28.03.1956
Neðri deild: 99. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (1769)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. 2. minni hl. (Karl Guðjónsson) [frh.]:

Herra forseti. Ég skal að sjálfsögðu reyna að stytta mitt mál svo sem frekast má verða, þar sem mjög er að eindagast þingtíminn, en þegar síðast var frestað umr. um málið, hafði það ekki komið til afgreiðslu í n., en hins vegar lágu fyrir brtt., sem ég var hér að ræða.

Þær brtt. eru í tveimur köflum, og er annar kaflinn um ráðstafanir til atvinnujöfnunar. Ég skal geta þess, að hann er raunar i fjórum liðum, þar sem fyrsti liðurinn fjallar um það, að stækka skuli friðunarsvæðin á ákveðnum stöðum umhverfis landið, og er þar um að ræða mál, sem þingheimi er kunnugt, og mun ég ekki fara mjög ýtarlega út í það. En það er alkunna, að þm. hafa yfirleitt gert á mörgum undanförnum þingum tillögur um það, að friðunarsvæðin yrðu stækkuð víðs vegar úti fyrir ströndum landsins. og ber víst flestum saman um, að það geti haft veruleg áhrif á atvinnumöguleika þeirra byggðarlaga, sem þar eiga helzt í hlut. Annar liður þessa kafla fjallar um togarakaup ríkisins, og er það mál einnig kunnugt hér og hefur verið rætt hér í þessari hv. d. ekki alls fyrir löngu, en sama máli gegnir einnig um sérstaka togaraútgerð ríkisins til atvinnujöfnunar og þátttöku ríkisins í togaraútgerð með bæjarfélögum eða sveitarfélögum. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að ríkið útvegi lán og endurláni það bæjareða sveitarfélögum og þeim lánum megi verja til atvinnuaukningar, þar sem aðstaða er ekki nægilega góð til þess að taka á móti fiskafurðum og þar sem líklegt er, að hægt sé að auka framleiðsluna með slíkum ráðstöfunum. En hinn kaflinn, sem ég ásamt samflutningsmönnum mínum að þessari till. legg til að tekinn verði upp í frv., er nokkrar ráðstafanir til aðstöðujöfnunar, og vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um það, þar sem það er ekki þess háttar mál, að það hafi legið hér fyrir þingi áður, a.m.k. ekki nú alveg nýlega.

Það kannast flestir við það, að ýmislegt af þeim þegnréttindum, sem Íslendingar eiga að njóta, er ekki hægt að komast í neina snertingu við, nema viðkomandi einstaklingur komi til höfuðstaðarins og sæki þar rétt sinn eða a.m.k. fái til þess einhvern sérstakan mann að reka erindi sín hér í höfuðborginni. Við þetta skapast að sjálfsögðu aðstöðumunur, sem gerir það að verkum, að fólk leitar eftir því að sitja við kjötkatlana, en þurfa ekki að sækja allt um langan veg eða í gegnum umboðsmenn. Ég nefni þar til, að úthlutun innflutnings- og gjaldeyrisleyfa fer hvergi fram nema í Reykjavík. Sá, sem vill sækja um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, verður að útvega sér eyðublað í Reykjavík, hann verður að senda umsóknina til Reykjavíkur, og ef hann er i náðinni og fær leyfi, fær jákvætt svar við þessari umsókn sinni, þá verður hann einnig að koma til Reykjavíkur til þess að sækja gjaldeyrinn, til þess að leysa hann út þar í öðrum hvorum gjaldeyrisbankanum. Þennan aðstöðumun væri ákaflega auðvelt að jafna með því að taka upp þá hætti, að útibú gjaldeyrisbankanna afgreiddu þessi leyfi, en að innflutningsskrifstofan sæi fyrir því, að í öllum kaupstöðum landsins væri hægt að fá úthlutun.

Það hefur verið töluverð ásókn í það af hálfu ríkisvaldsins að undanförnu að neyða bæjarréttindum eða kaupstaðarréttindum upp á sveitarfélög án tillits til þess, hvort þau sjálf óskuðu eftir því eða ekki. Það væri ekki nema sanngjarnt, að slíkum ráðstöfunum af hálfu ríkisvaldsins fylgdu líka nokkrar skyldur, t.d. þær, að á slíkum stað, þ.e.a.s. í kaupstöðunum, skyldi vera umboð frá innflutningsskrifstofunni, sem úthlutaði leyfum eftir kvótareglu, sem þá yrði sett af aðalskrifstofunni í Reykjavík.

Nýlega var sett á fót heilt lánakerfi til íbúðarhúsabygginga. Það eru víst flestir hv alþm., sem kannast við, hvernig það verkar með tilliti til aðstöðu manna. Það er víst ekki óalgengt, að sá, sem sækir eftir lánum úr því kerfi hingað til Reykjavíkur, hafi ekki fyllt út einhvern lið á því eyðublaði, sem tilskilið var, og fái eyðublaðið endursent, þurfi jafnvel að senda það nokkrum sinnum, áður en afgreiðsla geti fengizt á láninu, og að lokum verður hann að útvega sér einhvern trúverðugan mann í höfuðborginni til þess að taka á móti þessu láni. Það væri þó fátt auðveldara en að láta banka og sparisjóði landsins annast afgreiðslu á þessum lánum, jafnvel þótt úthlutunin færi fram í Reykjavík.

Þá er það alkunna, að vörusendingar til landsins koma nær allar til Reykjavíkur og er umskipað þar, og ríkissjóður hefur sjálfur í förum með ærnum tilkostnaði skip, sem dreifa vörunum frá Reykjavík út um alla landsbyggðina. Nú er það svo, að sumar hafnir landsins liggja beinna við siglingum erlendis frá en Reykjavíkurhöfn, og væri það ekki úr vegi, að ríkið leitaði samninga við stærstu skipafélögin um að koma upp sérstökum afskipunarhöfnum, þó að ekki væri ýkja mörgum, en nokkrum, utan Faxaflóasvæðisins, svo að það þurfi ekki að endurtaka sig ár frá árl. að skipin sigli með vörurnar t.d. fram hjá Austurlandi, fram hjá Vestmannaeyjum, um margra mílna veg í öfuga átt við ákvörðunarstað varningsins, og ríkið síðan að gera út frá Reykjavík allmargar fleytur með mjög óhagstæðri rekstrarafkomu til þess að koma þessu á þá staði, sem millilandaskipin sigldu fram hjá með þennan varning. Það er vert, að hv. alþm. fái tækifæri til þess að greiða atkv. um það, hvort þeir vilja halda gamla skipulaginu á þessu, að allt komi fyrst til Reykjavíkur og síðan verði því á ríkisins kostnað að verulegu leyti skipað í lítil skip, sem flytja það um langan veg með tapi fyrir ríkissjóð á ákvörðunarstaði. Ég vænti þess, að þegar hugir hv. þingmanna eru sérstaklega innstilltir á það að huga að jafnvægi í byggð landsins, verði það hollt mörgum þingmanni að ná einhverju uppgjöri um það með sjálfum sér, hvort hann vill, að öll aðstaða til lána úr hinum almenna húsnæðismálasjóði og annað það, sem um getur í till. þeim, sem ég er hér að ræða, skuli vera bundin við Reykjavík og Reykjavík eina eða hvort það skuli dreifa þessari aðstöðu út um byggðina, þannig að hún verði sem jöfnust fyrir menn, hvar sem þeir búa.