26.03.1956
Neðri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í C-deild Alþingistíðinda. (1757)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Frv. um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins er nú komið til afgreiðslu í þessari hv. d. Það er ekki vonum fyrr, að slíkt blað sé sýnt hér, því að lengi að undanförnu hafa liðsmenn ríkisstj. haft uppi allmiklar orðræður um það, hversu nauðsynlega þyrfti að gera ráðstafanir til þess að koma á jafnvægi í byggð landsins. N. var sett í málið samkvæmt till., sem samþ. var fyrir þremur árum hér á Alþ. Einhvern veginn mun það hafa vafizt fyrir ríkisstj. i rúmlega eitt ár að skipa þá n., en að lokum gerði hún það fyrir hartnær tveimur árum, og hefur sú n. setið á rökstólum síðan, og eru undan hennar rifjum runnin þau gögn, sem hér liggja fyrir nú.

Það var mjög virðingarvert af hv. þm. N-Þ., sem er annar aðalhöfundur þessa frv., að láta þess getið í ræðu sinni um málið, að frv. væri ekki stórt í sniðum. N. hefur sem sagt einbeitt sér að því að sanna þann hlut, sem reyndar allir landsmenn víssu áður, að þróunin í fólksflutningum á Íslandi stefnir til ójafnvægis í byggðinni. Fólk dregst saman á fáa staði, aðallega í höfuðstaðinn, en fækkar að sama skapi eða þó nokkru örar í flestum byggðum landsins á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi. Það er alveg rétt. N. hefur tekizt að sanna þetta alveg tvímælalaust, eða réttar sagt, hún hefur fengið Hagstofu Íslands til þess að sanna þetta, og fyrir þetta á n. allt þakklæti skilið.

Það eru í minni höfð orð eins hv. þm. Ed., sem gaf nm. í jafnvægisnefndinni, Gíslunum tveim, þá sérstöku einkunn í ræðu sinni um málið í Ed., að að þessu máli hefðu staðið tveir þm., annar greindur og hinn duglegur. (Gripið fram í: Var það ekki góð einkunn?) Jú, það var góð einkunn, og hún hefur ekki verið dregin í efa, mér vitanlega. Auk þess kunna þeir að hafa ýmsar fleiri dyggðir, en manni liggur við að álykta sem svo, þegar maður litur yfir eftirtekjuna af þeirra störfum, að sá duglegi muni einkum hafa notað greindina og lagt hana fram í n., en sá greindi muni þá frekar hafa lagt til dugnaðinn, og samvinnan virðist hafa verið ágæt í nefndinni.

Til þess að bæta úr öllu því, sem hv. þm. N-Þ. hefur hér eftirminnilega lýst að skeð hafi í sambandi við þróunina í byggð landsins, leyfa þeir sér að leggja til, að 5 millj. kr., sem áætlaðar hafa verið og samþ. á fjárl. yfirstandandi árs til jafnvægis í byggð landsins, verði til þess notaðar.

Í öðru lagi leggja þeir til, að þær lánveitingar, sem farið hafa fram úr ríkissjóði á undanförnum árum til atvinnubóta og flestir telja að séu með öllu óinnheimtanlegar og meira að segja hv. 1. þm. Árn. (JörB) lét í ljós mikinn ugg um hér í ræðustóli, næst á undan mér, að einhverjum kynni nú kannske að detta í hug að fara að heimta inn og taldi það vera ákaflega alvarlegt mál.

Og í þriðja lagi eiga að vera tekjurnar til þess að jafna byggð landsins vextirnir af þessum sömu óinnheimtanlegu skuldum og þar með upp talið.

Maður hefði nú haldið, að hér væri ekki gengið lengra en svo, að ríkisstj., sem setti þessa n. á laggirnar, gæti á þetta fallizt, en svo er nú ekki aldeilis. Hinn eini raunverulegi tekjustofn þessa árs, þ.e.a.s. 5 millj. kr., sem samkvæmt fjárl. eru veittar til jafnvægis í byggð landsins, reynast ekki fáanlegar til handa jafnvægisnefndinni. Því hagar sem sagt þannig til, að menn búast við því, að þegar á fyrri hluta þessa árs fari fram kosningar til Alþingis, og ráðh. hafa þess vegna talið, að þeim veitti ekkert af að hafa þessa aura sjálfum til úthlutunar fyrir kosningarnar. Þess vegna hefur þessi tekjustofninn fyrir þetta ár verið dreginn út úr frv., og eins og það liggur nú fyrir, þá stendur ekkert af tekjustofninum annað en óinnheimtanlegu skuldirnar og óinnheimtanlegu vextirnir af þeim.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að kjósa eigi fimm manna nefnd, jafnvægisnefnd, og eigi hún að hafa stjórn þessa virðulega sjóðs á hendi, enn fremur eigi sú nefnd að safna skýrslum og gögnum varðandi mál þetta. Nú vildi ég spyrja: Hverjum dettur í hug, að samþykkt á slíku frv. mundi einhverju breyta um jafnvægið í byggð landsins? Ég vil ekki einu sinni ætla þeim nm. það, að þeir láti sér detta slíkt í hug. Sannleikurinn er sá, að í frv. vantar algerlega ákvæði, sem gætu komið af stað einhverjum ráðstöfunum í þjóðfélaginu, sem gerðu það að verkum, að frv. yrði eitthvað annað en pappír í skjalasafn ríkisins.

Ég leyfi mér að benda á það, sem hv. 11. landsk. þm. (LJós) hefur raunar rétt áðan bent hér á úr þessum ræðustóli, að fyrir þessu þingi liggi frv., sem ekki fást afgreidd, en mundu verka verulega til jafnvægis á byggð landsins, þ.e. frv. um að tryggja atvinnu úti um landsbyggðina, þar sem hana kann að vanta, með því að ríkið geri út togara og láti þá leggja upp afla sinn þar, sem atvinnuskortur er í hinum ýmsu byggðarlögum. Enn fremur er það stórkostlegt mál fyrir hinar dreifðu byggðir, sem aðallega hafa lífsframfæri sitt af fiskveiðum, að friðunarsvæðin úti fyrir hjá þeim verði stækkuð, svo að möguleikar séu á betri afla á vélbáta og smærri skip. Ekkert af þessu hefur fengizt afgreitt hér á Alþ., og meira að segja leyfir hv. þm. N-Þ., sem er hér aðalformælandi málsins, sér að óska alveg sérstaklega eftir því, að um þetta mál verði ekki haldnar slíkar ræður, þar sem minnzt sé á einhverja raunhæfa hluti til þess að koma á jafnvægi í byggð landsins, og það sýnir reyndar betur en flest annað, að hann hefur ekki lagt sína rómuðu dyggð mjög fram til þess að koma fram þeim hlutum, sem raunverulega gætu orkað til jafnvægis í byggð landsins.

Nefndin virðist hafa átt við ýmsa örðugleika að etja í starfi sínu. Ég leyfi mér, til þess að finna þeim orðum mínum stað, m.a. að vitna í kafla úr grg. þeirri, sem hún leggur fram fyrir frv. og prentuð er á bls. 4 í hinu upprunalega frv., þskj. 496. Þar segir á einum stað:

„Í erindisbréfinu var okkur sérstaklega falið að hafa samráð við Fiskifélag Íslands, Búnaðarfélag Íslands og Landssamband iðnaðarmanna, eftir því sem ástæður þykja til. Þegar á fyrsta fundi var ákveðið að skrifa þessum aðilum og í bréfi, sem þeim var ritað 13. júlí 1954, m.a. leitað álits þeirra um nánari skilgreiningu á landshlutunum samkvæmt þál. 4. febr. 1953. Ekki bárust nein ákveðin svör um það atriði.“

Það er ekki von, að nefndin hafi komizt langt í störfum sinum, úr því að enginn vildi skilgreina fyrir hana landshlutana. Þetta mál er algerlega óupplýst enn þá, og er þess að vænta, að nefndin upplýsi það, hvort nokkur hefur getað ráðið bót á þessu hjá henni. En allt frv. ber það fyllilega með sér, að hún virðist eiga margar gátur óráðnar enn þá. Enda þótt hún sé komin að þeirri niðurstöðu, að jafnvægi skorti í byggð landsins, þá á hún eftir að komast að því, að einhverjar ráðstafanir til atvinnujöfnunar og til aðstöðujöfnunar fólksins í landinu væru fullt eins líklegar til þess að gera gagn og svona blöð, sem hún hefur látið frá sér fara.