26.03.1956
Neðri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (1756)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja um eitt atriði þessa frv., áður en það fer til n., og ég geri það í því skyni, að ég vil mega vænta þess, að hv. n. athugi það nánar en mér virðist að komi fram í frv., og þetta er ákvæði 9. gr.

Um málið í heild ætla ég ekki að fjölyrða núna, að sumu leyti bregður það upp heldur ömurlegri mynd af okkar þjóðlífi. Ég er þeirrar skoðunar, að ef mikill hluti þjóðarinnar, máske langmestur hluti hennar, flytur úr sveitum landsins að sjónum, þá sé öryggi þjóðarinnar í framtíðinni ekki nægilegt, hvorki til framfara né afkomu. Ég veit vel, að sveitastörfin eru ekki þess eðlis, með þeirri aðstöðu, sem verið hefur hér hjá okkur, að þau gefi skjótfenginn gróða, sízt af öllu stórfelldan gróða, en þjóðinni eru þau áreiðanlega gagnleg og veita henni öryggi og geta búið henni meiri þroska og öruggari framfarir en við flest önnur störf.

En að svona er komið, að fækkað hefur í sveitum landsins, stafar fyrst og fremst af einni ástæðu, sem er alveg gildandi, og það heldur áfram að fækka og vera svo, unz þar er breytt til, en það er, að fólkið þarf að hafa sambærilega aðbúð og sambærileg kjör við það, sem tíðkast annars staðar með þjóðinni. Ef séð er fyrir því, að fólkið úti um byggðir landsins, úti um sveitirnar, hefur sambærilega aðbúð við það, sem tíðkast í fjölmenni, og kjör þess eru sambærileg við það, sem er þar, þá verður fólkið kyrrt. Verði hins vegar haldið áfram á þeirri braut, sem verið hefur nú um skeið, að meginfjármagn þjóðarinnar er dregið saman á tiltölulega litinn blett, eins og er hér á Suðvesturlandi, fyrst og fremst við Faxaflóa, og látið starfa þar, þá heldur fólkið áfram að flytjast þangað og starfa þar. Hitt er svo annað mál, hvað örugg framtíð þjóðarinnar er, ef þannig heldur áfram.

Ég ætla ekki að fara að ræða einstakar greinar þessa frv. Ég vil strax taka það fram við hæstv. forseta, að hann þarf ekki að óttast, að ég geri þær að umtalsefni, nema aðeins sérstaklega eitt atriði í 9. gr., þar sem talað er um stofnfé jafnvægissjóðs. Það er undir 1. lið talað um 5 millj. samkv. 22. gr. fjárl. fyrir yfirstandandi ár, í öðru lagi er talað um fé það, sem ríkissjóður við gildistöku laga þessara á útiatandandi af lánum, er veitt hafa verið samkv. 20. og 22. gr. fjárl. til þess að bæta úr atvinnuörðugleikum í landinu, og 3. liður inneignir ríkissjóðs hjá lántakendum ríkisábyrgðarlána vegna afborgana og vaxta, sem ríkissjóður hefur greitt af þessum lánum síðustu 10 árin, fyrir árslok 1953. Svo er sagt í seinustu málsgr., að kröfur ríkissjóðs vegna lána og greiðslu vanskilaskulda samkvæmt þessari gr. skuli afhentar jafnvægissjóði til eignar, um leið og hann tekur til starfa. Stjórn jafnvægissjóðsins er heimilt að semja við skuldunauta um greiðslur lána, og má þá, ef ástæður þykja til, sbr. 1. gr., taka tillit til greiðslugetu þeirra.

Á þeirri tíð, sem þessi lán hafa verið veitt og Alþ. hefur tekið ákvörðun um það, hefur það vitaskuld verið gert með venjulegum hætti, þannig að ríkisstj. hefur átt að annast framkvæmd þessara atriða, framkvæmd lánveitinganna eða ábyrgðarinnar. Ríkisstj. hefur átt að meta tryggingar, þegar um þær hefur verið að ræða, fyrir þessum lánum eða ábyrgð, sem ríkið hefur gengið í, og gagnvart Alþ. hefur ríkisstj. þarna verið aðili. Alþ. hefur þess vegna haft aðgang að ríkisstj. um hvað eina, er þessum lánveitingum hefur viðkomið eða ábyrgðum. Nú er ætlazt til, að þessir fjármunir, sem svo er ástatt um sem segir í gr., verði afhentir stjórn þessa sjóðs, og stjórn sjóðsins gerist þá aðili, kemur þar í stað ríkisstj., sem á að annast innheimtu og fara með þessi mál eftir því, er henni þykir henta og þykir rétt.

Ég efast ekkert um, að slík ráðstöfun sem þessi sé lögleg, ef Alþ. lögfestir nú þessa skipan, þótt gersamlega sé breytt frá því, sem áður var. En nokkur breyting kann það að verða gagnvart þessum skuldunautum og önnur aðstaða þeirra út af þessum lántökum eða ábyrgðum en áður var.

Maður hefur rétt til þess að álíta, að þeir menn, sem fá þessar fjárreiður í hendur, það sem á að vera eign þessa sjóðs, freistist til, sérstaklega ef þeir eru peningaþurfi, að ganga allnærri þeim, sem eiga að standa skil á þessum kröfum sjóðnum til handa, og getur þá viljað til, að það verði þeim, sem eiga að standa skil á þessum fjármunum, nokkuð erfitt að annast greiðslur þeirra, og maður hefur allmikla ástæðu til þess að ætla, að viðhorf þeirra út af þessum málum gagnvart stjórn þessa sjóðs verði þó nokkuð annað og jafnvel erfiðara en ef ríkisstj. ætti þarna hlut að máli. Jafnvel það, að ríkisstj. hefur látið úti þessa peninga eða ábyrgðir og metið allar aðstæður, þegar það gerðist, getur orðið til þess, að hún mundi líta nokkuð öðrum augum á möguleika þessara manna, sem þessar skuldagreiðslur eiga að annast, heldur en menn, sem allt í einu koma inn í þetta og eignast þessar kröfur.

Ég treysti mér ekki án þess að rannsaka það, og það er talsvert verk, að segja fyrir fram til um það, hvernig ástatt kann að vera um ýmsar þessar kröfur. En vel get ég búizt við, að þannig sé því háttað um sumar þeirra, að það sé lítils virði og ekki þess vert að gera mikið til þess að innheimta það. Enn getur svo verið ástatt um sumar þessar kröfur, að það standi þannig á um þær, að það liggi mjög fjarri að gera hina minnstu tilraun til þess að innheimta.

Í því sambandi má t.d. minnast á þá fjármuni, sem gengið hafa til þess að bæta úr atvinnuskorti, þar sem hann hefur verið. Og enn geta verið aðrar ástæður, sem ég treysti mér ekki fyrir fram án sérstakrar rannsóknar til að segja um, sem sízt séu betri gagnvart þeim, sem á að greiða þessar skuldir, en þessi atriði, sem ég hef nú minnzt á.

Ég hefði mjög gjarnan viljað biðja hv. n. það er fjhn. vafalaust, sem fær þetta mál — einmitt að athuga þetta mjög gaumgæfilega, því að það getur verið mjög þýðingarmikið fyrir þá aðila, sem hér eiga hlut að máli.

Ég skal svo ekki fjölyrða um málið meira.