07.02.1956
Neðri deild: 64. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (1727)

116. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Þá er nú aftur komið hér til umr. frv., sem lá fyrir þessari hv. d. á síðasta þingi, um Iðnaðarmálastofnun Íslands. Ég skal þegar taka það fram, að ég tel það frv., sem nú liggur fyrir, að ýmsu leyti betra en frv. það, sem hér var lagt fram í fyrra. Í fyrsta lagi er það, að þetta frv. lítur a.m.k. á pappírnum betur út en frv., sem lagt var fyrir þingið á s.l. ári. Það frv. var alveg sérstakt í sinni röð. Það mátti svo heita, að þar væri hver grein sérstakur kafli, og hafði það ekki sézt hér áður. Auk þess hafa á frv. nú verið gerðar ýmsar veigamiklar breytingar til batnaðar.

Þegar mál þetta, sem lagt var fyrir Nd. í fyrra og var þá vísað til iðnn., var tekið fyrir á fundum n., óskaði n. að sjálfsögðu eftir upplýsingum ýmissa aðila um þetta mál, og þær upplýsingar fékk iðnn. á þeim tíma. Það kom þá í ljós á tveimur fundum a.m.k., sem n. hélt um þetta mál, að skoðanir voru allskiptar í þessu máli. M.a. komu á fund n. tveir menn, sem höfðu veitt stofnuninni fram til þess forstöðu og átt mestan þátt í að móta hana og starf hennar. Þeir lýstu sinni skoðun á þessu máli og því frv., sem þá lá fyrir, og var skoðun þeirra í stórum dráttum á þá leið, að frv. væri ógerlegt að samþ. eins og það lá fyrir. Þeir sömdu síðan uppkast að nýju frv. um stofnunina, eins og þeir töldu að fenginni .reynslu eðlilegast að skipa málum hennar, og afhentu iðnn. Nd.

Það er rétt, að það komi fram, að ágreiningurinn út af lögum um þessa stofnun og skipan mála þar reis fyrst og fremst út af stjórn stofnunarinnar, enda hafði það komið í ljós áður, m.a. við 1. umr. málsins hér í þessari hv. d. í fyrra, að í þessu efni höfðu menn ýmsar skoðanir. Ég minnist þess, að við 1. umr. frv. í fyrra tók hér til máls hv. 1. landsk. þm. (GÞG) og lét í ljós þá skoðun, að hann teldi mjög eðlilegt og æskilegt, að menn með sérþekkingu á ýmsum sviðum, sem snerta mjög iðnað, ættu aðild að stjórn þessarar stofnunar. Nefndi hann þar til fulltrúa frá Verkfræðingafélagi Íslands og Hagfræðingafélagi Íslands og bar fram ósk um það, að Hagfræðingafélag Íslands mætti eiga aðild að þessari stofnun. Ég vil geta þess í því sambandi, að hv. 1. landsk. er formaður í Hagfræðingafélagi Íslands, svo að í því efni var honum málið skylt, og hann hafði að sjálfsögðu umboð Hagfræðingafélagsins til þess að fara þess á leit, að það fengi þarna aðild að, og túlkaði í öllum atriðum skoðanir þess félags á málinu.

Það höfðu líka borizt erindi um það frá Verkfræðingafélaginu, að það fengi aðild að stjórn IMSÍ, og Verkfræðingafélagið rökstuddi þá þær óskir og þá skoðun mjög ýtarlega.

Það kom líka í ljós hjá þeim tveim mönnum, sem ég gat um áðan og höfðu átt aðalþáttinn í því að marka og móta Iðnaðarmálastofnunina, frá því að hún tók til starfa, að þeir teldu mjög eðlilegt og raunar sjálfsagt, að sérþekking réði mestu í störfum þessarar stofnunar á því sviði hennar, sem tæki til iðnaðarfyrirtækja, sem eru í landinu, og iðnaðarfyrirtækja, sem ætlun væri að byggja upp og Iðnaðarmálastofnunin fengist við að gefa leiðbeiningar um og annað þess háttar. Hins vegar töldu þeir mjög óeðlilegt, að þau félagssamtök, sem lagt var til í fyrra og enn er lagt til að skipi yfirstjórn stofnunarinnar, ættu aðild að slíkum viðfangsefnum, þar sem þessi félagsamtök, sem eru góð og gild að öðru leyti, hefðu ekki yfir þeirri sérþekkingu að ráða, að þau væru fær um að taka stjórn þessara mála að sér.

Það kom hins vegar í ljós af þeim upplýsingum, sem iðnn. fékk í fyrra, að verkefni þessarar stofnunar, Iðnaðarmálastofnunar Íslands, mætti aðgreina í tvö meginviðfangsefni og ekki mjög skyld:

Í fyrsta lagi það viðfangsefni að veita iðnaðarfyrirtækjum aðstoð um það, á hvern hátt þau gætu bætt rekstur sinn tæknilega séð, og leiðbeiningar um skipulagningu, eins og t.d. fyrirkomulag í verksmiðjum, niðurröðun véla og annað þess háttar, skipulag verksmiðjubygginga og þess konar atriði. Enn fremur að því er snertir þessa tæknilegu hlið gæti og ætti stofnunin að veita iðnaðarfyrirtækjum upplýsingar og fræðslu um fyrirkomulag bókhalds og kostnaðaráætlana, þannig að iðnrekendur gætu gert sér fyrir fram grein fyrir því, hvort sá rekstur, sem þeir hefðu í hyggju að stofna til, væri arðbær, hvort hann borgaði sig fyrir þá sem framleiðendur og fyrir þjóðfélagið. Um þessa hlið málanna gætu að sjálfsögðu fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, Vinnuveitendasambandi Íslands, iðnsveinaráði Alþýðusambandsins og fleiri samtökum, sem þarna áttu að eiga aðild að í stjórninni, lítið fjallað og slíkir aðilar gætu litlar upplýsingar veitt í þessum málum.

Á hinn bóginn ætti svo stofnunin að hafa annað og ekki síður þýðingarmikið starf með höndum, þar sem þessir aðilar hefðu sínu veigamikla verkefni að gegna, og það væri það starf, sem aðrar þjóðir hafa tekið upp fyrir löngu, að efla skilning framleiðenda og iðnaðarverkafólks og neytenda á þessari starfsemi og þörfum hennar og hag og reyna að eyða ýmiss konar tortryggni og misskilningi, sem þarna hefur löngum verið landlægur. Það nægir að nefna dæmi, sem eru kunn úr sögunni, um það, að verkamenn hafa stundum litið svo á, að nýjar, afkastamiklar vélar væru að taka frá sér atvinnuna, og hafa jafnvel í einstökum tilfeilum, sem skráð eru á söguspjöld, gert tilraunir til þess að eyðileggja vélarnar, brjóta þær niður, en ekki gætt þess, að samfara því sem vélarnar komu að vísu í staðinn fyrir verkamenn í ýmsum greinum, gafst þjóðunum um leið færi á að hefja nýja starfsemi, þar sem hægt var að nýta vinnuaflið, starfsemi, sem viðkomandi þjóðfélag hafði ekki getað beitt sér að áður. Þannig munu nú flestir sammála um það, að tækni og vélamenning í framleiðslu þjóðanna hafi fært þjóðunum hagsæld, verkamönnum ekki síður en öðrum, en ekki öfugt.

Margt fleira mætti auðvitað nefna í þessu sambandi. Það eru ýmiss konar og mörg og mikil atriði, sem þarna eru sífellt togstreituefni og valda oft miklum og óþörfum misskilningi og jafnvel deilum og tjóni. En einmitt svona samtökum eins og ég greindi hér frá og í þessum frv. hefur verið lagt til að mynduðu stjórn stofnunarinnar er bezt treystandi til þess að veita fræðslu í þessum málum, skilja óskir og kröfur viðkomandi aðila og reyna að líta á málin með sanngirni og eyða ýmiss konar misskilningi og tortryggni.

Af þessum sökum lögðu til þeir menn, sem ég hef getið um og höfðu átt drýgstan þátt í að móta þessa iðnaðarmálastofnun, eins og hún er nú, að þetta yrði sérstakt verkefni innan Iðnaðarmálastofnunar Íslands og þessir aðilar, sem upp voru taldir í frv., hefðu yfirstjórn þeirra mála með höndum, og verkefni þeirra væri skipað á ákveðinn hátt í frv. og starfi sömuleiðis. Þeir lögðu til, að það yrði tekið fram, hve oft þessi stjórnarnefnd skyldi koma saman hið minnsta, og skipuðu henni alveg ákveðinn sess í frv.- uppkasti sínu að lögum.

Þegar ég athugaði þessi mál í n. í fyrra, fannst mér, eftir að ég hafði kynnt mér þau rækilega, að þetta væri mjög heppileg og æskileg lausn málanna og mjög eðlileg. Mér fannst a.m.k., að allir hlytu að geta orðið sammála um það, að hin tæknilegu viðfangsefni þessarar stofnunar yrðu ekki bezt leyst með því að setja þau undir yfirstjórn manna, sem því miður skorti þekkingu á þessum viðfangsefnum og gátu ekki tekið að sér lausn þeirra. Og ég gat ekki betur séð en að allir aðilar mættu vel við una þá skipan, sem þessir færu menn, sem þarna var um að ræða á sínu sviði, lögðu til málanna, ef þessi mál væru athuguð rólega og af rökum.

En í frv. því, sem hér liggur fyrir, er því enn haldið til streitu samt sem áður, að yfirstjórn Iðnaðarmálastofnunar Íslands skuli vera í höndum hinna sömu aðila og lagt var til í frv. í fyrra, og það hefur hvorki verið tekið tillit til þess, sem forstöðumenn Iðnaðarmálastofnunarinnar sögðu um þau mál, né heldur til óska Verkfræðingafélagsins og formanns Hagfræðingafélags Íslands um þau mál.

Af þessu hlýtur náttúrlega að leiða það, að ég er andvígur þessu frv. að því er til þessara stjórnarákvæða tekur, á sama hátt og komið hefur hér fram í ræðu hv. 3. landsk. og hv. 2. þm. Reykv.

Nú var í frv. því, sem hér lá fyrir þinginu í fyrra, einnig gert ráð fyrir, að öll þau mál, sem Iðnaðarmálastofnunin hefði með höndum, skyldi hún bera undir þessa stóru stjórn og síðan skyldi þessi stjórn ákveða um það, hvort Iðnaðarmálastofnunin tæki þau að sér eða ekki. Forstöðumenn stofnunarinnar lýstu því réttilega, að þetta væri algerlega ófært ákvæði, þar sem eitt af verkefnum þessarar stofnunar yrði meðal annars að aðstoða menn, sem hefðu í hyggju að koma upp nýjum iðnfyrirtækjum í landinu, hefðu fengið hugmyndir um nýja möguleika í þessu sambandi, kynnt sér þá að einhverju marki, en þyrftu þó að leita til sérfræðinga og fá sérfræðilega aðstoð um hina endanlegu ákvörðun, hvort nú skyldi lagt út á þessa braut eða ekki. Forstöðumenn Iðnaðarmálastofnunarinnar sögðu réttilega: Þetta verður að vera trúnaðarmál milli stofnunarinnar og þeirra aðila, sem til hennar leita. — Það er algerlega óverjandi að leggja svona mál, á því stigi sem þau verða, fyrir fjölmenna nefnd manna, og allra sízt er hægt að gera þetta, ef í þessari n. skyldu vera menn, sem hefðu hagsmuna að gæta í þessu sambandi og væru líklegir til þess að hafa möguleika á og kannske löngun, sem er ekki óeðlilegt, til að taka þessi verkefni og framkvæma þau sjálfir, þegar þeir hefðu séð hugmyndina, þó að hún væri frá öðrum. Nú mun þessu hafa verið breytt eitthvað til bóta í þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Þegar þetta frv. kemur svo fyrir nú að þessu sinni, hefur það helzt gerzt í þessum málum, að þeir tveir menn, sem höfðu veitt iðnn. neðri deildar fræðslu og upplýsingar um þau í fyrra og höfðu átt, eins og ég hef áður sagt, mestan þátt í að móta Iðnaðarmálastofnun Íslands, eru ekki lengur á vegum þessarar stofnunar, hvernig sem á því stendur, heldur eru þeir frá henni horfnir og nýir menn teknir þar við yfirráðum. Skal ég ekki vera með neinar getsakir í þeim efnum, hvernig á því stendur. Það er ástæðulaust. Hitt er mér ljóst, að Félag íslenzkra iðnrekenda hafði talið sig gera mjög vel, þegar það réð þessa menn til starfa þarna, og það hefur verið skrifað í málgagn þess félags um það, að stofnunin hefði verið mjög heppin að fá þessa tvo menn að stofnuninni þegar í upphafi til að móta starf hennar, á meðan hún var í deiglunni. En þeir eru sem sagt ekki þar lengur og ekki tök á því að leita til þeirra um frekari upplýsingar í þessum málum, enda gerist þess nú kannske ekki þörf, því að upplýsingar þær, sem þeir gáfu í fyrra, eru hér allar til.

Enda þótt ég hafi sagt það, að ég væri að ýmsu leyti ánægðari með þetta frv., sem hér liggur fyrir, heldur en frv. í fyrra, og teldi þessar breytingar hafa verið gerðar á því til bóta, þá verð ég að taka undir þá skoðun, sem kom fram í ræðu hv. 3. landsk. þm., að mér finnst talsvert óeðlilegt að vera að hraða þessum störfum mjög mikið, þar sem Alþingi hefur sjálft sett nefnd einmitt til þess að skipuleggja þessi mál miklu betur en áður hefur verið, skipað nefnd til þess að koma á samræmi milli allra þeirra rannsóknarstofnana, tilraunabúa og tilraunastofnana og ráða, sem hér eru starfandi, þannig að starf þeirra mætti nýtast betur en nú er. Og ég held, að það væri kannske brýnasta viðfangsefnið fyrir okkur í tilrauna og rannsóknamálum okkar að reyna að nýta starf þeirra sérfræðinga, sem við eigum, skipuleggja það og nýta það betur en nú hefur verið gert. Við verjum að vísu ekki miklu fé í tilraunir og rannsóknir árlega, en þó nokkru, og ég leyfi mér að fullyrða, að fyrir það litla fé, sem við verjum til þessara hluta, gætum við fengið miklu meira en við fáum nú, ef skipulega væri haldið á þessum málum.

Það kom í ljós hér í fyrra í sambandi við umr. um þetta mál og frá þessum mönnum, sem ég hef getið hér um, sem stjórnuðu þá Iðnaðarmálastofnun Íslands, að þeir höfðu mjög mikinn skilning á þessum málum. Hins vegar kom það jafnframt berlega í ljós, að þeir ætluðust til þess, að Iðnaðarmálastofnun Íslands yrði eins konar yfirstofnun allra annarra tæknistofnana og tilraunastofnana í landinu og hefði samráð við þær og fengi þeim verkefni til rannsóknar. Það má vel vera, að menn komist að niðurstöðu um það, að þetta sé æskilegt og heppilegt fyrirkomulag. Um það skal ég ekkert segja á þessu stigi málsins. En ef svo færi, að menn yrðu nú sammála um það, þá hygg ég, að það væri æskilegra, að þessari stofnun yrðu ekki sett lög, þar sem ekkert er tekið fram um þessi atriði eða að þeim vikið, heldur þess beðið, að atvinnumálanefnd tæki þessi mál til athugunar og gerði sínar till. um skipan þeirra. Ef það yrði niðurstaða atvinnumálanefndar, að það væri sjálfsagt og rétt og mjög heppilegt að fela Iðnaðarmálastofnun Íslands yfirstjórn og samræmingu á störfum allra tæknistofnana og tilraunastofnana í landinu, þá held ég, að það væri skynsamlegt að hafa þá ekki verið búinn að setja nýja löggjöf, heldur geta á þeirri stundu sett þessari stofnun löggjöf til frambúðar. Ég sé nefnilega ekki, að þessi stofnun sé nokkuð bættari með því að fá löggjöf, sem ekki yrði til frambúðar og ekki bætti neitt úr því ástandi, sem ríkir í þessum málum hjá okkur nú. Ég skal sem dæmi nefna það, að í þessum lögum er lagt til að Iðnaðarmálastofnunin skuli gefa út tímarit, henni skuli heimilt að gefa það út. Hún hefur nú þegar í eitt ár gefið út slíkt tímarit með mjög miklum myndarskap, eitt skemmtilegasta tímarit hér á landi, vandaðasta að frágangi að ýmsu leyti, svo að það þarf enga bráðabirgðalöggjöf til þess, að hún geti gert þetta áfram. Það er líka tekið hér fram, að hún megi koma upp tæknibókasafni. Hún hefur nú þegar komið upp allmyndarlegum vísi að tæknibókasafni. Ég sé því ekki, að það sé nein brýn þörf á því að setja þessa löggjöf nú í skyndi til þess að gera þetta. — Það er sagt, að hún skuli fylgjast með tæknilegum nýjungum og veita þeim, er iðnað stunda og við vörusölu fást, leiðbeiningar, er miði að auknum afköstum, verknýtingu og vöruvöndun. Þetta hefur hún gert nú þegar. Þetta er eitt hennar aðalverkefni frá byrjun. Menn kannast við það, að Iðnaðarmálastofnunin hefur fengið hingað útlenda sérfræðinga til þess að fræða t.d. smákaupmenn um sjálfsölubúðir eða hvað þær nú heita, kjörbúðir, sem það er kallað núna, og betri nýtingu á vinnuafli og sparnað ýmsan í sambandi við vörudreifingu, betra fyrirkomulag og bætt skilyrði og eitt og annað í þessum efnum. Þannig gæti ég raunar talið upp öll atriði þessa frv., sem fjalla um verkefni þessarar stofnunar. Hún hefur nú, frá því að hún var stofnuð, fengizt að meira eða minna leyti við öll þessi verkefni, eins og hún hefur haft tök á með tilliti til fjárráða. En fjármál og fjárhagur stofnunarinnar er ákveðinn í fjárlögum nú, og honum verður ekki breytt með þessari löggjöf.

Það er því skoðun mín, að þessu frv. liggi ekki svo ýkja mikið á og það sé ekki ástæða til að hraða neitt sérstaklega afgreiðslu þess. Ég held, að það sé allra hluta vegna bezt og brýnast fyrir okkur að reyna að samræma alla þá starfsemi, sem hér er rekin í þessum málum, tæknilegum upplýsingum, tilraunum og rannsóknum og öðru þess konar, þannig að þjóðfélagið hafi sem mest not þeirra fjármuna, sem það árlega ver í þessu skyni. Ég held, að það sé miklu brýnna viðfangsefni og meir aðkallandi en að setja hér lög, sem gera ekki annað en að staðfesta það, sem þegar er staðreynd. Að vísu skal ég játa, að það er mjög æskilegt, að Iðnaðarmálastofnun Íslands fái sína löggjöf, en ég álít bara, að það sé ekki svo brýn nauðsyn á því, að það sé ekki betra að doka við og ekki hvað sízt ef það skyldi ýta undir það, að sú heildarlausn, sem þjóðin þarf umfram allt að fá í þessum málum, næði fram að ganga.