26.03.1956
Neðri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (1754)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. forsrh., að hér er um merkilegt mál að ræða, en hins vegar er það, að ég lít svo á, að þetta frv. sé einkar ómerkilegt. Ég verð að segja það, að ég hafði búizt við allt öðru af þeirri nefnd, sem hefur haft mál þetta til meðferðar svo lengi sem raun ber vitni, heldur en því, sem fram kemur í þessu frv., því að það er vissulega rétt, að hér er um þannig mál að ræða, að það er full þörf á því að snúast við því af fullri alvöru og koma með raunhæfar till., sem mættu verða til þess að draga nokkuð úr því misvægi i byggð landsins, sem mjög hefur verið rætt um að undanförnu.

Í grg. þessa frv. er frá því skýrt, að samþykkt hafi verið á Alþingi 4. febr. 1953 þáltill. um það, að skipuð skuli nefnd til þess að undirbúa heildaráætlun um framkvæmdir, sem gætu miðað að því að viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Í grg. frv. er jafnframt sagt frá því, að þann 29. júní 1954, eða um það bil 17 mánuðum síðar, hafi verið skipuð nefnd samkv. þessari þáltill. til þess að taka að sér þetta verkefni, sem Alþ. hafði gert ákvörðun um. Það er því augljóst mál, að hæstv. ríkisstj. hefur tekið þessa samþykkt Alþ. og þetta mál ekki ýkja alvarlegum tökum strax í upphafi, þegar hún hefur látið það bíða nokkuð á annað ár að snúast þannig við ákvörðun Alþingis, að menn yrðu settir til þess að vinna það verk, sem Alþ. hafði lagt til, að unnið yrði. Alþingi hafði svo aftur, eins og kemur fram í grg. frv., ítrekað samþykkt sína á s.l. ári, 11. maí 1955, þar sem gerð var hér samþykkt um það, að undirbúnar yrðu ákveðnar framkvæmdir til atvinnuaukningar í þeim landshlutum, þar sem mest hefur dregið úr byggðinni að undanförnu. Það er því sem sagt nokkuð komið fram yfir 3 ár frá því, að Alþ. gerði samþykkt um þetta mál, og þar til þetta litla frv. er nú lagt fram hér á Alþingi. Ég álít, að þessar staðreyndir, sem hér koma fram hjá þeim, sem þetta frv. hafa samið, sýni mjög greinilega það sinnuleysi, sem um þetta mál hefur ríkt hjá ríkisstj. og hjá þeim flokkum báðum, sem að ríkisstj. standa, og það er því kannske ekki nema eðlilegt, að þeir tveir menn, sem ríkisstj. loksins skipaði, hvor úr sínum stjórnarflokki, hafi unnið að málinu á þann hátt, sem frv. þeirra ber vott um, af fullkomnu áhugaleysi um að víkjast við þessum vanda á nokkurn raunhæfan hátt og því hafi farið eins og fór um það efni, sem frá n. kom.

Eins og þetta frv. liggur hér fyrir, er efni þess fyrst og fremst tvennt. Fyrsti kafli frv. er um jafnvægisnefnd, og þar er talið upp í 23 liðum, hvað þessi jafnvægisnefnd skuli gera, og lýtur það næstum allt að alls konar upplýsingastarfsemi eða skýrslugerð, sem henni er ætlað að vinna að. Ed. hefur nú litið þannig á þennan helming frv., sem snýr að þessu merkilega verkefni, að hún hefur fellt niður meginhlutann af þessum kafla, eða alla þessa 23 liði, og talið, að réttast væri að telja þetta ekki upp á þann hátt, sem nm. leggja til, en slíkt hlyti að verða framkvæmdarefni á hverjum tíma, að hvaða rannsóknum nefndin kann að vilja vinna.

Síðari helmingur frv., II. kaflinn, fjallar svo um jafnvægissjóð, en þar er gert ráð fyrir því, að myndaður verði sjóður, sem hægt á að vera að nota til áhrifa í þessu efni, til styrkveitinga og lánveitinga til þeirra aðila, sem hefja einhverjar framkvæmdir, sem gætu unnið að því að stuðla að jafnvægi i byggð landsins.

Ef sæmilega hefði verið gengið frá þessum síðari kafla um jafnvægissjóð, hefði mátt segja það, að nokkurt gagn væri í frv., ef það hefði raunverulega verið myndaður sjóður og honum tryggt fé, sem hefði verið til þess fær að styrkja og efla atvinnuframkvæmdir í þeim landshlutum, þar sem atvinna hefur verið og er ónóg. En það er síður en svo því að heilsa í þessum kafla. Stofnfé þessa jafnvægissjóðs er í aðalatriðum það, að hann á að eignast fjármuni, sem á undanförnum árum hafa verið veittir út sem atvinnubótafé til hreppsfélaga og bæjarfélaga. Vitanlega er þetta stofnfé sáralítils virði, eins og n. verður að viðurkenna í þessu frv., því að um það fé, sem á undanförnum árum hefur verið veitt út sem atvinnubótafé, þó að í lánsformi hafi verið, er öllum ljóst, að til þess eru litlar líkur, að það fé skili sér aftur og verði því nokkurn tíma nokkur raunhæfur peningur til útlána á nýjan leik. Hér hefur skiljanlega fyrst og fremst verið um það að ræða, að þessu litla fé, sem veitt hefur verið til atvinnubóta á undanförnum árum, hefur verið veitt til þannig fyrirtækja og stofnana, að þau eru yfirleitt ekki fær um að endurgreiða þetta fé, enda hafa veð fyrir þessum lánum verið tekin þannig, að þau hafa verið orðin miklu lakari en svo, að nokkur lánsstofnun vildi líta við slíkum veðum.

Það mun vera mjög algengt, að þessi atvinnubótalán hafi verið veitt út á báta og mannvirki og út á 8. eða 10. veðrétt í slíkum eignum. Hér er því vitanlega aðeins um blekkingu að ræða að telja þetta sem stofnfé þessa sjóðs. Hér getur ekki verið um handbært fé að ræða fyrir þá nefnd, sem á að stjórna þessum sjóði.

Þá er einnig minnzt á það, að stofnfé þessa jafnvægissjóðs eigi að vera vanskilaskuldir, sem ýmis sveitarfélög hafa komizt í við ríkissjóð og eru orðin skuldug ríkissjóði vegna þess, að ríkið hefur þurft að leggja út þær greiðslur fyrir viðkomandi sveitarfélög vegna getuleysis þeirra. En eins og kunnugt er, stendur ríkissjóður í allmiklum ríkisábyrgðarlánum til bæjar- og sveitarfélaga, og nokkuð hefur orðið að falla á ríkissjóð af þeim lánum á undanförnum árum. T.d. má nefna það, að nærri allar mótorrafstöðvar í landinu, sem byggðar hafa verið þannig, að lán hefur verið tekið til þeirra með ríkisábyrgð, hafa ekki getað borgað vexti og afborganir, og hafa því þær greiðslur fallið á ríkissjóð. Ríkissjóður hleður upp þessum eignakröfum, ef eignakröfur skyldi kalla, á viðkomandi sveitarfélög, og nú á að segja við jafnvægissjóð: Ja, þessar fjárkröfur, sem ríkið getur ekki á neinn hátt innheimt og hefur ekki getað gert sér neinn pening úr, megið þið nú eiga, og nú skuluð þið rétta við atvinnulífið í þeim landshlutum, þar sem skortur er á atvinnutækjum, með þessum peningum.

Það er því alveg augljóst samkv. þessu frv., að þessum sjóði er ekki fengið neitt stofnfé, ekki nema alveg falskar ávísanir. En hvað er þá að segja um tekjurnar, sem þessi sjóður á að fá? Jú, í fyrsta lagi á hann að fá vaxtatekjur af þessum líka eignum, sem hafa nú skilað sér á þennan hátt, eins og allir vita. Og svo á hann að fá í öðru lagi árlegt framlag úr ríkissjóði, 5 millj. kr., eða jafnháa upphæð og veitt hefur verið í mörg undanfarin ár til atvinnubótaframkvæmda, sem öllum hefur þótt að væri allsendis ónóg og gæti ekkert í þessum efnum leyst. Það á þó ekki að fella það niður, það á þó að halda því við áfram að láta ganga til þessa sjóðs 5 millj. kr. á ári, eða jafnmikið og hefur verið veitt á hverjum fjárlögum undanfarin fimm ár líklega til atvinnubótalána.

Þetta eru nú tekjurnar, og með þessu á svo jafnvægissjóður að leysa þetta mikla vandamál, sem hér hefur verið rætt manna á milli og hér í þingsölunum ár eftir ár.

Það er alveg augljóst, að eins og þetta frv. liggur fyrir, þá er sú n., sem þetta frv. hefur samið, að skjótast algerlega undan því mikla verkefni sem hún átti að reyna að finna einhverja lausn á. Um það getur ekki verið að villast. Og frá n. kemur heldur ekkert í þá átt, að hún skilgreini á neinn hátt, í hverju þetta vandamál er í raun og veru fólgið og hvaða ráð ættu að vera tiltækilegust til þess að leysa vandann. Það er sem sagt viðurkennt af öllum, að á undanförnum árum hefur þróunin verið sú, að a.m.k. í þremur landsfjórðungum, á Vestfjörðum, Norðurlandi og á Austfjörðum, hefur fólki farið fækkandi. Fólk hefur leitað þaðan jafnt og þétt, einkum hingað til Suðvesturlandsins, fyrst og fremst af þeim ástæðum, að atvinnutekjur í þessum landsfjórðungum hafa verið ófullnægjandi, allmiklu lægri og ótryggari en þær hafa verið hér suðvestanlands. Í þessu hefur vandinn legið. Og hvað hefur komið til, að þessum málum hefur verið svona háttað?

Það, sem hefur áorkað í þessum efnum alveg stórkostlega, er það, að á undanförnum árum hafa verið hér á Suðvesturlandi mjög stórfelldar atvinnuframkvæmdir á vegum erlends aðila, hernámsyfirvaldanna hér, framkvæmdir, sem hafa þýtt um og yfir 300 millj. á hverju ári, sem unnið hefur verið fyrir hér á Suðvesturlandi. Vitanlega hafa þessar framkvæmdir haft stórmikið að segja í þá átt að gera eftirspurn eftir vinnuafli mjög mikla hér um slóðir og gera það mjög algengt fyrirbæri hér, að vinnuafl hefur verið yfirborgað. Og það var alveg auðskilið mál, að ef svo átti lengi til að ganga, að svona lagaðar framkvæmdir stæðu hér yfir á suðvesturhorni landsins, þá yrði annað tveggja að efna til mjög stórfelldra atvinnuframkvæmda í öðrum landshlutum eða fólk hlyti að dragast hingað að þessum miklu atvinnuframkvæmdum. Auk þess hefur svo margt annað komið til. Því verður ekki heldur neitað, að þessir þrír landsfjórðungar, sem verst hafa orðið úti, hafa á ýmsan hátt orðið fyrir meiri atvinnuáföllum á undanförnum árum en t.d. Suðvesturlandið, sem einkum hefur dregið til sín fólkið. Það getur enginn neitað því, að Norðurlandið hefur orðið fyrir stórfelldum atvinnuáföllum, með því að sumarsíldveiði þar hefur brugðizt að mestu leyti. Og þar er ekki aðeins um einn bæ að ræða, heldur Norðurlandið svo að segja allt. Fyrir þessu áfalli hafa einnig orðið útgerðarbæirnir á Vestfjörðum margir, sem mikið gerðu sér úr síldveiðinni, og einnig á Austurlandi. Þetta hefur á engan hátt náð eins tilfinnanlega til Suðvesturlandsins, þó að það hafi vitanlega ekki að öllu leyti farið varhluta af þessu. Við þetta má einnig bæta því, að sjálft ríkið hefur haldið uppi á undanförnum árum ýmsum atvinnuframkvæmdum hér á Suðvesturlandi, sem eru miklum mun stórfelldari en það, sem ríkið hefur gert í atvinnulegum efnum við hina þrjá landsfjórðungana, sem einkum hafa verið í atvinnulegum vanda.

Þá vil ég einnig minna á eitt atriði, sem tvímælalaust hefur verkað mjög sterkt á þessa hluti, en það eru þær ráðstafanir, sem hér voru gerðar snemma á árinu 1952, þegar ráðizt var í það að færa út landhelgislínuna mjög myndarlega, einkum hér við Suðvesturlandið. Það komu þá strax upp raddir Austfirðinga og Vestfirðinga þess efnis, að það væri alveg augljóst mál, að með svona gífurlega mikilli útfærslu á landhelginni og friðun fiskimiða við Faxaflóa og Breiðafjörð og hér við Suður- og Suðvesturlandið hlyti þetta landshornið að eiga von á allverulega bættri aðstöðu til útgerðar á næstu árum. Og ekkert var nema gott um það að segja, og allir fögnuðu því, en Austfirðingar og Vestfirðingar sögðu: Hins vegar er útfærslan á landhelgislínunni hjá okkur nær engin. Við getum sáralitið sem ekkert hagnazt á þessu. — Og þeir sættu sig allir við það, sem gert var, í fullu trausti þess, eins og margsinnis var tekið fram, að þeirra óskum í þessum efnum yrði einnig mætt, áður en langur tími liði, að landhelgin yrði einnig færð út þar. En nú eru senn liðin 4 ár, síðan landhelgin var færð út hér. Austfirðingar og Vestfirðingar hafa á hverju ári óskað eftir því af umboðsmönnum sínum hér á Alþ., að þeir ynnu að því, að staðið yrði við það, sem þeir töldu að þeim hefði beinlínis verið lofað, að landhelgin yrði einnig stækkuð fyrir þeirra landshlutum. En þó að allir alþm. af Austurlandi og allir frá Vestfjörðum og allir nú í seinni tíð líka frá Norðurlandi hafi flutt hér á Alþ. tillögur um að færa út landhelgislínuna fyrir þessum landshlutum og stækka friðunarsvæðið, hafa slíkar till. ekki fengizt samþykktar.

Þessar aðgerðir hafa óhjákvæmilega leitt til þess, að það hefur verið miklu örðugra innbyrðis í landinu að halda uppi eðlilegri bátaútgerð fyrir Austurlandi og Vestfjörðum en t.d. hér fyrir Suðvesturlandi. Þetta eru staðreyndir, sem allir þekkja, sem eitthvað eru kunnugir þessum málum, og það er því höfuðnauðsyn, ef á að reyna að skapa aukið jafnvægi í þessum efnum, að þora að stíga það skref að færa út landhelgina fyrir þessum landshlutum, eins og óskað hefur verið eftir.

Ég hef nú minnzt með örfáum orðum á nokkrar orsakirnar, sem til þess liggja, að fólkið hefur verið að flytjast úr þessum 3 landsfjórðungum hingað til Suðvesturlandsins. Og þá gefur vitanlega auga leið, að ekki þarf að liggja ýkja lengi yfir því, hvað það er, sem þarf að gera til þess að skapa hér aukið jafnvægi. Það, sem fyrst og fremst ætti að gera, er ekki að láta einhverja tvo menn, skipaða af stjórnarflokkunum, hanga yfir því í yfir 3 ár að safna einhverjum manntalsskýrslum og leggja svo frá sér frv. eins og það, sem hér liggur fyrir. Það þarf að færa út landhelgina fyrir Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. Það er eitt þýðingarmesta skrefið, sem þarf að stíga. Það er grundvallaratriði, sem þarf að framkvæma, ef á að vera hægt að halda uppi bátaútgerð úr þessum landshlutum að einhverju leyti til samræmis við það, sem hægt er og gert er hér við Suðvesturland.

Þá er einnig vitað mál, að það verður að stuðla að því með allfjárfrekum framkvæmdum að koma upp atvinnutækjum í þessum vanræktu landshlutum, til þess að hægt sé að skapa þar óslitna eða samfellda vinnu allt árið. Reynslan af togaraútgerð í öllum þessum landshlutum hefur sannað, að togaraútgerðin getur leyst þetta verkefni, og þau rök, sem hér voru áður færð fram gegn því að efla togaraútgerð í þessum landshlutum, eru nú fullkomlega fallin. Því var sem sé haldið fram, að ekki væri hægt að gera út togara, svo að sæmilegt mætti teljast, á Íslandi nema frá Reykjavík og Hafnarfirði. En reynslan hefur nú sýnt, að það er hægt að gera út togara frá Akureyri, frá Siglufirði, frá Austfjörðum og frá Ísafirði fullkomlega til jafns við það, sem tekst að gera út togara héðan frá Reykjavík. Og togararnir geta lagt upp afla sinn í þessum landshlutum og komið þar upp mikilli og samfelldri fiskvinnslu og breytt atvinnuleysistímabili í mikið atvinnutímabil á þessum stöðum. En til þess þarf að ráðast í að kaupa togara fyrir þessa staði, og ef sinna á hinum smærri stöðum í þessum landsfjórðungum, þá verður einnig að leggja nokkurt fjármagn í það að gera hafnarskilyrði og móttökuskilyrði öll þannig úr garði á þessum stöðum, að þeir geti tekið við jafnmiklum fiski og berst í einu frá togurum.

Hér hefur legið fyrir Alþ. frv. um það einmitt að bregðast á réttan hátt við þessum efnum, að efna til framkvæmda, þannig að keyptir yrðu allmargir nýir togarar, sem sérstaklega yrði ráðstafað í þessa landshluta, og að hafizt yrði handa um ríkisútgerð á togurum til atvinnujöfnunar fyrir þá staði, sem verða að teljast of litlir til þess að geta annazt rekstur slíkra skipa sjálfir. Í því frv. er einnig gert ráð fyrir því að verja þó nokkru fjármagni til þess að bæta úr skilyrðum þessara staða til þess að vinna slíkan fiskafla. Það eru svona till., sem jafnvægisnefndin hefði átt að koma með, en ekki frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, sem er hreint háðungarfrv. í jafnalvarlegu máli og þetta mál í rauninni er.

En það er að vísu margt fleira, sem grípur inn í þetta mál, heldur en það, sem ég hef nú minnzt á. Það eru mörg önnur atriði, sem vert hefði verið að benda á og gera till. um, þegar átti að snúast gegn þeim mikla vanda að bjarga við afkomu þessara byggðarlaga og draga nokkuð úr fólksstraumnum hingað til Reykjavíkur. Það er sem sagt orðið þannig, að það eru fjöldamörg atriði, sem gera það að verkum, að það er orðið miklu óhægra um vík að búa úti á landi en hér í Reykjavík. Það er miklu erfiðara að annast ýmsar framkvæmdir þaðan en héðan frá Reykjavík, eins og ýmsum málum er skipað. Eitt af því er það, að sú skipan hefur verið látin viðgangast í mörg ár, að öllum gjaldeyri landsmanna er úthlutað frá skrifstofu hér suður í Reykjavík. Verzlunarmenn á Austurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi hafa hvað eftir annað bent á, að það er illmögulegt fyrir þá að annast nokkra innflutningsverzlun, ef þeir eiga að liggja yfir gjaldeyrisnefnd, sem hefur skrifstofu hér suður í Reykjavík, ef þeir þurfa daglega að sækja öll leyfi og alla fyrirgreiðslu til einnar nefndar, sem stödd er hér. Á það hefur verið bent hér áður, að það er full ástæða til þess að taka upp þá skipan, að sú gjaldeyrisnefnd, sem er hér í Reykjavík, verði nokkurs konar yfirgjaldeyrisnefnd, en a.m.k. á einum stað í hverjum landsfjórðungi, t.d. á einum stað á Vestfjörðum og a.m.k. einum stað á Norðurlandi og á einum stað á Austurlandi, væru einnig gjaldeyrisnefndir, sem íbúar þessara landshluta gætu snúið sér beint til og fengið sín gjaldeyris- og innflutningsleyfi hjá, eftir því sem þessum undirnefndum hefur verið skammtaður gjaldeyrir af höfuðnefndinni hér fyrir sunnan. Það er vitanlega ekkert á móti því, að gjaldeyrisnefndin hér ákveði það á þriggja eða fjögurra mánaða fresti, að til Vestfjarða verði veittar 5 eða 10 millj. í gjaldeyri fyrir næsta þriggja mánaða tímabil, til Norðurlandsins skuli veittar 10 millj. kr. í gjaldeyri til næstu þriggja mánaða og til Austurlandsins einhver tiltekin upphæð, eftir því sem hóflegt þykir fyrir þessi umdæmi, og svo séu undirnefndir, eins og ég sagði, sem íbúar viðkomandi héraðs geta leitað beint til, og þá gætu þeir tekið í þjónustu sína á eðlilegan hátt sinn þátt af innflutningsverzlun landsmanna. En núna, með því skipulagi, sem nú ríkir, er öll landsbyggðin beinlínis einokuð undir ákveðna nefnd hér í Reykjavík. Þessum aðstöðumun þarf að breyta.

Svipað er að segja um þetta hjá bönkum landsins. Það er vitanlega með öllu óhæft, að það skipulag skuli vera á, að gjaldeyrir skuli ekki vera seldur nema á einum stað í landinu, nema aðeins hjá tveimur bönkum hér við Austurstræti í Reykjavík. Vitanlega er full ástæða til þess, að öll útibú gjaldeyrisbankanna geti afgreitt gjaldeyri eftir réttum gjaldeyrisleyfum og að menn þar í sínu heimabyggðarlagi geti snúið sér til þeirra og keypt sinn gjaldeyri. En núna er þessu þannig fyrir komið, að takist manni úti á landi að fá gjaldeyrisleyfi, þá verður hann með öllum þeim þrautum, sem því fylgja nú, að sækja það hingað suður, þá verður hann svo að fá sér umboðsmann hér í Reykjavík til þess að geta tekið hér út gjaldeyrinn. Hér verða allar innheimtuafgreiðslur að fara fram. Þessum aðstöðumun á líka að breyta.

En svona aðstöðumunur er í ýmsum greinum, sem auðvelt væri að kippa í lag, ef fullur vilji væri fyrir hendi. Ég hef hér áður minnzt á, að það er vitanlega allsendis óeðlilegt, að menn austur á landi, sem þurfa að sækja um lán til að byggja sér íbúðarhús, skuli verða að láta ganga frá þessum litlu lánum, sem þeir hafa getað fengið, hér suður í Reykjavík. Þeir verða að tiltina öll gögn, alla pappíra, teikningar og hvað eina af þessum húsum sínum, senda þetta til skrifstofu suður í Reykjavík, sem allajafna hefur eitthvað við þessi gögn að athuga, segir, að eitthvað sé ekki rétt útfyllt, ekki nægilega nákvæmlega, ekki á rétt eyðublöð, og þannig er mönnum úti á landi torveldað þetta svo, að það er talið af þeim almennt óvinnandi vegur að komast í gegnum þetta, ef ekki er hægt að ná í einhvern þm. eða einhvern annan umboðsmann til þess að standa í þessu og stússa í þessu við skrifstofu hér suður í Reykjavík.

Vitanlega á að vera hægt að afgreiða svona hluti a.m.k. í einum eða tveimur stöðum í hverjum landsfjórðungi, og mundi það vitanlega gera mönnum hagræði í þessum efnum á þeim stöðum.

Þannig er margt fleira, sem hefur verið minnzt á og er alláhrifamikið í aðstöðumun. Það væri líka full ástæða til þess, að ríkisvaldið gerði samninga við aðalskipafélögin í landinu um það, að þau tækju upp beinar siglingar erlendis frá a.m.k. á einn stað í hverjum landsfjórðungi. En nú er þessu þannig fyrir komið, að vilji maður kaupa sjálfur vöru beint erlendis frá, þá er óhjákvæmilegt, að hún verði flutt upp til Reykjavíkur með milliinnflutningi, en beinar skipsferðir með vörur frá útlöndum í þessa þrjá fjórðunga er ekki orðið um að ræða. Hér er vitanlega um mjög stórfelldan aðstöðumun að ræða, sem hægt er að lagfæra.

Þessi jafnvægisnefnd virðist ekki hafa komið auga á neitt af þessu, hún bendir ekki á neitt af þessu. Hún virðist enn vera á því stigi að sjá það eitt, að það þurfi að reyna að búa til skýrslur, það þurfi að reyna að telja saman, hvað íbúunum fækki mikið á hverju ári. Það er það lengsta, sem þeir hafa komizt.

Það er óhætt að slá því föstu, að það vandamál, að íbúunum skuli jafnt og þétt fækka í þremur landsfjórðungum, en fólkið hrúgast hingað til Suðvesturlands og þá fyrst og fremst til Reykjavíkur, eins og allir landsmenn vita að hefur verið á undanförnum árum og hefur farið stórvaxandi, — það vandamál verður ekki leyst með slíku frv. sem því, sem hér liggur fyrir. Hér þurfa að koma til beinar ákvarðanir um allstórtækar aðgerðir. Það eru aðgerðir eins og þær. sem ég hef nú nefnt, eins og t.d. útfærsla landhelginnar fyrir þessum þremur landsfjórðungum, sem eru aðkallandi, ef þar á að geta dafnað eðlileg bátaútgerð. Það eru aðgerðir eins og þær að keyptir verði allmargir nýir togarar, hafin verði ríkisútgerð togara með það sérstaklega fyrir augum að geta haldið við jafnri og stöðugri atvinnu á þeim stöðum, þar sem atvinnan hefur verið ótrygg að undanförnu. Það eru slíkar beinar aðgerðir, fastar samþykktir Alþingis, sem hafa eitthvað að segja í þessum efnum, en ekki frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, og það er rétt að horfast í augu við það, að þetta verður ekki gert nema með allmiklum fjármunum. Margir togarar verða ekki keyptir, nema efnt verði til lántöku, og það ætti að vera fullkomlega fært að fá þau lán. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að það er hægt að fá lán til togarakaupa. Það er ekki langt síðan ég sá hér hjá einu tryggingarfélagi í Reykjavík skeyti frá erlendu, stóru tryggingarfélagi, þar sem það býðst til þess að lána 85% af andvirði tíu togara af þeirri gerð, sem við látum nú byggja fyrir okkur. Ég er líka alveg víss um, að það er hægt að fá svona lán á fleiri en einum stað, en það þarf sem sagt að vera vilji fyrir hendi, til þess að í slíkar framkvæmdir sé ráðizt.

Ég held, að eins og þetta frv. liggur hér fyrir, væri eðlilegast að láta það sofna, því að ég álít, að þetta sé ekki aðeins þeim mönnum, sem hafa samið þetta frv., til háðungar, heldur væri það líka Alþingi öllu til mikillar háðungar að bregðast þannig við þessu vandasama og alvarlega máli að samþykkja frv. eins og þetta. Hins vegar er vitanlega hægt að gera á þessu frv. breytingar. Það er auðvelt verk að koma hér fram með breytingar á þessu frv. Og Alþ. getur hæglega, hvort sem það vill í sambandi við þetta frv. eða samhliða þessu frv., samþ. þær till.. þau frv., sem hér liggja fyrir til lausnar á þessu vandamáli, ef það virkilega vill snúast gegn þeim vanda, sem hér er um að ræða. Það er auðvelt að gera það, og það væri vitanlega mannsbragur að því að snúast þannig við vandanum.

Þetta mál er nú hér til 1. umr. og það gengur að sjálfsögðu til n., og gefst þá tími til þess síðar að sýna hér brtt., eftir því sem ástæður þykja til, þegar málið hefur einnig skýrzt nokkuð við frekari umræður.