hafa sérstakar lánveitingar með höndum, þarna ætti bara að vera einn bankastjóri og kannske ein skrifstofustúlka og alla afgreiðslu átti Landsbankinn að annast. Þetta var sagt hér og stendur skjalfest hér í þinginu. En það er ekki liðinn langur tími, eftir að Framkvæmdabankinn er settur á stofn, þangað til hann fer í kapp við aðra banka um að lána. Og hann hefur — ég veit ekki, hvort það hefur verið í samráði við Iðnaðarmálastofnun Íslands eða iðnmrh. eða hvort það hefur yfirleitt verið í samráði við nokkra — lánað til að byggja hér eina stóra verksmiðju, Glersteypuna, og svo sé ég nú nýlega, að það er búið að auglýsa þessa glerverksmiðju eftir kröfu Framkvæmdabankans til uppbaðs, og fyrir nokkru var ástandið þannig, að þessi glerverksmiðja var stöðvuð og hafði ekki getað borgað út kaup langa lengi. Það hefur heyrzt, að það væru jafnvel upp undir 4 millj. kr., sem búið væri að lána í þetta fyrirtæki, og hins vegar mjög erfitt að fá nokkrar upplýsingar viðvíkjandi þessu. En það væri e.t.v. ekki alveg óeðlilegt, þar sem þarna á í hlut eitt af stærri iðjufyrirtækjum landsins, tilraun til þess að fara inn á nýtt svið, tilraun gerð af þessum banka, Framkvæmdabankanum, sem hæstv. ríkisstj. virðist hafa alveg sérstaka trú á, og hún trúir honum þarna fyrir hlutum, sem hún trúir hvorki Landsbankanum né neinum öðrum banka fyrir, — það væri nú e.t.v. ekki alveg fjarri lagi, að það væru gefnar nokkrar skýrslur um, hvernig þetta stendur og — fyrst þetta hefur gerzt á sama tíma sem þessi iðnaðarmálastofnun héfur verið að starfa á ábyrgð ráðh. eins, samkv. reglugerð hans eins — hvort hún hefur haft einhver afskipti af þessu og hvort hún hefur fylgzt með í þessu og leitað hefur verið til hennar. Það væri ekkert óeðlilegt, að við fengjum nokkrar upplýsingar um þetta.

Hæstv. ráðh. sagði, að hér væri um að ræða mjög þarfa stofnun. Ég efast ekki um, að það sé mjög þarft að koma upp stofnun, sem vinni að því bæði að efla og skipuleggja íslenzkan iðnað og íslenzka iðju, að því að undirbúa að koma upp stóriðju hér og gera þær ráðstafanir, sem þarf til þess, að við eigum tæknifróðum mönnum á að skipa í þessu efni, og annað slíkt. En mér virðist dálítið misjafn áhuginn hjá hæstv. ríkisstj. í sambandi við þau mál. Hér í 1. gr. þessa frv. er talað um, að það þurfi að stuðla að því, að hérlendir menn komist til framhaldsnáms erlendis í vísindalegum, verkfræðilegum og verklegum greinum, og hæstv. ráðh. lætur hér sem hæstv. ríkisstj. hafi alveg sérstakan áhuga á því, að þetta frv. sé samþ., þessi stofnun komist á lagalegan grundvöll. Ég var nú nýlega í sambandi við afgreiðslu fjárl. að bera fram till. um, að veitt yrði nokkurt fé til þess, að vér Íslendingar gætum séð um að kosta erlendis stúdenta, sem vildu sérmennta sig í efnafræðilegum greinum. Við vitum, að með efnafræðiiðnaðinn, kemíska iðnaðinn, er það svo, að ef menn eiga að komast vel niður í þeirri grein, þurfa þeir í fyrsta lagi langt nám, og ef menn eiga að vera víssir um að fá eitthvað að gera, þegar því námi er lokið, þá verða menn raunverulega fyrir fram að hafa fengið samninga við ríkið um slíkt, því að það er enginn annar aðili, sem yfirleitt tekur slíka efnafræðinga í sína þjónustu. Hins vegar er vitanlegt, að einmitt kemíski iðnaðurinn verður vegna okkar vatnsorku og vegna okkar hitaorku alveg sérstaklega sá iðnaður, sem við komum til með í framtíðinni að beita okkur fyrir. Til þess iðnaðar þarf í fyrsta lagi orku og í öðru lagi vit, sérþekkingu. En til þess að afla sér þeirrar sérþekkingar þarf nám frá 6 og upp í 8 ár og jafnvel lengur, því að eftir háskólanám þarf helzt nám í erlendum tilraunastöðvum, til þess að menn geti verið nægilega vel að sér í þessum efnum.

Hver var nú áhugi hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. fyrir því, að Alþ. veitti fé í slíkum efnum? Hann var sá, að þessi till. mín var felld með atkv. stjórnarflokkanna á móti atkv. allrar stjórnarandstöðunnar. Það verkar þess vegna dálítið einkennilega á okkur, þegar við vitum, hvað langan tíma þarf til að fá menn með sérþekkingu í þessum efnum og hve nauðsynlegt það er fyrir Ísland, að það skuli staðið á móti því, á sama tíma sem svo er komið hér og sagt við okkur: Ja, nú er ekki annað sæmandi fyrir ykkur hér í þessari d. en að fara að setja lög um 1ðnaðarmálastofnun Íslands.

Mér er ekki grunlaust um, að það hafi komið fram sú tilhneiging hjá þessari reglugerðarstofnun ráðh. að fara að setja sig yfir aðrar stofnanir, sem ríkið nú þegar hefur myndað í þessum efnum. Mér er nær að halda, að þess hafi orðið vart hjá þeim mönnum, sem hæstv. ráðh. nú af sinni náð hefur valið til þess að stjórna þessari stofnun, að þeim hafi fundizt, að þeir ættu raunverulega að ráða ekki aðeins öllum rannsóknum viðvíkjandi þessum málum, ég gæti bezt trúað, að þeir vildu helzt ráða yfirleitt, hvort Íslendingar færu til útlanda og hvað þeir gerðu. Það er svo undarlegt með þessa stofnun og hennar afskipti.

Nú hefur það verið víss galli í sambandi við okkar lagasetningu á ýmsum þessara sviða, sem snerta rannsóknir á atvinnulífinu og ekki sízt hvað snertir iðnaðinn og iðjuna sem okkar nýju atvinnugreinar, að það hefur orðið einhvern veginn af nokkru handahófi, hvernig hafizt hefur verið handa um slíkar stofnanir. En þó er það e.t.v. hvergi eins nauðsynlegt og einmitt í sambandi við þær stofnanir, sem gera kröfu til vísindalegra rannsókna og sérþekkingar, að það sé sem bezt vandað til þess frá upphafi, að grundvöllurinn sé sem öruggast lagður og tryggt, að sú stofnun, sem menn hafa í þessu efni hugsað sér, nái því takmarki, sem með henni er stefnt að. Hins vega~r hefur reynslan orðið sú, að á undanförnum 15–20 árum hafa á þessum sviðum, og þar eru ekki heldur alveg undanskildir okkar gömlu atvinnuvegir, landbúnaður og sjávarútvegur, verið settar upp rannsóknarstofnanir, ein þetta árið, önnur kannske árið eftir, kannske 5 árum seinna eða 10 árum seinna, og stofnanirnar hafa meira eða minna rekizt á, þeirra starfssvið hafa ekki verið afmörkuð, og þetta hefur valdið því, að þetta hefur orðið óþarfur tvíverknaður, stundum jafnvel árekstrar þarna á milli, óþarfaeyðsla og ekki verið samræmdir kraftar þeirra vísindamanna, sem þarna áttu að starfa að.

Það er þess vegna gefið, að þegar við nú eigum að fara að ræða um stofnun eins og þá, sem þessi lög fjalla um, þá hljótum við að athuga þá reynslu, sem við höfum áður haft af lagasmíð í þessum efnum, og reyna að læra nokkuð af þeirri reynslu.

Það er ekki í fyrsta skipti, sem lagt er til að koma upp stofnunum, sem eiga m.a. að athuga ýmislegt viðvíkjandi hagnýtingu okkar hráefna og okkar auðlinda. Rannsóknaráð ríkisins hefur verið sett á stofn fyrir alllöngu og átt að vinna á víssum sviðum í þessu, og Alþ. hefur raunverulega nú þegar séð ástæðu til þess að gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess, að það væru ekki settar á stofn nýjar stofnanir, sem rækjust á við það, sem fyrir væri. Alþ. hefur látið í ljós þann vilja sinn að tryggja, að þær stofnanir, sem fyrir væru, og þær, sem yrðu skapaðar í framtíðinni, væru reistar og grundvallaðar á ákveðnu skipulagi, þannig að þær rækjust ekki hver á aðra, þannig að það yrði sem bezt gagn að sérþekkingu þeirra manna, sem þar ættu að starfa, og notaðist á allan hátt sem bezt bæði að því fé, sem ríkið veitti í því sambandi, og að þeim möguleikum, sem við almennt hefðum.

Á síðasta Alþ. voru þessi mál tekin til athugunar, og það var borin fram þá þáltill., rædd allýtarlega, athuguð vel í n. og samþ. einróma síðan hér á þingi. Þessi þáltill. um kosningu mþn. til þess að gera till. um nýjar atvinnugreinar og hagnýtingu náttúruauðæfa hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa 7 manna milliþinganefnd til að gera till. um eflingu núverandi atvinnuvega og nýjar atvinnugreinar til framleiðslu- og atvinnuaukningar og hagnýtingu náttúruauðæfa landsins. N. er heimilt að ráða sérfróða menn til að vinna úr gögnum, sem fyrir hendi eru, og til vísindalegra rannsókna, .eftir því sem hún telur nauðsynlegt vegna starfa sinna. Skulu rannsóknarstofnanir, sem starfa á vegum ríkisins, veita n. aðstoð eftir þörfum. Enn fremur skulu aðrar opinberar stofnanir og embættismenn greiða svo sem verða má fyrir störfum hennar. N. skal gera till. um framkvæmdir og rekstrarform, gera grein fyrir þjóðhagslegri þýðingu framkvæmdanna og fjárþörf og benda á leiðir til fjáröflunar. Þá skal n. gera till. um, hvernig bezt verði til frambúðar skipulögð og samræmd starfsemi þeirra rannsóknarstofnana, sem nú vinna að rannsóknum á náttúruauðæfum landsins, og leita úrræða til að auka og endurbæta afköst í ýmsum atvinnugreinum. Skal n. endurskoða gildandi lagaákvæði um þessar stofnanir. Nefndarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.“

Þannig var þessi þáltill. samþ. 20. apríl 1955. Þessi mþn. er tekin til starfa, og formaður þessarar mþn. er formaður annars stjórnarflokksins, hv. þm. Str. (HermJ), og eins og ég hef lesið upp, er einmitt eitt af verkefnum þessarar n. að samræma starfsemi þeirra rannsóknarstofnana, sem nú eru fyrir, hvort heldur þeirra, sem vinna að rannsóknum á náttúruauðæfum landsins, eða annarra, sem leita úrræða til þess að bæta og auka og endurbæta afköst í ýmsum atvinnugreinum. Alþingi sá ástæðu til þess að gera sérstaka samþykkt, setja á fót sérstaka mþn., sem auk annarra verkefna átti að hafa sem eitt af sínum aðalverkefnum að samræma og skipuleggja starfsemi þeirra rannsóknarstofnana, sem fyrir eru. Það er alveg auðséð, að þessi nefnd á m.a. að vinna að því að samræma þær stofnanir, sem nú eru til, þær stofnanir, sem nú eru lagaákvæði um, og náttúrlega mun slík n. líka taka tillit til vissra stofnana, sem starfa samkvæmt reglugerð einhverra ráðherra, þannig að það er vitanlegt, að Alþ. hefur með samþykkt þessarar þáltill. beinlínis ætlazt til þess, að það yrði, á meðan þessi n. væri að starfa, skotið á frest að setja upp nýjar stofnanir, samþykkja ný lagaákvæði, því að þessi n. átti einmitt að endurskoða hin gömlu lagaákvæði um slíkar stofnanir.

Nefndin, og í henni á, eins og gefur að skilja, Sjálfstfl., flokkur hæstv. ráðh., sína fulltrúa, tók mál þetta strax fyrir, þegar hún sá þetta frv., sem hér var lagt fyrir Alþ. Hún ræddi það á fundi sínum 10. jan., og n., sem er skipuð m.a. þremur mönnum, sem Sjálfstfl. hefur fengið kosna í hana, sendi eftirfarandi bréf til iðnn.

Ed., sem ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Atvinnumálanefnd ríkisins.

Reykjavík, 12. jan. 1956.

Atvinnumálanefnd ríkisins, sem stofnuð var samkv. þál. um kosningu mþn. til að gera till. um nýjar atvinnugreinar og hagnýtingu náttúruauðæfa, frá 20. apríl 1955, samþ. á fundi sínum þann 10. þ. m. að beina þeim tilmælum til iðnn. Ed. Alþ., að afgreiðslu laga um Iðnaðarmálastofnun Íslands verði frestað, þangað til n. hefur skilað áliti.

N. er falið að gera till. um samræmingu og starfsemi þeirra rannsóknarstofnana, sem nú vinna að rannsóknum á náttúruauði landsins, og leita úrræða til að auka og endurbæta afköst í ýmsum atvinnugreinum.

Skal n. endurskoða gildandi lagaákvæði um þessar stofnanir.

Er hætt við, að af því hlytist tvíverknaður, ef samþ. væru lög um Iðnaðarmálastofnun Íslands, sem síðan yrðu tekin til endurskoðunar strax á eftir.

Virðingarfyllst,

f.h. Atvinnumálanefndar,

Hermann Jónasson.

Jóhann Jakobsson. ritari.

Til iðnaðarmálanefndar efri deildar Alþingis.“ Alþingi hafði í heild og atvinnumálanefnd ríkisins samkvæmt þeirri niðurstöðu, sem Alþ. komst að, þegar það samþ. þá þáltill., sem ég hef hér skýrt frá, komizt að þeirri niðurstöðu, að að sumu leyti hefðu rannsóknarstofnanirnar og þær stofnanir, sem hefðu með okkar atvinnuvegi að gera, vaxið upp eins og hálfgerður villigróður á undanförnum árum. Og það hefur verið svo, að lögin um þessar stofnanir hafa verið sett sitt á hvað á undanförnum áratugum og stangast þess vegna á ýmsum sviðum og starfsemi þessara stofnana verður að því oft mikill bagi, svo að ég ekki tali um, að þar við bætist, að stofnanir, sem fyrir eru í þjóðfélaginu, bæði samtök á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs og slíkt, eru jafnvel Líka með sínar sérstöku stofnanir á þessum sviðum, svo að eitt rekur sig þarna á annars horn. Það er þess vegna ekki að undra, þó að nefnd, sem er falið það af hálfu Alþ. að reyna að skipuleggja og samræma starfsemi slíkra stofnana, sjái ógjarnan, að það sé farið að samþykkja lög um Iðnaðarmálastofnun Íslands nú allt í einu rétt á meðan þessi athugun stendur yfir og meðan verið er að reyna að ná samkomulagi á milli fulltrúa ýmissa flokka hér á Alþ. í þessari n. um, hvernig þessi rannsókn skuli skipulögð framvegis.

Ég get sagt hæstv. ráðh. það, að það er nógu erfitt að finna út það rétta í þessum efnum og að vinna bug á ýmsum mótsetningum, sem þegar hafa skapazt, t.d. eins og í sambandi við sjávarútveginn, fiskiðnaðinn eða annað slíkt, þó að sé ekki farið að bæta því ofan á að fara að setja mjög mikil, ýtarleg og nákvæm lög um Iðnaðarmálastofnun ríkisins, rétt á meðan verið er að reyna að komast að niðurstöðu um skipulag þessara mála framvegis. Ef hæstv. ráðh. sá svona mikla ástæðu til þess að koma þessari stofnun upp með reglugerð á sínum tíma og fannst hún geta starfað samkv. reglugerð þá, sé ég nú ekki betur en að hún ætti að geta starfað samkv. reglugerð þessa mánuði, sem atvínnumálanefnd ríkisins, sem Sjálfstfl., flokkur hæstv. ráðherra, á þrjá menn í, er að athuga, á hvern hátt væri bezt að samræma starfsemi þessara stofnana. Það gæti ekki orðið til neins annars en að gera erfiðara það starf, sem Alþingi í fyrra fól þessari mþn., ef það ætti núna í millitíðinni að fara að samþykkja lög um þessi mál.

Ég vil þess vegna eindregið leyfa mér að vona, að annaðhvort vilji hæstv. ráðh. sjálfur á það fallast að óska eftir, að afgreiðslu þessa máls sé frestað, á meðan sú rannsókn fer fram, sem Alþ. samþykkti í fyrra, eða þá að hv. deild vilji verða við þeim tilmælum, sem fram hafa komið frá atvinnumálanefnd ríkisins, að afgreiða ekki þetta mál, á meðan þessi rannsókn standi yfir. Og ég verð að segja, að mér finnst það því undarlegra, að hæstv. ráðh. skuli leggja slíkt kapp á að afgreiða þetta mál, sem mér sýnist, að þó að þetta frv. sé stjórnarfrv., þá sé hæstv. ríkisstj. alls ekki sammála um frv. M.ö.o.: Andstætt því, sem nýlega var tekið fram í lögum, nýsamþykktum frá Alþingi. virðist ekki með þessu frv. eiga að fela neitt vald í hendur ríkisstj. í heild, heldur ríkisstj. í pörtum, þannig að þetta sé eitthvert einkamál hæstv. iðnmrh., sem hann hafi alveg sérstaklega mikinn áhuga á að setja í gegn.

Nú skil ég það vel, að hæstv. iðnmrh. hefur áhuga á að gera ýmislegt á sviði iðnaðarins, sem undir hann heyrir, og er það ekki nema lofsvert. En hefur hann nú ekki gert allmikið nú þegar? Hann hefur komið upp þessari stofnun bara með reglugerð, og að því er hann segir, starfar hún mikið og hefur a.m.k. látið að sér kveða, meira að segja á sviðum, sem henni koma -ekkert við, þannig að hann ætti að geta sætt sig við það í bili.

Ég velt ekki, hvað það er, sem sérstaklega veldur því, að hæstv. ráðh. leggur svona gífurlega mikla áherzlu á, að þetta stjfrv. sé samþykkt nú, án þess að hafa meira að segja stjórnarflokkana óskipta að baki sér í því. Mér hefur virzt eftir mínum litla kunnugleika á þessum málum, að undanfarið hafi eitthvað bjátað á í sambandi við stjórnina á þessu fyrirtæki og það hafi ekki verið algert samkomulag um, hvernig hún ætti að vera. Og það má vel vera, að nú hafi hæstv. ráðh. fundið þar út aðferð, sem honum líkaði vel. En ég er ekki alveg víss í, að öllum öðrum líki það eins vel.

Í grg. þessa frv. er birt fskj., sem var frv. til laga um 1ðnaðarmálastofnun Íslands og mun hafa verið lagt fyrir Alþ. áður og n. síðan skipuð á eftir til þess að endurskoða það og gera á því breytingar, sem æskilegar þættu. Mér hefur enn ekki unnizt tími til þess að bera frv. saman í einstökum atriðum viðvíkjandi höfuðgreinunum, 1. og 2. gr., en mér varð á að lita á ákvæðin um, hvernig stjórnin skyldi skipuð, í því frv., sem nú liggur fyrir, og í því frv., sem prentað er með sem fskj. og endurskoða átti. Samkv. því frv., sem áður lá hér fyrir, áttu að vera sjö fulltrúar í stjórninni, og þar átti að vera einn samkv. tilnefningu Félags íslenzkra iðnrekenda, annar samkv. tilnefningu Landssambands iðnaðarmanna, þriðji samkv. tilnefningu Sambands íslenzkra samvinnufélaga, fjórði samkv. tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands, fimmti samkv. tilnefningu iðnsveinaráðs Alþýðusambands Íslands og tveir, sjötti og sjöundi, samkv. tilnefningu Alþýðusambands Íslands, og skal annar vera fulltrúi iðnverkafólks.

Það þurfti ekki lengi að athuga þessar till. til þess að sjá, að samkv. þessu áttu verkamenn að hafa aðstöðu til þess að hafa þrjá menn í þessu ráði, þrjá menn af sjö. Síðan átti S.Í.S. að hafa þar einn mann, og svo áttu samtök atvinnurekenda og meistara að hafa þarna þrjá menn, og eftir reynslu að dæma gat maður mjög vel búizt við því, að pólitískt séð mundu þessi þrír menn máske vera úr Sjálfstfl. eða með svipuð sjónarmið og hann hefur. Ef þarna hefðu þá verið einhver mismunandi sjónarmið, þá hefði samkv. þessari skipun stjórnarinnar verkalýðssamtökin átt að hafa þarna mikil ítök í eða alveg þrjá menn, samband samvinnufélaganna einn, atvinnurekendurnir eða meistararnir til samans þrjá menn.

Þessari tilhögun stjórnar virðist svo vera nokkuð breytt, eins og frv. liggur nú fyrir, eftir að það hefur verið endurskoðað. Þá er gert ráð fyrir, að stjórnin sé að vísu skipuð sjö mönnum eins og áður, en þeir, sem nú eiga að skipa stjórnina, eftir því frv., sem fyrir liggur, eru Félag íslenzkra iðnrekenda, iðnsveinaráð Alþýðusambands Íslands, Landssamband iðnaðarmanna, Samband íslenzkra samvinnufélaga, Verzlunarráð Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands. M.ö.o.: Það, sem gerzt hefur í millitíðinni; virðist vera það, að í staðinn fyrir að Alþýðusamband Íslands hafði tvo menn og annan þeirra sem sérstakan fulltrúa iðnverkafólks, sem sé þess ófaglærða fólks, sem á að vinna að íslenzkum iðnaði, þá er Alþýðusamband Íslands svipt öðrum þessum fulltrúa. Og hver er svo látinn útnefna fulltrúa í staðinn? Jú, það er Verzlunarráð Íslands, sem kemur þarna eins og fjandinn úr sauðarleggnum.

Hvað hefur eiginlega Verzlunarráð Íslands sérstaklega með þessa hluti að gera? Siðan hvenær þykir það rétt, að í stofnun, sem á að heita Iðnaðarmálastofnun Íslands og á m.a. að fara að beita sér fyrir því að reyna á ýmsan hátt að fá iðnverkafólk til þess að læra betur sína atvinnu, jafnvel fá það til þess að auka afköstin í sinni grein, sérmennta sig eða annað slíkt, — síðan hvenær þykir mönnum heppilegra að svipta einmitt þetta iðnverkafólk fulltrúa í slíkri stofnun og láta heildsalana í Reykjavík, Verzlunarráð Íslands, fara að útnefna menn í staðinn? Er máske meiningin, að heildsalarnir fari að vinna í verksmiðjunum hérna fyrir Iðjutaxta og að þeir ætli að fara að taka að sér að gera betur en iðnverkafólkið um afköstin í þessari grein? Eða er það bara hitt, að Verzlunarráð Íslands hefur slík áhrif og slík völd í Sjálfstfl., að það getur sagt:

Það skal nema brott fulltrúa iðnverkafólksins — þegar á að ræða um stofnun, sem sérstaklega á að hafa með iðnaðarmál að gera, og setja fulltrúa heildsalanna í staðinn?

Ég held, að það sé ekkert undarlegt, þó að við óskum skýringa á, hvernig á þessu stendur, hvernig þetta er komið til. Við sjáum að vísu, hverjar afleiðingarnar yrðu pólitískt séð og hver breytingin mundi vera í sambandi við svona skipun stjórnarinnar. Verzlunarráð Íslands er ein sú stofnun, sem Sjálfstfl. mun telja sér öruggasta, þó að ýmislegt annað kynni að bresta, þó að jafnvel iðnrekendur og atvinnurekendur almennt færu að rísa upp á móti Sjálfstfl., þá býst ég við, að hann mundi í lengstu lög treysta Verzlunarráði Íslands, stærstu heildsölunum hérna í Reykjavik, til þess að halda tryggð við sig.

En er það nú skynsamlegt, þegar á að fara að setja á stofn sjálfstæða ríkisstofnun með því markmiði að efla framfarir í íslenzkum iðnaði og koma á hagkvæmari vinnubrögðum í iðnaðarframleiðslu, að byrja með því að útiloka það, að iðnverkafólkið sjálft, fólkið, sem vinnur fyrst og fremst þarna, frá því að eiga þar fulltrúa? Eftir að áður er þó búið að gefa alveg sérstaklega því undir fótinn, að Alþýðusambandið, sem útnefni þarna tvo aðila, útnefni annan þeirra frá iðnverkafólkinu, á að strika þetta út og Verzlunarráð Íslands sett þarna í staðinn. Við sjáum, að þetta mundi þýða, að Sjálfstfl. mundi tryggja sér fjóra menn í stjórn þessarar stofnunar, öfugt við það, sem var, þegar frv. lá hér fyrir áður, að Sjálfstfl: virtist ekki gera kröfu til þess að ætla að tryggja sér þarna neinn pólitískan meiri hluta. Hvernig stendur á þessari breytingu? Er það nokkuð undarlegt, þó að við viljum gjarnan fá að vita, hvernig á henni stendur? Það er ekki eðlilegt, að við gleypum við því alveg undireins að fallast á slíka breytingu, og það er ekki undarlegt, þó að komi upp hjá okkur, ef á að reyna að fara að knýja slíkt fram, sú spurning: Er þetta valdaspursmál í sambandi við þessa stofnun eitt höfuðatriðið þarna í? Ég býst við, að hæstv. ráðh. svari mér kannske og spyrji, hvort mér finnist þá betra að láta þetta vera bara reglugerð, sem ráðh. ráði aleinn, og hann geti ráðið stjórninni alveg eins og honum þóknast. Það eina, sem ég hef þar um að segja við hann, er það, að náttúrlega getur hann sett upp stofnanir eftir reglugerðum, að svo miklu leyti sem honum finnst það fært. Það er ekki mál Alþ. Hér er um það að ræða, á hvern hátt Alþ. eigi að ákveða stjórn á stofnun, sem það á að fara að setja upp. Frá stjórninni á slíkri stofnun verður ekki gengið, fyrr en Alþ. hefur samþykkt um það lög, og þá er ekki óeðlilegt; að maður vilji gjarnan ganga þannig frá þeim lögum, að ekki sé stofnað til pólitísks einræðis neins eins stjórnmálaflokks í sambandi við slíka stofnun. Og ég held það væri síður en svo hollt því máli, sem hæstv. ráðh. segist hér vera að berjast fyrir. Þegar talað er um ýmsar nýjungar, talað er um aukin afköst og annað slíkt í sambandi við iðnaðinn, þá verður slíkt svo bezt gert, að það verði gert í samráði og með góðu samstarfi við iðnverkafólkið sjálft. Öðruvísi verður það ekki gert.

Íslenzkt verkafólk mun aldrei láta beygja sig inn á það, sem verkafólk sums staðar erlendis hefur verið beygt inn á, að láta gera sig eins og að litlum hlutum í framleiðsluvél, eins og að næstum sálarlausum vélahlutum. Íslenzkt verkafólk gerir kröfu til þess að verða það frjálst og sjálfstætt við sína vinnu, að vera það hugsandi verur, að það lætur ekki niðurlægja sig eins og gert hefur verið í sumum stóriðjulöndum við verkafólkið. Og meðan talað er um aukin afköst iðnaðarins og annað slíkt, þá mun slíkt því aðeins verða gert og því aðeins vera heppilegt og hollt okkar mannlífi og okkar þjóðlífi, að það sé gert í samstarfi við verkafólkið sjálft. Þess virtist mér að sumu leyti hafa verið tilhneiging til, t.d. hvað skipun stjórnarinnar snertir, í fyrri till., en það hefur verið horfið frá því síðan.

Þá er ég enn fremur hræddur um, eins og 1. gr. í þessu frv. nú er, að það muni margt rekast á við t.d. rannsóknaráð ríkisins, ef það ætti að samþykkja það eins og nú væri, og hún mundi aðeins verða til þess að skapa enn þá meiri glundroða á þessu sviði en nú er.

Svo er það eitt, sem ég vildi gera athugasemd við í sambandi við málið á þessu frv. og þess grg. Það er tekið þarna upp eitt orð, sem ég verð að segja að mér er mjög illa við, þó að ég hafi séð, að ýmis blöð eru farin að nota það, og það er orðið — „framleiðni“. Við höfum haft orð á íslenzku áður yfir þetta hugtak, útlenda hugtakið , produktivitet, það er framleiðslugeta. Það hefur alltaf verið erfiðleiki í sambandi við íslenzkt mál vegna þess, hve sérstætt það er — af öllum tungumálum, þegar slíkar byltingar gerast eins og nú í þeim tæknilega heimi, að finna orð, sem áttu vel við okkar mál, yfir útlend hugtök, en alþýðan um leið skildi. Yfirleitt hefur þetta tekizt vel. Það hafa verið það snjallir menn, sem hafa búið til nýyrðin í íslenzkri tungu á síðustu öld, að okkar mál hefur svo að segja verið nýskapað, án þess að þess forni hljómur breyttist og án þess að því undirstöðuatriði væri grandað, að alþýða manna skildi sitt eigið mál. Þegar átti að fara að búa til orð á íslenzku yfir erlend orð eins og t.d. demokrati, þá var búið til orðið lýðræði, sem í fyrsta lagi þýddi það nákvæmlega sama og hið gamla gríska orð sjálft þýddi, lýðræði, það, að lýðurinn réði, og hvert mannsbarn þess vegna gat skilið, og orðið sagði sjálft, hvað það meinti: Íslenzkur almenningur hafði þess vegna orð, sem talaði sjálft til hans um inntakið í því og meiningu þess, þar sem útlendar þjóðir urðu bókstaflega að; læra, hvað orð eins og demokrati þýddi. Skandinavískar eða engilsaxneskar þjóðir voru búnar að glata sínum gömlu orðum yfir slíkt, þó að einstaka þeirra eins og Þjóðverjar, reyndu að nota sín gömlu orð við hliðina, en tókst yfirleitt ekki. Okkur tókst það hér á Íslandi. Við höfum staðið frammi fyrir sama vandamálinu, þegar við höfum komið að þeim efnahagslegu hugtökum og þeim tæknilegu hugtökum. Með ýmis af þeim tæknilegu hugtökum er þarna sá erfiðleiki, að meining þeirra sjálf er oft það erfið, að fólk á bágt með að skilja hana. Hvað efnahagslegu hugtökin snertir er hins vegar þarna nokkru öðru máli að gegna. Þarna er hægt að finna orð, sem fólkið skilur.

Þetta orð, produktivitet, man ég stóð strax fyrir okkur, þegar við vorum að byrja að þýða hér ýmis af þeim gömlu marxistisku ritum á íslenzku, að finna íslenzkt orð yfir þetta, og þetta orð, framleiðslugeta, er ákaflega sjálfsagt orð. Það segir hverjum einasta manni, hvað í því felst. Framleiðslugeta, það er geta manna til að framleiða, það er afköst. Hins vegar framleiðni, hvað þýðir það? Ja, það, sem mér mundi fyrst detta í hug, þegar ég heyri orð eins og framleiðni, mundi vera eitthvað í sambandi við rafmagn og hvernig ákveðin efni mundu leiða það áfram, eða eitthvað slíkt. Orðið framleiðni segir engum manni, engum Íslendingi, hvað í orðinu felst og hvað það merki, og mér sýnist, að þeir, sem taka svona orð upp, séu ekki að reyna að finna orð, sem alþýða manni skilji. Það kunna að vera menntaðir menn. En þeir menntuðu menn, sem bezt og stórkostlegast verk hafa unnið að því að finna íslenzk orð yfir erlend hugtök, hafa verið svo snjallir og svo gæfusamir að finna orð, sem alþýðan skildi. Það má vel vera, að orð eins og t.d. framleiðslugeta sé óþjálla í samsetningum. Það eru mörg okkar orð í íslenzku.

Ég vil þess vegna alveg eindregið mælast til þess, að þetta orð, sem hér er reynt að koma inn í málið, inn í lagamálið, framleiðni, sé gert útlægt úr því. Því vildi ég aðeins skjóta hér inn, um leið og við ræddum um sjálfan tilganginn með þessum lögum, um stofnunina, sem eigi að setja á stofn, og hennar stjórn. Ég vil mega vonast til, að hæstv. ráðh. skýri þetta nú nokkru betur fyrir okkur en þegar hefur verið gert og láti okkur, sem höfum svona miklar efasemdir út af þessu frv., í té nánari vitneskju um, hvernig á því stendur, að hann leggur svona mikla áherzlu á framgang þessa máls nú, þegar stofnunin þó starfar að því er virðist örugglega undir hans reglugerð, og hvernig á því stendur, að þær breytingar hafa verði gerðar viðvíkjandi stjórn þessara stofnunar frá því, sem áður hefur verið hugsað, sem óhjákvæmilega hljóta að vekja nokkra tortryggni.