28.03.1956
Neðri deild: 99. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (1770)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. 1. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Á fundi fjhn. í morgun var þetta mál afgreitt með nokkuð mismunandi afstöðu, en mín afstaða var þar, eins og fram kemur í nál., sem að vísu er ekki enn búið að útbýta, sú, að ég legg eindregið til, að þetta frv. verði samþ. núna óbreytt, og það er vegna þess, að ég tel það forsendur fyrir því, að frv. geti fengið afgreiðslu nú á þessu þingi, eins og tíma þingsins er komið. Að þessu leyti er meðnm. minn, Jón Pálmason, hv. þm. A-Húnv., mér sammála, en gat ekki mætt á fundinum í morgun, þar sem hann þurfti að hverfa heim frá þingstörfum í gær.

Ég tel málið þannig vaxið, að með því að afgreiða það nú í því formi, sem það er, og það er á þann eina hátt hægt að tryggja því afgreiðslu, geti þegar hafizt mikilvægt starf, sem inna á af höndum samkv. þessu frv. Hins vegar er ég á þeirri skoðun, að ýmsar breytingar væri æskilegt að gera á því, en það ætti að vinnast nægur tími til þess á næsta þingi og að fenginni reynslu, sem þá hefði skapazt, að gera þær nauðsynlegu breytingar, sem gera þyrfti, og málið er ekki þess eðlis, að neitt tapist við að afgreiða það nú, en það vinnst við það, að jafnvægisnefnd getur hafið starfsemi sína og þess vegna getur komið fyrr að liði sú aðstoð við hinar dreifðu byggðir landsins, sem ætla má að veitt verði samkv. þessu frv.

Þetta er sjónarmið okkar hv. þm. A-Húnv., sem liggja til grundvallar því, að við leggjum eindregið til, að frv. verði samþ. núna óbreytt.