16.12.1955
Efri deild: 31. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Mér þykir rétt að gera aðeins grein fyrir afstöðu minni til frv. Það er alveg óhjákvæmileg nauðsyn að endurskoða launalögin á þessu þingi, og ég hlýt því að greiða atkv. með frv., hversu óánægður sem ég annars er með það. Enda þótt ég sé yfirleitt samþykkur þeim skoðunum, sem fram koma í rökstuddri dagskrá á þskj. 221, þá get ég ekki heldur greitt atkv. með henni, vegna þess að þá mundi endurskoðunin ekki koma til greina fyrr en á næsta þingi, og slíkt er alveg óviðhlítandi. Hins vegar er ég að mörgu leyti óánægður með frv. og tel ýmislegt í því nálgast hneyksli. Ég held, að þegar athugaðar eru allar hækkanir á þessu ári, komi í ljós, að hækkun lægstu flokkanna er svipuð kauphækkununum, sem urðu hjá verkamönnum í vor, og þó lítið eitt hærri, en kauphækkun hæstu flokkanna að hundraðshluta til allt að því fjórföld, talin í hundraðshlutum, og tíföld eða meira, ef talið er í krónutali. Ég skal finna þessu stað með örfáum dæmum.

Skrifstofustjórar í ýmsum ríkisstofnunum fá samkvæmt frv. 36.6% launahækkun, þegar allt er talið með, allar þær hækkanir, sem orðið hafa á árinu, þ. e. a. s. þrjár almennar hækkanir, sem orðið hafa, hækkunin á launauppbótinni, afnám vísitöluskerðingar og svo sú 9–10% hækkun, sem felst í frv. Þetta verður sem sagt hjá skrifstofustjórum í ýmsum ríkisstofnunum 36.6% hækkun. Prófessorar hækka samkvæmt þessu um 35.5%, skrifstofustjórar í ráðuneytum um 38.5%, og þar að auki kemur 9 þús. kr. bílastyrkur, sem ekki er talinn hér með. Samkvæmt því frv., sem lagt var hér fram um ráðherralaun, áttu laun þeirra að hækka um 47.3%, en hækka nú nokkuð minna samkvæmt frv. Aftur á móti í XIII. flokki eru einmitt menn, sem alveg samsvara almennum verkamönnum. Þar er hækkunin 12.5%. — Enn þá meira áberandi verður þetta, ef maður ber ekki saman prósenturnar, heldur hækkunina í krónutali. Þá er það þannig, að skrifstofustjórar í ráðuneytunum fá um 32 þús. kr. hækkun. Aftur á móti hækkuðu árslaun verkamanna samkvæmt þeim samningum, sem gerðir voru í vor, um 3–4 þús. kr. Við þetta bætast svo hlunnindi lífeyrissjóðsins og atvinnuöryggið, sem fastir starfsmenn hafa og er kannske enn þá og miklu meira virði en sjálf launahæðin.

Því hefur verið haldið fram, að allt þetta sé til samræmingar, að yfirleitt séu þessar kauphækkanir, sem í þessu frv. felast, allar til samræmingar við þær almennu kauphækkanir, sem urðu í samningunum við verkalýðsfélögin á s. l. vori. Þetta er alger fjarstæða. Má ég spyrja: Er það samræming að hækka kaup eins manns um 32 þús., vegna þess að kaup annars manns hækkar um 3–4 þús., eða rúmlega 3 þús. kr.? Þetta er ekki hægt að kalla samræmi. Þá hefur því verið haldið fram, að afnám skerðingar á vísitöluuppbótinni væri sjálfsagður hlutur vegna samninganna í vor. Þetta er líka algerlega rangt. Það var í vor margboðið af hálfu verkalýðsfélaganna að halda vísitöluskerðingunni. Það var engin krafa uppi um það, að skerðingin yrði með öllu afnumin. Það var margboðið að halda skerðingunni gegn því, að hún byrjaði ekki fyrr en við 12 kr. grunnkaup um tímann, sem er almennt lágmarkskaup iðnaðarmanna. En atvinnurekendur tóku ekkert undir þetta, og ríkisstj. virtist ekki hafa áhuga á því. Það er algerlega rangt, að um það hafi verið samið í vor samkvæmt kröfu verkalýðsfélaganna að afnema alla skerðingu á vísitöluuppbótinni, hversu há sem launin eru. Þessi skírskotun til samninganna í vor að þessu leyti er þess vegna haldlaus afsökun. Mér sýnist, að sú ríkisstj., sem ber slíkt frv. fram sem þetta, hafi ekki mikinn áhuga á niðurfærslu verðlags né launa, frv. beri ekki vitni um það. Hún hefur ekki mikinn áhuga á niðurfærslu launa, þegar hálaunamenn eiga í hlut, og virðist því telja sig hafa yfir alveg nægilegu fjármagni að ráða, og þessi afstaða hæstv. ríkisstj. verður áreiðanlega munuð.

Það hafa verið gerðar tilraunir til lítils háttar leiðréttingar á frv. í hv. Nd. Allar þær till. hafa verið felldar. Það er því sýnilegt, að það er tilgangslaust að koma hér með nokkrar brtt. Og þegar nú Nd. hefur hætt fundum, þá liggur það alveg í augum uppi, enda auðheyrt á fyrirætlunum manna hér í þessari hv. d., að það er alveg tilgangslaust að koma með brtt. Sú leið er ekki fær, og það er þess vegna ekki annars kostur en að taka afstöðu til frv. eins og það er, og þar sem endurskoðun launalaganna nú er að mínum dómi óhjákvæmileg nauðsyn, þá verð ég að greiða atkv. með frv. eins og það er, þrátt fyrir allt.

Brtt. hv. 4. þm. Reykv. á þskj. 223 eru í samræmi við till., sem fluttar hafa verið í Nd. Ég tel þær sanngjarnar og nauðsynlega leiðréttingu og mun þess vegna greiða atkv. með þeim.