28.03.1956
Neðri deild: 99. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (1774)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. V-Húnv. (SkG), að hér er um mál að ræða, sem hefði verið þess virði að geta haft betra tóm til þess að ræða það í einstökum atriðum. Hefði ég haft mikla löngun til að geta haft lengri tíma til að ræða ýmsa þætti þess, ekki hvað sízt vegna þess, að ég hef hér ásamt nokkrum hv. þm. Sjálfstfl. lagt fram bæði á síðasta þingi og nú á þessu þingi sérstakt frv. í þessari hv. d. um ráðstafanir til atvinnujöfnunar. Mörg atriði þess frv. eru nátengd því hlutverki, sem þessari nýju stofnun er ætlað að vinna að, þótt þar beri nokkuð í milli. Þar sem brýna nauðsyn ber til þess að reyna að hraða þessu máli, ef það á að geta orðið að lögum, þá ætla ég ekki að fara að lengja hér tímann með því að fara að ræða þetta, en ég vildi aðeins, vegna þess að hér eru komnar fram nokkrar brtt. við málið, taka það fram, að það hefði vitanlega verið æskilegt að koma hér fram ýmsum breytingum og það jafnvel öðrum breytingum en till. eru þegar komnar fram um. Hefði ég talið mjög æskilegt, að hefði verið hægt að afgreiða nú t.d. í sambandi við þetta frv. heimildir í sambandi við togarakaup og útgerð togara, sem er ákaflega mikilvægt atriði og er eitt af þeim atriðum, sem tekin eru til meðferðar í okkar frv. Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir, að ef á að verða auðið að samþykkja eða afgreiða frá þessu þingi frv. þetta um jafnvægi í byggð landsins, er ekki hægt að samþykkja við það brtt. nú. Það er sama og að ákveða, að frv. nái ekki fram að ganga. Af þessum sökum hef ég ekki viljað flytja þessa né aðrar brtt. og tel enda, að það skipti ekki meginmáli, vegna þess að þótt slíkar brtt. kynnu að verða samþ., gerir það, eins og ég sagði, það að verkum, að frv. næði ekki fram að ganga, og það hefði því út af fyrir sig ekkert gildi, og enn fremur vegna þess, að enda þótt hér sé aðeins um spor að ræða í þá átt, sem við teljum að stefna beri með þessu frv., þá er það þó spor í rétta átt, og ber vissulega að reyna að stuðla að því, að sérhverjar ráðstafanir, sem að gagni mættu koma, gætu tekið gildi sem fyrst, og það er ekkert, sem hindrar það, að auðið væri á næsta Alþingi að taka þetta til rækilegri athugunar, enda kunni að liggja þá fyrir nánari till. af hálfu þeirrar jafnvægisnefndar, sem kjósa á samkv. þessu frv. Er það því sýnilegt, að það eru skynsamlegustu vinnubrögð málsins, ef menn á annað borð vilja stuðla að einhverjum raunhæfum ráðstöfunum í þessa átt, að frv. verði nú í þetta sinn afgr. óbreytt, og þar sem það liggur því ljóst fyrir, að afgreiðsla þess nú er því eingöngu möguleg, að engar brtt. verði samþ., mun ég fyrir mitt leyti hvorki bera fram brtt. né greiða atkv. með neinni þeirri brtt., sem hér verður flutt, enda þótt þær kynnu, miðað við aðrar aðstæður, að vera til bóta.

Ég vil aðeins taka það fram að lokum út af till. þeirri, sem hv. þm. V-Húnv. talaði hér fyrir, að það er að sjálfsögðu rétt, að það er nauðsynlegt að tryggja, að þessi lán verði áfram í því byggðarlagi, sem þau eru veitt til, en það er auðvitað hægt að tryggja með öðru móti en því að ákveða, að þau skuli fyrir fram ganga til vissra aðila. Það er hægt að ákveða, eins og gert hefur verið, að lánin falli í gjalddaga, ef atvinnutæki eru seld burt, þannig að þessa till. út af fyrir sig álít ég ekki heppilega eins og hún er formuð.

Ég ætla svo ekki að lengja umr., til þess að atkvgr. megi fram fara, og vænti þess, að frv. verði samþ. óbreytt.